Tilgangslausasta stríð allra tíma?

1914 var það spá margra, að það stórveldi Evrópu sem ætti mesta vaxtarmöguleika fyrir höndum væri Rússland með öllum sínum auðlindum og mestu fjölgun íbúa. 

Þegar stríðshættan magnaðist hratt í júlí þetta örlagaríka ár, stóð veldi Þjóðverja sem stórveldis einna hæst, hafði farið vaxandi, en spurning um framhaldið. 

Möguleikarnir voru tveir: Að beita öllum áhrifum sínum, meðal annars á Austurríkismenn, til þess að afstýra stríði á Balkanskaga, sem breiddist út í allsherjarstríð. 

Eða, minnugir vaxtar og fólksfjölgunar í Rússlandi, að taka slaginn áður en Rússar yrðu öflugri. 

Síðari kosturinn virtist fýsilegur vegna þess að fyrir hendi var frábær hernaðaráætlun Von Schlieffens. 

Hún byggðist á því að hægt væri að slá Frakka út á vesturvígstöðvunum með stórkostlegri leiftursókn sem byggðist á einu af lykilatriðum módels Hannibals frá orrustunni við Cannae varðandi tangarsókn með umkringingu. 

Auk þess var góð von til að Bretar myndu sitja hjá, þrátt fyrir eldgamalt loforð um að tryggja tilvist Belgíu, enda mikill skyldleiki með þjóðhöfðingjum Breta og Þjóðverja. 

Rannsóknir sagnfræðinga síðar benda til þess að þetta hafi raunar staðið tæpt. 

Þjóðverjar gerðu ráð fyrir því að ef á annað borð yrði að koma til stríðs við Rússa, væri rétti tíminn að fara í það strax. 

Eftir að hafa afgreitt Frakka á mettíma, gætu þeir snúið öllum heraflanum til austurs og tekið Rússa í bakaríið. 

Það mat, varðandi Rússa, átti eftir að reynast rétt. Þjóðverjar áttu eftir að sigra Rússa þrátt fyrir að þurfa að berjast samtímis á vesturvígstöðvunum. 

En þrátt fyrir andlátsorð Schlieffen um að veikja ekki hægri vænginn í sókninni inn í Frakkland, fór Moltke yfirhershöfðingi á taugum og í ljós kom að miðað við það hve varnarhernaður var öflugur á þessum tíma í samanburði við sóknarhernað, reyndist þýska hernum um megn að fara jafn langa leið í sveig sínum með hægri vænginn, og umkringingin mistókst. 

Munurinn á herforingjum var mikill. Moltke kafnaði undir nafni og keyrði sig út á sama tíma og Joffre hélt ró sinni allan tímann og gat komist hjá svefnleysi. 

Í hönd fóru hryllilegar mannfórnir. Það er ógleymanlegt að koma inn í kirkjugarðinn endalausa við Verdun og sjá þetta hræðilega minnismerki um grimmd styrjalda. 

Milljónum ungra manna á besta aldri var fórnað í þessu stríði. Sem dæmi um fáránleikann má nefna að á fyrsta morgni orrustunnar við Somme 1916 var tugum þúsunda breskra hermanna slátrað með vélbyssum og stórskotahríð á örfáum klukkustundum. 

Orrustan stóð síðan áfram í marga mánuði og árangurinn var minna en enginn, hundruðum þúsunda ungra manna fórnað fyrir áframhaldandi staðbundinn skotgrafahernað. 

Þeir sem lengst komust þennan fyrsta dag orrustunnar, fóru inn í opinn dauðann, og gengu meðal annars inn í stórskotahríð eigin hers! 

Alræmd urðu ummæli eins breska hershöfðingja, lét það út úr sér, að á endanum skyldi öllum þýska hernum hafa verið slátrað, jafnvel þótt aðeins nokkur þúsund hermenn bandamanna stæðu þá eftir uppi sem sigurvegarar. 

Í aðdraganda stríðins var hrikalegt vopnakapphlaup réttlætt með því að það væri nauðsynlegt til að fæla hugsanlegan árásaraðila og skapa góða samningsaðstöðu í krafti vopnavalds. Kunnugleg kenning enn í dag. 

Til eru breskir sagnfræðingar sem velta því fyrir sér, hvort Bretar hefðu átt að svíkja löngu liðið loforð við Belga um vernd gegn innrás, og halda sig heldur til hlés. 

Af tvennu illu hefði skárri útkoma stríðsins falist í sigri Þjóðverja, sem þar með tryggðu það að fjölgun Rússa og efling veldis Rússlands yrði engin ógnun. 

Með þessu hefði staða Breta orðið allt önnur og betri að stríði loknu í stað þess að þessi "styrjöld til að binda endi á allar styrjaldir" varð í raun fyrri hlutinn af miklu verra stríði, sem háð var gegn einhverri mestu villimennsku mannkynssögunnar. 

Öld eftir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar er við lýði trúin á að til sé stríð til að binda enda á öll stríð, af því að slíkt stríð sé svo skelfilegt að það fæli menn frá því að beita gereyðingarvopnum.

Kenningin hefur fengið heitið MAD, Mutual Assured Destruction, -  á íslensku GAGA, Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra. 

Hún er fólgin í því að hvor aðilinn um sig trúi hinum til að hefja gereyðingarstríð og verði því að ráða yfir enn öflugri kjarnorkuherafla.

Þessu er lýst sem svonefndu "ógnarjafnvægi" en það byggist á því að gera ráð fyrir algeru útrýmingarstríði í vítiseldi kjarnorkustyrjaldar, þar sem öllu skiptir að báðir aðilar geti útrýmt hinum mörgum sinnum og hvor aðili um sig keppi að því að geti útrýmt hinum oftar! 


mbl.is Fagna lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Með fyrirvara um EF og HEFÐI kenningar þá er varasamt að ætla að friðvænlegt hefði verið til langs tíma EF Bretar hefðu setið hjá og Þjóðverjar tekið Rússa í nefið í fyrri heimstyrjöld og eftir. Vel má ætla að bæði Hitler og Komúnisminn hafi verið afleiðing rétt eins og orsök ástands. HEFÐU Rússar lotið fyrir Þjóðverjum má vel ætla að sú alda öfgaþjóðernishyggju sem Hitler bæði nýtti og jók hefði beint fjöldaslátrununm fyrr að Rússum og svo þess vegna að Frökkum og hverjum sem er. Ástand sem hefði næstum örugglega hleypt af stað seinni heimstyrjöld þegar Bretar og Bandaríkjamenn hefðu sagt stop!

Líklega verður að líta á fyrri og seinni heimstyrjöld sem einn atburð með stóru hléi á milli. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 11:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála þessu, Bjarni Gunnlaugur, og nefni þessa kenningu aðeins til fróðleiks. 

Í Fyrri heimsstyrjöldinni gerðust óhjákvæmilegir atburðir, sem styrjöldin flýtti fyrir, Austurríska keisaradæmið féll og sömuleiðis Tyrkjaveldi,  fjöldi þjóða öðluðust sjálfstæði, Japan var meðal sigurvegaranna og Bandarikin urðu að vaxandi stórveldi 

Ómar Ragnarsson, 11.11.2018 kl. 17:09

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Eru ekki öll stríð tilgangslaus...???

Einungis gerð og framin fyrir þá sem hafa völdin..??

Styttist í það næsta, því miður.

Sigurður Kristján Hjaltested, 11.11.2018 kl. 18:32

4 identicon

Þau eru mörg, tilgangslausu stríðin.

T.d. hafði þrjátíu ára stríðið djúpstæð áhrif á Þýskaland í mörg hundruð ár, kannski allt til þessa dags.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 11.11.2018 kl. 19:26

5 Smámynd: Örn Einar Hansen

EF bretar hefðu setið hjá, hefði síðari Heimstyrjöldin aldrei átt sér stað.

í dag, eru Bandaríkin í sömu sporum og Þjóðverjar ... fallandi heimsveldi. Kína, er með draumóra um að verða heimsveldi allra tíma ... með Xi Jing Ping í aðalhlutverki. Og í stað þess, að beina augunum þangað sem hættan er MEST ... KÍNA, eru menn með augun á Rússlandi, sem eru stórfengleg mistök.

Eins og menn á Íslandi, sem leifa ótíndum glæpamönnum og morðingjum að vaða um landið í stríðs stígvélum sínum. Þá eru mistök Evrópu slík, að það er tæplega hægt að gráta brottför þess. Breska heimsveldið, var eiturlyfjanýlenda ... tæplega hægt að grá þá. Bandaríkin eru mafíu nýlenda ... Rússar, littlu skárri ... Kína ... landið sem á tímum "silkileiðarinnar", rændi kaupmennina á leið til Kína, þair sem komust og gátu keypt, voru rændir á leiðinni tilbaka ... það er spurning, hversu mikið af varningum komst á leiðarenda? 10%? hver var kostnaðurinn 1000% ?

Haldið þið, að þið hafið lært eitthvað af mankynsögunni?

Örn Einar Hansen, 11.11.2018 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband