Erfiðara að eiga stórt.

Þegar draga þarf saman seglin eftir ofneyslu er það þeim mun erfiðara sem ofneyslan var meiri. Ef framundan eru tímar þar sem komast þarf af með minna verður það erfiðara hjá fólki sem á stórar íbúðir og stóra bíla, sem ekki er hægt að losna við. Það er dýrarar að reka stóran hlut en smáan, stóra íbúð og hús heldur en litla íbúð og hús. Þótt þjóðin eigi svosem miklar eignir verða þær að stórum hluta til gagnslausar þegar að kreppir. Það er ekki hægt að selja húsin til útlanda og jafnvel heldur ekki lúxusjeppana.

Smátt er fallegt þessa dagana sem ævinlega.  


mbl.is Veislan búin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálin og Íslendingasögurnar.

Fyrir 20 árum átti ég eitt eftirminnilegasta samtal sem ég man eftir við einn af helstu ráðamönnum þjóðarinnar þá. Á góðri stundu barst talið að stjórnmálum og hann sagði mér að hvað hann snerti réðu sömu meginatriði för í stjórnmálum og í Íslendingasögunum. "Þær eru mín pólitík" bætti hann við og spurði mig síðan hvað ég teldi að Íslendingasögurnar fjölluðu um.

Ég sagðist halda að þær fjölluðu um minnisverða atburði og örlög fólks en hann sagði svo ekki vera. Ég stóð á gati og innti hann eftir réttu svari. Það stóð ekki á því. "Það sem Íslendingasögurnar fjalla fyrst og fremst um," sagði hann,-  "og það er megininntak þeirra, - er þetta: Vinátta-óvinátta, tryggð-ótryggð, fóstbræðralag-svik. Af þessu er fóstbræðralagið hugnæmast."  

Æ síðan hef ég undrast hve þessi greining hans hefur átt vel við og aukið skilning minn á stjórnmálaatburðum og hegðun og viðbrögðum stjórnmálamanna, - ekki bara hvað snerti þennan tiltekna ráðamann og annarra í kringum hann, heldur miklu fleiri. Engu er líkara en að nánast ekkert hafi breyst í þúsund ár.

Prófið þið bara sjálf að máta þessa greiningu við stjórnmálaatburði síðustu áratuga allt fram á þennan dag. Hún eykur ekki aðeins skilning á liðnum atburðum og atburðum þessa dagana, heldur getur hún einnig gefið okkur vísbendingu um það sem á eftir að gerast í stjórnmálum, um hegðun og viðbrögð stjórnmálamanna. 

Þess vegna tel ég að þetta eigi erindi við þjóðina og sagnfræðinga framtíðarinnar.  


mbl.is Davíð: Trúnaðarbrestur kom á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnugleg atburðarás og "óvildarmenn."

Hver hefði trúað því fyrir viku að sú ótrúlega atburðarás færi af stað sem nú er á fullri ferð? Allar raddir erlendra sérfræðinga í fyrra og hitteðfyrra sem drógu það í efa að eðlilegt væri hvernig Íslendingar færu hamförum í kaupæði erlendis voru afgreiddar sem öfund, óvild eða annarlegar hvatir og hagsmunir hinna útlendu gagnrýnenda.

Í sumar sendi vinur minn frá unglingsárum, sem býr yfir áratuga reynslu hjá virtustu alþjóðlegum fjármálastofnunum, mér trúnaðartölvupóst þar hann lýsti fyrir mér skýrt og greinilega í hvað stefndi hjá þjóð sem skuldaði miklu meira en hún ætti fyrir.

Tölurnar sem hann nefndi voru talsvert lægri en þær sem við sjáum nú og samt var þessi niðurstaða hans skýr.

Það er þekkt fyrirbæri að þeir sem upplýsa um óhagstæðar staðreyndir eru stimplaðir sem óvinir og óvildarmenn þjóðarinnar og þetta hefur reynst íslenskum fjölmiðlum fjötur um fót og gert hvort tveggja í senn, að hamla gegn rannsóknarblaðamennsku og ekki síður að birta niðurstöður slíkrar rannsóknarblaðamennsku.

Fyrir bragðið eru bæði ráðamenn og almenningur sviptir möguleikum á að gera sér grein fyrir hinu raunverulega ástandi og fá ráðrúm til að bregðast við á skásta og skynsamlegasta hátt.  

 


mbl.is Hugsanlegt að Kauphöllin verði lokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævinlega lágkúrulegt.

Mér hefur alltaf fundist það lágkúrulegt þegar verið er að grafa upp einhver mistök manna frá yngri árum og gera þau að stórmáli löngu síðar. Ásakanir Söru Palins á hendur Obama er þar að auki langsóttar. Clinton var sakaður um að hafa reykt hass, Bush um að hafa drukkið of mikið og heima á Íslandi var verið að núa Jóni Ólafssyni því um nasir að hafa verið í nágrenni við dóp.

Ég hélt að skilningur, umburðarlyndi og fyrirgefning væru ein af aðalatriðum kristinnar trúar og því er dapurlegt þegar kristið fólk fellur í þá gryfju að sverta samferðafólk sitt á þennan hátt. En þetta virðist oft gleymast.  


mbl.is Palin ræðst á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilum Dönum magasínunum!

Sú var tíð að Íslandsvinir í Danmörku sögðu: Skilum Íslendingum handritunum! Og Danir gerðu það að lokum af fúsum og frjálsum vilja án þess að þeir þyrftu þess og hafa engar aðrar þjóðir gert neitt svipað.

Talað var um danska öfund og óvild þegar danskir fjölmiðlar undruðust getu íslenskra aðila til að kaupa stórsverslanir, verslanakeðjur, fyrirtæki og fjármálstofnanir víða um lönd og hreiðra þannig um sig í hjarta Kaupmannahafnar.

Nýjustu fréttir hafa sýnt að þessar spurningar Dana áttu fullan rétt á sér því að kaupæði Íslendinga erlendis út á krít hafa komið erlendum skuldum landsins í stjarnfræðilegar hæðir, líkast til 6-10 sinnum hærri en árleg þjóðarframleiðsla.

Nú þarf sennilega þess sennilega ekki að íslenskir Danavinir hrópi: Skilum Dönum magasínunum! Við munum líklega hvort eð er verða neyddir til þess.  


mbl.is Rætt við norræna seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðara á Íslandi.

Hugmyndir Obama um breytingar á gjaldþrotalögum, væntanlega til að hamla gegn því að fólk missi húsnæði, eru augljóslega bæði settar fram í góðum tilgangi og til að afla atkvæða hjá bandarískum almenningi, sem er ekki hrifinn af því að þurfa að bera nýja skatta til að bjarga auðjöfrum Wall Street.

Heima á Fróni er þetta vafalaust erfiðara því að fyrir liggur að öll útlánin, sem bankarnir veittu fólki til 40 ára byggðust á notkun erlendra lána bankanna sem voru langt umfram eignir þeirra. í raun hringdu allar bjöllurnar fyrr í haust þegar upplýst var að heildarskuldir Íslendinga væru 8800 milljarðar og að allt að 3000 milljarða skorti upp á að þjóðin ætti fyrir eignum.

Hlálegt er þegar Framsóknarflokkurinn reynir að spila sig frían frá þessu, flokkurinn sem stóð í fremstu röð við að hleypa þenslunni af stað með stórfelldum stóriðjuframkvæmdum og hleypti húsnæðislánasprengingunni af stað með óábyrgum kosningaloforðum sem spáð var fyrir um að myndi teyma bankakerfið út í samkeppni á þeim markaði.

Stanslausar fréttir af yfirtökum og kaupum Íslendinga á fyrirtækjum og fjármálastofnunum erlendis hefðu átt að opna augun fyrir því sem var að gerast.  


mbl.is Obama fékk þingmenn til að skipta um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1939?

1939 fór heimskreppan niður í nýjan botn á Íslandi, einu allra landa, vegna þess að borgarastyrjöldin á Spáni hafði lokað mikilvægum markaði fyrir saltfisk. Þá var Jónas Jónsson frá Hriflu utan stjórnar eins og Davíð nú, en það breytti ekki því að hann var aðalhvatamaðurinn að því bak við tjöldin að mynda svonefnda þjóðstjórn. Þrír þingmenn Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins voru reyndar utan stjórnar en hún kallaði sig samt þessu nafni.

Þessi stjórn var mynduð til að fást við margfalt erfiðari vanda en nú er við að glíma því að Íslendingar voru á mörgu leyti vanþróuð þjóð þótt hún væri sæmilega menntuð. Landið var í raun vegalaust og engir flugvellir til, svo að dæmi séu tekin, - fiskiskipaflotinn að ganga úr sér og í raun átti Hambrosbanki í London landið.

Sagt er að Davíð hafi viljað frekar samstarf við VG en Samfylkinguna eftir síðustu kosningar. Með því að kippa VG og hinum flokkunum inn myndi hann að hluta til getað minnkað áhrif Ingibjargar Sólrúnar.

Af hverju orða ég þetta svona? Kannski ég bloggi síðar nánar um það.  


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyslufyllerí, lifað um efni fram.

Sá og heyrði athyglisverðar umræður í sjónvarpinu hér vestra um ástæður þess hvernig komið er fyrir Bandaríkjamönnum. Bent var á mismunandi gildismat þeirra að undanförnu og ýmissa annarra þjóða. Hér vestra hefur það orðið lenska að fá sem mest lánað til þess að geta lifað sem hæst.

Hér er til dæmis áberandi sama fyrirbærið og heima, sem gerir bandaríska og íslenska bílaumferð einstaka: Stórfelld fjölgun stórra lúxuspallbíla og lúxusjeppa. Þetta hefur verið áberandi á ferð okkar um sömu þjóðvegina í Klettafjallaríkjunum og fyrir fimm árum, - fjölgun lúxuströllanna blasir við.

Nákvæmlega eins og heima var ýtt undir ásókn í lán, - hér vestra með vaxtalækkunum sem varð til þess að lánafyrirgreiðslufyrirtæki spruttu upp og bólgnuðu. Milljónum var lánað þótt greiðslugetan væri léleg eða engin. Miðlararnir versluðu síðan með skuldbindingarnar sem breiddust hratt út um landið og undu upp á sig alla leið til Wall Street og út í hið alþjóðlega fjármálakerfi, því að hver miðlari og milliliður um sig þénaði vel og varðaði ekki um neitt annað.

Heima á Fróni gerðist þetta sama með hundraða milljarða austri í virkjanir, húsnæðislánasprengingu í kjölfar ábyrgðarlausra kosningaloforða og glannalegum fjárfestingu og lánum erlendis, sem - eftir á að hyggja, var auðvelt að sjá að gátu flestar hverjar ekki staðist og engin innistæða var fyrir.

Eins og að afloknu hverju fylleríi, sem ekki er hægt að halda áfram, eru timburmennirnir komnir. Ekki er hægt að halda lánafylleríinu erlendis áfram og það eina sem menn sjá er að halda stóriðjufylleríinu áfram og láta afkomendur okkar blæða fyrir það. 

Þetta brenglaða gildismat stingur í stúf við gildismat ýmissa annarra þjóða, sem setja öryggi fjölskyldu og afkomenda til langrar framtíðar efst og safna með sparnaði í stað þess að slá og slá lán án fyrirhyggju.

Einföld skilgreining en því miður sönn, held ég. McCain sagði í sjónvarpsviðtali að sér fyndist ekki sanngjarnt að kennarar og bændur borguðu fyrir bensínið á lúxusþyrlur fjármálajöfranna, sem hafa klúðrað öllu á kostnað almennings. En engu að síður verður svo að vera. Allir eru í sama báti og sjá að björgun Wall Street er í raun björgun Main Street.

Það er vafalaust rétt sem sumir þingmenn hafa sagt að meira máli skipti að greina leiðir út úr vandanum en að greina ástæður vandans, - engan tíma megi missa.

En ætli það sé ekki síður mikilvægt viðfangsefni að greina ástæður vandans og læra af því? Það hefði ég haldið. Annars gerist þetta aftur og áfram.  


mbl.is Hlutabréf og króna hríðfalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farin að skyggja á þá stóru?

Svei mér þá ef kappræður Söru Palins og Jóe Bidins munu ekki fá meira áhorf og áhuga en kappræður Obama og McCaine. Um fátt er meira talað hér vestra í dag, jafnvel meira en um það sem er mál málanna þessa dagana, frumvarpið til að bjarga fjármálastofnunum á Wallt Street úr ógöngum sínum, sem öldungadeildin var að samþykkja með yfirgnæfandi meirihluta nú rétt í þessu.

Þeir sem standa fyrir samkomunni sem ég verð á annað kvöld, voru í öngum sínum í dag út af óheppilegri tímasetningu sem þeir sögðu að því miður hefði ekki verið hægt að breyta því að þeir hefðu orðið að ákveða hana fyrir meira en hálfu ári. Allir, sem vettlingi gætu valdið, myndu horfa á þessa fyrstu kappræðu varaforsetaefnanna.

Spennan felst ekki hvað síst í óvissunni og því hve þetta geti farið á mismunandi veg: Annars vegar að Palin muni afhjúpa vanhæfni sína á afgerandi hátt og skapa með því eftirminnilegan atburð. Hins vegar að hún muni, líkt og Ronald Reagan, brillera á persónutöfrum og hæfni til að skauta fram hjá skorti á þekkingu og reynslu og heilla kjósendur.  

Maður heyrir rifjað upp hvernig Reagan gat með einni setningu á hárréttu augnabliki slegið mótherjann út af laginu, til dæmis þegar Carter hafði í flókinni og langri tölu ítrekað stefnu sína og Reagan sagði einfaldlega "There you go again!" 

Það var ekki aðeins þessi eina setning, heldur tímasetningin, aðdragandinn og hvernig hún var sögð. Að ekki sé nú talað um hvað hún virtist koma "spontant". Sá, sem á horfði var neyddur til að hugsa: Djöfull er hann nú klár, segir akkúrat það sem ég var byrjaður að hugsa. Og allt sem Carter hafði sagt var fokið út um gluggann.

Sjónvarp og kappræður eru óvæginn vettvangur þar sem svo margt annað en færni til að gegna valdamesta embætti heims getur ráðið úrslitum um það hvor umsækjandinn um embættið fær stuðning kjósendanna.

Margir hér vestra segja að ekki sé hægt að líkja Palin við Reagan. Hún standi langt að baki honum og vanhæfni hennar sé meiri en svo að bandaríska þjóðin muni taka áhættuna af því að hún verði forseti ef eitthvað hendir ellibelginn McCain.

Og eitt er víst: McCain á mest undir því að Palin snúi þessu áliti við. Því að klikki hún alvarlega muni fólk hugsa: Hvernig gat McCain gert þau mistök að koma þessari konu í þá aðstöðu að geta orðið komist í valdamesta og vandasamasta embætti í heimi? Ekki minnkar þetta spennuna fyrir kappræðurnar annað kvöld.  

 

 


mbl.is Kappræðna Palin og Bidens beðið með eftirvæntingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa eða afturkippur?

"Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin" var einhvern tíma sagt og þetta á oft við um orðaval. Í fyrirsögn fréttar í dag er sagt að Alþingi sé sett í skugga kreppu. Það tel ég ofmælt þótt kreppa ríki á afmörkuðu sviði í fjármálakerfi landsins og hjá einstökum þjóðfélagshópum.

Í ensku eru tvö orð notuð um samdrátt í efnahagslífi, depression, kreppa, eða recession, afturkippur. Á fjórða áratug síðustu aldar skall kreppa á um 1930, raunveruleg kreppa með svimandi háum samdráttartölum.

1937 var farið að rætast úr, en þá kom afturkippur í eitt ár, árið 1938. Sá afturkippur var þó í prósentum talið stærri en sá afturkippur sem nú má lesa úr hagtölum á Íslandi. Síðan hafa komið svipuð samdráttarskeið í bandarísku efnahagslífi án þess að menn hafi borið sér orðið kreppa í munn um hagkerfið eða samfélagið í heild sinni. 

Það varð skammvinn olíukreppa 1979 sem hafði samdráttaráhrif en stóryrði voru þó aðeins notuð um þann afmarkaða hluta afturkippsins sem laut að eldsneytismarkaðnum.

Þess vegna held ég að það sé rétt hjá forseta Íslands og hvetja fólk til að fara almennt ekki á taugum þótt í hönd fari stutt skeið afturkipps upp á örfáar prósentur. Hinu megum við ekki gleyma, að þessi afturkippur bitnar mjög harkalega á afmörkuðum sviðum þjóðlífsins, svo sem byggingariðnaðinum og hjá ungu fólki, sem var lokkað til að steypa sér í skuldir sem nú eru að sliga það. 

Hjá þessu fólki fer kreppa í hönd, raunveruleg kreppa. En það er hlutverk okkar ríka samfélags að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að áhrif afturkippsins bitni á afmörkuðum hópum í samfélaginu.  


mbl.is Þingsetning í skugga kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband