Styttri fermingarathafnir.

Alltaf er jafn ánægjulegt að vera viðstaddur jákvæðar kirkjuathafnir með skírn, fermningu eða brúðkaup sem meginstef. Þetta átti við í morgun þegar bráðefnilegur og góður dóttursonur var fermdur.

Fermingarguðsþjónusturnar hafa þó þá sérstöðu að þar koma margfalt fleiri við sögu en í hinum tveimur og þar af leiðandi vilja þær verða miklu lengri.

18 fermingarbörn fermdust með dóttursyni mínum í dag og athöfnin stóð alls í hálfa aðra klukkustund. Lengsti kaflinn var þegar nær allir kirkjugestir gengu til altaris með fermingarbörnunum, tveimur og tveimur í einu.

Kirkjubekkir eru nokkurn veginn einu sætin sem boðið er upp á í íslenskum samkomuhúsum sem hægt er að líkja við pínubekki. Ég tel að fermingarathafnir gætu orðið ánægjulegri ef þær væru ekki svona óskaplega langar.

Þótt kannski sé lagt fyrir í einhverri helgisiðabók hve mörg atriði þurfi að vera í svona athöfn tel ég að vegna þessara sérstöku aðstæðna eigi að fækka þeim.

Í stað þess að nær allir kirkjugestir séuí raun nánast skikkaðir til að ganga til altaris ætti að láta ca  fjögur börn fara í einu með 2-4 aðstandendur með sér sem hámark.

Sé þetta gert verður það ekki eins áberandi þegar fermingarbarn á fáa aðstandendur að og barninu leiðist það.

Eftir það mætti bjóða þeim sem það vilja að ganga til altaris og held ég að þá myndu miklu færri nýta sér en þegar núverandi fyrirkomulag er í gildi.

Fermingarathafnir þurfa að vera aðlaðandi til þess að þær virki ekki fælandi á fermingarbörnin til framtíðar litið.

Þess vegna held ég að hægt sé að gera þær ánægjulegri með ofangreindum breytingum auk þess að skipta um sæti og losa okkur við pínubekkina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Vildi bara segja þér að í Neskirkju fermum við allt að 25 börn í sömu athöfn og tökum næstum alla til altaris þ.e.a.s 200-250 manns. Slík athöfn tekur 1 klst 17 mínútur og 14 sekúndur!

Bestu kveðjur,

Örn B

Örn Bárður Jónsson (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 21:29

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Neskirkju hlaupa menn til altaris, enda er kirkjan í mikilli sókn um þessar mundir.

Besta tímann hingað til á Davíð Oddsson.

Þorsteinn Briem, 5.4.2009 kl. 22:14

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta eru mun meiri afköst en þar sem ég var í morgun, Örn Bárður. Sú spurning vaknar þá hvort ferma eigi svona mörg fermingarbörn í einni og sömu athöfninni og hafa athafnirnar þá fleiri í staðinn.

En kannski eru helgarnar ekki nógu margar til þess að slíkt sé hægt.

Óska þér og þínum söfnuði alls hins besta og þakka þér fyrir þitt framlag til samfélagsins, ekki síst á þeim tíma þegar íslenskir ráðamenn gerðu sitt besta til að bregða fæti fyrir þá sem ekki voru þeim þóknanlegir.

Ómar Ragnarsson, 5.4.2009 kl. 22:36

4 identicon

Alltaf gott að heyra í baráttujöxlum eins og þér!

 Við fermum á laugardögum í Neskirkju og eftir hádegi á sunnudögum, samtals 5 fermingar hvert vor en við fermum ekki á hefðbundnum messutíma kl. 11 því þá koma fastatgestirnir til kirkju. Við viljum ekki trufla messutaktinn og taka áhættuna við að missa niður góða kirkjusókn.

Örn B

Örn Bárður Jónsson (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband