Símanotkun undir stýri, - hræðilega stór rússnesk rúlletta?

Sennilega þurfum við nú öll að taka okkur endanlega taki varðandi notkun farsíma undir stýri á bílum ef rétt reynist að símanotkun hafi kostað 79 manns lífið í mesta lestarslysi Spánar í meira en 40 ár.

Fréttir um það að lestarstjórinn hafi verið að slá hraðamet í beygjunni voru glannalegar og byggðar á hæpnum forsendum sem byggðust á mynd hans á facebook af ofsahraða fyrir nokkrum árum.

Á bíl eru smá möguleikar til að verjast veltu í svona beygju en nákvæmlega engir möguleikar á lest, sem er föst á teinunum þannig að engin leið er að minnka beygjuna með því að gera beygjuna víðari og gefa rými eftir.

Þegar komið er inn í beygjuna á annað borð á lest á teinum þýðir ekkert að hemla þá, því að við það færist þyngdarpunktur lestarinnar enn meira út úr beygjunni en ella.

Símanotkun er líklegri skýring á slysinu. Lestarstjórinn hefur að vísu verið á ofsahraða en gleymt sér og orðið of seinn til þess að hægja nægjanlega og nógu tímanlega á lestinni fyrir beygjuna.  

Rannsóknir sýna að símanotkun undir stýri veldur öryggisleysi og slysum í umferðinni, og þó hlýtur niðurstaða  rannsóknar á því aðeins að sýna toppinn á ísjakanum, því að ökumenn fara auðvitað leynt með notkunina og finna aðrar skýringar á slysum.

En um notkun símans undir stýri gildir auðvitað hið grimma lögmál Murphys að geti eitthvað farið úrskeiðis, muni það gerast fyrr eða síðar og jafnvel fyrr og harkalegar en nokkurn óraði fyrir.

Það er spiluð risavaxin rússnesk rúlletta með símanotkunina, því að enginn veit fyrirfram hvenær hún muni koma sér illa á versta mögulega augnabliki og hafa hræðilegar afleiðingar.

Maður sér í umferðinni að fólk er jafnvel að lesa og senda smáskilaboð undir stýri og ég held að nú þurfum við, hvert og eitt, að horfa í eigin barm og gera viðeigandi ráðstafanir.

Ein af þeim er sú að hringja aldrei úr stórum skiptiborðum eða leyninúmerum, heldur þannig, að ævinlega sjáist eftir á á símunum hvaða símhringingum var ekki svarað.

Það væri þjóðþrifamál ef allir tækju sig saman um að útrýma tali í farsíma við stjórn bíla og taka upp þann sið í staðinn að stöðva bílinn örstutta stund og leggja honum á meðan talað er, ef það er þá svona mikilvægt.   


mbl.is Lestarstjórinn var í símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband