Dýr verður bragginn allur ef svo skyldi hvert strá.

Stóra braggamálið er orðið jafn stórt og raun ber vitni, af því að um það gildir að vissu leyti svonefnt smámunalögmál Parkinsons.

Það lögmál felur í stuttu máli í sér, að þau mál geti orðið stærst sem eru nógu einföld að allir geti skilið þa og haft á þeim skoðun. 

Parkinson tók sem dæmi stjórn kjarnorkuvers, sem þarf að hundraða milljarða króna innkaup á flóknum búnaði, sem enginn stjórnarmanna hefur vit á, en á stjórnarfundinum um málið fara allar umræðurnar í að rífast um liti og innréttingu í nýrri en titölulega smárri byggingu. 

Allir hafa vit eða skoðun á því.  

Það er oft mjög erfitt að henda reiður á stórum og flóknum málum. Á sínum tíma voru bygging Perlunnar og ráðhússins í Reykjavík það stórar, dýrar og margslungnar framkvæmdir, að enda þótt framúrkeyrslan þá næmi margföldum upphæðum braggans fræga nú, var erfitt fyrir meðaljóninn að festa hendur á henni. 

Meirihluti kjósenda var auk þess fylgjandi þessum glæsilegu framkvæmdum og erfitt væri að hugsa sér Reykjavík án þeirra. 

Davíð Oddsson stóð á hátindi getu sinnar sem stjórnmálamanns og andstaðan var sundruð.

Allir hafa vit eða skoðun á því nú, að eytt var meira en milljón króna í að setja upp nokkur strá við braggann og farið alla leið til Danmerkur til að kaupa þau í stað þess að sækja þau bara suður að Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð. 

Þar að auki vindur braggamálið óbeint upp á sig með annarri stórfelldri framúrkeyrslu sem belgir upphæð framúrkeyrslunnar samtals upp í 800 milljónir króna. 

Braggamálið og allt framúrkeyrslumálið er merkilegt fyrir þá sök, að samkvæmt skoðanakönnun heldur meirihlutinn í Reykjavík velli.

Það er áhyggjuefni fyrir bæði Dag B. Eggertsson og Eyþór Arnalds.  

Áhyggjuefnið snertir auðvitað Dag B. Eggertsson og þar með Samfylkinguna, - að það skuli vera fylgisaukning hinna flokkanna í meirihlutanum sem viðheldur meirihlutafylginu þrátt fyrir mikla minnkun fylgis Samfylkingarinnar. 

En það er ekki síður áhyggjuefni fyrir Eyþór Arnalds ef núverandi meirihluta verður ekki haggað. 

 


mbl.is Samfylkingin missir fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er ekki síður áhyggjefni fyrir þig Ómar! Að þér skuli finnast braggamálið smámál og að þér skuli finnast fylgisaukning pírata og VG meira áhyggjuefni heldur en fylgisminnkun SF. Ef þetta er ekki það sem þú ert að meina þá þarftu að tala skýrar. Það eru margir sem lesa bloggið og taka mark á því sem þú skrifar umhugsunarlaust.

Gamla slagorðið,"allt er betra en íhaldið" er greinilega innprentað í sál Reykvíkinga eftir það kverkatak sem sjálfstæðisflokkurinn hafði á stjórn borgarmála alla síðustu öld. Reykvíkingar muna líka Vilhjálm og Ólaf og tilraunina til að einkavæða Orkuveituna. Reyndar var kjörtímabilið 2006-2010 algert fíasko fyrir alla borgarfulltrúa en mest fyrir sjálfstæðismenn og framsókn. Þess vegna er þeim ekki enn treyst. Burtséð frá því hverjir skipa flokkinn núna.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.10.2018 kl. 12:21

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta hefur ekki nokkur áhrif. Þetta vinstra lið er svo sauðtryggt að það rótast ekki. Allt er betra en íhaldið og engum dettur í huga að kjósa það þó að bragginn og Féló hafi komið uppá.

Auk þess sem þessi braggi er líklega bara á réttu verði, það voru bara áætlanirnar sem voru vitlausar og þurftu auðvitað af endurskoða og leiðrétta eins og alltaf er gert í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga.. Þar er allt fært til raunkostnaðar eftir mitt ár þegar menn sjá að allar áætlanir stóðust ekki og allt varð dýrara en ætlað var.

Bragginn og stráin standa fyrir sínu. Bara klára kamarinn með stæl og meirihlutinn stendur traustum fótum.

Húrra

Halldór Jónsson, 16.10.2018 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband