Tölurnar tala alls staðar sínu máli.

Síðasta hálmstrá úrtölumanna, sem enn halda því fram að "eitthvað annað" en virkjanir og stóriðja geti "bjargað" Íslandi, er að véfengja þær tölur sem birtar hafa verið í fjölda rannsókna á gildi þjóðgarða og verndarnýtingar. 

Orðið verndarnýting fæst að vísu ekki ennþá nefnd í flokkun virkjanakosta í rammaáætlun, heldur eru virkjanirnar settar í annan helsta flokkainn, nýtingarflokk, sem sé andstæða hins megin flokksins, verndarflokks. 

Mitt á milli er síðan biðflokkur. 

Sem sagt: Eina nýtingin er enn í skilgreiningum falin í virkjana- og stóriðjustefnunni. 

Engin nýting hins vegar í verndun náttúruverðmæta. Gullfoss og Geysir ekki krónu virði. Ekki heldur þjóðgarðarnir og friðuðu svæðin. 

En tölurnar eru svo margar og jákvæðar og svo víða, í viðamiklum rannsóknum, bæði hér og erlendis, varðandi atvinnuuppbyggingu og tekjur í tengslum við verndun, svo sem í þjóðgörðum, að tal um "óvandaðar" rannsóknir, sem leiði af sér rangar niðurstöður, verður hjákátlegt. 

Ein besta talan er sú, sem snertir þær konur á bazneignaaldri, sem fá atvinnu við þjóðgarðana eða friðuðu svæðin. Því að litlu sem engu máli skiptir hve margir íbúar eða starfsmenn eru á tilteknu svæði, ef þessar konur vantar.  Án þeirra eru byggðarlög hnignuninni merkt.  


mbl.is Áhrif þjóðgarðsins á samfélagið mikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tal um "óvandaðar" rannsóknir, sem leiði af sér rangar niðurstöður, verður vissulega hjákátlegt ef verið er að efast um tölulegar staðreyndir ef ekkert er undan skilið. Rétt eins og allt tal um "vandaðar" rannsóknir, sem leiði af sér réttar niðurstöður, verður jafn hjákátlegt ef aðeins er verið að spjalla lauslega við hnefafylli af túristum og hagsmunaaðila og sérvaldar tölulegar staðreyndir taldar til.

Fær vísindamaður gerði vandaða rannsókn og komst að því að 90% þeirra sem notuðu armbandsúr voru kraftminni í þeirri hendi sem bar úrið. Ályktunina sem hann dró af því var sú að armbandsúr drægi einhvernvegin kraft úr þeim handlegg sem það bæri. Og hún er fræg vandaða Sænska rannsóknin sem sýnir samhengi í sölu á rjómaís og nauðgunum.

Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli starfa tveir starfsmenn allt árið. Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður og Linda Björk Hallgrímsdóttir, sérfræðingur. Linda er, skilst mér, kona á barneignaraldri. Snæfellsnesinu er bjargað.

Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 01:33

2 identicon

eitthvað annað. skil ekki það orð alt þarf að vinna saman. það er talað um verndarnýtingu ef man rétt í 1.hóp rammaáætlunar 2. um friðun heildar vatnskerfa ofan virkjanafrýja svæða. hef ekki lesið loka niðurstöðina nógu vel, en fynst skrýtin rökstuðningur með þeim verndarvæðum sem nú á að vernda þar sem virkjanir neðar í ánum eru í biðflokki þá á ég við kjöl og hólmsá. en hef skilning á bæði jökulsá á föllum  vegna vistkerfisins og markarfljóts vegna flóðahættu

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 06:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einbeittur ertu, Vagn launsátursmaður, í stanslausri herferð þinnig gegn því, sem þessi bloggsíða hefur að geyma. 

Staðfestan órjúfanlega felst meðal annars í því að afsanna þráfaldlega að ferðaþjónustan hafi gert neitt fyrir íslenskt efnahagslíf og þú dregur fram erlent armbandsúr og sænskan rjómaís máli þínu til stuðnings. 

Ómar Ragnarsson, 11.11.2018 kl. 11:22

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

2,5 milljónir ferðamanna afgreiðast sem "hnefafylli af ferðamönnum."

Ómar Ragnarsson, 11.11.2018 kl. 11:26

5 identicon

Heldurðu ekki, Ómar, að Vagn þessi sé hábeinóttur?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 13:54

6 identicon

þeir 300 sem rætt var við af 2,5 milljónum ferðamanna afgreiðast sem "hnefafylli af ferðamönnum". En það er sá fjöldi viðmælenda sem ein af "vönduðu" rannsóknunum byggði á.

Og það er satt, ég er einbeittur í því að taka ekki órökstuddar fullyrðingar sem heilagan sannleik. Ég er einbeittur í því að benda á að túlkanir sem byggja á litlu úrtaki, persónulegum skoðunum og pólitískri afstöðu eru ekki vísindaleg niðurstaða.

Ég vissi ekki að þú værir að halda úti þessu bloggi til þess að heyra aðeins í þeim sem eru þér sammála. Það er sársaukalaust af minni hálfu að láta þig og jábræður þína um skrif á síðuna og ég kveð því með afsökunarbeiðni og bestu óskum.

Vagn (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 14:54

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tölurnar sem fjöldi ferðamanna byggjast á og tölur um það hvernig þeir ferðast og hvernig þeir eyða fé sínu og tíma, auk talna um störfin sem íslensk náttúruverðmæti skapa, eru margfalt stærri og fleiri en talan 300 sem þú skilgreinir, Vagn, sem álíka fjölda og megi telja á fingrum annarrar handar. 

Þeir sem fylgst hafa með þessari bloggsíðu með sína um það bil ellefu þúsund pistla og tugi þúsunda athugasemda í ellefu ár vita vel, að því fer fjarri að þar hafi verið um jábræður að ræða, enda hygg ég að leitun sé að síðu með jafn mikilli umferð þar sem jafn lítið, stundum ekkert árum saman, hefur verið gert af hálfu síðuhafa til þess að fjarlægja athugasemdir, sem farið hafa yfir strikið.

Á þessari síðu hefur farið fram rökræða, þar sem vegist hafa á ábendingar og ólíkar skoðanir og viðhorf.  

Ég hef hins vegar neyðst til að benda á alveg eindæma þráhyggjulega, samfellda staðfasta og einhliða herferð launsátursmannanna Hilmars og Hábeins gegn því sem bloggsíðuhafi skrifar þar sem reynt er með öllum tiltækum ráðum að rífa allt niður og gera síðuhafann að ómerkingi. 

Hilmar brást þannig við þessu að saka síðuhafa um ofbeldi og ritskoðun gagnvart sér. 

Og nú bregður svo við að launsátursmaðurinn Vagn sakar mig um að hafa í raun hrakið sig af síðunni þótt ég leyfi allar athugasemdir hans og afgreiðir í leiðinni þær þúsundir, sem hafa lagt hér orð í belg, þýlynda jábræður.

En það er kannski smá glæta. Síðasta setning Vagns hér að ofan er það fyrsta sem ég sé varðandi "afsökunarbeiðni og bestu óskir" í minn garð, og er skylt að taka það gilt og þakka það með þvi að endurgjalda óskir hans.  

Ómar Ragnarsson, 11.11.2018 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband