Sérkennilegt mál. Að mörgu að hyggja.

Það er sérkennilegt þegar hugsanleg vitni í mikilvægu máli, sem sjást á mynd vera á ferð í tilteknum bíl á ákveðinni mínútu, gefa sig ekki fram. 

Samt kunna að vera ástæður fyrir því sem erfitt sé að átta sig á fyrir aðra en vitnið af hverju það gefur sig ekki fram, til dæmis að vitnið hafi verið það mikið á ferðinni á tilgreindum tíma, að það muni ekki eftir því hvar það var á þessu augnabliki, að vitnið hafi ekki tekið eftir auglýsingunni eða að það geti komið sér óþægilega fyrir vitnið af öðrum ástæðum en tengingunni við mannshvarfið að gefa sig fram. 

Til þess að útskýra þetta get ég nefnt dæmi.

Ég hef lent í því að vera í vanda ef ég myndi ekki eftir því hvar ég var staddur klukkan fjögur á ákveðnum degi fjórum dögum áður en lögreglan krafði mig sagna um það. 

Lögreglufulltrúi hringdi heim til mín snemma morguns á þriðjudegi og sagði, að samkvæmt vitnisburði sjónarvotta hefði ég valdið árekstri á Sæbraut á rauðum Fox-jeppa með númerinu IB 327 og stungið af. Spurði hann hvort ég ætti þennan bíl og ég játti því, sagði að hann hefði staðið óhreyfður utan við blokkina, sem ég bý í, síðustu þrjár vikur og væri þannig skorðaður af fyrir aftan annan smábíl, að það þyrfti talsverðar tilfæringar til að ná honum út. 

Ég kom alveg af fjöllum varðandi það að hafa valdið hörðum árekstri á þessum bíl nokkrum dögum fyrr og gat í fyrstu alls ekki munað, hvar ég hafði verið á klukkan fjögur fjórum dögum fyrr.

Ef Fox-jeppinn hefði valdið hörðum árekstri, hlyti að sjá talsvert á honum, en svo væri alls ekki og hann hefði ekkert verið hreyfður í þrjár vikur. 

 

Bað lögreglufulltrúann um frest til að afla gagna um það og var svo heppinn að geta gert það að öllu leyti hálftíma síðar. Nú kom sér vel sá nördaháttur að halda gott bókhald á vissu sviði. 

Fletti upp í minnisbók minni og sá að þetta hafði verið föstudagur og að klukkan fjögur á föstudegi er maður oft að sinna erindum á síðustu stundu fyrir helgina. 

Ég færi alltaf inn í bókina allan akstur minn og allt flug, og þar stóð kílómetratala gamals Daihatsu Cuore örbíls míns við þennan föstudag en ekki Fox-jeppans, og kílómetratala Fox fornbílsins og akstursleið hans þremur vikum fyrr.  

Og sömuleiðis voru færðar inn endastöðvar aksturs Cuore-bílsins umræddan föstudag, sem voru heimili mitt og Hafnarfjörður. 

Og nú rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði verið í Hafnarfirði á þessum tíma að láta pústverkstæði BJB athuga pústkerfið á Cuore-bílnum á fjórða tímanum. Var sagt á verkstæðinu að koma aftur rétt fyrir lokun klukkan fjögur og notaði tækifærið til að fara í útibú Landsbankans og útrétta þar. 

Mætti síðan á pústverkstæðið tveimur mínútum fyrir fjögur og dvaldisg þar í um kortér.

Hringdi nú í lögreglufulltrúann og sagði honum þetta og að ég hefði kvittanir úr bankaútibúinu og frá pústverkstæðinu og hefði verið þar á sama tíma og ég átti að hafa valdið árekstri á Sæbraut á öðrum bíl. 

Og enginn annar en ég hefði ekið þeim bíl í þau ellefu ár sem ég hefði átt hann. 

Þar að auki væri líka hægt að grafa upp vitni úr bankanum með því að skoða bókanir hans á sama tíma og ég var þar, svo og vitni á pústverkstæðinu ef með þyrfti. 

Lögreglufulltrúinn varð eðlilega steinhissa á því að fólk við Sæbrautina skyldi hafa kannast við númer Fox-jeppans.

Ég spurði hann hvar þessi vitni hefðu verið og kom þá í ljós að þau sáu viðkomandi rauðan jeppa af nokkru færi og hefði allt eins getað ruglast á bíltegundum eins og númerum, því að séð aftan frá væru til svipaðir gamlir jeppar þótt stærri væru.

Þetta og mörg önnur dæmi sýna hve vandasöm rannsókn lögreglumála getur verið og að það þurfi að mörgu að hyggja í því sambandi.  


mbl.is Ökumaðurinn enn ófundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband