23.10.2010 | 23:20
Fyrir Jón og Gunnu og fjölskyldu þeirra.
Það var ákaflega gefandi að hitta fólkið, sem á RUV, þann tíma sem ég dvaldi í útvarpshúsinu í dag. Stofnun RUV árið 1930 var mun meiri menningarbylting en tilkoma Sjónvarpsins 36 árum síðar og síðan þá hafa tengsl þjóðarinnar og þessarar eignar hennar ætíð verið náin og mikil.
Í dag komu hinir raunverulegu eigendur fyrirtækisins, þeir er það kusu, í heimsókn og fengu að kynna sér þetta hús, en þó kannski miklu frekar fólkinu, sem þar vinnur, og aðstöðu þess.
Það var fólk á öllum aldri og af öllum stigum, sem kom þarna í dag, og þótt þetta hafi aðeins verið brot af þjóðinni var það ákaflega mikilvægt að opna húsið fyrir eigendunum og gefa þeim kost á að þefa af andrúmsloftinu og því framleiðsluveri menningar sem fjölmiðill er.
Það er þekkt fyrirbæri að þjónustustofnunum sé hætt við að fara að lifa sjálfstæðu og sjálfhverfu lífi án þeirra tengsla sem bráðnauðsynleg eru við fólkið sem á að þjóna og við getum kallað samheitinu Jón og Gunnu og fjölskyldu þeirra.
Aldrei má gleymast fyrir hverja opinberir starfsmenn vinna.
![]() |
Opið hús hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.10.2010 | 10:05
Orðaskipti Krists og Pílatusar.
Orðaskipti Krists og Pílatusar, þegar Pílatus yfirheyrði hann til þess að fá að vitneskju um saknæmt afhæfi hans, ættu að vera rituð efst í blaðamannsskírteini hvers blaða- eða fréttamanns.
"Ég er kominn til þess að bera sannleikanum vitni" sagði Kristur.
"Hver er sannleikurinn?" spurði Pílatus.
Walter heitinn Chroncite, áhrifamesti sjónvarpsfréttamaður Bandaríkjanna, endaði flestar af merkustu fréttum sínum með því að segja: "that´s the way it is" sem útleggst "þannig er því nú farið."
Margir telja að fréttaflutningur hans og fleiri sannleiksleitandi bandarískra blaða- og fréttamanna hafi ráðið úrslitum um það að Bandaríkjamenn gáfust upp á stríðsrekstrinum í Víetnam.
Svipað má raunar segja um það þegar tveir bandarískir blaðamenn flettu ofan af athæfi Nixons og hrundu með því af stað atburðarás sem leiddu til einstæðrar afsagnar hans.
En raunar hef ég í ljósi orðaskipta Krists og Pílatusar efast um að hið fræga orðtak "that´s the way it is" sé nógu nákvæmt.
Réttara væri að segja "that´s the way it seems to be" eða "þannig virðist því nú farið.
Því að eins og Ari fróði sagði, er ævinlega erfitt fyrir ófullkomna menn að fullyrða hver hinn endanlegi og algildi sannleikur sé hverju sinni, heldur skuli haft í heiðri að "hafa skal það er sannara reynist."
![]() |
Snýst um sannleikann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2010 | 22:40
Meðábyrgð Íslendinga.
Fyrir tæpum átta árum ákváðu tveir íslenskir ráðamenn einslega að Íslendingar legðu lið ólöglegum hernaði á hendur fjarlægri þjóð sem stuðningsmenn og viljugir bandamenn Bandaríkjamanna og Breta.
Þótt fyrirliggjandi tölur um mannfall í röðum Íraka sveiflist á milli 77 þúsund og 109 þúsund skiptir það ekki höfuðmáli heldur hitt að með alræðisákvörðun sinni voru við Íslendingar gerðir ábyrgir fyrir því sem gerst hefur í Írak af völdum hernaðarins þar.
Menn geta svo sem giskað á hve margir hefðu látið lífið af völdum hins illa einræðisherra Saddams Husseins en vafasamt er að þeir hefðu orðið svona margir og varla hefði verið hægt að telja okkur Íslendinga meðábyrga.
![]() |
109 þúsund Írakar látnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.10.2010 | 13:04
Var þetta leikrit hjá Rooney ?
Ekki þarf að efa að Waney Rooney hlýtur að hafa gert góðan og hagstæðan samning fyrir sig við Manchester United. Sú spurning mun samt líklega vakna hvort þarna hafi verið um meðvitað eða ómeðvitað "leikrit" af hans hálfu til þess að láta á það reyna hvað hann gæti haft upp úr krafsinu með því að hóta að fara annað.
En mér þykir hins vegar alltaf réttara að ætla mönnum ekki neitt nema annað sannist.
Rooney kann, þótt ungur sé að árum, hafa fengið svipaða tilfinningu og Ingimar heitinn Eydal lýsti á sínum tíma, sem sé þá að honum fyndist hann, með réttu eða röngu, vera orðinn eins konar húsgagn á vinnustað sínum.
Sem sagt, orðinn leiður á vistinni.
Viðbrögðin, sem Rooney fékk þegar hann sagðist vilja fara, hafa hins vegar sýnt honum að hjá M.U. gæti hann búist við góðum og uppörvandi tímum. Ef það er niðurstaðan, var það bara hið besta mál hjá honum, að tala hreint út og hreinsa síðan andrúmsloftið.
![]() |
Rooney með fimm ára samning við Man.Utd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2010 | 10:00
Gætum nú vel að.
Drög að tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur varðandi hlut kristni, siðfræði og trúarbragðafræðum og samstarf skóla og trúfélaga hafa vakið athyglisverð skoðanaskipti á blogginu og í samfélaginu.
Í bloggi séra Þórhalls Heimissonar og athugasemdum við það hefur verið deilt um þetta og hefur hann mátt hafa sig allan við að leiðrétta ýmsan misskilning og beinar rangfærslur um málið.
Má þar nefna ásakanir um ótilhlýðilega innrás trúfélags í skóla, sem þrátt fyrir ítrekaða ósk Þórhalls um að yrði rökstudd með dæmi, fékkst ekki staðfest.
Einnig komu fram miklir fordómar og vanþekking á menntun presta og annarra sem hafa annast þessa þjónustu hingað til.Nú er það svo að vel þarf að gæta að því að gildandi ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskránni séu virt á öllum sviðum þjóðlífsins. Hins vegar er engin leið að komast fram hjá áhrifum kristninnar á menningu okkar og þjóðlíf og þetta á ekki aðeins við um okkar land heldur önnur lönd þar sem ólíkir siður og trúarbrögð ríkja.
Í öllum löndum eru hátíðisdagar, hátíðahald og menningarleg starfsemi sem hafa mikil áhrif á daglegt líf. Ekki er möguleiki að komast hjá því að útskýra af hverju þessi atriði eru sprottin og sinna þeim menningarlegu perlum sem þeim tengjast.
Af sumum athugasemdum um þetta mál mætti ráða að maður verði að fara að hugsa sig alvarlega um áður en maður tekur þátt í ýmsum athöfnum, sem tengjast kristinni trú.
Þannig hefur það verið ómissandi þáttur í lífi mínu að fara með félögum í Lionsklúbbnum Ægi austur á Sólheima í Grímsnes og taka þátt í litlu jólunum þar með fólkinu. Sú samkoma hefur endað á því að við höfum sungið öll saman "Litla jólabarn" og "Heims um ból".
Sólheimar hafa lengi notið eðlilegs ríkisstyrks og heyrt að því leyti undir félagsmálaráðuneytið. Að því leyti til er þetta opinber stofnun.
Nú fara að renna á mann tvær grímur ef maður tekur mark á því sjónarmiði að útrýma skuli "áróðri" fyrir kristni í opinberum stofnunum.
Ég telst þá væntalega vera sekur um "áróður" með því að syngja Litla jólabarn, að ekki sé nú talað um að hafa samið þennan texta og sungið hann inn á plötu á sínum tíma.
Því segi ég: Gætum nú vel að hvað við gerum og flönum ekki að neinu.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.10.2010 | 10:24
Nikotínið er erfiðast viðfangs.
Tölurnar um reykingar alkóhólista eru sláandi og ýmislegt fleira er sérkennilegt varðandi nikótínfíknina.
Ekkert fíkniefni kemst nálægt nikótíninu í því hve erfitt er að venja sig af neyslu þess. 33% þeirra sem byrja að reykja geta með engu móti hætt og það er miklu hærri prósenttala en gildir um nokkurt annað efni.
Nikótínið er svo erfitt, að þegar fíklar, sem reykja, koma í meðferð, er þeim ráðlagt að einbeita sér að því að hætta neyslu þess fíkniefnis sem veldur mestum daglegum vandræðum, en geyma það að fást við nikótínið.
Ég fylgdist nokkuð vel með því þegar einn besti vinur minn réðist gegn fíkniefnavanda sínum sem var orðinn mjög alvarlegur.
Baráttan tók nokkur ár og hann hafði sigur gegn fíkniefnum, sem verst þykja viðfangs. En eitt fíkniefnið varð að lokum erfiðast og gekk verst að fást við.
Það var nikótínið.
Að lokum hafðist sigur í þeim slag en sjálfur sagði hann að sú barátta hefði verið lang erfiðust.
![]() |
79% alkóhólista reykir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.10.2010 | 10:06
Tvöfeldni Bandaríkjamanna.
Bandaríkjamenn guma af því að berjast fyrir frelsi og lýðræði í heiminum. En þetta nær ekki þumlungi lengra en nemur því sem kallast "brýnir öryggishagmunir" þeirra sjálfra.
Þegar Churchill þurfti að réttlæta það fyrir breska þinginu að Bretar færu í náið bandalag við fjöldamorðingjann Stalín réttlætti hann það með því að hann ætti ekkert annað val, ef takast ætti að kveða niður enn meiri villimennsku, þá mestu í sögunni.
"Við erum að berjast við þvílíkt illþýði," sagði hann, "að jafnvel þótt ég þyrfti að gera bandalag við sjálfan Djöfulinn gegn þeim, myndi ég áreiðanlega finna einhver góð orð til að segja um skrattann í neðri málstofunni".
Í Saudi Arabíu ríkir flest það sem vestræn lýðræðisríki segjast vera að berjast á móti, alræði spilltrar fjölskyldu og valdaklíku sem veit ekki sinna aura tal, og forneskjulegt réttarkerfi þar sem mannréttindi og jafnrétti eru fótum troðin.
En á meðan olíuöldin varir telja Bandaríkjamenn sig neydda til að hafa olíufurstana góða svo að áfram sé hægt að viðhalda mesta orkubruðli heims, "the American way of living", amerískum lifnaðarháttum.
Við hjónin komum á sínum tíma í fjallabæinn Avon í Colorado, en þar hefur verið stefnt að því að fara fram úr Aspen að frægð, ríkidæmi og vegsemd.
Ef menn vilja, geta þeir farið með skíðabúnað sinn í lyftu inni í jarðgöngum upp á topp, skíðað þaðan niður í jaðar bæjarsins, farið þar úr skíðagallanum í golfgalla og spilað golf niður eftir golfvelli, sem tekur við af skíðabrekkunni !
Til að tryggja að auðstéttin geti notið nauðsynlegs öryggis eru hverfin með lúxusvillunum afgirt með öryggisgirðingum og mikill viðbúnaður með öryggisvörðum og tilheyrandi.
Þegar við vorum þarna náðu heimamenn ekki upp í nefið á sér af monti yfir því að krónprinsinn í Sádi-Arabíu skyldi í fyrsta sinn hafa tekið Klettafjöllin fram yfir Alpana í skíðafríi sínu.
En þeir voru jafnframt yfir sig hneykslaðir á bruðli Arabanna, sem hefðu tekið heilt hótel með hundrað herbergjum á leigu fyrir krónprinsinn og hefðu til afnota þyrlur og sæg af lúxuslimmum.
Þegar ég benti þeim á alla risastóru pallbílana og lúxusbílana, sem heimamenn ættu sjálfir og þyrftu á því að halda að hafa olíufurstana góða til að fá á þá mikið og ódýrt eldsneyti og spurði hvort þeir hefðu efni á að hneykslast mikið, varð fátt um svör.
![]() |
Stærsta vopnasala í sögu Bandaríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2010 | 11:45
Erfitt mat.
Ég hef áður rakið hér á blogginu hvað ýmsar niðurstöður alþjóðlegra kannana geta verið hæpnar ef forsendurnar eru rangar.
Þannig var spilling talin minnst hér í slíkri könnun þegar hún var augljóslega afar mikil og þetta heiðurssæti bara eitt dæmið um þá einstæðu firringu sem hér ríkti á árum Græðgisbólunnar.
Ísland var talið með eitthvert besta ástand í umhverfismálum á sama tíma og stefnt var að framkvæmdum með mestu mögulegu neikvæðum umhverfisspjöllum sem hugsast gátu og auk þess komust Íslendingar upp með það að skila auðu í dálkinn "ástand jarðvegs og gróðurs", sem sé NA, upplýsingar ekki fyrir hendi.
Var þó Ólafur Arnalds búinn að fá umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs einmitt fyrir rannsóknir sínar á því sviði. Ísland setti NA í dálkinn sem og ýmsar aðrar þjóðir þar sem allt var líka í steik í jarðvegsmálum, svo sem Úkraina og nokkur lönd í austanverðri Evrópu.
Í kringum aldamótin sýndist á yfirborðinu að talsvert frelsi ríkti hér í dagblaðaútgáfu þar sem Mogginn og DV kepptu um hylli lesenda. En í raun var það svo skömmu áður en Fréttablaðið var sett á fót að hægri menn og Sjálfstæðisflokkurinn næstum því einokuðu þennan markað með því að ráða yfir báðum þessum dagblöðum, Mogganum og DV.
Davíð lét sér þetta vel líka þangað til skyndilega var komin upp ný staða þar sem Mogginn og Fréttablaðið voru í höndum þeirra tveggja andstæðu valdablokka, sem þá börðust um völd og áhrif.
Þá þótti honum nauðsynlegt að setja á fjölmiðlalög sem augljóslega miðuðu að því að klekkja á þeim sem þá ógnuðu hinu gamla veldi Kolkrabbans.
Í raun hafa orðið miklar sviptingar á fjölmiðlasviðinu síðan hið gamla og 60 ára gamla kyrrstöðuástand Morgunblaðsins-Vísis-Tímans-Þjóðviljans-Alþýðublaðsins var fast í sessi.
Sveiflurnar hafa í meginatriðum orðið þrjár: Fyrst nær alger einokun Davíðsmanna um aldamótin, síðan hörð keppni milli Fréttablaðsins og Morgunblaðsins og nú síðast sú staðreynd að keppni þessara blaða er komin að miklu leyti í sama far og hin harðpólitíska keppni gömlu flokksblaðanna á sinni tíð.
Það þýðir að fólk verður nú að lesa Morgunblaðið og Fréttablaðið með svipuðum augum og gömlu flokksblöðin voru lesin á öldinni sem leið, og taka ýmsu í þeim með fyrirvara með tillitii til þess að Mogginn og Fréttablaðið eru nú í eigu tveggja hópa sem berjast um völd, áhrif og fjármagn á Íslandi.
Annars vegar sægreifarnir og leifar Kolkrabbans, en hins vegar fjármálagreifarnir.
Bloggið, Fésbókin og Netið sjá um það að þessi valdabarátta er þrátt fyrir allt með ákveðið aðhald og takmörkun á því hve langt er hægt að ganga í því að nota fjölmiðla blygðunarlaust í valdabaráttu.
Mat á frelsi fjölmiðla og samanburður milli landa er erfitt verkefni.
Hve mikið er frelsi Morgunblaðsins gagnvart eigendum sínum og ritstjóra, sem þekkir ekkert annað en valdabaráttu, sem eru hans ær og kýr?
Hve mikið er frelsi 365 miðlanna gagnvart eigendum sínum sem eiga í grjótharði baráttu við að viðhalda sínu eftir hremmingar Hrunsins?
![]() |
Frelsi fjölmiðla mest hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.10.2010 | 07:39
Hálfvitinn skal hann heita.
Þegar tákn Græðgisbólunnar reis og olli tjóni í öryggismálum sjófarenda sem kostar tugi milljóna að bæta, ef reynt verður, gaf ég þessum Babelsturni heitið Hálfvitinn.
Því að sú er staða hans miðað við vitann í Sjómannaskólaturninum. Bygging Hálfvitans var lögbrot en þó er hann fyrst og fremst tákn um siðbrot Græðgisbólunnar.
Hans vegna var molað mélinu smærra hið fallega hornhús á mótum Skúlagötu og Skúlatúns og Hálfvitinn, ómerkilegasta hús borgarinnar, yfirgnæfir svo mjög merkilegasta og jafnframt eitt fallegasta hús hennar, Höfða, að fundarstaður leiðtoga heimsins verður eins og dúfnakofi í samanburðinum.
En verðugra minnismerki um oflæti, græðgi, frekju og yfirgang Græðgisbólunnar er vandfundið.
Ekki hefur álit mitt á Hálfvitanum vaxið við það að hann skyggir á útsýnið til Snæfellsjökuls úr blokkinni sem ég bý í og mörgum öðrum húsum.
![]() |
Fáviti og hálfviti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
19.10.2010 | 20:18
"Slæmt ef það vorar vel og snemma..."
Þessi orð Stefáns Ásbjarnarsonar, bónda á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, koma upp í hugann þegar ég lendi FRÚnni um þessar mundir á túnum, sem þyrfti að slá í þriðja sinn í sumar eða jafnvel fjórða sinn.
En þegar ég heimsótti þá bræðurna Stefán og Sighvat á Guðmundarstaði sumarið 1976 fékk maður að skyggnast inn í alveg sérstaka veröld manna, þar sem nægjusemin var fyrir öllu og lifað frá hendinni til munnsins eins og hægt var. '
Þeir höfðu aldrei skuldað neinum neitt, ekkert rafmagn var á bænum og engar heyvinnuvélar.
Aldrei hafði þeim dottið í hug að slétta þýft túnið eða stækka það.
Þeir voru með rafhhlöðuknúin sjónvarptæki og útvarpstæki, áttu ágætt bókasafn og voru eins vel að sér um hvaðeina í veröldinni, fjarlægar þjóðir, menningu, listir og tækni eins og best gerist.
Ég ræddi við þá um heyskaparhorfur og spurði hvort ekki hefði verið kalt vor
"Jú það voraði seint og var kalt langt fram á sumar", svaraði Stefán.
"Er það ekki slæmt?", spurði ég eins og ég hafði spurt marga bændur fyrr um sumarið og fengið þá til að barma sér yfir slæmri tíð.
"Nei það er gott", svaraði Stefán. "Það er slæmt þegar vorar vel og snemma."
"Af hverju segirðu það?" spurði ég.
Stefán leit á mig með undrunarsvip yfir svo fávíslegri spurningu.
"Það er vegna þess," svaraði hann, "að þá sprettur kannski svo vel að við þurfum að slá aftur."
Ég spurði Sighvat af hverju þeir sléttuðu ekki túnið í stað þess að vera slá það á mjög seinlegan hátt með orfi og ljá.
"Það er verra ef túnið er slétt", svaraði Sighvatur.
Aftur gerði ég mig beran að fávisku þegar ég spurði: "Af hverju er það?"
"Það er vegna þess að þá slær maður miklu meira á skemmri tíma og það er meiri áreynsla, meiri sviptingar", svaraði Sighvatur.
Bæði svör bræðranna voru rétt og spurningar mínar fávíslegar miðað við þá búskaparhætti naumhyggju og nægjusemi sem þeir höfðu í heiðri.
Allur heyskapurinn miðaðist við það að ná á sumartímanum nákvæmlega nógu miklu heyi saman til þess að það nægði fyrir bústofn sem var ekki skepnu stærri en bráðnauðsynlegt var.
Þeir voru til dæmis ekkert að hamast við að koma öllu heyinu í hús, heldur hlóðu stórum hluta heyfengsins upp í fúlgur hér og þar á túninu og enginu og voru síðan allan veturinn að bera það smám saman inn í hlöðu og í fjárhúsin.
Stefán komst hátt á tíræðisaldur og enda hafði hann aldrei alla sína ævi gengið nærri sér í erfiði eða streitu.
Stundum verður mér hugsað til þeirra bræðra þegar ég horfi á okkur nútímafók með allar okkar búksorgir og Hrunvandamál.
Ef einhver efast um að ofangreint sé rétt eftir haft getur hann keypt þátt um þá á DVD, sem RUV gaf út sem eina af Stiklunum fyrir fjórum árum.
Hann er í svart-hvítu eins og hæfir viðfangsefninu, enda einn af síðustu þáttunum af þessu tagi, sem tekinn var áður en Sjónvarpið fór í litinn.
![]() |
Túnin slegin í október |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)