Ekki neinn smáræðis sparnaður.

Mismunurinn á olíuverði og verði á raforku hefur ekki verið mikið í hávegum hafður, en kemur glögglega í ljós þegar tölurnar um sparnað á rafdrifnum nýjum Herjólfi eru skoðaðar, 3,4 milljarðar á 20 árum miðað við olíukostnað.

Sparnaðurinn nær yfir allt samgöngusviðið, allt frá stórum farartækjum niður í eins manns hjól. Náttfari við skrifborðið

Það sást glögglega á því þegar hjólað var á rafdrifnu hjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur fyrir aðeins 115 krónur.

En hann sést líka vel þegar skoðaður er kostnaðarmunur innanbæjar þar sem notkun rafhjóls er fyllilega raunhæfur kostur, einkum á stuttum leiðum í þéttbýlum hverfum, þar sem rafhjólið er í mörgum tilfellum ekkert lengur á ferðinni en bíll, heldur jafnvel fljótara.

Og engin vandræði með að finna ókeypis stæði.  

Ég hafði ímyndað mér að vegna þess að flestar vegalengdir væru langar frá heimili mínu í Spönginni myndi það fella rafhjólið.

En eftir níu mánaða reynslu liggur fyrir að hægt er að nota hjólið allt árið og að minnsta kosti í helmingi allra ferða.

Meðalakstur minn innanbæjar er um tíu þúsund kílómetrar á ári, en hlaupandi kostnaður af þeim akstri eru 550 þúsund krónur samkvæmt taxta opinberra starfsmanna, en 1,1 milljón ef allt er talið með í rekstri bílsins.

Ef aksturinn er rúmir 800 kílómetrar á mánuði verður orkukostnaðurinn miðað við bensínbíl með 8 lítra á hundraðið 13 þúsund krónur.

Reynslan í níu mánuði sýnir að hjólið má nota í minnst helmingi þessara ferða, og er sparnaðurinn því minnst 6-7 þúsund krónur á mánuði eða um 80 þúsund krónur á ári, því að orkan fyrir hjólið kostar aðeins 0,25 krónur á kílómetrann eða 100 krónur fyrir allan mánuðinn! 

Þá er ekki talinn með sá sparnaður sem felst í því að reiðhjól er margfalt ódýrara í viðhaldi og rekstri en bíll, og opinber gjöld eða tryggingar af reiðhjóli eru 0 krónur.

Að meðaltali sparar bíllinn 7-9 mínútur á algengustu ferðaleiðinni, sem er frá Spönginni niður að Háaleitisbraut. En ávinningurinn er hin góða tilbreyting fyrir hugarstarfið og hressandi hreyfing og útivera.


mbl.is Rafdrifin ferja spari milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Ég sé ekki af fréttinni að kostnaðurinn við rafvæðingu hafi verið með í þessum útreikningum um 3,4 milljarða sparnað.

Þar er helst að nefna raflagnir að Landeyjahöfn og ferjuhöfninni í Eyjum og líka Þorlákshöfn.

Hleðslustöðvar.

Rafhlöður (og annan búnað í skipinu), endurnýjun rafhlaðna, hef lesið einhvers staðar á fimmþúsund hleðslna fresti, veit ekki hvort það er rétt.

Raforkukaup.

Raforkutap við flutning, hleðslu og nýtingu orkunnar.

Sjálfsagt eitthvað fleira. Kannski er þetta með í reikningunum, en hefur þá fraið framhjá mér. Það eina sem ráða má af svari ráðherra er, að ekki hafi verið reiknað með kostna'ði við flutning raforkunnar og hleðslustöðvar, skv fréttinni.

Sé það rétt skilið er líklegt að peningaleigur ávinningur verið lítill sem enginn, jafnvel kostnaðarauki, af rafvæðingu ferjunnar.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 3.12.2015 kl. 14:59

2 identicon

Þar sem hjólið nýtist bara í helming ferðanna þá þarft þú að eiga bíl. Fastur kostnaður vegna ferða þinna deilist niður á kílómetrana sama hvort farartækið er notað. Þú getur sparað orkukostnað með því að nota hjólið en þú greiðir fullar tryggingar og gjöld þó þú hjólir.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 16:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Módelið er aðeins flóknara hjá mér, Hábeinn, því að bíllinn er í eigu konu minnar, þótt við notum hann til skiptis. Oft er það svo að hún fer í sín erindi á bílnum (sem er einfaldasti og ódýrasti bílinn á markaðnum) á sama tíma og ég fer í mín erindi á hjólinu.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2015 kl. 19:25

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar skipt var frá hesti yfir í bíl í upphafi var hægt að nota svipaða aðferð og Þórhallur við að komast að þeirri niðurstöðu að best væri að halda áfram að nota hestinn.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2015 kl. 19:27

5 identicon

Það er e.t.v. ekki svo flókið. Spurningin er hvort Þið kæmust af með einn bíl. Hvort hjólið sé viðbót eða komi í stað aukabíls. Er einum bíl færra eða bara færri kílómetrar á bílnum. Sést sparnaðinn í excel eða buddunni.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 21:14

6 identicon

Og með Herjólf. Kemur lægri orkukostnaður fram í buddunni eða hærra kaupverði, kostnaði og vaxtagreiðslum?

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband