Síðustu fjörbrotin í Kastljósinu.

Það vakti athygli mína hvað Ágúst Ólafur Ágústsson var uppspenntur og ákafur í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar þrætti hann meðal annars fyrir það að hann hefði hvað eftir annað verið settur út í kuldann af Ingibjörgu Sólrúnu.

Hún byrjaði með því að gera hann ekki að ráðherra og síðan hélt þetta áfram og birtist best og sjáanlegast í lokaviðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn þegar formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu á fundinn en Ingibjörg var studd af Össuri svila sínum inn til viðræðnanna og Ágúst Ólafur var víðs fjarri.

Nú kemur í ljós að það voru síðustu pólitísku fjörbrot hans sem birtust okkur í Kastljósinu. Hann hafði alltaf átt undir högg að sækja eftir eftirminnilega kosningu sem varaformaður á landsfundi flokksins sem Halldór Blöndal lýsti þannig að hann hefði fengið 900 atkvæði á 600 manna fundi.

Ágústi Ólafi tókst aldri að sanna sig sem varaformaður enda virtist flest gert til þess að hindra hann í því. 


mbl.is Ágúst Ólafur hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báðir stjórnarflokkarnir brugðust.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bera bæði ábyrgð á því sem aflaga hefur farið í stjórn landsins síðan þessi flokkar mynduðu ríkisstjórn í júní 2007 þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé sýnu meiri.

Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þessa ríkisstjórn sem stærsti flokkur þjóðarinnar og hélt fast í það valdakerfi og þá stefnu sem flokkurinn hefur fylgt í 17 ára slímsetu sinni á valdastólum og fólst í sjálftöku- og oftökustjórnmálum og blindri trú á villt frelsi í fjármálum. 

Sú stjórn, sem nú virðist í burðarliðnum, hefði átt að vera mynduð eftir kosningarnar 2007 í kjölfar þess að þáverandi stjórnarflokkar í heild töpuðu fylgi og að í raun var þá orðið löngu tímabært að gefa Sjálfstæðisflokknum frí eftir allt of langa stjórnarsetu. 

Ég benti á oddaaðstöðu Framsóknarflokksins í Sjónvarpsumræðum kvöldið eftir kosningar en þáverandi forysta Framsóknarflokksins var ráðvillt og ekki hafði orðið sú brýna endurnýjun sem nú hefur komist á þar á bæ.

Samfylkingin brást með því að selja Fagra Ísland fyrir baunadisk og standa að því með Sjálfstæðisflokknum að viðhalda þeirri sjálfgræðistefnu spillingarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk að ástunda áfram óáreittur í skjóli Samfylkingarinnar. 

Samfylkingin flaut að feigðarósi í stjórnarsamstarfinu í ljúfu faðmlagi við þá sem hún hafði áður kallað höfuðandstæðinga sína og viðskiptaráðherra hennar axlaði fyrstur ábyrgð.

Nú kemur í ljós að í raun var hann einn um það. Hinir ráðherrarnir munu hins væntanlega sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Ég bloggaði nýlega um þrá Samfylkingarinnar til að vera "stjórntæk" og hefur birst í því að vera reiðubúin til að snúast eins og vindhanar í grundavallamálum eins og Kárahnjúkamálinu.

Það er rétt hjá Geir að Samfylkingin hefur hangið á því lími sem Ingibjörg Sólrún hefur verið, en rétt eins og 1979 notaði sundurleit grasrót flokksins tækifærið þegar formaðurinn var fjarri til að gera uppreisn. Samfylkikngin var þá ekki stjórntækari en það að formaðurinn mátti ekki bregða sér af bæ án þess að allt færi í háaloft.  

Og líklega er það rétt hjá báðum formönnunum þegar þeir lýsa óeiningu innan fyrrverandi samstarfsflokks. Davíð stóð eins og biti í hálsi Sjálfstæðismanna og það og fleira tafði fyrir því að þeir gætu tekið á ýmsum málum og leyst deiluefni flokkanna. 


mbl.is „Samfylkingin bugaðist"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta ábyrgðin lá ofar.

Það er áreiðanlega rétt hjá Jóni Sigurðssyni að ábyrgðin á bankahruninu lá í meginatriðum hjá þeim sem lögðu línurnar, höfðu forráð á afli stofnana og settu löggjöfina. Gallað regluverk og andvaraleysi ollu því að bankakerfið gat vaxið stjórnlaust án þess að eftirlitsstofnanir væru efldar. 

Röng stefna Seðlabankans og kynding undir þensluna af völdum stjórnvalda olli því að krónan var allt of hátt skráð, þjóðinni boðið upp á skefjalausa skuldasöfnun og erlendum fjárfestum leyft að hengja það Daemoklesarsverð upp yfir þjóðina sem Jöklabréfin eru. 

Ekkert var gert til að efna gjaldeyrisvaraforðann meðan það var hægt, og þegar loks var reynt að bregðast við var það um seinan. 

Þess vegna er það með ólíkindum eftir að ríkisstjórnin sagði af sér og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins voru látnir taka pokann sinn skuli stjórnendur Seðlabankans vera þeir einu sem enn sitja. 

En það verður vonandi ekki mikið lengur. Þegar þeir eru farnir hafa öll slagorðin af Austurvelli haft áhrif: 1. Við viljum ríkisstjórnina burt. 2. Við viljum stjórn Seðlabankans burt. 3. Við viljum stjórn Fjármálaeftirlitsins burt. 4. Við viljum kosningar.

Segi menn svo að mótmæli utan þings hafi ekki áhrif.  


mbl.is Fjármálaráðuneyti of svifaseint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar á kosningalögunum.

Atli Gíslason þingmaður í Suðurkjördæmi sagði á borgarafundi í kvöld að VG myndi í ríkisstjórn beita sér fyrir breytingum á kosningalögum að minnsta kosti að því leyti að afnema þann ósanngjarna þröskuld á atkvæðismagn sem samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi Gallup hefði svipt 16 þúsund kjósendur rétti til fulltrúa á þingi.

Þetta eru næstum því eins margir kjósendur og voru samtals í Norðvesturkjördæmi og ekki myndu menn una því að heilt kjördæmi fengi engan þingmann. 

Viku eftir að ég ræddi persónukjör og afnám þröskulds í Moggagrein tók Steingrímur J. Sigfússon í svipaðan streng í grein í blaðinu.

Komið hefur fram að Samfylkingin vilji hvort eð er breyta stjórnarskránni vegna ESB málsins og ætti þá að vera hægur leikur í leiðinni að lagfæra kosningalögin, sem ekki eru hluti af stjórnarskránni. 

Og nú er að sjá hvort ráðamenn VG standa á skoðun sinni í væntanlegri stjórn.


mbl.is Ekki verið samið um neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1979 og 2009.

Það kemur í ljós sem ég ræddi um í bloggpistli eftir fund Samfylkingarfélagsins í Reykjavík að hann væri nákvæmlega sams konar fundur og yrði líklega með sömu afleiðingum og fundur krata í Reykjavík fyrir stjórnarslitin haustið 1979.

Í bæði skiptin var formaður kratanna erlendis og órólega deildin fór þá svo sannarlega á kreik og skóp atburðarás sem ekki var hægt að snúa við.


mbl.is Baksvið: Þingvallastjórnina þraut örendið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórnarhugmynd Davíðs.

Steingrímur J. Sigfússon minntist á það áðan hverju það hefði hugsanlega breytt ef skipuð hefði verið þjóðstjórn strax í haust. Þá orðaði Davíð Oddsson þessa hugmynd en fékk fyrir það ákúrur hjá Þorgerði Katrínu og fleirum.

ÞJóðstjórn í fyrrahaust hefði átt sér fordæmi frá 1939 þegar heimskreppan þá hafði skapað svo viðsjárvert ástand, til dæmis vegna geigvænlegra erlendra skulda.

Ef þessi þjóðstjórn hefði tekið við hefði það vafalaust minnkað ástæðurnar til mótmæla og ef henni hefði tekist skár en þessari stjórn hefði Sjálfstæðisflokkurinn getað verið enn með forystu fyrir þeirri stjórn.

Já, Davíð setti fram áhugaverða hugmynd sem nú er aðeins efni í vangaveltur um það sem hefði getað gerst en gerðist ekki.


mbl.is Ásaka hvert annað um hroka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það verður að taka þetta almennilegum vettlingatökum."

Enn eitt gullkorn stjórnmálamanna datt óvart út úr Höskuldi Þórhallssyni nú á þingi þegar hann mismælti sig og sagði: "Það verður að taka þetta almennilegum vettlingatökum." !

Vonandi verða þessi orð ekki að áhrínsorðum varðandi þau tök sem stjórnmálamenn þurfa að taka hinum stórfelldu vandamálum sem við þeim blasa. Vonandi verða það engin vettlingatök.


mbl.is Fundað um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi Steingrímur J. um Jóhönnu ?

Stjórnmálaflokkar nota oft þá aðferð í viðræðum sínum að haga þeim þannig að þær fari ekki fram beint á milli formanna flokkanna, heldur í gegnum milliliði svo að þeir geti sagt án þess að skrökva að hafa ekki hist, samanber ummæli Steingríms J. í dag um að hann hefði ekki talaði við Ingibjörgu Sólrúnu síðan hún fór til Svíþjóðar.

Skyldi Steingrímur hafa frétt af útspili Ingbjargar Sólrúnar hvað snertir Jóhönnu Sigurðardóttir eftir leynilegum leiðum?

Eða þurfti Ingibjörg þess ekki við að neinn vissi af þessu vegna þess hve þetta var snjall leikur ?

En nú kemur endanlega í ljós að það var ekki tilviljun að varaformaður Samfylkingarinnar tók ekki þátt í fjögurra manna viðræðum stjórnarflokkanna í gær. Ingibjörg segir beinum orðum að Jóhanna sé forsætisráðherraefni flokksins að sér frátaldri, - ekki varaformaðurinn.


mbl.is Jóhanna næsti forsætisráðherra?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hennar tími að koma ?

"Minn tími mun koma!" Þetta er ein af fáum setningum stjórnmálamanna sem hafa lifað allt frá því þau voru sögð þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð að lúta í lægra haldi fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyn í togstreitu þerra um völd í Alþýðuflokksins.

Nú er ljóst hvaða spilum Ingibjörg Sólrún hefur spilað úr til hægri og vinstri.

Háspil hennar að eigin sögn er eftir allt konan sem mælti hin fleygu orð: "Minn tími mun koma !" Konan sem nú virðist eiga möguleika á að verða fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Íslands.

Snjall leikur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Steingrímur J. Sigfússon á erfitt með að heimta forsætisráðherrastólinn í þessari stöðu og með því að stíga til hliðar auðveldar Ingibjörg Sólrún myndun vinstri stjórnar.


Strandaði ekki á Seðlabankanum, sagði Geir.

Geir H. Haarde sagði nú rétt í þessu að ekki hefði strandað á málefnum Seðlabankans í viðræðum stjórnarflokkanna, sem nú var að ljúka með stjórnarslitum. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað sætt sig við að Þorgerður Katrín tæki við af Geir en Samfylkingin hefði ekki samþykkt það.

Það er ljóst að Samfylkingin hefur spilað mjög ákveðið varðandi ríkisstjórnarforystuna og líklega í skjóli þess að fyrir liggi að vinstri stjórn eða minnihlutastjórn vinstri flokkanna með hlutleysi Framsóknarflokksins komist á.

Líklegast var þetta var það skásta sem gat gerst. Allt var í upplausn í stjórnarflokkunum. Af síðustu orðum Geirs var að skilja að hann kenndi Ingibjörgu Sólrúnu ekki um þetta heldur upplausninni í Samfylkingunni.

Nú hafa hann og Sjálfstæðisflokkurinn losnað við þann kross að reka Davíð, sem var eitt skærasta ljósið í sögu flokksins á meðan allt lék í lyndi.

Líklegast hefur útspil Framsóknarflokksins varðandi stuðning við minnihlutastjórn og þá líkast til undir forystu Ingibjargar Sólrunar, ráðið úrslitum um þessi málalok.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband