31.10.2008 | 20:31
Enn glæsilegra en Jónas hélt.
Varnargarðarnir sem liggja á heiðum og ásum um alla Þingeyjarsýslu sýna að það var öflug og rík þjóð sem gat byggt slíkt. Svipað er að segja um aðrar fornminjar frá Landnámsöld og Þjóðveldisöld. Örnefni á Seltjarnarnesi (sem nær raunar austur að Elliðaám) eins og Rauðarárholt og Kleppsholt vitna um skógi vaxið land, samanber orðtakið "oft er í holti heyrandi nær" og þýska orðið holz.
Glæsimyndin sem Jónas Hallgrímsson dregur upp af Íslandi og Íslendingum á þjóðveldisöld hefur stundum verið talin máluð í of rósrauðum litum rómantíkurinnar. Uppgötvanir síðustur ára og áratuga benda þó til mun meiri glæsileika en Jónas vitnaði um í ljóðinu "Ísland, farsælda frón."
Í Noregi á þeim tíma voru þéttir og hávaxnir skógar og jarðvegurinn þéttur undir. Hér á landi voru hins vegar aska og fokgjarn vikur í jarðvegi þannig að þegar kjarr og skógar voru hoggin hér á landi blés landið upp, jarðvegurinn fauk burtu og eftir stóðu hin beru holt sem báru ekki lengur nafn með rentu.
Með versnandi árferði gengu forfeður okkar frá þessum öldum á landið og hver kynslóð skilaði landinu verra til afkomendanna en hún tók við því.
Skógunum var eytt að milklu leyti á ótrúlega skömmum tíma á fyrstu öldum byggðar. Þó var öllum skógi og kjarri ekki verið eytt á nokkrum áratugum. Okkar kynslóð ætlar hins vegar að eyða orkunni úr stórum svæðum austan og sunnan Reykjavíkur á þeim hraða.
Við ættum að vita betur um afleiðingar gjörða okkar en fólkið sem smám saman eyddi gróðri í baráttunni við sult fyrr á öldum. En svo virðist sem núlifandi Íslendingar ætli samt að halda svona áfram.
![]() |
Fótspor Ingólfs við Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.10.2008 | 20:10
Ekki lengur Þórunni að kenna.
![]() |
Fresta rannsóknarborunum að Þeistareykjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.10.2008 | 15:09
Spádómur að rætast.
"Finnska leiðin", að hafna stóriðjuframkvæmdum og efla framkvæmdir sem byggðu á mannauði, menntun, og hugviti dugði fyrir Finna fyrir 15 árum í hliðstæðum vandræðum og við erum í. Af spratt fyrirbæri sem fékk nafnið "finnska undrið."
Nú sér maður andstæðu þessa blasa við í frétt Fréttablaðsins um það að stækka eigi álverið í Helguvík úr fyrirhuguðum 240 þúsund tonnum upp í 360 þúsund tonn. Ég spáði fyrir um þetta og stækkun álversins á Bakka og var atyrtur fyrir á sínum tíma að tortryggja loforð um "hóflega stóriðju."
Í Kárahnjúkabókinni spáði ég fyrir um það að eftir hina efnahagslegu svallveislu á kostnað afkomendanna yrðu húsgögnin brotin og brömluð og húsnæðið í rúst.
Jafnvel þessi brotlending núna virðist ekki ætla að kenna mönnum neitt. Þeir segjast vera að skapa grundvöll atvinnu til framtíðar þótt borðliggjandi sé að þótt sex risaálver risu og tvær olíuhreinsistöðvar að auki, sem krefjsast myndu allrar orku landsins og eyðileggingu náttúruverðmæta, þá myndi innan við 3% af vinnuafli landsmanna fá atvinnu í álverunum.
Þeir vilja ofnýta svo orku jarðhitasvæðanna á Reykjanesskaganum að hún verði sannanlega uppurin á nokkrum áratugum. Sú kynslóð sem þá verður uppi mun standa frammi fyrir að hafa enga orku handa bíla- og skipaflota landsmanna.
Í stað þess að Ísland verði eina landið í heiminum sem getur verið algerlega óháð öðrum um hreina orku verða auðlindirnar nýttar fyrir stóriðju í eigu útlendinga og líklegast frá virkjunum í þeirra eigu líka.
Ungt fólk mun flytja til þeirra landa sem bjóða upp á fjölbreytt störf sem krefjast menntunar og hæfileika. Það mun ekki kjósa vinnu í verksmiðjum á útnára heims þar sem í auglýsingum um störf í álverum er tiltekið að engrar sérstakrar menntunar sé þörf.
Reynslan frá jaðarbyggðum víða um heim sýnir fánýti þeirra stórkarlalausna sem nú á að bæta ofan á allt sukkið sem fyrir er.
![]() |
Möguleiki á landflótta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.10.2008 | 00:27
Eftir 50 ára baráttu...
Eftir hálfrar aldar baráttu KSÍ og tugi tilrauna við að koma íslensku landsliði á stórmót voru það konurnar sem létu drauminn rætast!
Ef ég syngi Jóa útherja upp á nýtt og skipti út kalli Egils rakara: "KR-ingar, þið eigið leikinn!", og líka svariinu: "Þegiðu, Egill, þetta er landsliðið!", þá myndi þetta hljóma svona núna úr munni Bjarna Fel: "Áfram, strákar, þið eigið leikinn!" Og svarið yrði: "Þegiðu, Bjarni, þetta eru stelpurnar!"
Til hamingju, stelpur! Hvern hefði órað fyrir þessu fyrir tíu árum.
![]() |
Ísland á EM 2009 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.10.2008 | 00:17
ESB heldur Samfylkingu fastri.
Enn og aftur ruglar ESB stöðuna í íslenskum stjórnmálum. Miðað við skoðankönnunina nú getur Samfylkingin ekki myndað stjórn sem hefur aðildarviðræður við ESB á dagskrá. Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafa meirihluta atkvæða og þar með hefur Sjálfstæðisflokkurinn Samfylkinguna í ESB-gíslingu.
Nema að Samfylkingin gangi til samstarfs við VG án ákvæða í stjórnarsáttmála um ESB-viðræður.
![]() |
Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2008 | 17:59
Myndin skýrist.
Upplýsingar Geirs H. Haarde um það hann hefði viljað stuðla að sameiningu Glitnis og Landsbanka í ágúst en forráðamenn bankanna talið það ástæðulaust sýnir hve andvaralausir bankamennirnir voru á þeim tíma og fullir afneitunar.
Þegar Geir hinsvegar segir að tilboðið fræga á ögurstundinni um svipað efni hefði verið ómögulegt er á hitt að líta að svo virðist sem ekkert hafi verið gert af hálfu ríkisins til að koma með breytingartillögur við tillögurnar. Kannski fannst þeim í of mörg horn að líta, - kannski var tímahrakið of mikið.
Ef það er rétt hjá Björgólfi sem ekki hefur verið mótmælt, að forstöðumaður sjálfs Fjármálaeftirlits Bretlands hafi verið í útkalli hinn örlagaríka sunnudag til að koma Icesafe undir breska lögsögu á fimm dögum er ljóst að það var mikið ólán að hér heima virtist ekkert aðhafst í því máli.
Við sjáum hér atburðarás sem sýnir að á flestum stigum málsins voru einhverjir aðilar þess og stundum allir alls ekki með á nótunum og klúðruðu hugsanlega tækifærum sem hefðu gert lendinguna eitthvað mildari. Það munar um innistæðurnar á Icesafe, sem nú eru eins og sker, sem nágrannaþjóðirnar Bretland og Ísland hafa nú strandað á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2008 | 13:35
Gott að eiga góða að.
Bandarísku olíufyrirtækin hafa átt hauk í horni þar sem George W. Bush er. Fróðlegt hefur verið að sjá í heimildarþáttum og annars staðar hvernig menn fyrirtækisins hafa verið innstu koppar í búri forsetans, og til dæmis strikað óþægilegar setningar út úr skýrslum færustu vísindamanna um hlýnun jarðar og fengið eins öflugan stuðning við sig og forsetanaum var framast unnt.
Jarðefnaeldsneytið er enn langverðmætasta og jafnframt langvandmeðfarnasta orkulind jarðar. Bæði er auðlindin takmörkuð og veldur gríðarlegum áhrifum á lífsskilyrði jarðarbúa.
Það mun síðar skráð á spjöld sögunnar hvernig kynslóðir olíualdar (samanber steinöld, bronsöld) drýgðu þann glæp gagnvart afkomendum sínum að bruðla með þennan auð í takmarkalítilli eigingirni á kostnað komandi kynslóða. Við Íslendingar höfum verið hvað fremstir bruðlaranna hvað snertir bíla- og skipaflotann.
Á spjöldum sögunnar um bruðl olíualdarinnar munu nöfn Exxon og Bush verða ofarlega á lista.
![]() |
Mesti hagnaður sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2008 | 08:57
1937 og 67 upp á nýtt?
Fyrri hluta árs 1967 var kreppa í aðsigi á Íslandi. Norðmenn og Íslendinga höfðu ofveitt síldina, sem hafði verið gjöful árin á undan og gíðarlegt verðfall varð á fiskafurðum erlendis. Krónan var allt of hátt skráð.
Landsmenn höguðu sér svipað og hermenn í stríðinu sem átti að senda í lífshættulega leiðangra og djömmuðu áður en áfallið dyndi yfir. Farnar voru skemmtiferðir á þremur skemmtiferðaskipum, bílum mokað inn í landið og stofnsett sjónvarpsstöð. Þá, eins og nú, hrópuðu ráðamenn: "Sjáið þið ekki veisluna?"
Þegar Bretar felldu gengi pundsins felldu Íslendingar gengi krónunnar tvívegis og ég söng: "Fella gengið hrika-ganta-gríðar-yndislega!" Atvinnuleysi hélt innreið sína og fjöldi Íslendinga flutti til Svíþjóðar og Ástralíu. Hljómar kunnuglega? Já, en sveiflan upp og niður er miklu meiri núna.
1937 lokaðist saltfiskmarkaður á Spáni og heimskreppan var í gangi. Krónan var allt of hátt skráð. Innflutningshöft komu að vísu í veg fyrir svipaða ofneyslu og var undanfari kreppunnar núna en 1939 var landið á barmi gjaldþrots og stærsta útgerðarveldi landsins, Kveldúlfur, varð gjaldþrota. Mynduð var þjóðstjórn 1939 og öll sund virtust lokuð þegar stríðið og Bretinn og kaninn komu og björguðu málum.
Slíkt mun varla gerast nú. Við horfumst sennilega í augu við gjaldþrot stefnunnar "þetta reddast einhvern veginn."
![]() |
Sölutregða á þorski og ýsu ytra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.10.2008 | 18:41
Afneitun á fullu.
Ef málið væri ekki jafn grafalvarlegt og það þer væri broslegt að fylgjast með því hvernig Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin reyna að sverja af sér ábyrgð á mistökum og axarsköftum í stjórnarfarinu undanfarin ár, - flokkar sem hafa keppst um hylli Sjálfstæðisflokksins eftir ballið á kosninganótt.
Ekki þarf að fjölyrða um þátt Framsóknarflokksins í því að kynda þenslubálið allt frá 2002 í húsnæðiskerfinu og með stóriðju- og virkjanaframkvæmdum sem hvort tveggja var keyrt áfram í stundargróðabrjálæði af algeru tillitsleysi við hagsmuni komandi kynslóða.
Hlutur Samfylkingarinnar er ekki betri. Strax árið 2002 tók flokkurinn upp þá stefnu að sýna Sjálfstæðisflokknum fram á að hún væri "stjórntæk" með því að meirihluti þingmanna SF studdi Káralhnjúkavirkjun og leikið var tveimur skjöldum í stóriðjumálum.
Í héraði studdi Samfylkingarfólk álversframkvæmdir og eins miklar virkjanaframkvæmdir og hægt var að komast yfir. Ráðamenn átu ofan í sig loforð fyrir kosningar um að breyta fyrirkomulaginu við ákvarðanir sem gátu falið í sér afdrifaríkar og neikvæðar afleiðingar varðandi varðveisluna á mestu verðmætum landsins, sem felast í náttúru þess.
Fagra Ísland var kokgleypt eftir kosningarnar og samstaðan við Sjálfstæðismenn var í raun algjör um eins öflugt áframhald stóriðjustefnunnar og mögulegt væri.
Ofan á þetta bætist ábyrgð Samfylkingarinnar á hinum mikla hrunadansi í efnahagsmálum sem stiginn var með vaxandi þunga þar til allt hrundi.
![]() |
Ekki benda á mig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.10.2008 | 09:00
Sótt að flugvirkinu.
Fátt hefur borið hróður Íslands víðar en flugstarfsemi, allt frá því að Loftleiðir buðu lægstu fargjöld yfir Atlantshafið á sjötta áratug síðustu aldar. Enn hittir maður fjölda útlendinga sem minnast þess með glampa í augum hvernig þetta íslenska flugfélag opnaði fyrir þeim, þá fátækum námsmönnum eða ungu fólki, möguleika á að ferðast yfir Atlantshafið í fyrstu ferð sinni til annarrar heimsálfu.
Með falli Sterling og erfiðleikum í Luxemborg er sótt að því virki flugsins sem hefur staðið af sér alla storma hingað til, líka fárviðrirð um 1980 þegar Flugleiðir stóðu tæpt. Vonandi gerist það akki að þetta síðasta vígi íslensks heiðurs og stolts falli.
En síðan má líka minna á það að neyðin kennir naktri konu að spinna. Það var yfirvofandi gjaldþrot Loftleiða sem leiddi þá inn á þá útgönguleið sem skóp íslenska flugundrið fyrir hálfri öld.
![]() |
Sterling gjaldþrota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)