28.11.2008 | 15:05
Aftur fyrir 1980.
Samdráttur hjá RUV eru slæmar fréttir fyrir landsbyggðina. Ég minnist þess hvað útsendingar hjá RUVAK þóttu mikið framfaraspor og sjálfur orðaði ég það árið 1985 við þáverandi útvarpsstjóra að ef þurfa þætti gæti ég hugsað mér að ég til þess að flytja norður og taka til hendi á Akureyri. Af því varð ekki og kannski sem betur fer.
Á árunum fyrir 1980 og fyrstu árum mínum á Stöð tvö kom það í minn hlut að sinna þörfum landsbyggðarinnar frá Reykjavík og endasendast um landið. Það var mjög gefandi starf þótt það væri oft erfitt.
Laun hjá flestum starfsmönnum RUV hafa verið lág alla tíð og ekki batnar það með því að lækka þau á sama tíma og verðbólga rýkur upp. Einn af starfsmönnum RUV hér fyrr á tíð lýsti kjörum almennra starfsmanna þannig: "Það þarf sterkefnaða menn til að vinna hérna."
En RUV hefur löngum verið gagnrýnt fyrir að fara fram úr í rekstrinum og staðan því vafalaust þröng. Bara að það sé nú sparað á réttum stöðum.
![]() |
700 milljóna sparnaður hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.11.2008 | 14:50
Verksmiðja sem framleiðir dagskrá.
Mér fannst Hrafn Gunnlaugsson hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði á sínum tíma að ríkisútvarpið væri verksmiðja sem framleiddi dagskrá. Þegar ég var á Canaveralhöfða í Florida þar sem átti að skjóta geimferju á loft líktust bækistöðvar sjónvarsstöðanna þar mest vinnubúðum og byggingum við virkjanaframkvæmdir á Íslandi.
Útvarpshúsið er táknrænt fyrir þá minnisvarðagerð sem ríkt hefur í byggingum á Íslandi. Húsið er miklu stærra en þörf er fyrir og ótrúlega stór hluti þess fer í ganga og rými sem ýmist nýtist ekki eða nýtist illa.
Það kostar mikla peninga að hita svona stórt hús upp og halda því við. Sumt vantar eins og stúdíó þar sem sendar eru út fréttir og breskur kunnáttumaður sem kom frá BBC til að kynna sér reksturinn undraðist slæma nýtingu á einum dýrasta parti hússins sem er stóra sjónvarpsupptökustúdíó.
Að sjá utan frá er eins og þriðju hæðina vanti á húsið. Þegar ég spurði arkitektana hverju þetta sætti og af hverju þeir hefðu ekki haft húsið einni hæð lægra svöruðu þeir því til að það væri svo leiðinlegt að hafa fólk á þriðju hæðinni sem þyrfti að horfa út á flatt þakið! Samt fannst þeim í lagi að tugir starfmanna sem sæu ekkert út, störfuðu í kjallaranum!
Ný tækni gefur færi á hagræðingu. Sameining fréttastofanna var löngu tímabær. En það er afar varasamt að draga allan mátt úr RUV á sama tíma sem enginn veit hve samdrátturinn verður mikill í einkageiranum og hvernig eignarhald þróast þar.
RUV á að vera kjölfesta og akkeri íslenskra ljósvakamiðla. Vonandi verður sparað á réttum stöðum. Sú táknræna aðgerð að leggja fyrst niður einhvern ódýrasta liðinn, morgunleikfiimina, minnir á það þegar sparnaður í fyrirtækjum birtist í því að þvottakonum er sagt fyrst upp af öllum.
![]() |
Boðað til starfsmannafundar hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2008 | 14:19
Svefnleysi og tapaðar orrustur.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar stórskemmtilegan pistil í Fréttablaðið í dag um svefn og gildi hans. Tekur nokkur dæmi um afdrifaríkar afleiðingar svefnleysis og það tilsvar viðskiptaráðherra að hann hafi aðeins sofið 40% af þeim tíma sem hann þurfti meðan íslenskst fjármálalíf fór í hundana. Hafði reyndar sofið á verðinum fyrr í ráðherratíð sinni.
Ég get bætt við svakalegasta dæmi sem ég þekki um þetta. Þegar Þjóðverjar nálguðust París 1914 og virtust vera að sigra í heimsstyrjöldinni fyrri fór Moltke, yfirhershöfðingi Þjóðverja í baklás og panik vegna svefnleysis og gerði hver mistökin á fætur öðrum. Á sama tíma hafði Joffre, hershöfðingi Frakka, skipulagt þannig vinnu sína, að hann svaf fullan átta tíma svefn á hverri nóttu og allt sem hann gerði gekk upp.
Þegar hann svaf sáu aðrir um að taka nauðsynlegar ákvarðanir og höfðu til þess fullt umboð, enda miðaðist vinnan á vökutíma Joffres við þetta fyrirkomulag. Moltke hélt hins vegar að hann væri ómissandi og klúðraði þýsku sókninni með mistökum svefndrukkins manns.
Hitler hélt að hann væri ómissandi og var orðinn langt leiddur lyfjasjúklingur í lokin. Þegar bandamenn réðust inn í Normandí svaf Hitler aldrei þessu vant og vegna þess hve hann var háður þessum stutta svefni sínum, var bannað að vekja hann innrásarmorguninn. Það hefði svo sem verið í lagi fyrir hann að sofa ef hann hefði haft fyrirkomulag Joffres og veitt undirmönnum sínum heimild til að taka nauðsynlegar ákvarðanir þegar hann svaf. En það gerði hann ekki.
Afleiðingin var ringuleið meðal Þjóðverja og þeir misstu af tækifærinu til að reka bandamenn í sjóinn á þann hátt sem Rommel hafði viljað að gert yrði með því að hafa skriðdrekasveitir nær ströndinni og komast sem skjótast að innrásarmönnum.
Eftir ofsakláðaveikindi vegna gulu af völdum lifrarbrests fyrr á árinu veit ég um gildi svefnsins. Ég og um það bil tíu aðrir Íslendingar sem hafa orðið fyrir þessu af völdum sterkrar sýklalyfjagjafar vorum rænd svefni í 2-4 mánuði. Sum okkar áttu aðeins fáa daga í það að vera flutt á Klepp. Ég fékk þriggja mánaða "fangelsismeðferð.
Þetta er nefnilega viðurkennd besta pyntingaraðferð í fangelsum, meðal annars í Guantanamo. Í mínu tilfelli misstust 16 kíló og 40% af blóðinu. Allir vita hvað verður um rafhlöðuknúin tæki þar sem gengið er á rafhlöðurnar. Sama gildir um svefninn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2008 | 20:49
Hvað eru "stjórnmálaflokkar"?
Sem talsmaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands hef ég orðið var við athyglisverðan tvískinnung gagnvart hreyfingunni, sem meðal annars hefur birst á mótmælafundum og borgarafundum að undanförnu. Á fyrsta borgarafundinum í Iðnó var talsmönnum flokkanna sem eiga menn þingi boðið að sitja fyrir svörum en Íslandshreyfingin ekki talin með.
Bak við þetta stóð sú staðreynd að enda þótt hreyfingin fengi atkævðamagn sem hefði nægt fyrir tveimur þingmönnum hjá hinum flokkunum, kom ósanngjörn kosningalöggjöf í veg fyrir hún fengi þingfulltrúa í samræmi við fylgi sitt. Mikill áróður fór fram til að hræða kjósendur frá því að kjósa hreyfinguna vegna þess að atkvæðin myndu "falla dauð."
En fyrir bragðið er Íslandshreyfingin eini stjórnmálaflokkurinn sem ekki á aðild að því sem gert hefur verið á þingi, til dæmis eftirlaunaósómanum. Á stofndegi hreyfingarinnar var lýst yfir því að hún vildi öll slík sérréttindi í burtu jafnhratt og þeim var komið á. Fróðlegt var að sjá í Kastljósi í kvöld röksemd Þuríðar Bachmann fyrir hönd VG sínum tíma fyrir sérréttindum handa þingmönnum og æðstu ráðamönnum, sem eftirlaunalögin kveða á um.
Allir þingflokkarnir áttu hlut að þessu máli og hafa notið og munu njóta sérréttinda meðan lögin gilda.
Íslandshreyfingin var eini stjórnmálaflokkurinn sem lagði upp í síðustu kosningabaráttu á síðustu stundu með tvær hendur tómar og er eini flokkurinn sem sérstök lög um fríðindi fyrir formenn gilda ekki um og ættu að vera innaflokksmál hvers flokks.
Á næsta borgarafundi var formönnum flokkanna boðið og ég koma á fundinn, en aftur voru þingflokkarnir einir um það að eiga fulltrúa uppi á sviði. Samt var tiltekið í sjónvarpsfréttum að ég og Steingrímur J. Sigfússon hefðum verið einu formennirnir sem komu á fundinn.
Í raun er Íslandshreyfingin grasrótarsamtök utan þings. Önnur grasrótarsamtök utan þings sýnast samt ekki átta sig á þessu og skilgreina okkur sem slík heldur sem sams konar stjórnmálaflokk og flokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi.
Það sést á baráttumálum þessara hópa og samtaka að þau eru í raun þrælpólitísk og er það vel. Ef þau byðu fram til þings yrði það ekkert frábrugðið framboði okkar síðast og því eru þessi samtök í raun skilgreinir stjórnmálaflokkar eða bandalag byggt á stjórnmálum ef þau byðu fram.
Þess utan er athyglisvert að stefnumál Íslandshreyfingarinnar nú eru nokkurn veginn þau sömu og hinna grasrótarsamtakanna eins og koma mun vel fram í ályktun, sem stjórn hreyfingarinnar mun senda frá sér til fjölmiðla á morgun og stefnt er að að verði komin á heimasíðu Íslandhreyfingarinnar í kvöld.
Við viljum kosningar sem fyrst þar sem kosið persónukosningu eftir nýjum kosningalögum, ítarlega rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga, tafarlausan stuðning af ríkisfé til að bjarga þeim sem verst eru staddir, að þegar verði skipt um menn í ábyrgðarstöðum o. s. frv.
Stjórnarmenn og fleiri í hreyfingunni hafa sótt mótmælafundi og borgarafundi og haldið eigin fundi á eftir Austurvallafundunum.
Þessi áherslumál okkar hafa speglast í bloggpistlum mínum og því ítreka ég þá skoðun mína að Íslandshreyfingin - lifandi land eigi heima í hópi grasrótarsamtakanna sem hafa sprottið upp með stórauknum stjórnmálaáhuga undanfarnar vikur.
![]() |
Íslendingar boðaðir á þjóðfund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
27.11.2008 | 19:29
Dæmalaust ástand.
Leita þarf 59 ár aftur í tímann til jafn eldfims ástands og nú ríkir hér á landi, en óróinn vegna inngöngu Íslands í NATÓ náði hámarki 30. mars 1949 í hinum miklu óeirðum, sem þá urðu á Austurvelli, hinum mestu í þjóðarsögunni. Ég man eftir þessu ástandi og held að ástandið núna sé jafnvel eldfimara en þá.
Það var fróðlegt að fylgjast með andlitum ráðherra og þingmanna á borgarafundinum í Háskólabíói þegar þeir stóðu eða sátu í fyrsta sinn augliti til auglitis við fjöldann, sem fyllir Austurvöll viku eftir viku. Í raun horfðu þeir framan í þau 70% þjóðarinnar sem í skoðankönnun vantreysti þeim.
Senn fara jól í hönd og ekki er víst að upp úr sjóði héðan af fyrir áramót. Hitt er víst að þegar komið verður fram í febrúar verður ástandið mun verra en nú og hver einasti maður minntur á það daglega þegar hann opnar budduna hverjir brugðust honum.
Miklu myndi breyta ef stjórnvöld sýndu einhver merki þess að þau vilji koma til móts við hina hörðu og útbreiddu gagnrýni sem á þeim dynur. Þau taka óþarfa áhættu með því að hrófla ekki við neinum og fresta því þar til mál verði endanlega gerð upp, - kannski ekki fyrr en eftir heilt ár.
Í Bretlandi gerist það býsna oft að skipt er út mönnum úr ríkisstjórn og stokkað upp í ráðherraliðinu af miklu minna tilefni en hér er að finna nú. Að ekki sé nú talað um embættismennina, sem virðast ginnheilagir, gagnstætt því sem fólkið upplifir, sem missir atvinnuna vegna mistaka embættismannanna.
![]() |
Á ekki von á byltingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.11.2008 | 18:58
Af hverju er stjórnarmyndun hættuleg?
Meðal raka forseta ASÍ að hættulegt sé að halda kosningar er sú truflun sem ríkisstjórnarmyndun myndi valda eftir kosningar. Þessu er hægt að andmæla. Ef núverandi stjórnarflokkar héldu meirihluta sínum eins og skoðanakannanir benda raunar til, ættu þeir varla í vandræðum með myndun nýrrar ríkisstjórnar eða það að láta núverandi ríkisstjórn standa óbreytta.
Mun auðveldara væri eftir slíkar kosningar að skipta út ráðherrum heldur en nú og uppfylla þannig óskir Gylfa.
Og ekki bara það. Eftir slíkar hefði hvaða ríkisstjórn sem væri umboð frá þjóðinni í samræmi við gerbreyttar aðstæður.
Ef kosið væri um það sérstaklega hvort eigi að sækja um aðild að ESB yrði auðveldara að mynda stjórn, vegna þess að þá hefði þjóðin sjálf sent erindisbréf til komandi stjórnar og auðveldara yrði að mynda stjórn heldur en ef ESB-málið truflaði bestu hugsanlega stjórnarmyndun.
Eins og er heldur ESB-málið íslensku stjórnmálalífi og stjórnmálaflokkunum í gíslingu. Því ætti að vera hægt að breyta í kosningum.
![]() |
Kosningar eru hættuspil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 23:32
Fyrirsjáanlegt.
Rétt eins og íslenska fjármálakreppan var fyrirsjáanleg hefur hrun byggingariðnaðar og verslunar verið enn fyrirsjáanlegra. Eitt af einkennum hinnar fáránlegu þenslu voru húsbyggingar langt umfram þarfir þjóðarinnar, útþensla sem gat ekki endað nema á einn veg.
Íslendingar sem voru erlendis í nokkur ár upp úr aldamótunum og komu heim í fyrra ráku upp stór augu við að sjá allar stóru byggingarvöruhallirnar, sem hafa þotið upp á örskömmum tíma og byggðust á samskonar þenslu og hús, sem byggð eru á sandi.
Jafnvel þótt bankarnir hefðu ekki hrunið var fyrirséð að þessi allt of hátt spennti bogi myndi bresta. Búið var að reisa hús sem myndu ekki verða fullnýtt fyrr en eftir áratug eða meira.
Framundan eru allmörg ár með auðum byggingum og jafnvel hálfkláruðum vegna þess að tjaldað var til einnar nætur og ekkert skeytt um máltækið "what goes up must come down."
![]() |
Staðnaður byggingariðnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.11.2008 | 20:41
Þrír þingmenn rumska.
Ástandinu á Alþingi í haust hefur verið lýst þannig að þar hafi setið aðgerðarlítill þingheimur að fjalla um ótal smærri mál en verið fjarri þeim málum sem mestu máli skipta. Þingheimur hafi jafnan beðið eftir því að fá frumvörpin sent úr ráðuneytunum og þau hafa síðan "runnið hratt í gegn í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna" eins og það var orðað í sjónvarpi í kvöld.
Nú hefur kviknað lífsmark með þremur af fjórum þingmönnum Frjálslynda flokksins sem hafa lagt fram frumvarp um það að krónan verði tengd við norsku krónuna.
Skömmu eftir bankahrunið var forsætisráðherra Noregs spurður um þetta í kjölfar umleitunar Steingríms J. Sigfússonar og svaraði ráðherrann því til að það kæmi ekki til greina.
Ég hef ekki spurt þingmenn Fjálslynda flokksins að því af hverju þeir haldi að svarið verði á aðra lund nú. Kannski halda þeir að Norðmenn muni frekar taka formlegri beiðni á jákvæðari hátt en spurningunni fyrr í haust.
Þeir virðast hafa gert ráð fyrir þeim möguleika að svar Norðmanna yrði aftur neikvætt og að þá kæmi til greina að taka upp evru með eða án samvinnu við ESB. Svörin um það efni voru neikvæð hjá ESB-fólki fyrr í haust og ef ég man rétt var eitt svarið á þá lund að slíkt yrði tekið mjög óstinnt upp þar á bæ.
Nú er vitað að nokkur lönd, svo sem Svartfjallaland, hafa gert þetta og að þetta er tæknilega mögulegt. Hins vegar vaknar spurningin um það hvort afstaða ESB verði nokkuð öðruvísi ef við förum út í svona nú og hvort svona beinar umleitanir muni jafnvel valda óróa í samskiptum okkar við þjóðirnar sem hafa tengst svo náið þeim aðgerðum sem þegar hafa verið ákveðna.
Ég á því varla von á því að stjórnarmeirihlutinn muni taka vel í þessar hugmyndir þingmannanna þriggja sem hafa nú rumskað eftir langa fjarveru frá mótun mála.
Það vekur athygli að Kristinn H. Gunnarsson er ekki samferða flokksfélögum sínum. Hann virðist vera að nálgast þann hring á ferli sínum að fara úr stjórnarandstöðu í átt til stjórnarliðsins líkt og forðum þegar hann fór úr Alþýðubandalginu í stjórnarandstöðu yfir til Framsóknar sem var þá í stjórn.
![]() |
Vilja tengja íslensku krónuna við þá norsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.11.2008 | 14:48
Bjargi sér hver sem bjargað getur.
Gamalt máltæki segir: "Bjargi sér hver sem bjargað getur." Það kemur upp í hugann þegar litið er til þess sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins, því sjálfu og allar götur siðan. Stundum á þetta við sem skásta úrræðið á sameiginlegum flótta en í nútíma þjóðfélagi oft alls ekki.
Þennan hugsunarhátt má oft sjá ráða ríkjum í íslenskri umferð til mikils baga en sem betur fer er það á undanhaldi.
Í bankarhuninu, aðdraganda þess og eftirmálum er að koma í ljós hvernig sumir höfðu betri möguleika til að sleppa vel á flóttanum en aðrir.
Rétt eins og sett voru neyðarlög á sínum tíma vegna fordæmalausra aðstæðna verður að upphefja bankaleynd á skýrt afmarkaðan og markvissan hátt þegar ósköp þessara síðustu missera verða gerð upp. Í hádegisfréttum útvarpsins færði Eiríkur Tómasson góð rök að þessu. Kann að vera að allt hafi verið og sé löglegt, en margt hefur vafalaust verið siðlaust.
Það verður aldrei hægt að læra neitt ef menn hafa ekki réttan grundvöll fyrir lærdómnum. Þegar ráðamenn segja að það eigi að velta við hverjum steini þá verða athafnir að fylgja orðum.
![]() |
Notuðu peningamarkaðssjóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2008 | 12:02
Margt sinnið sem skinnið.
Sagan af ótúlegri reynslu Jóns Auðunar Bogasonar af ótugtarlegum Dönum minnir á orðtakið að "svo er margt sinnið sem skinnið." Sem betur fer held ég að þetta sé undantekning og get nefnt dæmi um hið gagnstæða.
Sonur minn fór til náms við háskólann í Horsens og komst þá að því að vegna þess að foreldrar hans höfðu í frumbernsku verið þegnar Danakonungs fyrir sextíu árum fengi hann talsverð fríðindi vegna skólavistarinnar.
Þetta voru og eru leifar af þeim tíma þegar íslensk yfirstétt sem réði öllu því á Íslandi sem máli skipti og naut sömu forréttinda fyrir syni sína við danska háskóla og danski aðallinn. Eini munurinn var sá að dönsku aðalsmennirnir voru skyldir að senda syni sína í herþjónustu og stríð ef þess þurfti með en íslenska yfirstéttin var undanþegin slíku.
![]() |
Neitað um viðskipti í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)