Svipað gerðist í Nýsköpunarstjórninni.

Núverandi ríkisstjórn er að því leyti til svipuð svonefndri Nýsköpunarstjórn 1944 til 1947, að að þessum ríkisstjórnum standa þrír flokkar, sá sem er yst til vinstri, sá sem er yst til hægri og síðan einn miðjuflokkur. 

Einu atkvæði munaði flokksstórn Alþýðuflokksins að sá flokkur færi í ríkisstjórn, en allir þingmann flokksins stóðu þó að ríkisstjórnarsamstarfinu þegar á hólminn var komið. 

Andstaðan innan Alþýðuflokksins var einkum óbeit á samstarfi við Sósíalistaflokkinn.

Innan Sjálfstæðisflokksins var líka andstaða við samstarf við Sósíalistaflokkinn, og var hún það mikil að fimm þingmenn flokksins studdu ekki ríkisstjórn Ólafs Thors. 

Ríkisstjórnin hafði samt öruggan meirihluta, og aldrei kom til að vantrauststillaga væri borin upp á stjórnina né einstaka ráðherra hennar. 

Þegar stjórnin stóð að vinsælum aðgerðum í almannatryggingamálum og endurnýjun togaraflotans hjaðnaði andstaðan innan raða krata og Sjalla við stjórnina og flokkslínur voru nokkuð skýrar í Alþingiskosningunum 1946 ef undan er skilið, að skiptar skoðanir voru um Björn Ólafsson þingmann Sjalla í Reykjavík svo að hann fékk miklar útstrikanir. 

Nýsköpunarstjórnin sprakk út af grundvallarágreiningi sósíalista við hina flokkana í utanríkismálum. 

Ólafi Thors var mikið í mun að halda stjórnarsamstarfinu áfram þótt dökkar blikur væru á lofti í efnahagsmálum, stórkostlegur gjaldeyrisforði uppurinn og mikill efnahagssamdráttur í helstu viðskiptalöndum okkar gerði óhjákvæmilegt að taka upp harðar skömmtunaðgerðir og höft. 

Hugsanlega hefðu efnahags- og kjaramálin sprengt Nýsköpunarstjórnina ef utanríkismálin hefðu ekki sprengt hana. 

Ólíklegt er að utanríkismál muni sprengja núverandi stjórnarsamstarf en órói á vinnumarkaði gæti orðið skeinuhættur og undirliggjandi er ágreiningur í umhverfismálum, sem gæti blossað upp. 

Slit síðasta stjórnarsamstarfs komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og ekki er hægt að afskrifa að orsök stjórnarslita nú gæti komið á óvart. 


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla einkennilegur þessi "samanburður" þinn við löngu liðna tíð í íslenskum stjórnmálum, Ómar Ragnarsson.

Hvorki Atlantshafsbandalagið (NATO) né Evrópusambandið eða Evrópska efnahagssvæðið voru til á tímum Nýsköpunarstjórnarinnar.

Ísland hefur að sjálfsögðu ekki verið hlutlaust ríki eftir að landið fékk aðild að NATO árið 1949, þar sem Ísland var einn af stofnfélögunum, en samkvæmt Sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur frá árinu 1918 var Ísland opinberlega hlutlaust ríki í Seinni heimsstyrjöldinni.

Þá var sjávarútvegur stærsti atvinnuvegurinn hér á Íslandi en nú er það ferðaþjónustan og langflestir Íslendingar starfa nú við þjónustu.

Vægi landbúnaðar hér var einnig miklu meira þá en nú, Framsóknarflokkurinn miklu áhrifameiri og landsbyggðin stjórnaði mun meiru. En nú býr mikill meirihluti landsmanna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Framsóknarflokkurinn (og Miðflokkurinn) hafa lítil áhrif.

Og innflutningur hér á alls kyns vörum og þjónustu er margfalt meiri en fyrir sjötíu árum, flestir Íslendingar ferðast nú til útlanda á ári hverju, aðallega til annarra Evrópulanda, og þúsundir Íslendinga stunda þar nám.

Tollar eru miklu lægri nú, hafa í mörgum tilfellum verið afnumdir og miklu erfiðara núna að leggja á nýja tolla eða hækka þá.

Íslenskir neytendur hafa því mun meiri áhrif nú en þá og framleiðendur, til að mynda bændur, mun minni.

Fjölmiðlun er einnig allt önnur en hún var fyrir sjö áratugum og þá var að sjálfsögðu ekkert Internet, þannig að nú er mun erfiðara fyrir stjórnmálaflokka að stjórna skoðunum fólks.

Og væntanlega eru ekki allir sammála um að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú lengst til hægri í íslenskum stjórnmálum, þar sem Miðflokkurinn geti allt eins verið það og sumir tala um "Miðflokksarminn" í Sjálfstæðisflokknum, til að mynda Brynjar Níelsson og Ásmund Friðriksson.

Einnig væri hægt að halda því fram að Píratar séu að mörgu leyti lengra til vinstri í íslenskum stjórnmálum en Vinstri grænir og Steingrímur J. Sigfússon geti allt eins verið í Framsóknarflokknum.

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill hins vegar segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og með þeirri aðild er Ísland de facto í Evrópusambandinu.

Þorsteinn Briem, 25.3.2018 kl. 14:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er alveg ný kenning hér að ofan, framandi opinberum umælum þeirra stjórnmálafræðimanna, sem fjallað hafa opinberlega um íslensk stjórnmál, að núverandi ríkisstjórn sé ekki "mynduð frá ysta hægri á þingi yfir til ysta vinstri. 

Einnig má segja að síendurtekin persónuleg og nafngreind ónot þín í minn garð með stríðsletri pistil eftir pistil og dag eftir dag séu "sérkennileg." 

Ómar Ragnarsson, 25.3.2018 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband