Flöskuhálsinn frá í vor, sem ekki má stíflast.

Þegar lýst var yfir neyðarástandi í mörgum löndum í fyrstu bylgju COVID-19 á útmánuðum, var það fyrst og fremst vegna þess, að heilbrigðiskerfið reyndist ekki nógu öflugt til að ráða við drepsóttina.  

Gott er að hafa þetta í huga, þegar sóttvarnaraðgerðir eru metnar. 

Að vísu hafa margvíslegar ráðstafanir verið gerðar í ljósi reynslunnar síðan þetta gerðist, en engu að síður er heilbrigðiskerfið það viðkvæmt og dýrt í eðli sínu, að í því getur myndast eins konar flöskuháls þessa mikilvægasta kerfis nútíma þjóðfélags, sem allt annað stendur og fellur með að stíflist ekki. 

Í Svíþjóð kostaði þetta dauðsföll, sem voru 20 sinnum fleiri en hér, ástand, sem sumir mæra og telja að hafi verið nauðsynlegt.  

Upphaflega var þó sagt, að þessi háa dánartíðni, sem samsvaraði 200 látnum hér á landi, mynd skapa hjarðónæmi, sem lækna myndi sóttarbölið. 

Það fór hins vegar svo, að því takmarki var fjarri að ná. 

Önnur og þriðja bylgja sjúkdómsins hafa ekki skollið á á sama tíma alls staðar, og Svíar virðast núna vera á eins konar milliróli á sama tíma og margar þjóðir glíma við nýja bylgju. 

Fórnarkostnaðurinn, fimm þúsund látnir í Svíðþjóð, verða þó ekki vaktir aftur til lífsins. 


mbl.is 200 starfsmenn Landspítala í sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það eru sífellt fleiri komnir á þá skoðun að Svíum hafi einmitt tekist að ná nægilega háu stigi ónæmis, og þess vegna sé pestin nánast hætt að dreifast þar. Sjá til dæmis þessa frétt: https://www.thelocal.com/20200919/swedens-pandemic-may-be-finished-danish-researcher

Mistökin sem gerð voru í Svíþjóð voru að gæta þess ekki að verja hjúkrunarheimilin. Það er meginástæðan fyrir fjölda dauðsfalla.

Atvinnuleysi hækkar dánarlíkur ári síðar um 6%. Ég myndi í þínum sporum velta því fyrir mér hversu mörg dauðsföll það þýðir, sér í lagi ef haldið verður áfram að treina pestina út í það óendanlega. Verða þau fleiri en 200 eða færri?

Þorsteinn Siglaugsson, 21.9.2020 kl. 09:48

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta eru áhugaverð rök, en í pistli mínum eru hjúkrunarheimili innifalin í hugtakinu "heilbrigðiskerfi." 

Síðan hefur enn ekki verið svarað spurningunni um það, hvort og þá hvenær og hvernig auka bylgja kemur í Svíþjóð.  Þar var það nefnilega rannsakað sérstaklega hvort hjarðónæmi hefði myndast og var niðurstaðan sú, að því færi fjarri.  

Ómar Ragnarsson, 21.9.2020 kl. 13:21

3 identicon

Mér sýnist að svarið við spurningu Þorsteins së u.þ.b. 6 manns á ári m.v. 20.000 manna aukningu á atvinnuleysi vegna COVID-19. Í dag munar því u.þ.b.200 mannslífum á okkar leið og þeirri sænsku. 

S (IP-tala skráð) 21.9.2020 kl. 14:04

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Svo þetta sé alveg skýrt þá er samhengið það að 1% aukning atvinnuleysis eykur dánarlíkur ári síðar um 6%.

Hvað Svíþjóð varðar þá er einfaldlega ágreiningur um það hvort þar hafi náðst nægjanlegt ónæmi. Það liggur engin niðurstaða fyrir um það, en kúrfan þar, samanborið við kúrfuna í nágrannalöndunum, bendir sterklega til þess.

Hjúkrunarheimili eru auðvitað hluti heilbrigðiskerfisins, en þegar talað er um getu heilbrigðiskerfisins til að takast á við faraldur er verið að tala um meðhöndlun þeirra sem veikjast, ekki einangrun þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum. Þetta er því tvennt ólíkt.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.9.2020 kl. 16:18

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Það er spúkí að lesa áhyggjur af atvinnuleysi í kóvid, svona í ljósi þess að frjálshyggjumenn hafa sannarlega aldrei tjáð þessar áhyggjur sínar áður, þó heilum löndum sé rústað með útvistun starfa til þrælabúða þriðja heimsins.

Þú bendir nafni á fjöldamorðin í Svíþjóð, Þorsteinn mærir þau með vísan í að þar með séu Svíar lausir við aðra bylgju.

Vitnum í staðreyndir, Þórólfur sagði út frá bestu þekkingu að í dag vissi engin hvort Svíar fengju næstu bylgju eða ekki, ekkert í hegðun veirunnar segði að þeir myndu sleppa, en hann vissulega vonaðist til að svo yrði.

Það var lokað í Madrid fyrir nokkrum dögum, vegna seinni bylgju.

Þó er hið meinta hjarðónæmi mun útbreiddara þar, og veitt enga vörn.

Haltu þínu striki nafni, láttu ekki kjaftæði úrtölunnar sem glefsar hvert vafaatriði til að brjóta niður sóttvarnir, draga úr þér kjark.

Því munurinn er siður og mannhelgi, versus ómennskan sem setur mannslíf á vog debits og kredits.

Þó ómennskan hafi rödd, þá er óþarfi að hlusta á hana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.9.2020 kl. 16:57

6 identicon

Þorsteinn! Þessi rannsókn sem þú vísar til er birt hér. https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S027795361400269X

Þú ættir að lesa greinina aftur. Í henni stendur að þessi hækkun á eingöngu við yngri karla og ekki við eldra fólk eða kvenfólk sem lifir lengur atvinnulaust. Sömuleiðis segja niðurstöður hennar frá því að þegar frá líður verða lífslíkur atvinnulausra karla engu verri en vinnandi. í greininni stendur orðrétt: "However, as it turns out, studies based on aggregate data actually suggest the opposite, namely, that worsened macroeconomic conditions are associated with lower mortality e.g. Ruhm, 2000Gerdtham and Ruhm, 2006Miller et al., 2009, and Stevens et al. (2011). "

Þetta dæmi er miklu flóknara en svo að hægt sé að segja: við hverja prósentu í atvinnuleysi deyja sex prósentum fleiri. 

Thorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 21.9.2020 kl. 17:38

7 identicon

Ómar

Dauðinn á elli- og hjúkrunarheimilum var bein afleiðing s.k. "einkavæðingar velferðarkerfisns" í stjórnartíð Bildt snemma á 10. áratugnum. Um helmingur heimilanna er á vegum sveitarfélaga, helmingur rekinn af einkaaðilum í hagnaðarskyni. Heimilunum var flestum lokað en það var starfsfólkið sem sá um að dreifa veirunni.  Það er langflest s.k. timanställda og fær ekki laun ef það veikist. Ég heyrði viðtal við einn starfsmanninn í sænska útvarpinu. Hún sagði einfaldlega "ég hef ekki efni á því að mæta ekki í vinnu þótt ég fái einhverja pest". Ráðningarformið eykur hagnaðinn. Engin hlífðarföt eða þess háttar var til, það kostar. 

Jón

Jón (IP-tala skráð) 21.9.2020 kl. 18:34

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þessi rannsókn á við um karla á vinnualdri og eftir því sem frá líður dregur úr muninum. "Worsened macroeconomic conditions" er ekki einvörðungu atvinnuleysi heldur efnahagsaðstæður í heild. Meginniðurstaða höfundar er sú sem ég hef lýst. Það er umtalsverður fjöldi rannsókna til á þessu og almennt benda þær til tengsla milli atvinnuleysis og dánarhlutfalls.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.9.2020 kl. 19:05

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hér má svo t.d. sjá rannsókn á þessu í Svíþjóð: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1448606/

En athyglivert sem þú nefnir Jón varðandi elli- og hjúkrunarheimilin. Svona geta mælikvarðar, hvatar og fyrirkomulag haft ófyrirséð og neikvæð áhrif við tilteknar kringumstæður.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.9.2020 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband