Kóróna landsins og reginöflin sem gera íslenska náttúru einstæða.

Hvergi er að finna í náttúrufari nokkurs jafn jafn lítils lands og Íslands jafn miklar og hrikalegar andstæður. Askja.Herðubreið.Wattsfell

Allt frá mörg þúsund stiga hita jarðeldsins til fimbulfrosts.

Frá stórbrotnustu tign og fegurð til ægilegra náttúruhamfara á borð við Skaftárelda, sem drápu milljónir manna í þremur heimsálfum. 

Í tilefni Dags íslenskra náttúru er þessi mynd birt hér. 

Á henni trónir drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, landskjörið þjóðarfjall, en nær sést hluti af Öskju með Öskjuvatn í miðju. 

Á þeim stað finnst fólki það vera statt á vettvangi sköpunar alheimsins. Þar hurfu tveir þýskir vísindamenn 1907 sporlaust, og þykir reimt á þessum slóðum síðan. Þangað komu tunglfarar til þess að búa sig undir sín tímamótaferðalög. 

Askja olli stórfelldum harðindum í stórgosi 1875, og býr því jafnt yfir afli gríðarlegrar sköpunar og eyðingar sem ægifegurð og upplifun. 

Til að ná þessari mynd þurfti að bíða færis í nokkra áratugi. Á sumrin er hætta á að landið sýnist vera svört klessa og á vetri hvít klessa.

Fyrir réttum þremur árum kom loks tækifærið, sem byggðist á heiðskíru og hreinu veðri þar sem fyrsti haustsnjór væri bráðnaður hæfilega mikið til þess að smáatriði í landslaginu sæust. 

Og til þess að ná þeim saman á mynd, Herðubreið og Öskju, en 30 kílómetrar eru í loftlínu á milli þeirra, þurfti myndin að vera tekin 30 km fyrir suðvestan Öskju úr um það bil 1700 metra hæð. 

Herðubreið er svonkallaður móbergsstapi, eldfjall myndað undir ísaldarjökli, sem að lokum varð það hátt, að gígurinn stóð upp úr jöklinum. 

Úr ljóðinu Kóróna landsins:  

 

Í Ísaldarfrosti var fjallanna dís

fjötruð í jökulsins skalla

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, 

öskunni spjó og lét falla. 

Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís, -

svo frábær er sköpunin snjalla. 

Dýrleg á sléttunni draumfögur rís 

drottning íslenskra fjalla. 

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta. 

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn 

sig ekki frá gröf sinni slíta. 

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn: 

eldstöð og skaflana hvíta. 

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta. 

 

Höll íss og eims, - 

upphaf vors heims, 

djúp dularmögn, 

dauði og þögn. 


mbl.is Sveitarfélög vinni sig fljótt út úr áföllunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hvergi er að finna í náttúrufari nokkurs jafn lítils lands og Íslands jafn miklar og hrikalegar andstæður." Hárrétt, Ómar. Þess vegna heimsækir erlent fólk Ísland. "Að sækja heim" finnst mér svo tilgerðarlegt. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.9.2017 kl. 13:13

2 identicon

Til hamingju með daginn! smile

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 16.9.2017 kl. 15:07

3 identicon

Já, alveg rétt. Til hamingju með daginn, Ómar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.9.2017 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband