Umdeilanleg skilgreining, vægast sagt.

Þegar talað er um mest seldu gerðir af flugvélum og bílum er venjulega átt við gerðir, sem hafa í öllum meginatriðum verið óbreyttar allan framleiðsluferilinn. 

Þannig er Volkswagen Bjallan talin hafa verið framleidd í flestum eintökum, eða rúmlega 20 milljónum, og þar á eftir Ford T, í 15 milljón eintökum. 

Af vélhjólum hefur Honda Cub / Super Cub verið framleidd í lang flestum eintökum, eða yfir 100 milljónir! 

Af farþegaflugvélum hefur Boeing 737 verið framleidd í flestum eintökum, eða rúmlega 10 þúsund, en af einkaflugvélum Cessna 172, um 46 þúsund. 

Í öllum ofangreindum tilfellum hafa grundvallaratriði og grundvallarstærðir þessara bíla og flugvéla verið hin sömu allan framleiðslutímann. 

Bjallan var allan feril sinn með loftkælda "boxer" vél afturí og botninn og yfirbyggingin voru í grundvallaratriðum þau sömu, þótt gluggarnir stækkuðu svolitið, framrúðan yrði bogin í lokin, framendinn lengdur um nokkra sentimetra og sett McPerson fjöðrun að framan í stað vindustanganna.

Svipað er að segja um Ford T, vélin var óbreytt allan tímann frá 1908 til 1927 sem og grind og fjöðrun.

Fiat 124 / Lada Nova gæti verið í þriðja sæti vegna fastheldni við grundvallarbyggingu bílsins frá upphafinu 1966 allt fram á okkar daga.

Renault 4 var framleiddur í rúmlega 8 milljónum eintaka, nánast án nokkurra breytinga. 

Þegar hins vegar er litið á bíla eins og Toyota Corolla og Wolkswagen Golf er annað uppi á teningnum.

Fyrsta gerð Corolla á nánast ekkert skylt með síðari kynslóðum þess bíls, var með vélina langsum frammi í, afturdrif og blaðfjaðrir á heilum öxli, en hinar fjölmörgu síðari kynslóðir með vélina þversum frammi,framhjóladrif og sjálfstæða gormafjöðrun allan hringinn.

Golf hefur í gegnum fjölmargar kynslóðir stækkað svo og breyst á alla kanta í 45 ár, að sú fyrsta á næstum ekkert sameiginlegt með nýjustu kynslóðinni nema nafnið. 

Að vísu hefur vélin alltaf verið frammi í og drifið á framhjólunum, en fyrsti Golfinn var miklu minni og léttari en Polo er nú.

Golf hefur þyngst um ca 400 kíló, úr 750 kílóum og hefur lengst úr 3,70 metrum upp í 4,26. 


mbl.is Kaflaskipti í sögu Corolla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein átti þrjá fíat 127 þótt ég hafi alltaf verið ford maður.

Valdimar Samúelsson, 5.9.2018 kl. 09:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef frá 1967 átt Fiat 124, 850, 128, 127, 126, 500, 600 og Panda 4x4. 

Þótt flestir bölvuðu 850 fyrir bilanatíðni var ég svo heppinn að mitt eintak reyndist best allra minna bíla. 127 var einstaklega vel heppnaður, valinn bíll ársins í Evrópu og skilaði okkur bræðrunum í 2. sæti í ralli 1976 á sínum 45 hestöflum.  

Ómar Ragnarsson, 5.9.2018 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband