(Frb.9366) Hættan á stigmögnun.

Aðalhættan af Kóreustríðinu 1950-53 var stigmögnun stríðsins. Upphaf stríðsins var það að Stalín taldi það áhættunnar virði að gefa Norður-Kóreumönnum samþykki sitt fyrir óvæntri innrás inn í Suður-Kóreu.

Von hans var sú að með því að koma Suður-Kóreumönnum á óvart og nýta meiri herstyrk Norður-Kóreumanna gæti unnist alger sigur í leifturstríði og að Vesturveldin stæðu þá frammi fyrir orðnum hlut. 

Stalín hafði misreiknað styrk Vesturveldanna í Berlínardeilunni og haldið að þeir gætu ekki haldið stöðu sinni þar með loftbrú. Annað kom á daginn og deilan þjappaði vestrænum þjóðum saman. 

Eftir deiluna var NATO stofnað með þeirri yfirlýsingu að árás á eitt aðildarríki jafngilti árás á þau öll. 

Stalín fór því að svipast um annars staðar og nýstofnað Alþýðulýðveldi Kína hafði fært honum nýjan bandamann í Asíu og stórfellda landvinninga kommúnista þar. 

Í Kóreu sá hann ef til vill færi á að bæta upp vonbrigðin í Evrópu, en hann gerði í þá í staðinn önnur mistök, sem sé þau, að hafa stillt því óvart svo til að Sovétmenn höfðu dregið fulltrúa sinn tímabundið út úr Öryggisráðinu. 

Fyrir bragðið gátu þeir ekki beitt neitunarvaldi þegar Öryggisráðið ákvað að stofna til herafla SÞ og fela Bandaríkjamönnum yfirstjórn hans. 

Litlu munaði að Norður-Kóreumönnum tækist að ná öllum Kóreuskaganum en kannski réði úrslitum um að það tókst ekki, að herafli SÞ varð stærri og fyrr kominn til bardaga en ef Bandaríkjamenn hefðu einir brugðist við. 

Þegar herir SÞ sóttu norður Kóreuskagann og voru að ljúka við að leggja Norður-Kóreu undir sig var tekin áhætta á íhlutun Kínverja. 

Ráðamenn Vesturveldanna vildu að ekki yrði farið alla leið norður skagann en Douglas McArthur yfirhershöfðingi fór lengra og afleiðingin varð sú að Kínverjar sendu her til að taka þátt í stríðinu, sem sótti langt suður eftir skaganum og tók Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.

Kannski hefðu Kínverjar hvort eð er blandað sér í stríðið, því að sameining Kóreu í eitt lýðræðisríki að vestrænni fyrirmynd hefði talist ósigur fyrir kommúnistaríkin. 

McArthur vildi þá fara í kjarnorkustríð við Kínverja og ráðast inn í Kína en Truman Bandaríkjaforseti rak hann þá úr embætti.

Herjum SÞ tókst að snúa vörn í sókn og þegar pattstaða myndaðist nálægt fyrrum landamæra ríkjanna. Niðurstaðan varð samningaferli sem var einstaklega erfitt og langt vegna djúpstæðrar gagnkvæmrar andúðar og tortryggni.

Hættan nú er nákvæmlega sú sama og fyrir 60 árum, sem sé sú að átök stigmagnist og fari úr böndum.

Aðilar telja sig ekki geta komist hjá því að fara út í hefndaraðgerðir, sem gætu hæglega orðið sífellt stærri og afdrifaríkari.

Leitun er að firrtari og spilltari ráðamönnum í heiminum en alræðisherrum Norður-Kóreu. Í landinu ríkir ömurleg fátækt, kúgun og hungursneyð og eina svar ráðamannanna hefur verið að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eldflaugum til þess að nota þau sem hótun til að fá erlenda aðstoð í skiptum fyrir að halda friðinn. 

1950-53 óttuðust menn heimsstyrjöld ef ástandið í Kóreu færi meira úr böndunum en orðið var. 

Nú er vonandi ekki hætta á slíku en hins vegar myndi kjarnorkustríð á Kóreuskaga verða óskaplegur harmleikur og valda gríðarlegu tjóni í Asíu, miklu verra tjóni en stórstríð þar hefði valdið fyrir 60 árum, því að nú eru Asíuríkin margfalt stærri hluti heimsframleiðslu og viðskipta en þá var. 

Stórstríð í Kóreu myndi því valda alheimskreppu. 

 

 


mbl.is Segja Suður-Kóreu hafa byrjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Framb. 9365) "Það endar með því að þeir drepa einhvern..."

Ofangreint er haft eftir karli einum þegar fréttist af því að stórstyrjöld hefði brotist út í Evrópu snemma á síðustu öld. Og nú er spurt í hvað stefni á Kóreuskaga.

Athygli vakti á árunum 1951 til 1953 hve samningaviðræður milli stríðsaðilanna í Kóreustyrjöldinni, annars vegar hers Sameinu þjóðanna og hins vegar hers Kínverja og Norður-Kóreumanna, gengu illa. 

Þótti afar óvenjulegt hve mikil gagnkvæm tortryggni, vantraust og vanvirðing ríkti á milli deiluaðila. 

Hvað eftir annað slitnaði upp úr viðræðum eða hljóp í þær kergja, þótt fyrir lægi viljayfirlýsing beggja og vilji stórveldanna, annars vegar Bandaríkjamanna og Breta og hins vegar Kína og Sovétríkjanna, til að hætta frekari manndrápum. 

Allan tímann, sem viðræðurnar stóðu, reyndi hvor um sig ítrekað að sæta færis og laga samningsaðstöðu sína á vígvellinum með nýjum uppákomum og árásum.

Þúsundum mannslífa var fórnað til þess að reyna að breyta vígstöðu sem allir sáu að var pattstaða sem ekkert fékk haggað eins og kom reyndar á daginn.

Fyrir 60 árum voru það aðallega Kóreumennirnir  sem eitruðu andrúmsloftið og var Syngman Rhee, forseti Suður-Kóreu áberandi herskárri en leiðtogi Norður-Kóreumanna, Kim Il-sung, sem hafði þó hafið þetta stríð. 

Hann var í veikri aðstöðu því að her hans hafði farið verr út úr átökunum en her Suður-Kóreu.

Á síðustu árum virðist þetta hafa snúist við og má leiða að því líkum að þeim vaxi í augum ímyndaður ávinningur að því að klófesta hið ríka nágrannaland í suðri sem hefur blómstrað á meðan Norður-Kóreumenn lifa við sult og seyru af völdum hinnar hræðilegu alræðisstjórnar landsins. 

Það er hastarlegt að næstum 60 árum seinna sé svipað að gerast í samskiptum kóresku ríkjanna og gerðist á tímum Kóreustríðsins 1950-53.  


mbl.is Sprengjum varpað á Suður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna var höfnin ekki tveimur kílómetrum vestar?

Um áratuga skeið hef ég fylgst með því úr lofti hvernig aur jökulfljótanna litar sjóinn við ósa ánna.

Úr lofti lítur þetta út eins og aurkeila á yfirborðinu sem nær nokkra kílómetra til hliðar við ströndiha og teygir sig yfirleitt lengra til vesturs en austurs. 

ímynda má sér að aurinn komist lengra frá ósunum undir yfirborði sjávarins, en augljóst virðist að hann sé yfirleitt mestur næst ósnum og minnki þegar lengra dregur frá honum. 

Af þessu má draga þá eðlilegu ályktun að aurinn sé mestur við ósana en minnki þegar frá dregur. 

Því má spyrja hvers vegna höfnin var ekki höfð vestar, til dæmis neðan við Bakkaflugvöll, og hefðu þessi tvö samgöngumannvirki þá verið heppilega nálægt hvort öðru.


mbl.is Áhyggjufullir landeigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fálæti í garð merkilegrar stofnunar.

Það var sagt að á tímum Guðna Guðmundssonar rektors M.R. hafi fjárveitingavaldið refsað honum aftur og aftur fyrir aðhald í fjármálum skólans með því að minnka fjárframlög til skólans, af því að Guðni gat haldið sig innan fjárlagarammans, ólíkt því sem margar aðrar stofnanir gerðu. 

Ég hef í gegnum tíðina oft undrast hvað ráðamenn, sem áttu M.R. að þakka menntun sína, launuðu skólanum illa fóstrið. 

Meðal annarra þjóða eru grónar menntastofnanir, á borð við M.R. með langa og merka sögu að baki, í hávegum hafðar og ekki þarf að fjölyrða um það að M.R. hefur algera sérstöðu hér á landi hvað það snertir. 

Því undarlegra finnst mér fálætið sem mínum gamla skóla er oft sýnt. 


mbl.is Sérstaða MR í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð 9365: Dæmi um sjálfbæra þróun.

Það var gaman að koma í útvarpshúsið í gær og hitta hóp af hressum frambjóðendum til Stjórnlagaþings.

Ýmislegt bar á góma og í viðtali við einn þeirra barst talið að hugtakinu "sjálfbær þróun", en það hugtak var nefnt í tilmælum Þjóðfundarins á dögunum.

Ég hef áður nefnt að hugtakið hljóði svona: ( en orðið þróun táknar starfsemi, nýtingu, aðgerðir eða framkvæmdir) : "Sjálfbær þróun er þróun, sem ekki kemur í veg fyrir möguleika komandi kynslóða á að velja sér þróun."  

Með öðrum orðum er um að ræða hvort þróunin sé afturkræf eða ekki og þetta hugtak er orðið til vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem þetta mál snertir, er ófæddur, og það þarf því að huga að jafnrétti kynslóðanna sem mannréttindamáli hinna óbornu milljóna í komandi stjórnarskrá líkt og gert er í mörgum öðrum löndum. 

Viðmælandi minn stóð í þeirri trú að þetta sjálfbærnistal væri firra því að allt frá 1850 hefðu menn aðhafst ýmsa hluti hér á landi sem snerti hagsmuni komandi kynslóða.  Nefndi hann sem dæmi að Elliðavatn væri manngert vatn. 

Þetta er reyndar ekki rétt, heldur er hið rétta,  að Elliðavatn var hækkað og stækkað með lágri stíflu við vatnið og virkjun Elliðaánna. Árnar eru hreinar og tærar og engin setmyndun í Elliðavatni eða lóni neðar í farveginum. 

Hvenær sem er getur kynlóð ákveðið að leggja Elliðaárvirkjun niður, rífa stíflurnar og færa allt í sama horf og var við landnám. Virkjunin er semsagt afturkræf, sjálfbær og skapar endurnýjanlega orku. 

Sama er að segja um Sogsvirkjanirnar nema hugsanlega þá efstu hvað varðar urriðann í Þingvallavatni, sem vafi leikur á hvort hægt sé að efla á ný til fyrri stærðar. 

Annað er hins vegar uppi á teningnum skammt vestan við Elliðavatn þar sem Rauðhólarnir voru teknir í malaruppfyllingu undir mannvirki í Reykjavík.  Þetta var algerlega óafturkræf framkvæmd og ósjálfbær þróun, því að engin leið er að framkalla Rauðhólana aftur. 

Rauðhólarnir áttu enga svona stóra hliðstæðu hér á landi nema við Mývatn og það hefði verið hægt að taka mölina annarsstaðar. 

Við jarðvarmavirkjanir á Reykjanesskaga er miðað við að þær endist að meðaltali í 50 ár en þá muni jarðhitasvæðin kólna og ekki ná sér aftur fyrr en eftir að minnsta kosti öld þaðan í frá. 

Með slíkum virkjunum er á óafturkræfan hátt tekið valfrelsi af nokkrum kynsóðum að minnsta kosti hvað snertir orkuöflun, því að þessir afkomendur okkar munu standa frammi fyrir því að afla orku annars staðar í staðinn og þá kannski á miklu merkilegri svæðum hvað náttúruverðmæti snertir. 

Viðmælandi minn lagði líka stórvirkjanir í jökulfljótum að jöfnu við Elliðaárnar hvað sjálfbærni varðar, en það er algerlega fráleitt og sýnir að hann hefur ekki hugleitt þessi mál. 

Með Kárahnjúkavirkjun verður 25 kílómetra og 180 metra djúpur 57 ferkílómetra dalur fylltur upp með jökulauri og er þessi aðgerð því gersamlega óafturkræf, auk þess sem svona virkjun gefur ekki endurnýjanlega orku eftir að miðlunarlónið er orðið fullt og ónýtt. Kárahnjúkavirkjun getur ekki talist sjálfbær þróun samanber skilgreininguna hér að ofan.

Sultartangalón mun fyllast á nokkrum áratugum og verða ónýtt til miðlunar. 

Langisjór, fegursta fjallavatn landsins, mun líka fyllast upp á svipaðan hátt með Skaftárveitu. 

Fleiri dæmi má nefna um ósjálfbæra þróun og miðað við það að nánast allir sem ég spyr, vita ekki hvað sjálfbær þróun er, er mikið verk óunnið í menntamálum og upplýsingagjöf hér á landi hvað þetta varðar. 


mbl.is Talað var við nærri 500 frambjóðendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinir snillingar!

Það er gaman að fylgjast með því hvernig íslenskir kunnáttumenn hafa komist í forystu á heimsvísu í notkun bíla í ferðum yfir snævi þakið land.

Ég hef í áraraðir verið samferða Frey Jónssyni, einum af Suðurskautsförunum, sem nú hafa komist á þann pól, um hálendi og jökla Íslands og þvert yfir Grænlandsjökul. 

Freyr er alger snillingur í mínum huga. 

Á ferðinni vestur yfir Grænlandsjökul lenti einn jeppanna á kafi í krapi og vatni og komst vatn inn á vélina. 

Freyr og félagar töfðust ekki nema tæpan dag þarna úti í auðninni við að taka vélina í sundur og tæma vatnið úr henni. 

Á leiðinni upp Grænlandsjökul á vesturleið, sagði Freyr allt í einu við ferðafélaga sína: "Finnið þið nýja lykt í bílnum, sem ekki á að vera?"  Enginn fann hana. 

Nokkru síðar spurði hann sömu spurningar og þá fundu einhverjir lykt en sögðust ekki vita af hverju hún væri. 

"Ég finn lykt af gírkassalegu" sagði Freyr þá, stöðvaði bílinn og fór út til viðgerðar. 

Það tók hann rúman hálftíma að losa og rífa það í sundur sem þurfti til að taka skemmdu leguna úr og setja nýja í. 

Ég greindi frá þessu í blaði umboðsins, sem lá frammi í höfuðstöðvum þeirra eftir ferðina og viðbrögðin létu ekki á sér standa, því þeir viðskiptavinir urðu óánægðir sem þurftu að láta skipta um gírkassalegur eftir þetta og borga fyrir margfalt meiri viðgerðartíma en Freyr notaði uppi á Grænlandsjökli ! 

Við Íslendingar eigum nú drjúgan hóp svona snillinga sem búa yfir verðmætri þekkingu og reynslu, sem getur verið mikilsvirði. 

Það sýnir hvað mannauður landsins er verðmætur og að þar liggja margir ónotaðir möguleikar. 


mbl.is Arctic Trucks komnir á pólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum rykkökkur í göngunum.

Ég hef þurt að aka um Hvalfjarðargöng að staðaldri af ýmsum ástæðum og á veturna eru aðstæður oft þannig í þeim að svifryk vegna negldra hjólbarða er þar greinilega yfir heilsuverndarmörkum.

Ég hef velt fyrir mér hvort loftræsting í þeim hafi tekið mið af hinni gríðarlegu notkun negldra hjólbarða hér á landi þegar þau voru hönnuð. 

Ef göng í Noregi hafa verið höfð til hliðsjónar er þar um að ræða allt aðrar aðstæður en hér því að negld dekk eru ýmist mjög lítið notuð eða alls ekki. 


mbl.is Næturlokun í Hvalfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur 1951?

Þegar Ísland gekk í NATO 30. mars 1949 var það gert á þeim forsendum að ekki yrði herlið á Íslandi, heldur yrði treyst á þá yfirlýsingu að árás á eitt NATO-ríki jafngilti árás á þau öll.

Að baki lá einnig það mat að flotar Bandaríkjamanna og Breta hefðu yfirburði yfir Sovétflotann á Norður-Atlantshafi og Bandaríkjamenn væru einnig með þjónustuaðstöðu á Keflavikurflugvelli í samræmi við Keflavíkursamninginn frá 1947. 

En Kóreustríðið sem hófst sumarið 1950 jók mjög ótta manna við allsherjar stríð milli Vesturveldanna og Kommúnistaríkjanna, einkum eftir að Kínverjar drógust inn í stríðið í árslok 1950. 

Þegar þar að auki kom fram ákafi Douglas McArthurs yfirhershöfðinga á að gera innrás í Kína og beita kjarnorkuvopnum var ljóst að hættan á heimsstyrjöld var veruleg. 

Bandaríkjamenn gáfu út þá yfirlýsingu að ekki væri útilokað að þeir beittu kjarnorkuvopnum sem neyðarúrræði og drógu þessa yfirlýsingu aldrei til baka. 

1949 höfðu Sovétmenn sprengt fyrstu kjarnorkusprengju sína og því var hætta á kjarnorkustyrjöld. 

Það á eftir að rannsaka hvenær Bandaríkjamenn hófu að þrýsta af alvöru á íslensk stjórnvöld um að senda herlið til Íslands en kannski hófst það um þetta leyti þegar stríðshættan var mest. 

Hafi þessi ætlan farið á flot þá hefði þurft eitthvað mikið til að draga hana til baka. 

Að minnsta kosti virðist sú ákvörðun Trumans Bandaríkjaforseta að reka McArtur ekki hafa verið nóg til þess að talið væri nægilega friðvænlegt í heiminum til að draga úr viðbúnaði. 

Einnig kemur til greina að Bandaríkjamenn hafi aldrei verið sáttir við herleysi Íslands og beðið eftir að bitastæð ástæða yrði til að koma hér upp herstöð. 

Kóreustríðið stóð í tvö ár eftir þetta þrátt fyrir umleitanir til friðarsamninga og ollu því djúpstæð tortryggni og vantraust sem ríkti á milli stríðsaðila.

Þetta smitaði út frá sér og því var mjög ótryggt ástand í heimsmálum á þessum tíma, svo ótryggt, að  þingmenn þriggja af fjórum þingflokkum á Íslandi, töldu rétt að samþykkja á laun að gera varnarsamning við Bandaríkin áður en herlið kæmi hingað. 

Í rökstuðningi ríkisstjórnarinnar fyrir þessu sagði að þegar stríðshætta ríkti væri líiklegra að hugsanlegur óvinur réðist frekar á garðinn þar sem hann væri lægstur en þar sem hann væri hæstur. 

Þegar litið er yfir samskipti Íslands og Bandaríkjanna síðan 1945 sést glögglega að bandarískir öryggis- og hernaðarhagsmunir réðu í raun ferðinni í öllum meginatriðum allan þennan tíma, allt frá beiðni um þrjár herstöðvar til 99 ára 1945 til brottfarar varnarliðsins 2006.

Nú er spurningin sú, að komi það upp að setja verði upp gagneldflaugavarnarkerfi, verði sagt svipað og 1951 að árás hugsanlegs óvinar sé líklegri þar sem garðurinn sé lægstur en þar sem hann er hæstur. 

Þetta er að sjálfsögðu háð hernaðartæknilegum atriðum eins og þeim hvort hægt sé að mynda varnarskjöld yfir Íslandi með notkun gagneldflaugakerfa í öðrum löndum. 

Spurningin er einnig hvort hugsanlegur óvinur telji það nokkurn akk fyrir sig að ráðast eingöngu á litla og fámenna eyju norður í höfum og uppskera allsherjarstríð í staðinn. 

Þótt Kalda stríðinu sé lokið verður seint friðvænlegt í heiminum. Nýjar aðstæður geta skapast sem hafa áhrif á stöðu einstakra þjóða. 

Áríðandi er að við Íslendingar fylgjumst vel með og öflum okkur þekkingar sem nýtast megi til að spila sem best úr okkar spilum sem herlaus þjóð sem vill viðhalda friði og öryggi. 

 


mbl.is Skotpallar á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kommar" í 6 "vinstri stjórnum" hafa "stutt NATO".

Stundum er sagt að "þögn sé sama og samþykki". Ef fallist er á það er það ekki nýtt að þeir, sem eru yst á vinstri kantinum í íslenskum stjórnmálum "styðji" NATO. Lítum á 54 ára sögu málsins:

 Stjórn Hermanns Jónassonar 1956-58, sem alltaf var kölluð "Vinstri stjórnin", samanber slagorð Sjálfstæðismanna, "aldrei aftur vinstri stjórn!", ætlaði í upphafi að láta varnarliðið fara.

Í mars 1956 samþykkti Alþingi tillögu þessa efnis og þáverandi stjórn sprakk í kjölfarið. Hermann Jónasson sagði fyrir kosningarnar 1956: "Það er betra að vanta brauð..." (...en hafa her í landi) 

Stjórnin heyktist á því. Og aldrei kom til þess að ganga úr NATO, jafnvel ekki þegar NATO-þjóðin Bretar fóru í fyrsta þorskastríðið við okkur 1958.

Stjórn Ólafs Jóhannessonar 1971-74 var líka kölluð "vinstri stjórn" og ætlaði í upphafi að láta varnarliðið fara í áföngum, en heyktist á því eftir undirskrifasöfnunina "Varið land". Aldrei kom til álita hjá þeirri stjórn að ganga úr NATO jafnvel þótt Þorskastríð væri háð við NATO-þjóðina Breta. 

Stjórn Ólafs Jóhannessonar 1978-79 var kölluð og skilgreind sem "vinstri stjórn" en varnarliðið og veran í NATO voru ekki einu sinni til umræðu. Og þögn er sama og samþykki, ekki satt?,

Björn Bjarnason og helstu ráðamenn Sjálfstæðisflokksins skilgreindu stjórn Gunnars Thoroddsens 1980-83 sem "vinstri stjórn" sem nokkrir undanvillingar í flokknum hefðu hjálpað Framsóknarmönnum og Allaböllum til að mynda.

Allaballarnir sögðu ekki múkk um NATO í þeirri stjórn. 

 Stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991 var skilgreind sem "vinstri stjórn" en um hana gilti hið sama og um stjórn Ólafs Jóhannessonar. 

Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er því sjötta "vinstri stjórnin" á Íslandi sem gömlu "kommarnir" í Alþýðubandalaginu og síðar í VG "styðja" með því að gera það ekki að úrslitaatriði í stjórnarsamstarfi að Ísland segi sig úr NATO. 

Átti einhver von á því að 54 ára gömul gróin hefð yrði rofin?  Ekki ég. Og ég get ekki ímyndað mér að Björn Bjarnason hafi átt von á því. 


mbl.is Vinstri stjórnin styður NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9365: Fimm dagar til stefnu.

Þegar þetta er ritað eru rúmir fimm dagar þar til kosning hefst til Stjórnlagaþings. Þetta er einstæður viðburður, jafnvel á heimsvísu, og því mikilsvert að þátttaka almennings verði sem mest, þótt þetta virðist ekki einfalt við fyrstu sýn. Því meiri þátttaka, því betra mannval og því meiri áhrif mun þingið hafa.

Ég mun þessa síðustu daga velta upp nokkrum málum, sem Stjórnalagaþing þarf að taka fyrir á þeim þremur stöðum sem ég hef aðgang að, hér á mbl.is, á eyjan.is og á dv.is. 

Hið fyrsta varðar kjördæmaskipan og í stað þess að skrifa sama pistilinn á þremur stöðum, vísa ég til pistla á eyjan.is  og dv. is sem ég páraði í kvöld. 

Þetta mun síðan væntanlega víxlast eitthvað næstu daga eftir atvikum. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband