Gott að fá þetta á hreint.

Þegar stjórnlagaráð hóf starf sitt var ljóst að úr vöndu var að ráða varðandi svonefnt þjóðkirkjuákvæði í núverandi stjórnarskrá. Hætta væri á því að sama hver niðurstaða okkar yrði, þá myndi sú niðurstaða, sem við kæmumst að í þessu efni, geta ráðið úrslitum um það hvort frumvarpið í heild yrði samþykkt.

Ég er fríkirkjumaður en hef þó unnið meira starf fyrir þjóðkirkjuna en fríkirkjuna, því að hvort tveggja er "evangelisk lútersk" kirkja og þjóðkirkjan er alls staðar. Ég hef því ekki síður miklar taugar til þjóðkirkjunnar en fríkirkjunnar, þykir vænt um hana, og tileinka sálma mína öllum sem þá heyra, en þeir eru nú orðnir það margir, fluttir og ófluttir, að fylla myndi 25 laga hljómdisk.

Þjóðkirkjuákvæðið er runnið úr stjórnarskránni 1874 þegar allir evangelisk lúterskir söfnuðir á Íslandi tilheyrðu þjóðkirkjunni. En um leið og fríkirkjusöfnuðir voru stofnaðir fyrir rúmri öld varð ákvæðið: "...hin evangelisk lúterska kirkja skal vera  þjóðkirkja á Íslandi..." úrelt, og það er ekki síður úrelt nú, þegar um 20 þúsund manns eru í fríkirkjusöfnuðum. Ef talið er að ríkisvaldið þurfi að veita evangeliskri lúterskri kirkju stuðning og vernd, af hverju fá fríkirkjusöfnuðirnir þá hana ekki líka í stjórnarskrá?

Þess vegna taldi ég rétt að nema þetta ákvæði burt og ekki síst orðalag þess í nýrri stjórnarskrá og ég tel að þjóðkirkjan myndi standa sterkari eftir að þetta félli brott, því að í raun er slæmt fyrir hana að þurfa sífellt að sæta andbyr hjá stórum hópi fólks út af þessu í stað þess að eflast og dafna algerlega á eigin verðleikum, ótrufluð af þessu úreltu ákvæði.

Ég treysti þjóðkirkjunni alveg til þess.

Í stjórnlagaráði náðum við niðurstöðu sem fólst í því að fella orðið "þjóðkirkja" út, segja pass með því að nefna "kirkjuskipan", - um hana mætti ekki breyta lögum, nema með samþykki þjóðarinnar.

Í raun var þjóðkirkjan nefnd óbeint með orðalaginu "kirkjuskipan".

Hvað um það, meirihlutinn vildi að þjóðkirkjan yrði beinlínis nefnd á nafn og vissulega er hún er einn af hornsteinum íslenskrar menningar og þjóðfélags þótt ekki séu allir í henni og hún getur verið þakklát fyrir það að meirihlutinn hugsar hlýlega til hennar.

Nú er vandinn sá hvernig á að orða ákvæðið, þar sem þjóðkirkjan er nefnd. Augljóst er að núverandi orðalag getur ekki staðist alveg óbreytt. 

Núverandi ákvæði, eins og það er orðað, er augljóslega barn síns tíma og orðið úrelt; - speglar ekki núverandi ástand, heldur ástand sem er löngu liðið.  

En ég er þess fullviss að alveg eins og stjórnlagaráð náði saman um orðalag sinnar tillögu ætti að vera hægt að orða þetta þannig í nýrri stjórnarskrá að það rími við nútímann og veruleika hans og vilja meirihlutans.

Og hitt er ég viss um, að þeir kjósendur sem vildu að nafn þjóðkirkjunnar yrði í stjórnarskrá, gerðu það af því að þeim er annt um trú og siðferði þjóðarinnar. Sé þetta rétt hjá mér, held ég að þessir kjósendur hafi verið jákvæðir í garð þeirra umbóta sem frumvarp stjórnlagaráðs "ilmar af" eins og Örn Bárður Jónsson orðaði það í athöfninni, þegar frumvarpið var afhent forseta Alþingis 31. júlí 2011.


mbl.is Flestir vilja ákvæði um þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það voru mistök að hafa þjóðkirkjuna þarna inni í þessum kosningum, trúarbrögð eru ekki kosningamál, trúarbrögð eiga/geta aldrei orðið partur af stjórnarskrá, ekki nema menn vilji vísvitandi koma af stað illdeilum og leiðindum.
Ef þetta verður svo þá er faktískt verið að segja að þeir sem eru ekki kristnir, ekki í þjóðkirkju séu ekki nema hálfir íslendingar, eða minna jafnvel

DoctorE (IP-tala skráð) 22.10.2012 kl. 12:04

2 identicon

P.S Talandi um meirihluta, hvað erum við að tala um, kannski ~20% sem ákváðu að fara og kjósa og setja sína persónulegu stofnun inn í stjórnarskrá ALLRA landsmanna.
Kannski eftir nokkur ár að þá fari íslamistar fram á þjóðaratkvæði og kjósi um það að Mummi meinhorn verði nefndu í stjórnarskrá .. ha, þá ætla ég að hlæja að ykkur trúhausunum :)

DoctorE (IP-tala skráð) 22.10.2012 kl. 12:10

3 identicon

Samtöl við fjölda fólks hefur leitt mig til þeirrar niðurstöðu, að stór hluti kjósenda hafi misskilið spurninguna um þjóðkirkjuna. Ekki gott mál, en ef til vill skýrir það mikinn mun á niðurstöðu kosningarinnar og skoðanakannana, sem hafa spurt skýrar.
Hinsvegar er aðalmálið nú,  sem allt skynsamt og góðviljað fólk þarf að sameinast um,  að Alþingi sé ekki að fikta við frumvarp Stjórnlagaráðs. Við þurfum að sýna það með afgerandi hætti að við stöndum að baki Ómars og Þorvaldar Gylfasonar um að frumvarpið verði lagt óbreytt fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Reyndar tel ég ekki vafamál að það verður samþykkt.

E (IP-tala skráð) 22.10.2012 kl. 13:13

4 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Þegar spurt er skiptir miklu máli hvernig og hversu almenns eðlis spurningin er orðuð.

Hefðu spurningarnar verið orðaðar öðruvísi hefði niðurstaðan getað orðið önnur.

T.d. með að breyta "Villt þú" í "Ég vil" eða "Ég vil ekki".

Einnig má orða spuningar á ýmsan hátt.

1. Ég hef lesið tillögur Stjórnlagaráðs og vil/vil ekki - að þær verði settar fram sem ný stjórnarskrá.

2. Ég vil/vil ekki - að allar eignir Íslands verði þjóðareign.

3. Ég vil/vil ekki - aðskilnað ríkis og kirkju.

4. Ég styð/styð ekki - persónukjör við kosningar.

5 Ég vil/vil ekki -  jafnt atkvæðavægi

6. Ég við að  17,5% (sem skilyrt hlutfall) þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

Allar spurningar sem ekki hafa skýra valmöguleika geta í hæsta falli skilgreint vijla eða þörf.

Óskar Guðmundsson, 22.10.2012 kl. 13:23

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég er andvígur því að hafa í stjórnarskránni þjóðkirkju-, trúarákvæði eða hvað á að kalla þá tímaskekkju. En meirihlutinn ákvað annað í kosningunum á laugardaginn og þar við situr.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.10.2012 kl. 15:21

6 identicon

En þetta er nú varla komið á hreint.Allar skoðanakannanir undanfarin ár hafa sýnt að meirihluti er fyrir aðskilnaði.Nú er sú staða komin upp að kirkjan verður inni í þessu frumvarpi(ef þessi skoðanakönnun á að gilda) og þá er sjálfgefið að minnsta kosti ég mun segja NEI ef það kemur til Alvöru þjóðaratkvæðagreiðslu um það með vorkosningunum.Og kannski 60-70 prósentin líka sem vilja líka aðskilnað.Og hvað verður þá um þessa vinnu ykkar.

josef asmundsson (IP-tala skráð) 22.10.2012 kl. 16:58

7 identicon

Þjóðin hugsar hlýlega til þjóðkirkjunnar almennt. Hún er bara svo miklu meira en trúarstofnun. Ég veit ekki hvað gæti komið í staðinn fyrir allt það starf sem þar er unnið á svo gríðarlega mörgum sviðum. Hún spyr ekki um stétt né stöðu eða hverrar lífsskoðunar fólk er. Allir velkomnir.

Halldór (IP-tala skráð) 22.10.2012 kl. 19:21

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er óskhyggja að trúarbrögð séu ekki í stjórnarskrá því að þau eru í núgildandi stjórnarskrá og ákvæðið um þjóðkirkjuna er ekki hægt að fella niður nema með breytingu á stjórnarskrá.

Ómar Ragnarsson, 22.10.2012 kl. 19:55

9 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Eru refirnir ekki einmitt til þess skornir?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.10.2012 kl. 21:40

10 identicon

Þjóðkirkjan er ekki "bara" trúarbrögð. Hún er líka gamall menningararfur, og inniheldur þess að auki helling af fasteignum.

Umræðan hefur snúist talsvert um sparnað með því að setja hana út, en maður spyr sig hvort það myndi verða eitthvað, þar sem flestar kirkjur landsins eru friðlýstar, og ber því að halda við.

En...svona fór þetta...

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.10.2012 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband