Glæsilegt fylgirit, sem hreyfir við okkur.

Ég hef stundum sagt í gamni opinberlega að við Íslendingar ættum að taka okkur ímyndaða 200 mílna ferðamannalandhelgi vegna þess að inn í hana myndi falla sá hluti Grænlands sem næstur er Vestfjörðum. 

Ástæðan fyrir þessum ummælum er sú að þessi hluti Grænlands, sem er næst okkur allra annarra landa, býr yfir slíkum fádæmum af náttúruundrum að það er synd hve mikið tómlæti við Íslendingar höfðum sýnt þeim.  

Fylgirit Morgunblaðsins um ferð Ragnars Axelssonar, Haraldar Sigurðssonar og fleiri um Scoresbysund, langstærsta fjarðar heims, er glæsilegt rit, stútfullt af miklum fróðleik og frábæru myndefni og er til mikils sóma fyrir þá sem að því standa.

Þar að auki snertir þessi firnastóra bráðnandi íshöll kvikuna í athæfi mannkynsins við að ausa gróðurhúsalofttegundum út í loftið og ætti að vekja okkur til umhugsunar um það að við sjálfir erum titrandi á beinunum af æsingi og gróðafíkn yfir þeirri draumsýn að geta komist í hóp oliuframleiðsluríkja heims sem standa fyrir loftslagsbreytingunum, sem geta orðið ein mesta ógn við friðog farsæld á jörðinni.

 


mbl.is Veðurfar aldanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og svo eru þeir sem benda á að hvert hlýindaskeið hefur aukið á grósku jarðar, fjölbreytni dýralífs og almennan uppgang. Mestu þjóðflutningarnir og blóðugustu styrjaldirnar hafi verið á kuldaskeiðum. Skortur og þjóðfélagslegur órói fylgi kuldaskeiðum. Og hlýnun sé jafnvel forsenda þess að ekki skapist almenn hungursneyð við núverandi fjölgun mannkyns.

Þegar hræðsluáróður, fortíðarþrá, mannhatur og svartsýni er boðskapurinn og hin pólitíska rétthugsun þá er ekki von til þess að í þeim fái að heyrast sem ekki kokgleypa dómsdagsspánum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.11.2014 kl. 17:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta með kuldaskeiðin er rétt, enda er enginn að tala um að best sé að loftslag kólni á jörðinni heldur einungis að vara við alltof hröðum breytingum.

Það sem menn eru að benda á eru afleiðingarnar varðandi mikinn vöxt eyðimarkanna á þeim hluta jarðarinnar sem þéttbýlastir eru og hækkun sjávarstöðu sem mun ógna stórum þéttbýlum landssvæðum jafnvel heilum eyjaklösum eins og Maldivi eyjum.

Einnig súrnun sjávar sem er stórmál, ekki síst fyrir Íslendinga.

Ómar Ragnarsson, 1.11.2014 kl. 20:42

3 identicon

Hræðslan við breytingar og að nýta sér þær, ef þær verða, er skaðlegra en breytingarnar. Að væla útí horni og óska þess að allt verði eins og það var áður er engum til gagns. Er það ekki kallað að keyra eftir baksýnisspeglinum þegar farið er inn í framtíðina með því hugarfari að hún eigi að vera eins og fortíðin? Þegar ekkert má breytast því þá þarf að gera öðruvísi en áður var gert?

Heimurinn ferst ekki þó fólk þurfi að flytja eyðimerkur og flóðasvæði, þó korn fari að vaxa þar sem áður var sífreri og hitaveita missi tilgang í Reykjavík. Og þó eyjar fari á kaf þá drukknar enginn nema hann sitji kyrr, en við það miða dómsdagsspárnar. Sjávarborð á að hækka en enginn að færa sig, uppgufun aukast en hvergi rigna og hitastig breytast en matjurtir má aðeins hægt að rækta á sömu stöðum og áður. Hvernig væri nú að horfa minna í baksýnisspegilinn?

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.11.2014 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband