Það er engin leið að hætta? Popplag í G-erræðisdúr?

Landsnet, áður Landsvirkjun, vandist því um margra áratuga skeið að geta farið nokkurn veginn sínu fram við lagningu háspennulína. 

Aldrei þurfti að hafa neinar áhyggjur af því að skoða möguleikann til annarrar leiðar fyrir línuna en hentaði línulagnarmönnum, hvað þá að leggja hana nokkurs staðar í jörðu. 

Dæmin eru svo mörg að það er erfitt að velja. Á einum besta útsýnisstaðnum í Friðlandi að Fjallabaki þar sem horfa má á góðum veðurdegi alla leið norður til Bárðarbungu liggur háspennulína þvert yfir sjónsviðið milli Ljótapolls og Svartakróks. 

Þótt flestir erlendir ferðamenn, sem koma til landsins, segi í skoðanakönnunum, að háspennulínur séu þau mannvirki sem trufli mest upplifun þeirra af þeirri einstæðu og ósnortnu íslensku náttúru, sem þeir séu komnir til að skoða, virðast háspennulínumenn aldrei hafa haft áhyggjur af slíku. 

Þeir flögguðu dýrri og mikilli skýrslu hér um árið, sem átti að sanna að það væri allt of dýrt að setja línur í jörð, en þegar þeir voru í krafti upplýsingalaga krafðir um að birta hana, sögðu þeir að hún væri týnd!!

Nú ætla þeir að fara með risalínu i gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og dýrmæt útivistar- og náttúruverðmætasvæði bara rétt si svona og segjast alveg undrandi yfir því að vera beðnir um að skoða möguleika á jarðstreng. 

Það kostar jú svo mikla peninga að gera rándýrar skýrslur sem gufa upp og finnast ekki.

Maður heyrir Stuðmenn fyrir sér: "Það er engin leið að hætta...", - popplag í Gerræðisdúr.

Og ekki er að sjá að þeim finnist þeir sjálfir hafa valdið neinu um þá stöðu sem er komin upp. Nei, "málið er í uppnámi vegna úrskurðar."

Ekki vegna þess að það átti að nota gamla trixið að skjóta fyrst og spyrja svo og treysta á, að málið væri komið svo langt og þegar orðið svo dýrt að engin leið væri að hætta.  

 


mbl.is Í uppnámi vegna úrskurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

Það er okkur kjósendum að kenna. Við þurfum að vera ákveðnari í kröfum okkar, t.d. að hafa einn orkumálastjóra yfir allri þeirri orku landsins, sem við nýtum, og hún á að vera alfarið í opinberri eigu. Leggja niður öll þessi hlutafélög ríkisins og hafa bara einn stjóra með 2 millur á mánuði.

Þannig er möguleiki á að við getum komið í veg fyrir að öll þessi orkufyrirtæki verði seld fjárfestum.

Bestu kveðjur.

Jón Thorberg Friðþjófsson, 27.3.2018 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband