Kárahnjúkaheilkennið?

Ætli skilgreiningin "Kárahnjúkaheilkennið" sé ekki viðeigandi varðandi þá meðferð, sem sumir starfsmenn, einkum erlendir, fá við stórar framkvæmdir á Íslandi.

Nú er að vísu það langt um liðið frá því að portúgalskir og kínverskir verkamenn við framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun voru margir grátt leiknir af óprúttnum Íslendingum, að héðan af verður sennilega ekki hægt að velta því öllu upp sem þar gerðist.

Aldrei fyrr höfðu eins margir útlendingar starfað við eina framkvæmd hér á landi, þá stærstu í sögunni, og þótt fyrirfram væri sagt að 80% þessara mörg hundruð manna yrðu Íslendingar, snerist dæmið við, og útlendingarnir urðu 80% vinnuaflsins.

Með því að hafa hraða "starfsmannaveltu" eins og það er kallað þegar starfsmenn eru sendir fljótlega aftur til síns heima, er hægt að láta viðkomandi, til dæmis Kínverja, hverfa í fjöldann í heimalandi sínu og meðferðina á honum falla í gleymsku.

Sögurnar voru sláandi, sem láku út, til dæmis af Kínverjunum, sem unnu við verstu aðstæðurnar í iðrum jarðar nálægt Þrælahálsi, sem var réttnefni.

Þar var barist við það mánuðum saman að mjakast með risaborinn í gegnum mikið misgengi af djúpum gjám undir yfirborðinu, sem sást þó móta fyrir ofan frá að vetrarlagi, en sleppt var að bora tilraunaboranir í, af því að "við ætluðum þarna í gegn hvort eð var" eins og talsmaður framkvæmdanna orðaði það.

Það flaug fyrir að svo mikill hefði hitinn verið þarna niðri þar sem lengst var til beggja átta til fersks lofts, að sumir Kínverjanna hefðu sleikt raka klettaveggina til að haldast við.

Margir meiddust og að minnsta kosti tveir létust við þessar framkvæmdir, og gerðist atvikið undir Fremri-Kárahnjúki þrátt fyrir marg ítrekaðar kvartanir og aðvaranir um hættuna þar.

Kárahnjúkavirkjun var að sönnu eitt mesta verkfræðilega afrek hér á landi og stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, en dökku hliðarnar voru líka stórar.  

Og enn og aftur kemur það núna upp á yfirborðið, að vegna lélegra kjara erlendu manna í heimalöndum sínum, ganga sumir íslenskir undirverktakar og svonefndar starfsmannaleigur á lagið og níðast á þeim með því að brjóta gróflega íslenska vinnulöggjöf.  

 


mbl.is 150 þúsund krónur fyrir 130% starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Drottnar enn í sinni sveit,
serðir allt til bana,
orðin aftur Framsókn feit,
fjandinn hirði hana.

Þorsteinn Briem, 18.7.2016 kl. 10:23

2 identicon

Virkilega góð vísa frá Steina Briem. Glettin, blautleg og pólítísk í senn.  Vonandi kemur hann með fleiri.

immalimm (IP-tala skráð) 18.7.2016 kl. 11:38

3 Smámynd: Már Elíson

Já, immalimm...Ég man líka eftir einni í fyrra hjá honum. Hún rímaði líka, en toppárið hjá honum var 2011. Þrjár.

Már Elíson, 18.7.2016 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband