Mismunandi áhrif veikinda.

Þegar ofurlaun bankastjóra náðu hæstum hæðum á sínum tíma gaukaði ég því að gjaldkerunum í útibúinu sem ég skipti þá við en hefur nú verið lagt niður, hvort þær ca 70 til 80 konur sem önnuðust gjaldkerastörf ættu ekki að verða allar veikar í einu, þó ekki væri nema einn morgun.

Þær supu hveljur yfir þessari hugmynd og spurðu hvor ég væri með öllum mjalla. Tjónið af þessu yrði ógurlegt og ekkert svona kæmi að sjálfsögðu til greina. "Af hverju lætur þú þér detta svona lagað í hug?" spurði ein.

Ég sagði að það væri vegna þess þær hlytu að geta verið veikar hálfan dag án þess að nokkuð færi úrskeiðis úr því að bankastjórinn þeirra gæti verið veikur jafnvel nokkra daga án þess að nokkur viðskiptavinanna yrði þess var, en viðkomandi bankastjóri hefði laun á við 80 gjaldkera.

Ég held sagt að þær hafi orðið hugsi um stund yfir þessum samanburði.


mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróinn vinur.

Ég kynntist Eiði Guðnasyni fyrst í M.R. og það nokkuð vel þótt hann væri ári eldri og í bekk á undan mér því ég hafði næstum eins mikil samskipti við þann bekk og minn eigin. Strax tókst með okkur góð vinátta sem hefur enst æ síðan.

Leiðir okkar lágu aftur saman á fréttastofu Sjónvarpins þar sem Eiður var varafréttastjóri þangað til hann skellti sér í pólitíkina fyrir kosningarnar 1977. Um þau ár "svart-hvíta gengisins, sem stóðu í rúman áratug, hef ég reynt að tjá hug minn með textanum "Ó, þessi ár með þér", sem gerður var við lagið "Those were the days."

Á þessum tíma var Eiður í fararbroddi í fréttamennsku, sérlega öflugur, iðinn og vandaður fréttamaður. Hann varð snemma einkar snjall í fréttaferðum til útlanda og lagði þar grundvöll að ferli sínum á sviði stjórnmála og í utanríkisþjónustunni.

Eiður var afburða íslenskumaður, þótt enginn okkar kæmist þó jafnfætis fréttastjóranum okkar, Emil Björnssyni. Eiður fékk sérstök móðurmálsverðlaun að launum.

Eiður var umhverfisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og átti þar góðan feril. Hann getur litið ánægður yfir ævistarf sitt.

Við hjónin, Helga og ég sendum þeim Eiði og Eygló okkar bestu kveðjur.


mbl.is Eiður Guðnason hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar hnykla vöðvana.

Ef einhverjir hafa haldið að það áfall, sem alþjóðlega fjármálakreppan leiðir yfir Rússa eins og aðra, dragi úr getu þeirra eða áhuga til að beita sér í deilum þeirra við nágrannaþjóðirnar, sýna nýjustu atburðir annað.

Rússar munu hugsanlelga þvert á móti eflast í andstöðu sinni við áform NATÓ um uppbyggingu herbúnaðar við bæjardyr þeirra og sýna hvers þeir eru megnugir.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti ásakanir Rússa um vanskil Úkrainumanna eiga við rök að styðjast eða ásakanir um að Ukrainumenn steli gasi úr leiðslum í gegnum landið, en hvort sem það er rétt eða sýnir lokunin fyrir gasflutningana getu þeirra til að valda usla ef þeim býður svo við að horfa.

Þeir hnykla vöðvana um þessar mundir rétt eins og í Georgíu í fyrra.


mbl.is Ekkert gas til Evrópu um Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfa að losa sig við...

Framsóknarflokkurinn hefur alla sína tíð róið á miðju hægri-vinstri litrófsins og því átt að vera með mikið fylgi. Því miður hefur hann alla tíð hengt sig á málefni óréttlætis og spillingar sem hafa fælt frá.

Lengi vel var það hrópandi óréttlæti kjördæmaskipunarinnar sem flokkurinn barðist fyrir og smám saman einnig sjálftökustjórmál SÍS-veldisins í helmingaskiptum við Sjálfstæðisflokkinn.

Núna er þrennt sem gerir flokkinn óaðlaðandi.

1. Sjálftökustjórnmálaspillingin sem kristallaðist í einkavinavæðingu bankanna.

2. Stefna náttúruspjalla og stóriðju, alger andstæða stefnu Eysteins Jónssonar, forystumanns flokksins um miðbik síðustu aldar.

3. Frumkvæði og fylgispekt við verstu galla kvótakerfisins.

Ef unga fólkið í flokknum gerir ekki upp við þetta þrennt sé ég enga framtíð fyrir Framsóknarflokkinn. Hann rær á svipuð miðjumið 80% kjósenda og Samfylkingin, Frjálslyndir og Íslandshreyfiingin, auk þess stóra hluta sjálfstæðismanna sem vilja hóflegt fjálsræði og samfélagskennd í verki. Framsóknarflokkurinn hefur klemmst á milli og verður að rífa sig lausan frá þeim steinrunnu afturhalds- og sérgróðaöflum sem hafa ráðið flokknum síðari ár.


mbl.is Hiti á fundi framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bagaleg umferðarfrekja.

Þegar umferð um Kringlumýarbraut er mest á álagstímum bitnar hin íslenska frekja á þeim sem eru svo óheppnir að vera á beygjuakreinum inn á brautina. Þá er stanslaus bílastraumur allt frá Sæbraut og suður í Hafnarfjörð og bíll við bíl.

Við þessu er svo sem lítið að gera nema að þetta bitnar sérstaklega á bílunum sem ætla inn á Kringlumýrarbrautina því að bílstjórarnir sem eru á henni hrúgast inn á gatnamótin bíll við bíl, þótt þeir lendi þar á rauðu ljósi og sjái fyrirfram að svo muni fara. Þar með þeir nær alveg í veg fyrir að þeir sem koma til dæmis eftir Háaleitisbraut og ætla að beygja til suður komist lönd né strönd.

Mér er kunnugt að víða erlendis varðar það sektum að fara inn á gatnamót ef fyrirsjáanlegt er að þar verði menn innlyksa á rauðu ljósi og komi í veg fyrir að þeir sem koma frá hlið á grænu ljósi geti notfært sér það.

Dæmi um þetta eru mörg í umferðinni í borginni, til dæmis þegar bíll er við bíl á Laugavegi. Þá er bílum, sem ekið er eftir hliðargötum er meinað að fara yfir gatnamótin. Græðir þó enginn í bílaröð Laugavegarins á því að gefa ekki eftir örlítið bil á meðan hann bíður hvort eð er.

Það sem er fyndnast við þetta er það að þeir bílstjórar sem telja sig græða á því einn daginn að þjösnast svona áfram verða síðar fyrir barðinu á sams konar þjösnaskap annarra.

Í umferðarlögum er grein sem kveður á um skyldu bílstjóra til að haga akstri sínum þannig að það greiði sem mest fyrir umferð. Brot við þessu ætti að varða sektum ef í það færi eins og um aðrar greinar umferðarlaga.

Í fyrra fóru lögreglumenn einn dag og sektuðu menn fyrir að nota ekki stefnuljós.
Það mætti senda lögreglumenn oftar til að taka til hendinni, til dæmis við aðstæður eins og skapast víða á hverjum degi á fjölförnum gatnamótum, þó ekki væri til annars en að greiða fyrir eðlilegri, réttlátri og hagkvæmri umferð.


"Endurgreiða" fleiri?

Ekki var hægt að skilja annað á Bjarna Ármannssyni viðtalinu í Kastljósinu í kvöld en að hann hefði endurgreitt um það bil helminginn af því sem hann hagnaðist nettó á starfslokasamningi sínum hjá Glitni. Það þýðir þá væntanlega að hann haldi öðrum 370 milljónum eftir. Margir myndu telja sig vera á ofurkjörum með slíkt.

Talað er um að í fjármálageiranum séu það um það bil þrjátíu manns sem beri mesta ábyrgð á hruninu.

Ummæli Bjarna vekja ýmsar spurningar:

1. Er það hæfileg og sanngjörn niðurstaða að hann, sem einn af þrjátíumenningunum, haldi svo miklu eftir á sama tíma og margir, sem ekki báru ábyrgð, hafa misst allt sitt eða lepja dauðann úr skel vegna hrunsins?

2. Aðalspurningin. Eru fleiri sem ætla að "endurgreiða" ef þeir halda umtalsverðum fjárhæðum eftir? Kannski engir aðrir?

3. Þarf að bíða eftir því hvernig fari fyrir ýmsum áður en spurningu númer 2 verði svarað? Björgólfur Guðmundsson sagði til dæmis í Kastljósviðtali að hann vissi ekki hvernig honum myndi á endanum reiða af.

4. Hvað um sérstaka ábyrgð Framsóknarflokksins? Aftur og aftur er komið að kosningaloforði Framsóknarflokksins 2003 um 90% húsnæðislán sem færði honum rúmlega 18% atkvæða. Bjarni Ármannsson lýsti því vel í viðtalinu í kvöld hvernig "hjarðeðli" og samkeppnisvilji á markaðnum ollu því að allir töldu sig þurfa að fara af stað í kapphlaup með hugarfari sem síðan vatt upp á sig og smitaði inn í alla vitleysuna sem af þessu spannst.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnugleg sundurþykkjustef.

Gamalkunnug sundurþykkisstef má nú heyra hjá stjórnarflokkunum, ekki ósvipuð þeim sem heyrðust á síðustu mánuðum fyrri ríkisstjórna sem voru að liðast í sundur. Æ fleiri ráðherrar og þingmenn deila á samstarfsflokkinn og er orðræðan um að flýta kosningum gott dæmi um það.

Í fyrstu voru það aðeins tveir ráðherrar, Björgvin Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem töluðu um slíkt, en nú hefur Ingibjörg Sólrún gefið veiðileyfi á málið og egnt ýmsa Sjálfstæðismenn til andsvara.

Það getur verið kostur fyrir ríkisstjórn að hafa mikinn þingmeirihluta en gallinn er hins vegar sá að meiri hætta er á svona sundurþykkju í slíkum tilfellum vegna þess að hver einstaklingur um sig, sem fer út af línunni, telur sig geta gert það í krafti þess að þar sé ekki um úrslitaatriði að ræða.

Dæmi um hið gagnstæða eru reyndar mörg, eins og hjá ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen þegar Guðrún Helgadóttir fór sínar eigin leiðir í Gervasoni-málinu og stjórnin hékk á bláþræði. En þá eru málin afmarkaðri, eðli málsins samkvæmt.

Geir H. Haarde hefur stjórnarumboðið og getur fræðilega séð veifað Framsóknarflokknum framan í Samfylkinguna.

Æ meiri órói ríkir innan Samfylkingarinnar vegna stöðunnar og spurning er hvað ægivald Ingibjargar Sólrúnar nær langt. Sagt er að hún stjórni sínum flokki með harðri hendi og sé kvenkyns Davíð Oddsson í því efni.

Úr skoðanakönnunum má lesa að meirihluti samfylkingarfólks sé óánægður með stjórnarsamstarfið og vilji leita sem flestra leiða út úr því. Formaðurinn hefur gefið í skyn að ástæðurnar gætu verið margar en verið sé að leita að einhverri haldbærari ástæðu til stjórnarslita en ESB-málinu.

Ég man varla eftir hliðstæðum ummælum annars af tveimur oddvitum ríkisstjórnar.

Geir heldur fast í Davíð og Ingibjörg virðist ekki bera utanríkisstefnuna í málefnum Ísraelsmanna undir Geir heldur reka eigin utanríkisstefnu, líkt og Steingrímur Hermannsson gerði í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.

Fjórum mánuðum eftir að Steingrímur hitti Arafat sprakk sú stjórn. Hvað eigum við að gefa þessari ríkisstjórn langan tíma?


Britannica nútímans.

Nú eru 45 ár síðan maður lagði í það átak að kaupa Alfræðiorðabókina Britannicu og hefur hún að vísu dugað furðu vel síðan, en margt í henni þó orðið úrelt með tímanum. Einn af fjölmörgum kostum netsins er sá frábæri möguleiki að geta flett öllum fjandanum upp og kynnst sér alla mögulega og ómögulega huti.

Wikipedia getur líka átt þátt í því að hamla gegn fordómum, sleggjudómum og skaðlegrar fáfræði.

Gildi Wikipediu sem ódýrrar og aðgengilegrar uppsprettu þekkingar er ómetanlegt og því eru það góðar fréttir að þetta sívaxandi alfræðirit standist áhlaup fjármálakreppunnar.


mbl.is Wikipedia festir sig í sessi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður Björns ekki alveg raunhæfur.

Þegar Framsóknarmenn hlupu úr stjórnarsamstarfi í mars 1956 var það vegna nýfenginnar samstöðu þeirra með vinstri flokkunum um utanríkisstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn gat alls ekki samþykkt. Skilin urðu skýr.

Þannig er það ekki nú, hvað sem verður eftir landsfund Sjálfstæðismanna. VG og Samfylkingin eru ósammála um það hvort ganga eigi í ESB. Það getur ekki myndast samstaða í því efni milli þessarra tveggja flokka. Það eru jafnvel meiri líkur á því að samstaða myndist með Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni um þetta ef sú stefna verður ofaná á landsfundi hinna fyrrnefndu.

Útspil Geirs um að þjóðaratkvæðagreiðsla um að aðildarumsókn komi til greina setur Sjálfstæðisflokkinn í því efni á sama stað í umræðunni og VG sem líka hefur gefið grænt ljós á það. Engin slík samstaða um að herinn færi úr landi eða þjóðaratkvæðagreiðlsu um það hefði komið til greina af hálfu Sjálfstæðismanna 1956.

Ég tel önnur rök hins vegar hníga að svipaðri niðurstöðu minni og Björns varðandi það að Samfylkingin leitar leiða út úr stjórnarsamstarfinu til að reyna að halda í skoðanakannanafylgið áður en það dalar. Með því að spyrða alþingiskosningar við þjóðaratkvæðagreiðslu færir Ingibjörg sig nær VG.

En alþingiskosningar eru ekki það sama og fyrirfram gefin afstaða í utanríkismálum eins og bandalag vinstri flokkanna á Alþingi var í mars 1956.

Tillaga Ingibjargar um Alþingiskosningar samhliða þjóðaratkvæði um aðildarumsókn sýnist vera útsmogin aðferð til að friða óánægjulið í Samfylkingunni og koma að vissu leyti með þessa yfirlýsingu í bakið á Geir, eftir að hafa lokkað hann til að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að því leyti til virðast undirmál þessara viðburða vera hliðstæð og í aðdraganda stjórnarslita 1956 þegar sagt var að Hermann Jónasson hafi bruggað sín leyniráð með Finnboga Rúti Valdimarssyni annars vegar og Gylfa Þ. Gíslasyni hins vegar.


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka Björk, Vigdís og Helgi.

Ég hef áður sagt frá styttunni af "Hjallis" á gangstétt á götu einni í Þrándheimi og það hve skemmtilegan svip hún setur á borgina. Skautahlauparinn Hjalmar Andersen var frægasti afreksmaðurinn á Vetrarólympíuleikunum 1952.

Hann er í skautahlauparastellingum á gangstéttinni og Albert á auðvitað að vera í hinni frægu stellingu sinni sem franskur blaðaljósmyndari fangaði hann í á blaðamannafundi.

Ég sé fyrir mér styttu af Vigdísi hvítklæddri við Tjörnina, Björk í svanakjólnum og Helga Tómsson í ballettdansarastellingu við Þjóðleikhúsið. Allt heimsfrægir Íslendingar rétt eins og Hjallis var heimsfrægur Þrándheimsbúi.  

 


mbl.is Stytta af Alberti rís á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband