Lada Niva, bíllinn ódrepandi sem aldrei hefur verið innkallaður.

Rússar hafa sjaldan verið orðaðir við það að vera í forystu í bílsmíði. Luxuskerrur Sovétleiðtoganna voru eftirlíkingar af Packard, Moskwitch var í raun Opel Kadett með fernar dyr, Pobeda var eftirlíking af Ford 1938-48, og fyrsti GAZ jeppinn, GAZ 67, var eftirlíking af Willy´s jeppanum. 

1953 leit síðan undantekning ljós, GAZ 69, fyrsti algerlega rússneski jeppinn, sem var hvað hönnun snerti stórt stökk fram á við og hugsanlega best hannaði jeppi heims til 1966, þrátt fyrir afar lélegar vélar og drif frá tímum Ford A. lada_niva_og_fri_thjofur

1977 gerðist síðan undrið: Lada Niva (kallaður Sport á Íslandi) varð til sem tímamótabíll á heimsvísu, með yfirliggjandi kambás, mjúka og langa gormafjöðrun á öllum hjólum, og sídrifi með læsanlegum millikassa þar var bæði hátt og lágt drif.

Þetta var líka fyrsti jeppinn sem var ekki á grind, heldur var hann heilsoðinn með sjálfberandi byggingu.  

R

Þyngdin aðeins rúmlega 1200 kíló, og með því að hafa varadekkið í húddinu, var hægt að hafa furðu stóra farangursgeymslu. 

Sumir töluðu um að þarna væri komin rússnesk og smækkuð eftirlíking af hinum enska Range Rover, tveir fyrstu jepparnir með gormafjöðrun á öllum hjólum.

Þó tók Lada Niva Range Rover fram að því leyti að hann var með sjálfstæða fjöðrun á framhjólunum og tannstangarstýri, fyrstur jeppa heims. . 

Rússarnir notuðu að vísu marga einstaka vélar- og drifhluta úr samvinnu sinni við Fiat-verksmmiðjurnar, en að öðru leyti angaði bíllinn allur af óvenjulega frumlegri hugsun, sem var fjarri hinu staðnaða sovétveldi og sló svo í gegn á Íslandi, að hann var mest selda bílgerð fyrsta ársins, sem hann var hér í sölu.15672527_743708869114161_9181669519181841262_n

Nú eru liðin 45 ár síðan Lada Nive kom á markað, og strax fimmtán árum síðar var farið að gæla við þá hugsun í Russlandi að koma með nýjan og stærri jeppa í staðinn. 

Í samvinnu við Chevrolet var hannaður nýr bíll, en ekkert haggaði við gömlu Nivunni. 

Síðasta aldarfjórðung hafa verið auglýstar fleiri nýjar hugmyndir að arftaka Lada Niva, og allan tímann verið framleiddir í smáum stíl. 

Líka hafa verið reyndar lengdar útgáfur af honum með skondnum nöfnum, svo sem Lada Niva Tarzan!

Nýlega var kynnt rosalega flottur arftaki, en það er eins og að stökkva vatni á gæs, sá gamli lifir og lifir og er greinilega bíllinn, sem ekki er hægt að drepa, hvorki í Rússlandi né í þeim löndum í Evrópu, þar sem hann er á boðstólum. main

Nú fæst hann í útgáfu, sem heitir Legend, og er það viðeigandi. 

Sjá má á Youtube akstursprófanir þar sem hann stenst öðrum jeppum snúning og jafnvel gott betur, sakir óvenju mikillar veghæðar og góðrar fjöðrunar. 

Búið er að auka hljóðeinangrun og bæta sætin, þannig að nú er betra að sitja aftur í en áður. Fleiri endurbætur má tína til, svo sem rafknúnar rúður, en þó er skilið eftir rými í hurðinn fyrir upphalara ef menn vilja allra ódýrustu gerðina sem kostar ekki nema innan við þrjár milljónir íslenskra króna í Bretlandi. Lada_Niva_(VAZ_2121)

En næe óbreyttur bíll í tæpa hálfa öld ber aldurinn með sér.

Hér eru ekki höggverjandi loftpúðar fyrir bílstjóra eða farþega og vélin mætti vera sparneytnari og aflmeiri, en hún er með útblásturshreinsibúnaði og stenst Euro 5 kröfur, og er ennþá, eftir öll þessi ár, mest ódrepandi hluti bílsins, svo mjög reyndar, að Chevrolet-útgáfurnar hafa verið með hana og driflínuna alla. 

Ef menn vilja fimm dyra svona bíl er það limósína hvað snertir þægindi fyrir farþegana en þessir lengdu bílar eru hins vegar þyngri sem bitnar á bensíneyðlslu og snerpu. og Þess vegna er frumgerðin, sem er svo nett, að hún er styttri en Yaris, sú gerð sem selst langbest. 

Snemma á ferlinum var drifhlutföllum breytt og bætt við 5. gír, því að fyrstu árin var hávaðinn frá vél og driflínu ærandi á mikilli inngjöf eða fullum snúningi, en nú hefur þetta verið bætt. 

Síðuhafi hefur átt nokkra svona bíla og er efsta myndin hér að ofan af einum þeirra á leið í Herðubreiðarlindir, þar sem Friðþjófur Helgason er að taka myndir, en í mistrinu glyttir í Herðubreið. 

Flestir Nivajeppar virðast þjást af göllum, sem kalla má "pillerí", svo sem að það vanti rúðuupphalara, bensínpedala eða eitthvað svona smávægilegt, sem aldrei virðist það þó komið í veg fyrir að þessi naglar fari í gang í verstu veðrum og frostum. 

Enda hefur ekki frést af innköllunum vegna eins eða neins. 

Skemmtileg reynsluakstursmynd af kvikindinu á Youtube þar sem ökumaður fór vitlaust í vað yfir á svo að það flaut yfir framenda bílsins, en fljótlegt reyndist að kippa í hann og einfalt mál að þurrka hann, og starta honum, svo að hann malaði eins og köttur sem fyrri. 

Mátti heyra á kemmentakerfinu að sumir töldu þetta hafa selt fleiri Lödur en dýrustu auglýsingastofur. 

Af fenginni reynslu af ýktum dánarvottorðum skal forðast að spá Lada Niva löngu fyrirhuguðum dauða, þótt hart sé nú sótt fram í bílum með nýjustu rafaflstækni. 

Síðari helming framleiðsluára hans hefur hann haldið velli og búið að selja tvær milljónir eintaka af honum.  

Nei, Lada Niva Legend; sannkallaður Síberíu- og Íslandsnagli! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einu sinni var sagt að þegar eitthvað bilar í Lödu Sport, þá tekur maður það sem bilaði bara úr bílnum og heldur svo áfram að keyra.

Þetta var bæði sagt í gríni og alvöru.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2022 kl. 23:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sá bíll, sem ég átti lengst, var án bensínpedala allan tímann, sem hafði einhvern tíma dottið af teininum. Ég notaði teininn alla tíð vandræðalaust og steig á hann. 

Ómar Ragnarsson, 17.2.2022 kl. 00:54

3 identicon

Þú ert svo mikill faggi Ómar, en yndislegur faggi engu að síður. haha

Gubbi (IP-tala skráð) 17.2.2022 kl. 11:31

4 identicon

Takk fyrir góðan pistil um góða bíla. Ein smá leiðrétting samt. Þeir voru ekki með tannstangarstýri upprunalega. Má vera að þeir séu komnir með slíkt í dag, a.m.k. skilst mér að þeir séu komnir með vökvastýri, sem var þörf endurbót.

Kári Össurarson (IP-tala skráð) 17.2.2022 kl. 12:18

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ef Rússinn hefði haft sömu reglur og vestrænir bílaframleiðendur, hefði hvert einasta eintak af þessum bílum verið endurkallað.

Samt: hver kvartar?  Okkur vantar öll bíl með *minna* af tækni, ekki meira.  Tölvurnar eru langlflestar ekki bara óþarfi, heldur beinlínis pirrandi, ef ekki heftandi.

Ásgrímur Hartmannsson, 17.2.2022 kl. 16:24

6 Smámynd: Grímur Kjartansson

Flottur pistill.
Verst hvað hertu rússnesku stálboltanir voru teygjanlegir þannig að m.a. drifsköftin losnuðu stundum úr afturöxlinum 

Grímur Kjartansson, 17.2.2022 kl. 17:46

7 identicon

Sæll Ómar,

Athyglisvert að lesa um reynslu þína af Lada Sport (Lada Niva) Ég hef aðeins einu sinni ekið Lada jeppa og var sú ferð frekar dramatísk. Ég var á heimleið til Akureyrar frá Húsavík vorið "78. Þá var vegurinn að sjálfögðu ekki malbikaður heldur malarvegur. Ég var komin langleiðina til baka þegar ég er komin upp bratta brekku og ákveð að tékka á hraðanum, sem þá var 80 , ákveð að tylla í bremsurnar til að minnka hraðann  áður en haldið væri niður aftur því ég sé að leiðin niður er snarbrött og vegurinn lítið annað en djúpar holur. Neðst í brekkunni er svo einbreið brú með steyptum stólpum til beggja hliða. En þá er eins og við manninn mælt  að stýrið er eins og rifið úr höndunum á mér, vinstra framhjólið hafði lent í djúpri holu og höggið svo mikið að bíllinn snarsnýst til vinstri. Ég næ höndum aftur um stýrið og næ að rétta hann af rólega, en sé að ég get tæpast komið honum nægilega inná veginn aftur til að lenda rétt á brúnni (þ.e. án þess að beygja of skart og eiga á hættu að velta) Ég hugsa því um það eitt að halda bílnum beinum á vinstri kantinum (enginn að koma á móti) og vel að treysta því að Ladan sé nógu há til að ég geti farið á 2 hjólum yfir brúna, þ.e. hægri hjólin á brúnni , en þau vinstri í lausu lofti og vinstri brúarstólpinn undir bílnum miðjum. Þetta gekk eftir, ég þurfti bara að leggja á aðeins til hægri til að halda bílnum í jafnvægi á tveimur hjólum: mikið var ég fegin þegar yfir brúna var komið og vegurinn breikkaði aftur og ég heyrði vinstri hjólin skella á veginum!! En hvers vegna skyldi mér hafa dottið þetta í hug? Getur verið að ég hafi einhverntímann séð þig í sjónvarpinu leika þetta eftir Ómar? Ef svo er þá áttir þú sannerlega þátt í að bjarga lífi mínu þennan dag! Takk fyrir! Anna Málfríður

Anna M. Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.2.2022 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband