Enn eitt "tap þrátt fyrir..."

Eftir hve marga knattspyrnulandsleiki hefur verið sagt að Ísland hafi "tapað þrátt fyrir" þetta og hitt?

Jafnvel hefur verið sagt eftir leik að Ísland hafi tapað, þrátt fyrir að hafa verið betri aðilinn eða að minnsta kosti jafngóður. 

En nú er þessi röð tapaðra leikja orðin of löng til þess að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að við eigum ekki betra karlalandslið en raun ber vitni. 

Knattspyrna snýst þegar öllu er á botninn hvolft um þann einfalda hlut að skora fleiri mörk en andstæðingurinn og það hefur íslenska liðið einfaldlega ekki gert. 

Við höldum auðvitað með "strákunum okkar" og landsliðsþjálfaranum og þetta eru ágætis drengir og leggja sig fram eins og þeir geta.  En markatölurnar eru grimmar og það er ekki gaman að horfa á þær. 

Nú duga ekki lengur setningar eins og "það vantaði herslumuninn" eða "með smáheppni hefðum við..." 

Þetta lítur ekki vel út en þrátt fyrir allt væri það verst að missa alla von um að geta gert betur. 

Stundum er sagt að það sé vonandi að Eyjólfur hressist, en í Eyjólfur er reyndar ekki þjálfari þessa liðs heldur yngra liðsins sem komið er áfram í úrslit í Evrópukeppni og virðist vera hægt að binda rökstuddar vonir við að breyti stöðu aðallandsliðsins þegar þeir hafa aldur til. 

 


mbl.is Tap í Tel Aviv þrátt fyrir góðan lokakafla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna Jónas?

Marga meistara íslenskrar tungu hefur þjóðin átt. Íslensk tunga var verkfæri eina Nóbelskáldsins okkar, Halldórs Laxness, hún var verkfæri Snorra Sturlusonar og annarra skálda og afburða fræðimanna okkar um aldir.

Af hverju var fæðingardagur Jónas Hallgrímsson fyrir valinu þegar valinn var dagur íslenskrar tungu?

Það má rökræða það fram og aftur hvort annar Íslendingur hefði átt að verða fyrir valinu, en hinu verður ekki neitað, að fegurð þjóðtungu okkar rís líklega hvergi hærra en í ljóðum Jónasar og að fáir gátu betur en hann látið fólk hrífast og tárast yfir túlkun hans á fegurð, trega, ást, gleði og harmi. 

Hann var það skáld sem komst næst þjóðarsálinni. 

Á góðri stundu yrkir hann "Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur...? og "þá er það víst að bestu blómin gróa  /  í brjóstum sem að geta fundið til." 

Hann var vísindamaður, ákaflega orðhagur og bjó til frábær nýyrði á borð við orðið "ljósvaki". 

Hann er ígildi listmálara og ljósmyndara eða kvikmyndagerðarmanns í ljóðunum "Gunnarshólma" og "Fjallinu Skjaldbreiði" þar sem hann þarf hvorki pensil né myndavél, slíkt vald hefur hann yfir íslenskri tungu.  

Málverkið sem fólgið er í Gunnarshólma er nákvæmnisverk þar sem "...klógulir" ernir svífa og "fiskar vaka" í ám. 

Hann setur þann sem les niður við Gunnarshólma en þaðan lyftir andi hans sér til flugs eins og kvikmyndagerðarmaður með myndavél og skimar yfir "hrafntinnuþökin" hjá Hrafntiinnuskeri, sem eru fjarri því að sjást neðan af sléttlendinu. 

Sagt er að skáldið Bjarni Thorarensen hafi sagt þegar hann sá fyrst ljóðið Gunnarshóllma: "Nú get ég hætt að yrkja." 

Jónas gat líka ort raunsæisádeilu betur en flestir, ádeilu á borð við "Ísland, farsælda frón" þar sem hann í raun var að hvassbrýna landa sína til að þess að reka af sér slyðruorðið. 

En hin persónulegu ljóð hans snerta okkur mest enn í dag. 

Angist hins einmana, heilsulitla og drykkfelda skálds fjarri fósturjörðinni skín út úr orðunum "Enginn grætur Íslending / einan sér og dáinn...",  "Mér var þetta mátulegt / mátti vel til haga / hefði ég betur hana þekkt / sem harma ég alla daga." 

Hann flýgur í andanum með þrestinum yfir hafið til Íslands til að heilsa stúlkunni með húfuna og rauða skúfinn í peysunni og andvarpar: "Þröstur minn góur, það er stúlkan mín." 

Það er erfitt að velja á milli bestu ljóða "listaskáldsins góða".  "Ferðalok" hljóta þó að koma upp í hugann. 

Spurningunni um það hver stúlkan var sem það ljóð snýst um, verður aldrei svarað til fulls, frekar en að hægt sá að finna pottþétt svar við því hver var höfundur Njálu, sem nefnir persónu sína ekki fyrr en í síðustu setningu sögunnar og þá ekki nafnið heldur aðeins fornafnið "ek". 

Ég gæti vel trúað því að Jónas yrki Ferðalok til fleiri en einnar konu. Sú sem helst hefur nefnd, af því að hún varð honum samferða norður í land ásamt fleirum, er langlíklegust. 

"Greiddi ég þér lokka við Galtará" er lykilsetning í þessu tilliti. 

Þó hnýtur maður um setningu eins og "...Tíndum við á fjalli / tvö vorum saman / blóm í hárri hlíð." 

Gátu þau Þóra verið ein saman að tína blóm í fjalli í þessari ferð? 

Kannski er kvæðið lýsing á hugarástandi manns, sem hefur orðið ástfanginn af fleirum en einni konu og harmar það hlutskipti sitt að horfa sjúkur fram á einsemd fjarri sínu elskaða landi. 

Það er hægt að fara yfir ljóðið Ferðalok og mörg önnur ljóð Jónasar aftur og aftur og dást að og hugleiða innihald þeirra. 

Vísa til Ferðaloka á tónlistarspilarnum hér við hliðina og síðasta blogg mitt á undan þessu, sem mér láðist að tengja við fréttina af verðskulduðum heiðri til handa Vígdísar Finnbogadóttur, Möguleikhússins og Hjálma. 

 


Jónas - Ferðalok.

Það hefur verið mikið að gera hjá mér í dag en dagur íslenskrar tungu er þó ekki liðinn.

Í tilefni dagsins set ég inn í tónlistarspilarann á bloggsíðu minni síðasta lagið af plötu númer þrjú í afmælisútgáfu Senu á rúmlega sjötíu lögum sem ég hef átt aðild að á síðustu hálfri öld og kemur út eftir viku. Blogga nánar um það efni síðar.

En síðasta lagið í albúminu er dálítið óvenjulegt því að textinn er ekki eftir mig heldur Jónas Hallgrímsson. Þess vegna set ég þetta lag inn í dag.

Textinn er ekki af lakari endanum, frábærasta ástarljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, "Ferðalok" Lagið var fyrst flutt við brúðkaup Kristbjargar Clausen og Ragnars Ómarssonar fyrir 18 árum en aldrei sett á disk.

Egill Ólafsson og Sigurbjörg Hjörleifsdóttir sungu en Vilhjálmur Guðjónsson útsetti og annaðist hljóðfæraleik. Lagið er í hópi nokkurra laga á ferilsalbúminu, sem ýmist hafa ekki komið út á diskum eða eru í nýjum búningi.


Vel að þessu komin.

Vigdís, Möguleikhúið og Hjálmar eru afar vel að verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar komin eins og rökstuðningurinn fyrir veitingunni ber með sér.

Ég var í dag á merkri ráðstefnu samtaka erlends áhugafólks og sjálfboðaliða (Seeds) um störf að umhverfismálum hér á landi, en 7-800 sjálfboðaliðar koma til Íslands á hverju ári á vegum þessara samtaka til þess að vinna að ræktunar- og hreinsunarstörfum víða um land. 

Einn fyrirlesturinn á ráðstefnunni fjallaði um hinar undrahröðu breytingar sem orðið hafa á örfáum árum á menntunarumhverfi skólafólks með tilkomu netsins og almennrar tölvueignar. 

Það leiddi hugann að því hvað þetta á eftir að hafa mikil áhrif á stöðu íslenskrar tungu, sem sótt er að úr æ fleiri áttum. 

Vigdís hefur áratugum saman verið ötull liðsmaður íslenskrar tungu og nú síðustu árin sérstakur tungumálasendiherra Sameinuðu þjóðanna í viðleitni samtakanna til að varðveita þau menningarverðmæti sem ótal þjóðtungur heimsins hafa skapað og skapa enn. 

Er ljúft að óska henni og hinum, sem fengu viðurkenningu í dag, til hamingju með verðlaunin. 

Fyrir réttu ári birti ég ljóð um það þrennt, sem gerir Íslendinga að þjóð, en það eru land, tunga og þjóð. Hægt er að nálgast það með því að smella inn orðunum land, tunga og þjóð í leitarlínuna vinstra megin á bloggsíðunni. 


mbl.is Vigdís hlaut verðlaun Jónasar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert venjulegt landsbyggðarskólahús.

Svo kann að virðast að skólamannvirkin að Núpi í Dýrafirði séu ósköp venjuleg landsbyggðarmannvirki sem aðeins snerti heimamenn.

En svo er ekki. Í áranna rás voru hundruð ef ekki þúsundir ungmenna annar staðar af landinu, þar á meðal frá Reykjavík, við nám í skólanum og eiga þaðan dýrmætar minningar. 

Það skiptir því marga máli að vel sé staðið að því hvernig þessi mannvirki verða nýtt og viðhaldið í framtíðinni. 


mbl.is Sölu frestað á húseignum að Núpi í Dýrafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Towering inferno".

Eldsvoðinn í háhýsinu í Shanghai minnir á hina áhrifamiklu stórmynd "Towering inferno" sem á sínum tíma þótti sýna atburðarás sem væri næsta ósennileg en var samt afar mögnuð.

Tvennt vekur athygli varðandi brunann núna.  Annars vegar það að svona skuli yfirleitt geta átt sér stað og hins vegar hvernig reynt er að þagga niður og koma í veg fyrir umfjöllun um hann. 

Í myndinni "Towering inferno" voru það meðal annars alls konar undanbrögð frá lögum og reglum sem gerðu eldsvoðann að stórslysi og líklegt er að svipað eigi við um brunann í Shanghai. 

Virðist með ólíkindum að jafn áberandi hlutur og nælondúkur, sem sveipað var um húsið, hafi verið eldfimur og enginn sem athugaði það. 


mbl.is „Það var angist í svipnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússajeppinn magnaður !

dsc00085_1042429.jpgRússajeppinn sem sló í gegn á Íslandi fyrir rúmri hálfri öld var að mínum dómi best hannaði jeppi síns tíma. Vélin í honum var hins vegar ein sú lélegasta sem þekkst hefur, kraftlaus, eyðslufrek og endingarlítil. Og öxlarnir áttu til að brotna ef settar voru of kraftmiklar vélar í hann.

Fjaðrirnar á Rússanum voru þær mýkstu og bestu sem framleiddar hafa verið. Hann var besti torfærubíllinn á sínum tíma. Öllu þessu hef ég kynnst í akstri 44 ára gamals Rússajeppa, sem ég hef notað við kvikmyndagerð norðan Mývatns.  476476b.jpg

Sigfús Sigurðsson hefur hlotið viðurnefnið Rússajeppinn í handboltanum og á margt sameiginlegt með gamla rússneska jeppanum.

Hann er frá náttúrunnar hendi einhver best "hannaði" varnarmaður handboltans. Einstök blanda af kröftum, afli, stærð og snerpu auk þess sem leikgleðin baráttuandinn, útsjónarsemin baráttuandinn eru ævilega fyrir hendi sem og sá hæfileiki að "lesa leikinn". 

En á leikferli sínum hefur Sigfús orðið að glíma við erfiðleika, sem hann hefur ekki verið að flíka. 

Átökin hafa reynt á hné og ýmsa vöðva og sinar  og meiðsli verið erfið og tíð. Rétt eins og vélin og öxlarnir í Rússajeppanum hefðu mátt vera sterkari hafa verið veikir hlekkir í líkamsbyggingu Sigfúsar. 

Rétt eins og það gladdi mig í fyrrasumar að Rússajeppinn minn við Mývatn heillaði svo þýskt sjónvarpsfólk að það lét hann leika áberandi hlutverk í heimildarmynd, gleður það mig nú að Sigfús Sigurðsson fái tækifæri til að spila úr sínum spilum og heilla aðdáendur handboltaíþróttarinnar. 

Áfram Sigfús! 


mbl.is Sigfús kom, sá og sigraði Minden
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplifunarferðamennska.

Við Íslendingar höfum löngum verið með ákveðnar hugmyndir varðandi ferðalög. Ein hin lífseigasta er að erlendir ferðamenn vilji hafa veður hér sem líkast því sem best gerist í heimalöndum þeirra, sólskin og hita.

Af þeim sökum eru afskrifaðir dagar með rigningu, að ekki sé nú talað um ef vindur er einhver, og veturinn er auðvitað vita vonlaus með myrkri og kulda. 

Allt miðum við þetta við eigin óskir um að veður sé hér samkeppnisfært við það besta sem gerist erlendis þegar heitast er,  þangað sem við förum á sumrin til þess að sleppa frá hinu svala íslenska sumri. 

Hið síðastnefnda hefur að vísu dalað síðan 2007 en er þó enn við líði. 

Síðan kemur allt í einu upp, að erlendir ferðamenn vilji fara í hvalaskoðunarferðir um hávetur, og þykir slíkt fréttnæmt, ekki síst, þegar láta verður eftir hinum erlendu sérvitringum og bjóða þeim upp á slíkar ferðir. 

Ég hef áður sagt hér á blogginu frá því hvernig Lapplendingar í Norður-Skandinavíu laða til sín fleiri ferðamenn á veturna en koma til Íslands allt árið með því að lofa þeim fjórum fyrirbrigðum: Myrkri, kulda, þögn og ósnortinni náttúru. 

Hingað til lands kom kona, bandarískur prófessor í ferðamálafræðum, fyrir ellefu árum og sagði að mesti vaxtarbroddurinn í alþjóðlegri ferðamennsku væri hin svonefnda upplifunarferðamennska undir kjörorðinu "get your hands dirty and feet wet", þ. e. að sækjast eftir skítugum höndum og blautum fótum. 

Skrifað var um þetta í blaðagrein að hér hefði greinilega verið á ferð klikkuð kerlingarskrukka með tómt rugl eins og von væri. Kynjafordómarnir angandi langar leiðir.

Á ferð minni um Írland 1993 fékk ég að vita að á vesturströndinni væri stærsti markhópurinn fólk frá Miðjarðarhafslöndum sem sæktist eftir því að upplifa kalt særokið frá Atlantshafinu, sem ylli því að tré væru blaðlaus þeim megin sem sneri að sjónum. 

Þetta fólk hefði nóg af sólskini og hita heima hjá sér og vildi bæta í upplifunarflóru sína. Ég greindi frá þessu á Stöð tvö þegar ég kom heim og þótti flestum þetta með ólíkindum og að ekki væri ráðlegt að gera út á suðræna "sérvitringa". 


mbl.is Boðið upp á ferðir í hvalaskoðun allt árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott, en jafnast ekki á við raunveruleikann.

Fyrir nokkrum árum fékk ég að prófa nokkurs konar flughermi þar sem hægt var að fljúga í tölvugerðu útsýnisflugi um allt land.

Ég þurfti ekki að fljúga lengi til að sjá að það var afar mismunandi hvað maður fékk út úr þessu flugi. 

Niðurstaðan var sú að það væri helst á Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum sem þetta flug líktist raunverulegu flugi. 

Hins vegar var flug í flatara landslagi sumstaðar algerlega sviplaust og gaf litla mynd af raunverulegu útsýni, svo sem í nágrenni Reykjavíkur, á Suðurlandsundirlendinu og yfir hraunlandslagi. 

Svona tölvugert flug í hermi getur verið mjög gagnlegt og orðið góður undirbúningur fyrir raunverulega flugferð. En enn um sinn mun raunveruleikinn þó taka eftirlíkingunni langt fram. 


mbl.is Í flughermi um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ali okkar tíma ?

Ef Monica Brant er Arnold Schwarzenegger okkar tíma stefnir Manny Paquiao í það að verða Ali okkar tíma eftir frábæra frammistöðu sína í nótt í bardaga við Antonio Margarito.

Pacman eins og hann er kallaður var umfjöllunarefni 60 mínútna þáttarins sem sýndur var í dag, en sárasjaldgæft er að hnefaleikarar séu taldir þess verðir. 

Fram kom í þættinum að Paquiao væri af sumum þeim reyndustu í bransanum vera orðinn betri en nokkur annar hnefaleikari í sögunni, Muhammad Ali meðtalinn. 

Raunar var alveg frábær hnefaleikanótt í nótt og unun að lýsa síðustu bardögunum. 

Sennilega hefur aldrei neinn íþróttamaður notið eins mikillar hylli í heimalandi sínu og Paquiao. Allir, bókstaflega ALLIR á Filippseyjum, horfa á bardaga hans, hvar sem því verður við komið.

Þessi ljúfi maður á hvert bein í öllum, og 75 þúsund manns fylltu hina risastóru höll í Arlington í Texas þar sem viðstaddir sögðu, að andrúmsloftið væri magnaðra en á nokkrum öðrum stórviðburði í íþróttum.

Paquiao hefur hlotið heimsmeistaratitla í átta þyngdarflokkum en það á sér enga hliðstæðu í sögu hnefaleikanna. 

Sumir telja að hann sé nú besti hnefaleikari sem uppi hefur verið, betri en Sugar Ray Robinson og Muhammad Ali. 

Allir þessir meistarar hafa átt það sameiginlegt að hraðinn var þeirra helsta vopn, svo skætt, að um það mátti nota orðin "hraðinn drepur." 

Hnefaleikarar missa hraðann fyrr en höggþyngdina með aldrinum og er það ákaflega persónubundið hvenær hraðinn fer að minnka. 

Paquiao er þingmaður og er það farið að bitna á æfingum hans og undirbúningi.  

Þetta og það, að andstæðingur hans í nótt var 12 sentimetrum hærri og þyngri og öflugri á alla lund, skapaði spennu fyrir þennan bardaga. 

En Paquiao sýndi fádæma yfirburði í bardaganum, vann hverja lotuna á fætur annarri og nýtt sér til hins ítrasta helstu kosti sína, yfirburða hraða og hreyfanleika og hnitmiðuð, nákvæm, hröð og þung högg sem voru búin að fara svo illa með andlit Margarito, að dómarinn hefði átt að stöðva bardagann í 11. lotu. 

En í 12. lotu sýndi Paquiao mikið göfulyndi og miskunn.  Í stað þess að fara hamförum og ganga endanlega frá Margarito, tók hann því rólega mestalla síðustu lotuna og hlífði Margarito greinilega við því að taka á sig svo mörg högg að það hefði getað skaðað hann til framtíðar. 

Freddie Roach sagði fyrir bardagann að að því myndi koma að skyndilega yrði Paquiao þingmaður en ekki hnefaleikari lengur. 

Dæmi er um að þeir bestu hafi dofnað við að dreifa athyglinni að öðru en íþróttinni.

Jack Dempsey linaðist á sínum tíma í hinu ljúfa samkvæmislífi, Ali fór í þriggja og hálfs árs keppnisbann vegna þátttöku í stjórnmálum, Joe Frazier fór að syngja með hljómsveit og var niðurlægður af George Foreman, Tyson klúðraði einkamálum sínum og Lennox Lewis fór að leika í Hollywood og lét Hasim Rachman rota sig. 

Yfirburðir Roy Jones jr. byggðust á fádæma hraða. Um leið og hann minnkaði varð hann skyndlega að ósköp venjulegum hnefaleikara sem var rotaður ítrekað í stað þess að geta leyft sér að brjóta reglurnar á ævintýralegan hátt. 

Persónubundið er hvenær hraðinn fer að minnka. 100 metra hlauparar geta ekki blekkt klukkuna og lengstum hefur verið talið á líkamlegt hámark hraðans og atgerfisins sé um 25 ára aldur. 

Linford Christie sýndi hins vegar að hann hélt hraðanum til 35 ára aldurs. 

Þess vegna gæti Paquiao haldið hraðanum eitthvað enn en líka þurft að sæta því að vera sviptur sínu skæðasta vopni fyrirvaralítið. 


mbl.is „Arnold Schwarzenegger kvenna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband