Allt hefur sín takmörk.

Þorp, bæir og borgir verða ekki til bara hvar sem er heldur liggja til þess nokkrar ástæður. Nefna má þrjár:  

1. Samgöngur. Grunnforsenda þéttrar byggðar, til dæmis þar sem eru góð hafnarskilyrði og krossgötur. Dæmin eru hafnarplássin á Íslandi hvað varðar siglingar og sem dæmi um krossgöturnar má nefna raðirar Reykjavík-Hveragerði-Selfoss-Hella-Hvolsvöllur, og Blönduós-Varmahlið, Akureyri, Reykjahlíð-Egilsstaðir. Á sumum stöðum eru flugvellir partur af krossgötunum. .

 Stundum er þetta blanda af höfnum, landsamgöngum og samgöngum í lofti, krossgötum, eins og Akureyri, Stykkishólmur, Sauðárkrókur, Stokkhólmur, Osló, Kaupmannahöfn, Þrándheimur, New York, eða hreinar krossgötur á landi eins og Óðinsvé, Berlín, París eða Brussel.   

2. Ríkisstýrð þjónusta og menning. Höfuðborgir landa njóta margar góðs af þessu. Frjáls verslun og þjónusta dregst víðast að krossgötum, en ríkisstýrð starfsemi hefur meira svigrúm.  

3. Nýting og framleiðsla hráefnis. Fiskiafnirnar á Íslandi eru gott dæmi um slíkt.

Nú er uppi mikil hreyfing til þess nauðsynjamáls að þétta byggð til að spara kostnað við samgöngur og var síðast í gær verið að sýna dæmi um 900 íbúðir, sem hægt er að koma upp víðs vegar um Reykjavík í því skyni.

Í því efni gildir þó það að allt á sín takmörk og þar getur gilt gamla dæmisagan um þráðinn að ofan hjá köngulónni, sem kom eftir honum og spann vef sinn út frá honum.

Í framhaldi af kvikmyndinni um Walter Mitty er rétt að árétta það að í fiskibæjum á Íslandi felast ekki aðeins menningarverðmæti heldur nú orðið beinir peningahagsmunir af ferðamennsku.

Þegar útlendingar hafa verið á ráðstefnum í Reykjavík yfir helgi og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn hef ég nokkrum sinnum boðið upp á "Silfurhringinn", Reykjavík-Kaldársel-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp-Keflavíkurflugvöllur, en meðal þess sem útlendingum finnst merkilegt í þessum hring er höfnin í Grindavík, Eldvörp og Árnastigur, sem ekki er að finna í Gullna hringnum.

Töfrar hafnarinnar í Grindavík og annarra hafna á Íslandi felast í því að allt, bæði smátt og stórt við þessar hafnir, hefur þjónað sama tilgangi frá upphafi, að vera samgöngumannvirki fyrir siglingar sem færa landsmönnum björg í bú. Þær eru sem sagt merki um lífsbaráttu þjóðarinnar úti við ysta haf, sem útlendingum finnst afar heillandi að fræðast um. .

Þess vegna verður að fara gætilega í það að fara að bera þessa mynd ofurliði við hafnir með annars konar mannvirkjum, ef þau trufla grunnstarfsemi hafnanna.

Þetta er að sjálfsögðu matsatriði en þegar huganum er rennt yfir hafnir á Íslandi minnist ég þess ekki að hafa neins staðar séð íbúðablokkir alveg niðri við sjó í þeim miðjum, hvað þá að þegar eru upp áform um stærðar hótel á sama svæði.

Gamla Reykjavíkurhöfnin hefur töfra, sem Sundahöfn er gersneydd. Það verður að tryggja að þeim töfrum sé ekki raskað.


mbl.is Íbúðir og fiskur fara ekki saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nýjar íbúðir og hótel við Gömlu höfnina í Reykjavík hafa engin áhrif á þá hafnarstarfsemi sem þar er fyrir, enda er höfnin gríðarstór.

Og mannlífið verður enn fjölbreyttara við höfnina.

Þorsteinn Briem, 13.2.2014 kl. 16:35

2 identicon

Sammála með "silfurhringinn". Stórskemmtilegur.

Fór í fyrra með ferðamenn RVÍK-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið, og stoppaði svolítið í Grindavíkurhöfn. Það var leiðindaveður á Krýsuvíkursvæðinu, en sælt í Grindavík, og tíminn var nægur.
Þetta var daginn eftir sjómannadag, og mikið um skip við bryggju, og ég gat náð athyglispunkti með sjómannasögum og svo með því að svara spurningum.
Eftir alla ferðina (ein vika) minntist hópstjórinn sérstaklega á það hversu skemmtilegt hefði verið að koma í svona alvöru fiskihöfn.
Miklir möguleikar þarna, og ekki væri verra ef hægt væri að semja um að komast um borð.
Og Ómar.....Garðskagi og Garðskagaviti, - þar er skemmtilegt. Og svo annað, - bryggjan á Stokkseyri og Draugasafnið þar við, - flottur rúntur úr Reykjavík þar mögulegur með svona nokkrum stoppum. Hægt að gera flotta dagsferð þar....
Gæti haldið áfram endalaust.
Eldvörpin langar mig að sjá, - en maður þarf víst að vera "pathfinder" til að finna afleggjarann.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 17:19

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Umræðan um ferðamál hefur verið á köflum einstrengileg. Kastljós hefur þrjú kvöld í röð rætt um skattheimtu ferðaþjónustu og "umtalsverða svarta starfsemi." Kannski ekki við öðru að búast hjá ríkisstarfsmönnum.

Ekkert minnst á mannafla eða menntun sem þarf til ef aukningin ferðamanna tvöfaldast. Fjölgun ferðamanna hefur hingað til verið í takt við flugmiðaframboð, gistimöguleika og afþreyingu.

Möguleikar á að fara í stuttar ferðir umhverfis höfuðborgarasvæðið eru fjölmargir. T.d Kringum og niður um gíg Þríhnúka. Ótal litríkir hellar eru á Reykjanesskaganum. Flestar ferðir byggjast á að undirbúa pakkaferðir og fá leyfi yfirvalda. Skapa samvinnu og aðstöðu.

Eitt fyrirtækið er að undirbúa aðstöðu á Hveravöllum og þá aukast ferðalög í Kerlingafjöll, ef vegur er endurbættur. Ríkið verður líka að líta á útgjöld til ferðamála eins og fjárfestingu.

Sigurður Antonsson, 13.2.2014 kl. 20:48

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Liggur fyrir að menn vinni meira svart í ferðaþjónustu en annarri starfsemi hér á Íslandi?!

Og þeir sem vinna svart hafa væntanlega meira fé handa á milli en ella, geta því keypt meira af vörum og þjónustu og greiða hér næst hæsta virðisaukaskatt í heimi.

Þorsteinn Briem, 13.2.2014 kl. 21:09

5 identicon

Aftur sammála Steina. Hvað er þetta! Jú....naglinn á höfuðið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 22:22

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Flottar ábendingar!

Einu má ekki gleyma sem erlendum ferðamönnum finnst óvenjulegt á Íslandi: Kyrrðin og náttúran.

Einu sinni var eg einn á ferð um Mosfellsheiðina með þýskri konu sem þá var ferðamaður hér. Allt í einu segir hún við mig: Heyrirðu kyrrðina, Guðjón?

Eg horfði á hana og hélt fyrst hún ekki vera með öllum mjalla. Hún kom frá mjög þéttbýlu landi þar sem hvergi mátti „heyra“ þögnina. Einhvers staðar mátti heyra tíst í fugli í skógi, vélahljóð frá traktorum bændanna á vínökrunum, umferðarniðnum frá akbrautunum meðfram Rínarfljóti eða þung vélarhljóð frá fljótsprömmunum sem ösluðu upp eða niður fljótið. Auðvitað áttaði eg mig ekki á þessu fyrr en hún útskýrði fyrir mér þessi gæði sem Ísland hefur umfram önnur lönd.

Síðan eru liðin nær 35 ár og við höfum verið gift í meira en 30 ár. Eg skil og skynja þögnina, kyrrðina í náttúrunni sem ætti að vera okkur dýrmætari en allt það gull og grænir skógar sem stjórnmálamenn hjala stöðugt um, og láta sig dreyma um að gætu öðlast með því að eyðileggja sem mest af þessari sömu náttúru sem allt of fáir láta sig varð og vilja vernda.

Njótum nátúrunnar en spillum ei! Hún er dýrmætari en þeir örsmáu gullmolar sem þjóðin fær fyrir að fórna náttúrudjásnum sínum.

Guðjón Sigþór Jensson, 14.2.2014 kl. 12:09

7 identicon

Jahérna-hér. Kynntist minni konu í Þýskalandi, hvar kyrrð var vel að finna á fransk-þýsku landamærunum. Sambandið orðið 15 ára og börnin fjögur.
En satt er það sem þú segir, - kyrrð (og líka útsýni) eru gífurlega vanmetnir þættir. Líka myrkrið!!!!
Það væri gaman að kynnast ykkur, Guðjón.

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.2.2014 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband