Tillaga: Elliðavatnsvegur = Flóttamannaleið.

Fyrir um hálfri öld valdi almenningur nokkur heiti á staði og vegi á höfuðborgarsvæðinu, sem voru skemmtileg og lýsandi fyrir aðstæður og höfðu sagnfræðilegt gildi.  

Dæmi:  Klambratún, Flóttamannaleið og Hallærisplanið. Og Höfðatún var réttnefni á götu, sem lá þráðbein í áttina að hinu sögufræga húsi Höfða. 

Síðan gerðist það að þessum heitum var útrýmt af mismunandi ástæðum, en eitt þeirra hefur þó, sem betur fer, fengið aftur sitt gamla heiti; Klambratún. 

Heitið Miklatún, sem klesst var á túnið, stóð engan veginn undir nafnið, þótt Miklabrautin gerði það frekar sem stærsta gata bæjarins þegar hún var lögð. 

Með því að taka það upp, var afmáð sú grípandi saga sem var á bak við Klambratún, túninu sem Klambrar, eitt af ótrúlega mörgum smábýlum í Reykjavík, stóð á, en varð síðar að víkja. 

Þegar Hótel Ísland, sem stóð á gatnamótum Austurstrætis og Aðalstrætis, brann 1944, var húsgrunnurinn malbikaður og gerður að bílastæði, sem í fyrstu gegndi heitinu "Hótel Íslands planið". 

Þegar bílaeign jókst og myndaðist svonefndur Rúntur, Lækjargata-Austurstræti-Aðalstræti-Kirkjustræti-Skólabrú, og unga fólkið gerði að hálfgerðum samkomustað blöndu af bílum og gangandi fólki, varð það hluti af samkvæmis- og hjónabandsmarkaði þess tíma. 

Á Hótel Íslands planinu safnaðist þá oft saman ungt fólk, og þar varð til einn af stefnumótastöðum Rúntsins. 

Fékk þessi staður þá hið skemmtilega heiti "Hallærisplanið" í munni margra, heiti, sem sagði skemmtilega samtíðarsögu. 

Án þess að leggja til nafnbreytingu á Ingólfstorgi má hugsa sér að sett verði upp skilti þarna, sem segir söguna af Hallærisplaninu og fornri tíð. 

Þá er komið að "Flóttamannaleiðinni" sem nú heitir Elliðavatnsvegur. 

Á bak við heitið Flóttamannaleið er sagan af hernámi Íslands 1940. 

Þegar Bretar bjuggu um sig, urðu þeir að hafa í huga eitt af höfuðatriðum hernaðar; samgöngur og flutninga. 

Þótt þeim skorta á öryggi í flutningi liðs, hergagna og varnings á hinum mjóa malarvegi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og gengust því fyrir lagningu nýs ofanbyggðavegar allt frá Elliðavatni suður til Kaldárselsvegar. 

Þegar þessu var hrundið í framkvæmd voru Bretar alls staðar á flótta í Heimsstyrjöldinni, á Balkanskaga, í Norður-Afríku og Suðaustur-Asíu. 

Tóku íslenskir gárungar því upp á því í hálfkæringi og gálgahúmor að kalla nýja ofanbyggðaveginn "Flóttamannaleið" af því að í samræmi við vígstöðuna alls staðar, væri honum ætlað það hlutverk að auðvelda flótta Bretanna hér á landi, ef til átaka kæmi. 

Vel mætti hugsa sér að setja upp upplýsingaskilti um heitið Flóttamannaleið, þótt nafninu Elliðavatnsvegur verði ekki breytt úr þessu. 

Og þó? Það fékkst þó fram breyting á nafninu Miklatún.  

 


mbl.is Vífilstaðavegur malbikaður á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heitir ekki "Hótel Grafarbakki" þarna niðri í gamla kirkjugarðinum?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 18.8.2020 kl. 17:34

2 identicon

Bankastræti mætti svo fá sitt fyrra góða nafn "Bakabrekkan"!

El lado positivo (IP-tala skráð) 18.8.2020 kl. 20:44

3 identicon

Bakarabrekkan.

El lado positivo (IP-tala skráð) 18.8.2020 kl. 20:46

4 identicon

Takk fyrir þessa skemmtilegu skýringu á Flóttamannaleið.

Ég heyrði fyrir nokkrum árum að nafnið hefði komið til af því að menn stælust þessa bakdyraleið þegar þeir keyrðu fullir.

Stefán (IP-tala skráð) 19.8.2020 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband