Dýrið, sem gabbaði Íslendinga.

Stórslys, sem orðið hafa hér á landi vegna innflutnings á erlendum dýrum, hafa reynst þjóðinni dýr, fjárkláðinn um miðja 19. öld og mæðiveikin síðar, og loks minkurinn, sem slapp út úr búrum og gerðist hluti af dýraríki landsins og olli miklum usla í því.

Í öll skiptin var fullyrt að engin hætta væri á þessum áföllum, útilokað væri að þau gætu gerst.  

Þegar ég var í sveit á árunum 1949-1954 voru afleiðingarnar áberandi vegna tveggja af þeim. 

Man ég hvað mér var brugðið sem barni að horfa á aðfarirnar þegar féð var baðað í sérstöku kari fyrsta sumarið sem ég var í Hvammi, og síðustu sumrin var stöðugur straumur vörubíla eftir þjóðveginum með fé sem flutt var af ósýktum svæðum af mæðiveiki til landshluta, þar sem skorið hafði verið niður. 

Nú um stundir er fullyrt að óhugsandi sé að neitt misjafnt kunni að fylgja því að standa að laxeldissprengingu í fjörðum landsins, svo tryggilega sé öryggis gætt á alla lund. 

Norðmenn eiga þó í miklu vandræðum vegna síns laxeldis, en okkur er sagt að þetta verði miklu betra hjá okkur. 

En hollt kann að vera að hugsa til minksins og þeirra erlendu hrúta sem reyndust gabba Íslendinga á dýrkeyptan hátt.

Fiskar, sem sleppa úr búrum, þótt fullyrt sé að það geti ekki gerst, geta líka gert það.  


mbl.is Minkafjölskylda veiddi sér til matar – myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Náttúran fær aldrei að njóta vafans. Og hér er auðvitað enginn vafi. Það er vitað mál að eldislaxar munu sleppa og hafa sloppið.

Mér finnst líka furðulegt að minkabændur séu ekki rukkaðir um kostnaðinn við minkaveiðar.

Stefán Jónsson (IP-tala skráð) 24.7.2016 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband