Hvaðan og hvernig á að fá viðbótarorkuna?

Nú liggur fyrir að álverið í Helguvík verði 120 þúsund tonnum stærra en búið var að lofa í upphafi að það yrði. Jafnvel þá var erfitt að sjá hvernig ætti að tryggja orkuna nema að slátra öllum háhitasvæðum Reykjanesskagans og ofnýta þau jafnframt svo skefjalaust að orkan yrði uppurin á þeim flestum eftir 50 ár.

Jafnframt virtist ljóst að Neðri-Þjórsá yrði fórnað fyrir álverið. Enginn virðist hafa reiknað orkudæmið til enda þannig að hagsmundir kynslóða framtíðarinnar yrðu ekki fyrir borð bornir.

2002 var því lofað að ekki yrði um þensluhvetjandi virkjanaframkvæmdir að ræða á Suðvesturlandi á meðan Kárahnjúkavirkjun væri í byggingu.

Það var svikið umsvifalaust en lofað að viðbótar stóriðja á Suðvesturhorninu yrði "hófleg." Álverið í Helguvík aðeins 240 þúsund tonn og aðeins helmingurinn af því byggður til að byrja með.

Það var svikið og allur gangur þessa mála hefur verið í svipaða lund og virðist eiga að verða áfram.


mbl.is Helguvík í gang 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múrar og máttur.

Sovétmenn réðu lögum og lofum í Austur-Evrópu í 44 ár. Þremur árum áður en stórveldin ákváðu að afhenda Ísraelsmönnum land til umráða í Palestínu höfðu leiðtogar vesturveldanna samþykkt að Austur-Evrópa yrði "áhrifasvæði" Stalíns.

1947 hafði þegar verið reist það sem Churchill kallaði í Fulton-ræðu sinni "Járntjald" í um þvera Evrópu og 1961 var reistur múr í Berlín til að loka þjóðir Austur-Evrópu inni í kúgunarkerfi kommúnismans sem byggðist á yfirburða hervaldi Sovétríkjanna á meginlandinu.

Sovétmenn réðust með her inn í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968 og börðu andspyrnu niður í blóði, þvinguðu pólska herinn til að stöðva andspyrnu Samstöðu með hervaldi og beittu hernum miskunnarlaust til að berja niður mótmæli í Austur-Berlín 17. júní 1953.

Innrás Ísraelsmanna á Gaza er af sama meiði og innrásir Sovétmanna á sinni tíð. Alla mótspyrnu skal berja niður miskunnarlaust.

Gamla orðtakið "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" sem manni þótti svo sem nógu grimmdarlegt þegar maður lærði um það í gaggó er nú útfært í nýjum hlutföllum: "þúsund augu fyrir auga og þúsund tennur fyrir tönn."

Eins og í Berlín hefur verið reistur múr í Palestínu til að loka hina undirokuðu af og hugarfarið er hið sama og með aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans í Suður-Afríku á sínum tíma.

Sovétríkin fóru sínu fram í krafti þess að vera kjarnorkuveldi og sama gera Ísraelsmenn. Þeirra er ríkið og mátturinn en svo sannarlega ekki dýrðin.


mbl.is Landher Ísraels inn á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Gerðum í Garði? Nei, í Reykjavík !

Fyrirsögn í frétt á mbl.is um byssumann í Gerðunum er ruglingsleg og bara til að rugla menn í ríminu og fara að halda að byssumaðurinn hafi verið í Gerðum í Garði.

Þegar fréttin er lesin sést að þessi Gerði eru í Reykjavík, en síðan umrætt hverfi var reist fyrir rúmri hálfri öld hefur það gengið undir nafninu Smáíbúðahverfi.

Ég bloggaði nýlega um vankunnáttu og rugl í meðferð fólks á örnefnum utan Reykjavíkur en nú hefur leikurinn borist inn í borgina.


Ingibjörg að reyna að koma ár sinni strax fyrir borð.

Ingibjörg Sólrún er ekki aðeins að sýna viðleitni til að lesa þjóðarpúlsinn með yfirlýsingu sinni um æskilegar lþingiskosningar samhliða kosningum um aðildarumsókn að ESB, heldur líka að koma því til leiðar að óánægjan með frammistöðu ráðamanna á liðnu ári skili lykilaðstöðu fyrir Samfylkinguna í kosningum áður á meðan hún mælist með ótrúlega gott fylgi, miðað við ábyrgð hennar á hruninu.

Meðan núverandi staða er á Alþingi hefur Sjálfstæðisflokkurinn það uppi í erminni að geta myndað meirihluta með Framsóknarflokknum alveg eins og í borgarstjórn. Það yrði að vísu erfitt fyrir flokka sem hafa núna aðeins 32% fylgi samanlagt samkvæmt skoðanakönnum, en það er svosem lítið verra en að vera í núverandi stjórn með 36% stuðning þótt samanlagður stuðningur við ríkisstjórnina mælist rúmlega 50%.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki treyst á stjórnarmyndun með VG, jafnvel þótt báðir flokkarnir legðust gegn aðildarumsókn að ESB, vegna þess að með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn myndi VG skjóta sig í báða fætur eftir alla gagnrýnina á hlut Sjálfstæðisflokksins í hruninu.

Mig grunar að þeir Ögmundur og Össur hafi hugsanlega rætt þetta á einkafundi sínum á dögunum. Ögmundur varð fyrstur innan VG til að nefna þann möguleika að kjósa sérstaklega um það hvort sækja eigi um aðild að ESB.

Vek síðan athygli á niðurstöðum Þjóðarpúls Gallups í bloggpistli mínum hér á undan, sem ekki hafa verið að fullu birtar enn í fjölmiðlum.


mbl.is Alþingiskosningar samhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandshreyfingin með tæp 4%.

Það er svolítið sérkennilegt að þurfa að segja frá ofangreindu í bloggpistli en ef ég geri það ekki er aldrei að vita nema að þetta muni ekki vitnast.

Í fréttum útvarps og Morgublaðsins fyrr í dag var ekki sagt frá ofangreindri staðreynd sem ég fékk að vita um eftir áreiðanlegum heimildum, - en á vefsíðunni gallup.is. er ekki hægt að finna niðurstöður Þjóðarpúlsins og þetta er því enn falið fyrir þjóðinni.

Mælist fylgi Íslandshreyfingarinnar þó í annað skiptið í röð svipað og fylgi Frjálslynda flokksins sem hefur miklu betri aðstöðu en Íslandshreyfingin til að koma sínum sjónarmiðum. Og greint var frá fylgi Frjálslynda flokksins í útvarpsfréttum í hádeginu.

Vildi bara láta vita af þessu með svipuðum orðum og frægur rithöfundur viðhafði um andlátsfregn sína: Fréttirnar af andláti Íslandshreyfingarinnar eru stórlega ýktar.

P.S. Heyrði nú rétt í þessu fréttir Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Sagt var frá fylgi Frjálslyndra en ekk okkar. Samkvæmt því stefnir í að fjölmiðlarnir þegi fylgi okkar í hel.

P.S. Visir.is hefur verið með sams konar fréttaflutning í dag en mér skilst að nú (kl. 19:00) standi til að lagfæra þetta þar.

P.S. klukkan 19:10. Rétt skal vera rétt. Á súluriti frétta Sjónvarpsins mátti sjá staðfestingu á fyrirsögn þessa pistils.

P. S. Nú kemur í ljós að visir.is hefur ekki breytt frétt sinni heldur stendur við það að Íslandshreyfingin hafi ekki fengið neitt fylgi.


mbl.is Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 36% kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlar "kristalnætur" á Íslandi ?

"Kristalnóttin" svonefnda 1938 í Þýskalandi þegar nasistar réðust á verslanir og synagogur Gyðinga og brutu þær og brömluðu var frægur og illræmdur viðburður í aðdraganda Helfararinnar. Nóttin fékk nafn sitt af öllum gler- og postulínsvörunum sem eyðilagðar voru ásamt listaverkum í synagogunum og margs kyns verðmæti öðru.

21 gyðingur var drepinn og milli 25-30 þúsund hnepptir í fangabúðir.

Á atburðunum á Vesturgötu og Kristalsnóttinni er auðvitað gríðarlegur stigsmunur en vafasamara er um það hvort að öllu leyti sé um eðlismun sé að ræða. Það vekur áhyggjur. Vonandi stigmagnast þetta ekki.


mbl.is Ráðist gegn Nornabúðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf meiri hlýnun?

Ýmsir bloggarar hafa dregið í efa að hnattræn hlýnun sé í gangi og týnt til hvaðeina sem gæti gagnast þeim í þeim málflutningi. Engu hefur skipt þótt minnkun hafíss í Norður-Íshafinu hafi farið langt fram úr því sem spáð var, en það eitt ætti að hringja bjöllum um það sem er að gerast.

Stykkishólmur er sú veðurstöð sem hefur þá sérstöðu hér á landi að hafa verið starfrækt lengst og hún hefur líka þann kost að hún er nokkurn veginn á miðri hnattstöðu landsins.

Þar mældist árið 2008 það 14. hlýjasta af þeim 163 árum sem mælingar hafa staðið þar samfleytt.

En kannski er hlýnunin síðustu 13 ár ekki nóg fyrir efasemdarmenn. Kannski þarf meiri hlýnun og minnkun jökla til þess.


mbl.is Hitinn yfir meðallagi árið 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um smá prófstein.

"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið og það er af hinu góða forseti vor talar um aukið lýðræði og þjóðarátak til endurreisnar á öllum sviðum. Einnig um möguleikana sem einstæð náttúra landsins gefur þjóðinni.

Forsætisráðherra minntist loksins í ræðu sinni í gærkvöldi á að mistök hefðu verið gerð.

Þegar hann ræddi um að skapa þurfti "raunveruleg verðmæti" minntist hann í fyrsta skipti ekki aðeins á verksmiðjur eins og venja hans hefur verið heldur líka á þjónustu, ferðaþjónustu og þekkinariðnað.

En orð eru til lítils ef ekki fylgja efndir. Íslandshreyfingin -lifandi land hefur lagt til breytingar á kosningalögum til þessl að aflétta því ástandi að meirihluti þingmanna sé í svonefndum "örugggum sætum" í kosningum.

Ég minntist á það þegar rætt var við mig í mótmælahring umhverfis Alþingishúsið í haust hve auðvelt væri að breyta kosningalögum í þessa veru og afnema þröskuld fylgis sem meinar framboðum að fá þingfylgi í samræmi kjörfylgi.

Án þess að hrófla við stjórnarskrá væri hægt að koma því svo fyrir að enginn kæmist á þing nema kjósendur krossuðu sérstaklega við nafn hans á kjörseðlinum eða raðaði beint í kjörklefanum á listann.

Hugsa má sér að flokkarnir hefðu aðeins það vald að raða listum sínum upp, kjósendum til glöggvunar, og einnig að vægi þeirrar röðunar væri eitthvað en þó ekki það mikið að núverandi ástand flokksræðisins héldi velli, heldur hefði beint persónuval kjósenda úrslitavald.

Engir aðrir flokkar hafa minnst á þetta mál sem myndi vafalaust, væri það tekið upp nú þegar, minnka vantraust fólks á þingi og stjórn. Ég tel það prófstein á raunverulegan lýðræðisvilja hvort eitthvað í þessa veru verði gert.

Ef við engu verður hróflað er lýðræðishjalið aðeins orðin tóm.


mbl.is Þjóðarátak nýrrar sóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setningar ársins.

"Ekkert smá gott veður", sagði eitt af barnabörnum mínum á miðnætti þegar flugeldadýrð borgarinnar blasti betur við en um nokkur önnur áramót í fjölmörg ár. Ég dundaði við það á gamlárskvöld að reyna að raða upp ummælum ársins 2008 sem voru skrautlegri en líklega eru dæmi um á einu ári á síðari tímum.
Hér kemur niðurtalning:

6. "Staða bankanna og fjárhagur þjóðarinnar eru traust og eiga að þola áhlaup..."
Geir Haarde forsætisráðherra í viðtali um hættuna á bankahrauni vorið 2008.

5. "Þið eruð ekki fólkið..."
Nokkurn veginn það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði í öllu lengri setningu við hátt á
annað þúsund fundarmenn á borgarfundi í Háskólabíói.

4. "Sjáið þið ekki veisluna, drengir!"
Árni Mathiesen fjármálaráðherra í andsvari við gagnrýni stjórnarandstæðinga á andvaraleysi og ótraustri stöðu
þjóðarbúsins í apríl 2008.

3. "Gas! Gas!
Lögreglumaður í gasárás á mótmælendur við Rauðavatn.
Verður varla styttra og fyrir bragðið miklu sterkara, ekki hvað síst við að sjá og heyra þetta í ógleymanlegri
nærmynd Guðmundar Bergkvists, kvikmyndatökumanns hjá Sjónvarpinu, sem tók áhættuna á því að verða
sjálfur fyrir gasárásinni. Fréttamynd ársins.
Ummælin stækka enn meira við það að árið kvaddi með sömu öskrunum í átökum lögreglu og mótmælenda við
Hótel Borg.

2. "Guð blessi Ísland."
Lokaorð Geirs H. Haarde forsætisráðherra í ávarpi til þjóðarinnar vegna neyðarlaganna.
Ekki vanþörf á að segja eitthvað óvenjulegt og sterkt í lok slíks ávarps.
Samt eitthvað svo innilega amerískt samanber síendurtekin ummæli bandarískra ráðamanna "God bless
America."

1. "Við borgum ekki..."
Davíð Oddsson seðlabankastjóri í frægu kastljósviðtali.
Líklega hafa engin íslensk ummæli ratað í eins marga fréttatíma sjónvarpsstöða heimsins né haft meiri áhrif á
álit lands og þjóðar erlendis.
Ég held ekki að Davíð hafi gert sér neina grein fyrir því að hann var ekki aðeins að ræða í góðu tómi við
tiltölulega fáa uppi á útskeri niður í höfum, heldur voru ummælin send beint út á netinu um allan heim og búið
að þýða þau á erlend tungumál í sendiráðum, ráðuneytum, fyrirtækjum og fjölmiðlum á innan við hálftíma.
Vegna tímamismunar fór útsendingin í loftið í Bandaríkjum frá hádegi til klukkan fjögur og hljómaði því á
sjónvarpsstöðvunum mestallan daginn.
Íslensk stjórnvöld eru enn að glíma við þann draug sem ummæli Davíðs beindust að.

Áramótaávarp Geirs H. Haarde forsætisráðherra var ein best samsetta ræða sem ég man eftir við slíkt tækifæri og einlægur og tilgerðarlaus flutningur spillti ekki fyrir.

Þetta segi ég sem gamall leikhúsmaður, fjölmiðlamaður og þjóðfélagsþegn sem þarf á því að halda að komið sé hreint fram með skýrum málflutningi þegar tekist er á um álitamál.

Mér fannst hvergi orði ofaukið og ræðan "ríghélt" eins og það er oft orðað.

Staða Geirs er erfiðari en dæmi eru um fyrir mann í hans stöðu í langan tíma og því mikilsvert fyrir bæði hann og gagnrýnendur hans að hann skilgreini stöðu sína og sjónarmið á eins skillmerkilegan hátt og unnt er.

Kafli ræðunnar fjallaði um það að traust yrði að ríkja milli þjóðarinnar og þeirra sem með mál hennar fara.

Þar kom Geir að höfuðatriði málsins.

Þetta traust ríkir því miður ekki nú og þeir menn eru kallaðir til ábyrgðar, sem hana eiga að bera.

Geir lofaði rannsókn en loforðin ein duga ekki, þessi mál verður að gera upp til fulls.

Því lengur sem einarðleg, óháð og undanbragðalaus úttekt verður gerð á því sem gerðist fyrir bankahrunið, í því og eftir það, því lengur sem það dregst að menn axli ábyrgð og taki afleiðingum gjörða sinna og mistaka, því minni líkur eru á að forsætisráðherra geti brúað gjána á milli ráðamanna og tugþúsunda fólks, sem engan þátt átti í byggingu spilaborgarinnar sem hrundi yfir það.

Við skulum vona að árið 2009 skili okkur áfram á leið til nýs og betra þjóðfélags með alvöru umbótum.

Gleðilegt ár!


mbl.is Gleðilegt nýtt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...eyland í orkukerfinu..."

"Kárahnjúkavirkjun er í raun eyland í raforkukerfinu..."segir í langri upptalningu lögfræðings Landsvirkjunar um það hve erfið og áhættusöm framkvæmd hún sé.

Þessi makalausa greinargerð var send þeim landeigendum sem héldu að þeir gætu orðið milljarðamæringar vegna dýrmætra vatnsréttinda.

Löng upptalning vankanta virkjunarinn var send landeigendunum til þess að þeir sæu að allir þessir ágallar "rýrðu meðal annars gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka" eins og það var orðað til þess að koma landeigendunum niður á jörðina.

Jafnvel hinir bjartsýnilegu útreikningar á arðsemi stóðust ekki kröfur sem einkafyrirtæki gera og því varð með margvíslegum ívilnunum og ríkisábyrgð að koma "áhættusamri jaðarframkvæmd" á koppinn eins og hún er kölluð í greinargerð lögfræðings Landsvirkjunar.

Þess vegna var ekki hægt að gera ráð fyrir dýrri tengingu virkjunarinnar við raforkukerfi landsins heldur er treyst á að ekkert fari úrskeiðis í virkjuninni.

Í upphaflegum áætlunum um virkjunina var gert ráð fyrir 500 gígalítra miðlunarlóni á Eyjabökkum, og þá var hægt að fá þaðan vatn eftir göngum þaðan niður í Fljótsdal ef gera þyrfti við leka í göngunum frá Kárahnjúkum, til dæmis í sprungunni stóru fyrir sunnan Þrælahús.

Í staðinn eru nú aðeins tiltölulega smá miðlunarlón við Eyjabakka sem að vetrarlagi myndu tæmast það fljótt meðan á viðgerð stæði að hún yrði jafnvel óframkvæmanleg nema að taka það mikið rafmagn af álverinu að þar yrði mikið tjón.


mbl.is Bilun í Kárahnjúkavirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband