Þegar þjóðin uppgötvaði mannauðinn í öllum kimum þjóðfélagsins.

Þegar Lionsklúbburinn Ægir var stofnaður á sjötta áratug síðustu aldar fann klúbburinn sitt þjónustuverkefni í vistheimili Sesselju Sigmundsdóttur að Sólheimum í Grímsnei, sem hún hafði þá starfrækt af einstakri hugsjón um áratuga skeið. 

Klúbburinn stundaði fjáröflun sína á margan hátt, meðal annars með kútmagakvöldi í mars og rækti sambandið vel allan ársins hring, svo sem með því að standa með heimamönnum að litlu jólunum, sem þá voru haldin á jarðhæð eins hússins. 

Í hinni árlegu jólaferð austur, fór eitt fyrirbæri að verða að árlegum viðburði, en það var þegar einn vistmanna, Reynir Pétur Yngvason, sem var mikill áhugamaður frá unga aldri um göngur, kom gangandi á móti rútunni og fékk far með henni til baka. 

Eftir því sem Reynir Pétur stækkaði og efldists, færðist staðurinn, sem hann mætti rútunni æ fjær Sólheimum og árið 1985 var svo komið, að hann kom í rútuna í grennd við Þrastarlund. 

Í Lionsklúbbnum voru ýmsir hámenntaðir menn, og þegar umræðuefnið með Reyni Pétri sveigðist að áhugamálum hans, urðu þeir sem steini lostnir yfir einstæðum stærðfræðihæfileikum þessa unga manns, sem reyndust ljósárum ofar þekkingu og skilningi þeirra í bókstaflegum skilningi. 

Þegar komið var á það stig að leysa hugarreikningsþrautir rak Reynir Pétur þéssa menntamnn yfirleitt á gat.

Það lá ekki aðeins beint við að gera sjónvarpsþátt um þetta einstæða mál, hvað Reyni Pétur snerti, heldur var það beinlínis þjóðfélagsleg skylda fjölmiðilsins. 

Málið þróaðist upp í hugmynd um að Reynir Pétur gengi fjáröflunar- og kynningargöngu hringinn i kringum landið, og þegar þetta stórbrotna verkefni var síðan leyst af hendi um sumarið, endaði stækkandi gangan sem fjölmennur útifundur á Lækjartorgi. 

Helsta fjáröflunartakmerkið var að reisa sérstakt samkomu- og íþróttaleikhús á Sólheimum, og það varð að veruleika, auk margs annars. 

En mesti árangurinn fólst þó í því að með þessu var opnuð fyrir þjóðinni ný sýn á þann mannauð, sem falinn er í hinum ýmsu og oft ólíklegustu kimum þjóðfélagsins, samanber vísu Bólu-Hjálmars: 

 

Víða til þess vott ég fann, 

þótt venjist oftar hinu, 

að guð á margan gimstein þann, 

sem glóir í mannsorpinu.  


mbl.is Uppáhaldsstaður Eddu Björgvins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband