Leitaði í hálftíma að götu í Kópavoginum.

Það er auðvitað pínlegt að leita að bíl sínum og finna hann ekki, en lítið skárra er að leita að götu eins og síðuhafi lenti í í kvöld.  

Að vísu er gatnakerfið í Kópavogi löngu þekkt eftir að Ríó-tríóið gerði grín að því á heimavelli, en í kvöld bættist enn ein lífsreynslan af því við hjá síðuhafa ofan á Hamraborgarsvæðið og iðnaðarhverfið við Smiðjuveg og Skemmuveg, þar sem í skrám eru núsnúmer fyrirtækjanna kyrfilega skráð, en húsin öll númerslaus þegar á að fara að leita að þeim. 

Erindið í kvöld átti að taka enga stund, að fara í hús eina af helstu og lengstu götunum í vesturhlutanum og ná í fyndinn leikmun, einn af nokkrum leikmunum og tækjum, sem leika hlutverk í söngskemmtuninni Syngjum saman í Hannesarholti á morgun. 

Tímahrak í undirbúningnum leiddi til þess að ætlunin var að rata umsvifalaust að húsinu, þar sem leikmunurinn var geymdur. 

En allt gekk á afturfótunum í Kópavoginum í kvöld.

Þannig er um hnúta búið að þegar maður ekur eftir lengstu götunum þar, sýna skiltin á báðar hendur kyrfilega nöfnin á þvergötunum en ekkert skilti sýnir manni eftir hvaða götu maður er að aka. 

Eftir að hafa ekið langs og þvers um vesturbæinn kom í ljós, að fjórum sinnum hafði verið ekið fram hjá skilti með nafni brautarinnar, sem var hálffalið á bak við gangbrautarskilti. 

Og auðvitað var leitun að húsi með húsnúmeri, sem sæist. 

Loks var maður einn á tröppum húss síns spurður um götunúmerin á svæðinu, þar sem maður var orðinn heitur, og var svarið þar, að öll húsnúmerin á þessu svæði tilheyrðu öðrum götum en löngu götunni sem þau voru við.   

Nú tók við leit að símanúmeri til að fá leiðsögn, og brá þá svo við, að þegar bakkað var út frá húsi mannsins, sem talað hafði verið við,  sást alla leið þaðan til þeirrar manneskju sem hafði varðveitt leikmuninn og var komin út í dyr með hann. 

Eftir á að hyggja hefði verið skárra að gefa sér fyrst tíma til að skoða almennilegt kort af bænum. Sá tími hefði margborgað sig. 


mbl.is Leitaði að bílnum í 25 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Eða láta app í símanum leiða sig á réttann stað

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 24.11.2019 kl. 09:00

2 identicon

Það er eiginlega lítið skárra að skoða kort. 

Eftir ýmsar hrakfarir mínar um Kópavoginn þá skoðaði ég fyrirhugaða leið vandlega í götusýn á já.is en þegar í raunveruleikann kom þá var allt slökkt hjá viðkomandi fyrirtæki þó húsnmúmerið væri rétt.  Í fyrirtækinu við hliðina var mér sagt að það ætti að koma að húsinu eftir götunni fyrir neðan, sem reyndist rétt. 

En vissulega gerir þetta Kópavoginn spennandi og nokkuð dulúðugan stað. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.11.2019 kl. 13:34

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Má vera að það sé gott að búa í Kópavogi en það er erfitt að rata í Kópavogi!!

Sigurður I B Guðmundsson, 24.11.2019 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband