"Fjarverandi vegfarendur" orðnir mesta ógnin.

Rannsóknir helda áfram að sýna það, sem áður hefur verið fjallað um hér á síðunni, að ný vá hefur haldið innreið sína í umferðina á öllum stigum hennar og er orðin sú versta. 

Ölvun við akstur og í umferðinni er ekki lengur algengasta orsök aldvarlegra slysa og banaslysa heldur fyrirbæri, sem má kalla "fjarverandi vegfarendur", þ.e. fólk sem er svo upptekið við lestur af mælum, símum og skjám eða í fingravinnu á þessum tækjum, að það jafngildir því að það sé með bundið fyrir augun. 

Síðuhafi hefur fundið þetta á eigin skinni og beinum; hefur eytt þessu ári frá fyrsta virka degi þess við að jafna sig eftir axlarbrot og fleiri áverka, sem urðu vegna þess að á maður á rafhjóli, sem kom á móti honum á hinum þekkta hjólastíg á Geirsnefinu sveigði skyndilega yfir á öfugan stígshelming svo að ómögulegt var að forðast harðan árekstur. 

Í ljós kom, að hann hafði hætt að horfa fram fyrir sig og var að reyna að lesa af litlum rafhlöðumæli, sem var erfitt að lesa af, vegna þess að það var orðið rokkið, og þótt tölurnar á mælinum sæust sekúndubrot í hvert sinn sem hann fór undir lága ljósastaura við stíginn, var þetta sekúndubrot allt of stutt. 

Það olli því að hann einbeitti sér æ meira af lestrinum og segja má að Reykjavíkurborg hafi siðan gulltryggt áreksturinn, því að miðlínumerkingin á stígnum, sem valdur slyssins sá þegar hann horfði beint niður, er orðin svo máð vegna viðhaldsleysis, að hún sést varla, og er raunar horfin á löngum köflum, meðal annars á þeim stað sem áreksturinn varð. 

Fleira hjálpaði til þótt "blindingsleikurinn" væri höfuðorsök. Eftir slysið kom í ljós, að í handbók rafhjólsins var sýnt, hvernig hægt væri að kveikja ljós á rafhleðslumælinum!  

Á hjóli síðuhafa eru hins vegar ævinlega logandi skær ljós sem sýna hve mikið rafmagn er á rafhlöðunum. 

Ef farið hefði verið að dæmi Akureyringa við gerð umrædds hjólastígs á Geirsnefinu, hefði hugsanlega ekki orðið árekstur.  Akureyringar breikkuðu svipaðan hjólastíg sinn úr 2,5 metrum upp í 3,0 metra, og þessi árekstur á Geirsnefinu hefði ekki orðið á svo breiðumm stíg, því að það munaði aðeins fáeinum sentimetrum að að tekist hefði að beygja nóg frá hinum aðvífandi "blindingja"; ystu hlutar stýranna á hjólunum kræktust saman og hjól síðuhafa snerist í kollhnís svo að af hlaust lóðrétt bylta beint niður á vinstri öxlina, olnboga, hné og ökkla. 

Þess má geta að ökklarnir sluppu við meiðsl, og má sennilega þakka það vélhjólaklossum. 

Síðustu fjögur ár hefur síðuhafi ýmist verið á ferli á rafreiðhjóli, 125cc vespuhjóli og minnsta rafbíl landsins og það hefur gefið gott tækifæri til að sjá hve gríðarlega algeng símanotkunin er, auk þess fyrirbrigðis, að fólk sé með heyrnartól að hlusta á hitt og þetta og heyrir þvi ekkert annað, til dæmis í hjólabjöllu eða bílflautu. 

Áberandi er hve margir eru á kafi í símanum þegar þeir eru við umferðarljós, og endurskoðandi síðuhafa hóf árið með hálskraga eftir harða aftanákeyrslu ökumanns á kafi í snjallsímanum, sem kom á fullri ferð aftan að honum en sá ekki, að bílarnir á undan honum urðu að stansa á rauðu ljósi. 

Tæknilega nætti athuga, hvort hægt sé að taka að einhverju leyti í taumana, til dæmis með samvinnu framleiðenda bíla og síma á þann veg, að tölvustýrt tæki með sendi, slökkvi sjálfkrafa á farsíma, sem er í eða við ökumannssætið. 


mbl.is Færri senda skilaboð undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Af herju hættirðu ekki þessari hjólavitleysu, maður kominn á þennan aldur Ómar minn?

Halldór Jónsson, 18.4.2019 kl. 14:06

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef ég hefði þurft að velja á milli þess 2. janúar að vera á ferð á bíl og fá annan bíl, sem kom á móti mér á 80 km hraða, beint framan á mig; - eða - að vera á hjóli og fá annað hjól, sem kom beint framan á mig á 20 km hraða, hefði ég nú frekar valið hjólið. 

Í í bílateppum gærdagsins var ég ánægður með að vera á vespuhjólinu án þess að taka pláss frá nokkrum manni, en gefa í raun eftir pláss mitt í bílaröðinni til handa einum ökumanni á einkabíl. 

Ómar Ragnarsson, 18.4.2019 kl. 14:12

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Af hverju talar þú sjálfur svona um gamalt fólk?

Ég fór hringinn um landið á vespuhjólinu á rúmum sólarhring fyrir þremur árum og báða hringina, Vestfjarðahringinn líka, alls 2000 km, í einni ferð fyrir tveimur árum. 

Skrapp til Siglufjarðar og til baka um haustið með því að fara af stað að morgni og koma til baka að kveldi. 

Og ég tékka á líkamsástandinu tvisvar í viku með því að hlaupa upp stiga með tímatuá skeiðklukkun frá 1. hæð upp á 5. hæð á innan við 30 sekúndum, fjórar hæðir nettó. 

Þakka Guði á hverjum degi fyrir góða heilsu, - eftir því sem best er vitað. 

Magnús Norðdal gerði rúmlega áttræður árlega listflugsæfingar á flugsýningum sem enginn annar, ekki heldur bestu ungu mennirnar, áttu möguleika á að leika eftir honum. 

Ómar Ragnarsson, 18.4.2019 kl. 14:19

4 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Varstu í brynju í þessu slysi?  Held að flestir hjólreiðarmenn noti ekki viðeigandi öryggisbúnað, kanski hjálm en lítið annað

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 18.4.2019 kl. 15:47

5 identicon

En ölvun við akstur og í umferðinni var aldrei algengasta orsök aldvarlegra slysa og banaslysa. Og notkun snjalltækja við akstur og í umferðinni er ekki algengasta orsök aldvarlegra slysa og banaslysa. Þess vegna var ekki og verður ekki aukakostnaði upp á tugi þúsunda bætt við hvern bíl í formi áfengismæla eða græju sem truflar síma. Að gefa sér rangar forsendur er ein leið til að fá ranga niðurstöðu og heimskulegar lausnir.

Vagn (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 17:11

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er miklu meira varinn á þessu rafreiðhjóli en ég sé nokkurn annan vera. 

Ég er með lokaðan hjálm en ekki smá kopp eða ekkert eins og margir. Ég er með hnéhlífar og góða vélhjóla uppháa vélhjólaklossa. 

Margir spyrja forviða hvers vegna ég sé þetta mikið varinn og svar mitt er, að ef bíll ekur á mig á fullri ferð, þarf ég sama lágmarksbúnað, hvort sem ég er á reiðhjóli eða vélhjóli. 

Í handbók Vespuhjólsin er sagt strax í upphafi hætta við kaupin, nema að kaupa líka lokaðan hjálm og uppháa vélhjólaklossa. 

Vagn virðist búa yfir upplýsingum um orsakir banaslysa, sem stangast á við það sem uppgefið er af samgöngu- og lögregluyfirvöldum. 

Gaman væri að vita hvaðan hann hefur þær. 

Ómar Ragnarsson, 18.4.2019 kl. 20:47

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má bæta við að nú síðdegis kom ökumaður með snjallsíma sem skyggði á vinstra auga hans á fullri ferð inn í hringtorg og svínaði á konu minni, sem var að aka inni í torginu. 

Og nú rétt áðan gerðist það sama hjá mér.  
Eitt og eitt atvik sanna svo sem ekki neitt, en svipuð hegðun er vaðandi um allt. 

Ómar Ragnarsson, 18.4.2019 kl. 20:50

8 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

http://www.jhmsport.is/vorulisti/hlifdarbunadur/brynjur/vara/ff3016/

þú værir nokkuð öruggur í svona jakkabrynju

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 18.4.2019 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband