Langvarandi kúgun spilltra valdhafa.

Í Eþíópíu búa um 100 milljónir manna, nær 300 sinnum fleiri en á Íslandi. Samt eru hagkerfi landanna álíka stór. Sem þýðir að árstekjur meðalmannsins í Eþíópíu gætu verið álíka miklar og dagstekjur Íslendings. 

Landsmenn þekkja fjórar tegundir af ofríki spilltra valdhafa og ekkert annað. Haile Selassie keisari hlaut samúð þegar Mussolini lagði landið undir sig með hervaldi á fjórða áratugnum og réði þar ríkjum til stríðsloka. 

En í raun var keisarinn spilltur, og þegar hann tók aftur við eftir stríðið breyttist ekkert. 

Bylting var gerð í landinu en stjórn kommúnista varð engu skárri, Mengistu kom í staðinn fyrir keisarann. 

Honum var steypt, en valdhafarnir, sem tóku við í landinu hafa engu breytt í raun.

Þeir gæta þess vel að halla sér að Bandaríkjamönnum og fengu meira að segja bandaríska flugherinn til þess að gera árás á hryðjuverkamenn í nágrannaríkinu Sómalíu til þess að kenna þeim að vera ekki að seilast yfir landamæri ríkjanna. 

Eþíópíumenn urðu kristnir 700 árum á undan Íslendingum og hin kristna koptamenning stendur svo föstum rótum, að engir einræðisherrar hafa vogað sér að blaka við henni hendi. 

Samband drottningarinnar af Saba og Salómons konungs er ginnheilög goðsögn. 

Eþíópía Airlines er stolt landsins og rekið í náinni samvinnu við Bandaríkjamenn. Flott Kóka-kólaverksmiðja sér um, að þann drykk megi jafnvel sjá á afskekktustu slóðum, þótt allur almúgi hafi ekki efni á að kaupa hann og deyi jafnvel úr þorsta í þurrkaplágum með "the real thing" í seilingarfjarlægð . 

Já, mótsagnirnar eru óskaplegar. Við borgina Arba Minch var reistur flottur flugvöllur og stærðar flugstöð, að stórum hluta úr marmara, en hvorugt er notað nema í mýflugumynd, því að innanlandsflug er aðeins leyft fyrir örfáar flugvélar. 

Í landinu kristallast verstu hliðar auðræðisins í alþjóðvæðingunni, eins og tengd frétt á mbl.is ber glöggt vitni um. 

Kúgaðir öreigar leggja grunninn að kaupum okkar á fatnaði, sem er svo sannarlega illa fenginn.  


mbl.is Sauma fyrir H&M með 128 kr. á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband