Lífið er "í beinni."

Árið 1985 var ég búinn að ganga lengi með sjónvarpsþátt í maganum, sem væri í beinni útsending og fjallaði um allt milli himins og jarðar, allt frá stjórnmálum og fréttum dagsins til viðburða utan húss á öllum sviðum.

Þegar þeir Hrafn Gunnlaugsson og Ingvi Hrafn Jónsson tóku við stöðum dagskrárstjóranna tveggja þetta ár gat þessi þáttur, "Á líðandi stundu" loks orðið að veruleika.

Aðalrökin fyrir svona þáttum eru þau að sjálft líf okkar "er í beinni" og að það væri grunnur veruleikans. 

Þess vegna ber að fagna hverjum nýjum sjónvarpsþætti, sem er í beinni útsendingu.

Eitt sinn þegar við Bubbi Morthens vorum að sýna hnefaleika í beinni útsendingu varð jarðskjálfti og breyttist útsendingin samstundis um stund í að fjalla um það frekar en hnefaleikana.

Ekki stór frétt en samt allt annars eðlis "í beinni" heldur en sem smáfrétt daginn eftir.

Því fagna ég því að Gísli Marteinn er kominn á skjáinn, en þakka jafnfram Agli Helgasyni fyrir það hvernig hann hristi upp í þjóðlífinu með Silfri Egils og þó einkum fyrir það að laða til okkar merka útlendinga til fræðslu, nýrrar hugsunar og skoðanaskipta frá víðara sjónarhóli en áður hafði tíðkast í slíkum mæli.

Á því þurftum við svo sannarlega að halda og þurfum enn.  


mbl.is Gagnvirkur Gísli Marteinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð

Ég vildi frekar fá þig aftur á skjáinn Ómar heldur en Gísla. Hann er góður drengur en ég held að hans hæfileikar henti betur í  að þjálfa 12 ára stráka í fótbolta og ná saman liðsanda hjá þeim heldur en að vera á skjánum fyrir framan alþjóð.

Davíð, 27.10.2013 kl. 11:09

2 identicon

Mér syndist Gísli koma bara vel frá þessum þætti sínum. Til hamingju Gísli Marteinn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.10.2013 kl. 12:14

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aftur þjóð á grænni grein,
Gísla vill hún einan,
glaðan séð nú gat Martein,
gagnvirkan og beinan.

Þorsteinn Briem, 27.10.2013 kl. 13:48

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg hefi aldrei skilið að Sjálfstæðisflokkurinn komist upp með að ráða menn án auglýsingar. Á sínum tíma kom Sjálfstæðisflokkurinn Hannesi Hólmsteini inn í Háskólann án þess að óskað væri eftir starfinu. Og nú er Gísli Marteinn ráðinn án auglýsingar. Gísli fór á sínum tíma til Bretlands til að læra að verða borgarstjóri. En þegar hann kom heim þá var kominn maður sem leikur það hlutverk betur en nokkrum manni kom slíkt í hug. Og nú er Gísli orðinn fráhverfur pólitík og vill gera eitthvað allt annað sem honum þykir skemmtilegra.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sínar hugmyndir hvernig eigi að haga málum. Gildir einu hvort það eru mannaráðningar eða ákvörðun um að brjóta niður mannréttindi við mótmæli niðurbrots fagurra hraunmyndana. Ef hagsmunum er ógnað þá er valdið sýnt.

Núna áðan hnaut eg um frétt þar sem Harry prins hefði brotið á sér tána! Aumingja stráksnáðinn að lenda í þessu. Sjálfsagt getur breski prinsinn vænst betra heilbrigðiskerfis en flestir Íslendingar eftir allan niðurskurðinn. Og ekki eitt einasta orð um meint dýraníð sem fjallað var um í kvöldfréttum RÚV. Þar þarf heldur en ekki að ræða betur öll þau mál enda virðist mörgum Íslendingum vernd hvort sem hún snýst að einstökum dýrum eða náttúru landsins jafnfjarlæg í tíma og rúmi sem fjarlægustu stjörnuþokur alheimsins.

Læt hér staðar numið enda á reiður maður aldrei að blogga of mikið.

Guðjón Sigþór Jensson, 28.10.2013 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband