Ekki lengur hlegið.

Ég man þá tíð upp úr 1960 þegar sett var fram hugmyndin um "nýjan miðbæ" þar sem þá voru kartöflugarðar fyrir utan Reykjavík í Kringlumýri. Margir hlógu að "svona vitleysu" og þeir héldu áfram að hlæja næstu áratugina.

En byggðin breiddist út bæði allt í kringum Kringlumýrina og í henni sjálfri og þegar Kringlan var opnuð, að mig minnir 1987, og fyrstu árin þar á eftir, var kaupmönnum við Laugaveg ekki lengur hlátur í huga.

Á þessum árum kom upp hugmynd um að byggja yfir hluta Laugavegar eða annarrar götu á því svæði og útbúa þar keppinaut við Kringluna, en ósamstaða og skammsýni komu í veg fyrir það.

Menn hlógu 1960 að hugmyndinni um miðbæ í Kringlumýri af því að staðurinn var þá "uppi í sveit".

Það þarf hins vegar ekki annað en að skoða kort af Reykjavík nútímans til að sjá, að Kringlan er þannig í sveit sett, að jafnvel þótt byggð yrði íbúabyggð á núverandi flugvallarsvæði, yrði styttra fyrir fólkið þar að fara í Kringluna til að versla heldur en norður á Laugaveg.

Búð Dressmanns í Smáralind er í aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá stærstu krossgötum landsins og þyngdarpunkti íbúabyggðar á höfuðborgarsvæðinu. Þar er umferð kaupenda sem tryggir gróða í rekstrinum.

Búðin á Laugaveginum er næstum fimm kílómetra í burtu og þar þarf að borga fyrir bílastæði.

Skriftin er á veggnum. Það hlálega við þetta mál er það að 1960 voru stærstu krossgötur landsins nokkur hundruð metra frá Kringlunni. Með tilkomu Reykjanesbrautar færðust þær þrjá kílómetra til austurs og eru nú nálægt línunni Ártúnshöfði-Mjódd-Smárinn.

Krossgötur, hvar sem er í heiminum, soga að sér frjálsa verslun og þjónustu og þar með atvinnustarfsemi og byggð.

Það var kannski vorkunn fyrir menn árið 1960 að sjást yfir þetta lögmál, en þannig er það ekki lengur.

En samt er eins og menn sjái þetta ekki enn og ríghalda í fráleita og óhagkvæma skiptingu Reykjavíkursvæðisins í sveitarfélög, sem byggjast á landamerkjum bújarða fyrir heilli öld.

Sú skiptin hefur valdið miklu tjóni í uppbyggingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og í mörgum tilfellum skipulagsslysum, sem ekki verða leiðrétt.


mbl.is Loka Dressmann á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef menn vilja fara í Kringluna gera þeir það, hvort sem þeir búa vestan eða austan Kringlumýrarbrautar.

Mun fleiri verslanir eru hins vegar á Laugavegi, Skólavörðustíg og í Kvosinni en Kringlunni.

Á Laugaveginum einum eru um tvö hundruð verslanir, um tvisvar sinnum fleiri en í Kringlunni.


Og um eitt þúsund manns starfa við Laugaveginn.

Um 40% íbúa Reykjavíkur búa vestan Kringlumýrarbrautar, ef Seltjarnarnes er talið með Reykjavík.

Byggðin austan Kringlumýrarbrautar er því mun dreifðari en vestan hennar.


Vörurnar í Dressmann eru ódýrar miðað við annan fatnað og álagningin því tæpast mikil á þeim.

Húsaleigan á Laugaveginum er há, að sögn Dressmanna, og hún væri það nú tæpast, ef fáir vildu vera þar með verslun.

Mjög lítið hefur verið um laust versunarpláss á Laugaveginum undanfarin ár
og tóm della að byggja þak yfir götuna, enda engin þörf á því.

Þeir sem ekki þola rigningu geta farið í Kringluna,
þar á meðal Ómar Ragnarsson, sem lætur eiginkonu sína kaupa á sig allan fatnað, að eigin sögn.

En oft rignir nú í London, einni mestu verslunarborg heimsins, án þess að íbúar þeirra miklu heimsborgar hafi byggt þar yfir allan miðbæinn.

Og miðbær Reykjavíkur er ekki Laugavegurinn einn.

Miðbær Reykjavíkur er Kvosin, Laugavegur og Skólavörðustígur
en ekki til að mynda Kringlan.

Og miðbær Reykjavíkur er ekki einhver landfræðilegur punktur, til dæmis blokkaríbúð Ómars Ragnarssonar í austurbæ Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 30.7.2012 kl. 12:28

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á svæðinu frá Gömlu höfninni að Nauthólsvík eru til að mynda Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Hótel Loftleiðir, Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið, Alþingi, Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Stjórnarráðið, Seðlabankinn, Þjóðleikhúsið, Hæstiréttur, Borgarbókasafnið, Tollstjórinn, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.

Það er því fráleitt að halda því fram að Kringlan sé miðbærinn í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 30.7.2012 kl. 12:41

3 identicon

Ómar Ragnarsson,

fyrirgeðu mér að ég kem með þessa frómu ósk mína undir þessum pistli þínum, en ég sá þér bregða fyrir í athugasemdalíki undir Hjátrúar pistli Palla Vill og skrifaði þér þá þessa athugasemd, sem þú hefur kannski enn ekki lesið, en hér kemur hún enn.  Bið svo Steina Briem einnig afsökunar að Fræbbblast svona með þetta hér:

... mikið vildi ég að fræddir mig um réttan Botníu textann.

Það var mitt uppáhald sem barn að syngja það lag og hrafl úr textanum

meðan ég rólaði mér á fullu, sirka átta ára, heima á Krók, í gamla daga.

Bjarni Egils., æskuvinur minn söng með, en hélt illa lagi.  Það gerði ekkert til. 

Það var hreinræktað fjör og skagfirsk gleði hjá honum og líkast til líka mér.

Er ég Skagfirðingur eða ekki?  Fæddur þar og uppalinn, en án ætta þaðan. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 14:30

4 identicon

Tekið skal fram að Bjarni Egils. er hreinræktaður Skagfirðingur, þó hann héldi ekki alltaf lagi.  En hann söng þó meria en flestir menn þá og alltaf af mikilli þind og einskærri gleði.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 14:36

5 identicon

Stærsta glerþak Evrópu er reyndar í London, en það er ekki yfir verslunarhverfi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 15:21

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Strákurinn minn byrjar að læra leiklist í Central School of Speech and Drama í London í haust.

Það verður gaman að heimsækja hann.

Þorsteinn Briem, 30.7.2012 kl. 15:39

7 identicon

Steini Briem, þar er örugglega við hæfi að syngja Botníu lagið.  Það er gaman.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 16:41

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við gerum það örugglega, Pétur Örn.

Þorsteinn Briem, 30.7.2012 kl. 17:07

9 identicon

Steini Briem, en kanntu nákvæma útgáfu textans?  Ég man hann ekki allan. 

Ég er að biðla til Ómars að hann rifji upp fyrir okkur textann.  Það væri gaman. 

Man hann var aldeilis frábær og í góðum stíl við ærslafengna gleði lagsins.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 17:48

11 identicon

Í London skaltu þá kíkja við í The British Museum, og horfa á glerþakið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 19:06

12 identicon

Steini Briem, takk aldeilis kærlega bara róla og barn aftur ... með Botníu.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 23:29

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svo að réttu sé til haga haldið á ég ekki blokkaríbúðina, sem ég bý í, eins og ætla mætti af orðum Steina Briem, - "blokkaríbúð Ómars Ragnarssonar", heldur er ég leigjandi í henni.  

Ómar Ragnarsson, 31.7.2012 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband