Andspæni, sem líður ekki úr minni.

Fyrir útivistarfólkið, sem sat flötum beinum í Gálgahrauni 13. október 2013, og horfði á stærsta skriðbeltadreki Íslands, 40 tonna jarðýtu, stefna að því með sína risastóru ýtutönn, líður minningin um það aldrei úr minni.

Þetta var eitthvað svo óraunverulegt, skriðdrekinn og 60 manna víkingasveit búin handjárnum, úðabrúsum og kylfum andspænis 25 eftirlaunaþegum, smágerðum konum, listamönnum og viðlíka fólki, sem aldrei hafði lent í neinu misjöfnu.

Svipað andspæni er þekkt úr nútímasögu:

Skriðdrekinn á Torgi hins himneska friðar andspænis smágerðum kínverskum stúdent.

Skriðdrekarnir í Búdapest 1956 andspænis vopnlausum borgarbúum.

Skriðdrekarnir í Prag 1968 andspænis borgarbúum.

Skriðdrekarnir í Moskvu andspænis Yeltsín.  

Og nú, skriðdrekarnir í Tyrklandi andspænis vopnlausum borgurum.

Ofangreindur samanburður leggur að sjálfsögðu ekki að jöfnu þá, sem stilla skriðbeltatækjum upp gegn óvopnuðu fólki heldur einungis hinu tæknilega atriði. 

Hugsunin á bak við slíka uppstillingu nakins valds, skriðdreka sem er 600 sinnum þyngri en mannveran fyrir framan hann, virðist oftast vera sú, að gefa rækilega til kynna að það sé auðveldara en að stíga ofan á pöddu að kremja hinar smáu og aumu lífverur framundan undir ferlíkinu.

Og yfirburðirnir, sem stillt er upp, verða enn augljósari þegar ferlíkið fer loks af stað með urrandi brauki og bramli eins og fíll í glervörubúð eftir að fólkið hefur verið borið burtu, og mylur kletta og klungur mélinu smærra á gervölllu fyrirhuguðu vegstæði fyrir kvöldið, - kemur bara í hraunið þennan eina dag og veldur mestu mögulegu umhverfisspjöllum á sem skemmstum tíma.

Þetta var eitthvað sem engan hafði órað fyrir að gæti gerst. Ekki í landi, þar sem í lögum eru fyrirmæli um að gæta meðalhófs. 

Og samt gerðist það.

En hafði þó verið stillt upp á svipaðan hátt 14 árum fyrr.

Þá hefði andspænið getað birst á flugbannsvæði yfir hálendi Íslands í formi eins mikilvirkasta drápstækis okkar tíma, F-15 orrustu-og sprengjuþotu andspænis 50 sinnum léttari og hægfleygari óvopnaðri smáflugvél, TF-FRÚ.

En til þess kom ekki, af því að FRÚnni var flogið framhjá bannsvæðinu.

Enda full ástæða til: Bannsvæðið vegna heræfingarinnar Norður-Víkingur var sett til þess að F-15 þoturnar gætu æft sig í því að ráðast á náttúruverndarfólk á hálendinu í boði íslenskra ráðamanna.

Við slíkar aðstæður var þá ekki hægt að láta nægja að falla bara á annað hnéð í hlýðni og auðmýkt, heldur að falla á bæði hnén.     

 

 

 


mbl.is Hræddust ekki skriðdrekana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður Ómar! En ertu ekki að dramatísera þetta með Frúna þína litlu og F-15 orrustu-og sprengjuþotuna?

Jón Valur Jensson, 17.7.2016 kl. 02:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ónei, Jón Valur. Það var yfirlýst að þessar þotur þyrftu að æfa sig í bannsvæðinu þann tíma sem bannið var í gildi, og að öll önnur flugumferð um það væri bönnuð á þeim tíma.

Og það var líka yfirlýst, að æfingin fælist í því að ráðist væri gegn náttúruverndarfólki, sem gert var ráð fyrir að væri þarna með mótmælaaðgerðir.  

Ég hef gluggað í logbækur til að rifja þetta upp og ég sveigði framhjá svæðinu.

Það var auðvitað óhugsandi í mínum huga þá, að gera eitthvað sem gæti orðið til þess að ég yrði sviptur flugskírteininu!

Ómar Ragnarsson, 17.7.2016 kl. 02:19

3 identicon

Mikið er hún falleg nýja leiðin í gegnum gálgahraun.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.7.2016 kl. 09:45

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ofbeldið og valdníðslan sem fram fór í Gálgahrauni 13. oktober 2013 gagnvart þér og þeim fáu mótmælendum er dirfðust að standa gegn auðvaldinu á Íslandi er ekki svo frábrugðin öðrum valdbeitingum á borð við þær sem þú telur upp í pistli þínum.

Ástæður þess að þú og fleirri mótmælendur voruð hnepptir í járn og fjarlægðir af stormsveitum vald- og hagsmunahafa voru auðvitað þær að láta stórvirkar jarðýtur ryðja óendurkræfan vegslóða í gegn um hraunið með öllum tiltækum ráðum, því að örfáum árum liðnum verður þessi sami slóði gulls ígildi, en bara ekki fyrir þjóðina, heldur fyrir þröngan hóp vina og vandamanna.

Jónatan Karlsson, 17.7.2016 kl. 10:06

5 identicon

Sæll Ómar.

Er einhver munur á því að setja
jarðýtur á hraun hvort heldur það
er við Sauðárflugvöll eða í Gálgahrauni?

Ber þér ekki að fara að lögum sem öðrum borgurum?

Húsari. (IP-tala skráð) 17.7.2016 kl. 11:34

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur aldrei komið nein jarðýta inn á Brúaröræfi.

Sauðárflugvöllur er náttúrugerður rennisléttur melur og er nákvæmlega eins og hann hefur verið um aldir.

Á honum eru merkingar á brautum, gamall húsbíll og stöng með vindpoka,sem tæki aðeins einn dag að fjarlægja til þess að engin leið verði að sjá að þar hafi verið löggiltur flugvöllur, viðurkenndur af Isavia, sveitarstjórn, landeiganda, Umhverfisstofnun og öðrum yfirvöldum og umsagnaraðilum, sem haft var samband við.

Ef banna ætti Sauðárflugvöll ætti líka að gera það sama við aðra sambærilega viðurkendda og löggilta lendingarstaði á hálendinu, við Hveravelli, Kerlingarfjöll, Veiðivötn, Hreysiskvísl, Nýjadal og Herðubreiðarlindir.

Brautin í Herðubreiðarlindum er meira að segja inni í þjóðgarði, en það er Sauðárflugvöllur ekki. 

Nýi Álftanesvegurinn lengir leiðina, er með lengstu blindbeygju á Íslandi og niðurgrafinn. Það er nú öll fegurðin. 

Ómar Ragnarsson, 17.7.2016 kl. 13:26

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta, að eini flugvöllurinn á hálendinu, sem vinnuvélar voru notaðar við og braut malbikuð, var slík braut á Auðkúluheiði, sem Landsvirkjun gerði en er nú kominn af skrá. 

En malbikið er þarna enn og verður áfram. 

Ómar Ragnarsson, 17.7.2016 kl. 13:32

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jarðýtur á hraun við Sauðárflugvöll?!

Enda þótt langflestir nafnleysingjanna séu fávitar vita þeir betur.

Þorsteinn Briem, 17.7.2016 kl. 16:22

9 identicon

Sæll Ómar.

Jafnvel fávitinn hló, stendur í Íslandsklukkunni,
sbr. hér að ofan!

En hvað með seinni spurninguna:Ber þér ekki að fara að lögum sem öðrum borgurum?

Húsari. (IP-tala skráð) 17.7.2016 kl. 17:28

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, að sjálfsögðu, en hvert er lögbrotið varðandi Sauðárflugvöll?

Ómar Ragnarsson, 17.7.2016 kl. 19:13

11 identicon

Sæll Ómar.

Spurningarnar voru aðskildar.

Húsari. (IP-tala skráð) 17.7.2016 kl. 20:56

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

ÉG get endurtekið það, - að sjálsögðu ber mér að fara að lögum sem öðrum borgurum.

Ómar Ragnarsson, 18.7.2016 kl. 02:29

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sá svar þitt ekki fyrr en nú, Ómar.

Hef enga trú á þessum orðum þínum: "það var líka yfirlýst, að æfingin fælist í því að ráðist væri gegn náttúruverndarfólki, sem gert var ráð fyrir að væri þarna með mótmælaaðgerðir."

HVAR var það "yfirlýst"?! HEIMILD, takk!

Jón Valur Jensson, 18.7.2016 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband