Spádómur að rætast.

"Finnska leiðin", að hafna stóriðjuframkvæmdum og efla framkvæmdir sem byggðu á mannauði, menntun, og hugviti dugði fyrir Finna fyrir 15 árum í hliðstæðum vandræðum og við erum í. Af spratt fyrirbæri sem fékk nafnið "finnska undrið."

Nú sér maður andstæðu þessa blasa við í frétt Fréttablaðsins um það að stækka eigi álverið í Helguvík úr fyrirhuguðum 240 þúsund tonnum upp í 360 þúsund tonn. Ég spáði fyrir um þetta og stækkun álversins á Bakka og var atyrtur fyrir á sínum tíma að tortryggja loforð um "hóflega stóriðju." 

Í Kárahnjúkabókinni spáði ég fyrir um það að eftir hina efnahagslegu svallveislu á kostnað afkomendanna yrðu húsgögnin brotin og brömluð og húsnæðið í rúst. 

Jafnvel þessi brotlending núna virðist ekki ætla að kenna mönnum neitt. Þeir segjast vera að skapa grundvöll atvinnu til framtíðar þótt borðliggjandi sé að þótt sex risaálver risu og tvær olíuhreinsistöðvar að auki, sem krefjsast myndu allrar orku landsins og eyðileggingu náttúruverðmæta, þá myndi innan við 3% af vinnuafli landsmanna fá atvinnu í álverunum. 

Þeir vilja ofnýta svo orku jarðhitasvæðanna á Reykjanesskaganum að hún verði sannanlega uppurin á nokkrum áratugum. Sú kynslóð sem þá verður uppi mun standa frammi fyrir að hafa enga orku handa bíla- og skipaflota landsmanna. 

Í stað þess að Ísland verði eina landið í heiminum sem getur verið algerlega óháð öðrum um hreina orku verða auðlindirnar nýttar fyrir stóriðju í eigu útlendinga og líklegast frá virkjunum í þeirra eigu líka.  

Ungt fólk mun flytja til þeirra landa sem bjóða upp á fjölbreytt störf sem krefjast menntunar og hæfileika. Það mun ekki kjósa vinnu í verksmiðjum á útnára heims þar sem í auglýsingum um störf í álverum er tiltekið að engrar sérstakrar menntunar sé þörf.

Reynslan frá jaðarbyggðum víða um heim sýnir fánýti þeirra stórkarlalausna sem nú á að bæta ofan á allt sukkið sem fyrir er.  


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvar sérðu í þessari frétt Ómar, að álverin á Bakka og í Helguvík vilji stækkun? Hvar verður 6. álverið og olíuhreinsunarstöð no. tvö?

Við megum þakka fyrir ef það rísa fleiri álver yfir höfuð, ef fram fer sem horfir með efnahagsþróunina í heiminum. Algert efnahagslegt hrun í veröldinni er þín eina von, Ómar minn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.10.2008 kl. 17:00

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þúsundir útlendinga hafa unnið hér í fiski undanfarin ár og því nóg af störfum fyrir ómenntaða Íslendinga hér í fiskvinnslu í flestum sjávarþorpum landsins.

Sjávarútvegurinn getur greitt fiskvinnslufólki hér hærri laun strax á næsta ári vegna gengisfalls krónunnar, sem hefur verið alltof hátt skráð fyrir sjávarútveginn og ferðaþjónustuna undanfarin ár, meðal annars vegna allrar þenslunnar, sem skapaðist hér út af hinum gríðarlegu framkvæmdum við Kárahnjúka.

Geti ómenntaðir Íslendingar ekki unnið í fiski geta þeir heldur ekki unnið í álveri.

Þorsteinn Briem, 31.10.2008 kl. 18:30

3 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Íslendingar hafa horft til Finna þegar niðurstöður PISA eru skoðaðar. Við viljum að nám barna okkar sé árangursríkt en samt ekki gera það sem gera þarf t.d. finnsku leiðina. Þeir efldu alla menntun hvort sem það voru vísindi eða listir. Þeir treystu sér ekki til að meta hvað kæmi sér vel í framtíðinni svo þeir styrktu allt.

Það er ástæðan fyrir því að ég átti Nokia stígvél þegar ég var lítill og Nokia síma þegar ég var orðinn stór.

Sigurður Haukur Gíslason, 31.10.2008 kl. 18:47

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur verið reynt að koma álveri í Þorlákshöfn á koppinn og enginn segir mér að þegar olíuhreinsistöð hefur risið í Hvestudal að annað komi ekki við Dýrafjörð með sömu rökum.

Hreinstöð í Hvestudal stimplar það inn fyrir umheiminum að Íslendingar séu tilbúnir til að taka við öllu því sem aðrar þjóðir vilja ekki hafa hjá sér: (Engin ný olíuhreinsistöð hefur verið reist á Vesturlöndum í tuttugu ár) .  

Allar spár mínar um hvert stefnir hafa ræst hingað til þrátt fyrir áköf andmæli þeirra sem hafa talið þær dylgjur einar og ýkjur.

Það er hins vegar ekki verra að nefna sex álver og tvær hreinsistöðvar vegna þess að jafnvel þótt þetta rísi allt er loka afraksturinn ekki meiri en innan við 3% af vinnuaflinu.  

Ómar Ragnarsson, 31.10.2008 kl. 20:40

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er búið að slá Bakka af..... í bili. Vertu ánægður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.10.2008 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband