23.2.2010 | 23:52
Spurningin um endurvakinn frumleika.
Í þessari kreppu eins og kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar má búast við að margar góðar og frumlegar bílategundir líði undir lok.
Það var enginn smálisti af bílategundum sem hurfu milli 30 og 40, Auburn, Franklin, Noble, Cord, Duesenberg o. s. frv., - margir þeirra afburðabílar sem eftirsjá var að.
Nú er spurningin hvort bílaframleiðandi, sem vakti athygli um miðja síðustu öld fyrir afar frumlegan bíl, fari sömu leið eða nái að krafla sig upp úr djúpu feni. Þessi fyrsta bílasmíð sænska flugvélaframleiðandans Saab, sem efsta myndin hér er af, var stórkostlegt hönnunarafrek sem fæddi af sér fyrsta fjöldaframleidda bíl verksmiðjanna.
Síðustu árin hafa gömul og gróin merki verið að hverfa, svo sem Oldsmobile, Pontiac og Plymouth og aðrar bíltegundir, sem áður buðu upp á frumlega og framsækna hönnun, hafa orðið skugginn af sjálfum sér.
Mest hefur það gerst vegna samvinnu, sem hefur leitt af sér að tveir eða fleiri bílaframleiðendur hafa haft samvinnu um sameiginlega undirvagna eða heilu "boddýin" svo og sameiginlegar vélar og drifbúnað.
Saab 92 var hreinræktaður gæðingur í upphafi, og má segja að hann hafi verið fyrsti fjöldaframleiddi smábíllinn sem var almennilega straumlínulagaður því að þótt Volkswagen-bjallan hafi sýnst vera þannig með sínum mjúku og bogadregnu línur, var loftmótstöðustuðull tiltölulega hár, cx-48.
Stuðull "Ursaab", sem fyrst var sýndur á bílasýningu, var aðeins CX 30, sem var minnsta loftmótstaða á nokkrum bíl í heiminum næstu hálfa öld!
Vélin var að vísu kópía af þýskuDKW tvígengisvélinni en bíllinn allur var einstakur, sterkur og furðu þægilegur og hentaði auk þess vel fyrir slæma vegi.
Eini gallinn á grófum vegum var púströrið, sem var lægsti punktur, því að gólf bílsins var algerlega slétt, sem var kostur út af fyrir sig.
Aksturseiginleikarnir og getan í rallkeppni voru einstök af svona gamalli hönnun að vera. Þegar ég og Jón bróðir kepptum í heimsmeistarakeppninni 1981 komust nokkrir bílar af þessari gerð á blað, - hétu þá reyndar Saab 96.
Svíinn Eric Carlsson var fyrsta alþjóðlega rallakstursstjarnan upp úr 1960 og gerði Saab 93 frægan. Var með ólíkindum hvað hann gat náð miklu út úr aðeins um 800cc þriggja strokka tvígengis-smávélinni.
Síðar á sjöunda áratugnum var hann kominn með vatnskælda V-4 fjórgengisvél frá Ford í Þýskalandi og búið að lengja á honum nefið.
Skutbíllinn hét Saab 95 þrátt fyrir það að þetta væri bíll, sem var aðeins um fjórir metrar á lengd, tók hann sjö fullorðna í sæti á þann frumlega hátt, að öftustu tvö sætin sneru öfugt.
Sjá má afturenda á brúnum bíl af þessari gerð á bak við mynd af Saab 99 neðar á síðunni.
1971, þegar fjölskyldan okkar var orðin sjö manns, neyddist ég til að selja litla Fiat 850 bílinn góða og fá mér stærri.
Þetta hefði verið hentugasti bíllinn en ég féll gersamlega í reynsluakstri fyrir Fiat 128 skutbíl, sem var besti smábíll heims þá með aksturs- og stýriseiginleika og flest annað í sérflokki.
Þá kom í ljós að Saabinn gamli var orðinn úreltur á of mörgum sviðum.
En í staðinn var kominn Saab 99, sem var mjög vel heppnuð hönnun, frábærlega rúmgóður þótt hann væri aðeins 4,35 metrar að lengd og hjólhafið aðeins 2,35 eða svipað og á Toyota Aygo.
Seinna var hann lengdur og fékk heiti Saab 900 og var einn af allra fyrstu, ef ekki fyrsti fjöldaframleiddi bíll heims með forþjöppu, sem færði Stig Blomkvist, Per Eklund og fleiri sænskum röllurum marga meistaratitla.
Hnignun Saab hófst þegar ákveðið var að undirvagn arftaka 900 bílsins yrði með sama undirvagn og Lancia Thema og Fiat Croma. Þá var þetta ekki lengur "ekta" Saab.
Þessi þróun hélt áfram þangað til Saab er orðinn að bíl sem gæti allt eins verið afrbrigðu af Opel eða Chevrolet.
Þótt segja megi svipað um Volva hvað snertir óhjákvæmilegan skyldleika við hina erlendu frændur sína, hefur Volvo þó tekist að verða frumlegri en Saab og snúa því gamla dæmi við að Saab væri framúrstefnubíll en Volvo hversdagslegur, litlaus og ófrumlegur bíll.
Þótt nú sé því fagnað að Saab hafi verið tekinn af gjörgæsludeild verður framtíð þessa fræga merkis erfið.
Það þarf að endurvekja hinn fræga frumleika og nýsköpun sem var aðalsmerki hinna frábæru vagna frá Trollhattan og það er ekki auðvelt á þessari öld ofurveldis tölvuvæddra stórfyrirtækja með herskara færustu sérfræðinga á sínum snærum.
![]() |
Kaupin á Saab frágengin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 24.2.2010 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2010 | 17:36
Rökin fyrir 30 km hámarkshraðanum.
Rökin fyrir því að hafa 30 km hámarkshraða í vissum hverfum í þéttbýli eru nokkur en liggja þó ekki öll í augum uppi.
Þótt hægt sé að aka um þessi hverfi á meira en 60 kílómetra hraða ef engin umferð er gegnir öðru máli þegar margir eru á ferð. Á 50 kílómetra hraða hreyfist bíll 14 metra á sekúndu. Ekki er hægt að reikna með hraðari viðbragðstíma ökumanns en 0,7 sekúndum og þá á eftir að færa fótinn af bensíninu yfir á bremsurnar.
Og síðan bætist sjálf hemlunarvegalengdin við.
Ef bílarnir koma á móti hver öðrum styttist vegalengdin á milli þeirra um ca 30 metra áður en bílstjórarnir geta brugðist við.
Þá verður að bæta við tímanum sem tekur að færa fæturna og síðan hemlunarvegalengdinni sjálfri.
Þegar um er að ræða það mikil þrengsli að hverjir 15 eða 30 metrarnir skipta máli liggur nauðsyn lækkaðs umferðrhraða í augum uppi.
Höfuðrökin fyrir samræmdum hámarkshraða eru þó þau að allir vegfarendur, akandi, hljólandi og gangandi, geti miðað hegðun sína við það að hraðinn á öðrum vegfarendum fari ekki langt yfir leyfileg mörk.
Merkilegur hæstaréttardómur féll um þetta fyrir mörgum áratugum, þegar ökumaður bíls, sem ók langt yfir leyfilegum hraða eftir Hringbrau, var dæmdur til að taka á sig alla sök á hörðum árekstri, þótt hinn ökumaðurinn hefði farið af Njarðargötu inn á Hringbrautina, sem var aðalbraut og hafði forgang.
Rökstuðningurinn var sá að ekki væri hægt að ætlast til þess að ökumaður bílsins, sem ók í veg fyrir bílinn á Hringbrautinni, hefði getað áttað sig á því að bíll, sem var þá langt í burtu, yrði kominn að honum á svona miklum hraða langt yfir leyfilegum mörkum. Fallist var á það að sá sem ók út á Hringbrautina segði satt um það að hann hefði raunar aldrei séð hinn bílinn á þeim forsendum að varla væri hægt að ætlast til þess að menn sæu bíla á löngu færi sem færu svona hratt.
Sem sagt: Að ökumaður sem ekur langt yfir leyfilegum hraðamörkum sé í 100% "órétti" ef eitthvað ber út af.
Auðvitað geta aðstæður verið breytilegar en ég man vel hvað þetta þótti merkilegur dómur því að fram að því hafði alltaf verið dæmt í gagnstæða átt.
Ég bý við Háaleitisbraut þar sem er nú 30 km hámarkshraði. Sjá má suma ökumenn aka þar langt yfir leyfilegum hraða þótt búið sé að þrengja götuna og gera hana hlykkjótta.
Þessi gpötukafli er ekki lengri en svo að ökumaður á óleyfilegum hraða græðir í mesta lagi örfáar sekúndur á að bruna eftir götunni og skapa með því vandræði og stórhættu með því.
Svona götur eru margar fjölfarnar svo sem Hamrahlíðin og Barónsstígurinn sem lögreglan var við mælingar á, en um þær gildir að "gróðinn" við að aka þar yfir leyfilegum mörkum er svo lítill að það er ekki hægt að réttlæta hraðakstur á þessum götum.
![]() |
Hraðakstur á Barónsstíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2010 | 21:34
Fram úr villtasta skáldskap.
Málin úr hruninu sem nú eru að byrja að ljúkast upp fyrir almenningi eru þess eðlis að margt í þeim fer fram úr villtustu hugmyndum sem skáld hefðu getað fengið.
Þetta kom ágætlega fram í umfjöllun Kastljóssins í kvöld um Milestone, - þar sem flugu um skjáinn upphæðir fram úr fjárlögum íslenska ríkisins, vínræktargarður í Makedóníu, ásakanir um svindl, svik og ótrúlegan aumingjaskap, - nefndu það.
Þar kom fram að strax í upphafi árs 2007 sást hvert stefni og þegar maður grípur síðan fyrir rælni skemmtilegt viðtal við Kristján Jóhannsson og Sigurjónu í Nýju lífi sér maður sér maður þar að glöggir fjármálamenn erlendis sögðu þeim frá því átta mánuðum fyrir hrun að íslenska fjármálakerfið riðaði til falls.
Og þetta er hugsanlega bara byrjunin. Ég segi bara eins og Bubbi: Jedúddamía !
![]() |
Yfirheyrslur vegna Milestone |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.2.2010 | 11:59
Öfug Múhammeðsmynd.
Þar kom að því að grínmynd af trúarleiðtoga vekti reiði í þriðja sinn þegar mynd af Kristi með bjórdós og sígarettu birtist á Indlandi. Fyrri tvö skiptin voru þegar Jótlandspósturinn birti mynd af Múhammeð í svínslíki og grínmynd í norsku blaði af sama leiðtoga nú nýlega.
Verður þó grínmyndin af Kristi að teljast léttvægust því að ekki verður kominn á jöfnuður fyrr en birtist af honum grínmynd í svínslíki hangandi á krossinum og rómverskum hermanni byrjuðum að gæða sér á fleski úr síðu hans með því að stinga þar inn spjóti sínu og rífa smá bita þar úr til að gæða sér á.
Við getum spurt margra spurningan af þessum sökum.
1. Ber það ekki vott um hugmyndafátækt að þurfa að leggja sig eftir myndagerð af þessu tagi?
2. Er æskilegt og stuðlar það að friði og sátt milli þjóða að deilur um trúarbrögð taki á sig þá mynd að storka sem mest á báða bóga?
3. Við sjáum af þjóðsöguna um Gullna hliðið og leikriti Davíðs Stefánssonar að af smekkvísi og listfengi er hægt að fjalla um svona mál án þess að það meiði eða særi. Sýnir það ekki ljóslega að það liggja mörk í þessu efni sem óþarfi er að fara yfir þótt frelsi til listrænnar tjáningar sé virt?
![]() |
Mynd af Jesús með bjór vekur reiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)
22.2.2010 | 00:13
Mikil ábyrgð hjá hverjum og einum.
Icesave-málið snýst um stjórnmálalegt samkomulag við aðrar þjóðir. Slík mál er ekki hægt að leiða til lykta nema samningsaðilar hafi fullt umboð og að endanlegri afstöðu hvers og eins þeirra sé hægt að treysta.
Nú hvíliir mikil ábyrgð á herðum íslensku samninganefndarinnar og þingflokkunum á Alþingi sem verða að ná saman um þetta mál. Það á við um hvern einasta aðila málsins og vonandi tekst þeim að ná saman eins og handboltaliði í áríðandi leik, þar sem allir keppa samheldnir að sama markinu.
![]() |
Held í vonina um samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.2.2010 | 18:57
Munurinn á prófkjörum og persónukjöri í kosningum.
Í upphafi prófkjöranna voru nokkrir stjórnmálamenn, sem ekki vildu taka þátt í þeim peningaaustri, styrkjum og smölun inn í flokkan sem fljótlega fóru að láta á sér kræla.
Ólafur Björnsson, einn virtasti fræðimaður á sínu sviði og brautryðjandi í frjálslyndri hagfræði, féll út af þingi af þessum sökum og fljótlega var þetta komið á það stig að hundruð og síðar þúsundir manna gengu í viðkomandi flokk, kusu í prófkjörinu, og sögðu sig síðan úr flokknum, jafnvel til þess að geta gengið í annan flokk í prófkjöri skömmu síðar.
Nú þykir það ekki nokkurt tiltökumál að beita þessum aðferðum.
Athyglisvert er að sumir þeirra sem vilja að þessu sé varið á þennan veg, mega ekki heyra það nefnt að kjósendur fái rétt til að raða sjálfur í kosningum á þann framboðslista sem þeir kjósa.
Ef þetta er gert þannig að aðeins kjósendur viðkomandi lista raði á hann er engin leið til að beita ósiðlegum aðferðum á borð við þær sem hafa tíðkast í prófkjörunum.
Auðvitað er það einkamál hvers framboðs fyrir sig hvaða reglur þau hafa í sínu kjöri, en það hlýtur að vera lýðræðislegur akkur í því að endanleg úrslit ráðist á kjördegi í kjörklefanum.
Þessi mikli munur á prófkjörum virðist fara vaxandi og tvískinningurinn er mikill og "Reykáskur" sem felst í því að viðhafa miklar yfirlýsingar um lýðræðisást en leggjast gegn almennilegu lýðræði í kjörklefanum á kjördeginum.
![]() |
2000 skráðu sig í flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2010 | 23:46
Hvað sagði ekki Steingrímur í Nesi?
Í tilefni af svari vitavarðar við spurningu um einsemd kemur mér í hug að í Stikluþætti sem gefinn var út fyrir þremur árum var þáttur frá árinu 1975-76 þar sem rætt var við bændurna Stefán og Sighvat Ásbjörnsyni á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, en á bænum hafði tíminn verið stöðvaður árið 1910 og allt var eins og verið hafði þá, rafmangslaus torfhúsog og meira að segja mynd af Friðriki áttunda enn á veggnum.
Bræðurnir höfðu dregið sig út úr skarkalanum og bjuggu þarna einhleypir í einsemd með fóstursystur sinni, sem var kominn á níræðisaldur og orðin mjög lúin.
Ég spurði Stefán hvort honum leiddist aldrei og hann svaraði: "Nei, mér leiðist aldrei. Ég segi eins og Steingrímur í nesi þegar hann hrapaði ofan í gjótu og týndist og fannst ekki fyrr en eftir næstum tveggja sólarhringa leit.
Þá kom hann upp skælbrosandi og næstum hlæjandi og þeir spurðu hvort honum hefði ekki leiðst. En Steingrímur svaraði: "Nei, - það leiðist engum sem er einn ef hann er nógu skemmtilegur sjálfur."
Betur verður það ekki orðað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2010 | 13:20
Allt frá móðuharðindunum.
Móða Skaftáreldanna barst frá Íslandi til Skotlands og þaðan yfir meginland Evrópu. Síðan eru til heimildir og mælingar um það hvernig hún barst austur yfir Rússland og Asíu og þaðan yfir Kyrrahafið og meginland Norður-Ameríku allt til austurstrandar Bandaríkjanna.
Móðan olli kólnun á norðurhveli jarðar næstu ár á eftir og átti óbeinan þátt í frönsku stjórnarbyltingunni vegna áhrifanna á landbúnað í Frakklandi.
Rykið frá Íslandi hefur áreiðanlega haft áhrif í Evrópu fyrr en nú og sumir upphafsstaðir þess eru ekki bundnir við svæði sem nýlega hafa komið undan jökli, svo sem sandana fyrir sunnan jökla.
Merkilegt má raunar telja að allt hið mikla leirfok sem kom af Skeiðarársandi í kjölfar flóðanna á sandinum haustið 1996 skyldi ekki mælast sérstaklega í Evrópu en það kanna að vera vegna þess að annað hvort hafa mælingarnar ekki verið eins góðar þá eða að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaðan rykið var komið.
Við Íslendingar getum raunar þakkað fyrir að erlendis séu menn uppteknir við að skoða rykið sem afleiðing hnattrænnar hlýnunar í stað þess að átta sig á því stór hluti ryksins sem kemur frá Íslandi er til orðið vegna rányrkju okkar á landinu allt frá landnámi með tilheyrandi uppblæstri og leir- og sandfoki.
![]() |
Má rekja meira ryk í andrúmsloftinu til bráðnunar jökla? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2010 | 15:41
Stærsta gildi jarðhitans.
Stærsta gildi jarðhitans á alla lund er það sem hann leggur til þjóðarbúsins við hitun húsa, ekki bara 50-60 milljarða sparnaður í erlendum gjaldeyri heldur líka eftirfarandi atriði.
1. Nýting orkunnar er margfalt meiri en við raforkuframleiðslu, en í henni fara nær 90% orkunnar ónotuð út í loftið.
2. Þetta getur kallast hrein orka þótt efnasambönd séu í heita vatninu og þó sérstaklega í samanburði við raforkuframleiðsluna sem hleyptir miklu af brennisteinsvetni út í loftið.
3. Tvennt framangreint er mikill álitsauki fyrir land og þjóð og auglýsing út á við.
4. Vísindaleg þekking sem getur orðið útflutningsvara.
5. Jarðhitinn getur verið endurnýjanleg orkulind ef farið er af fyllstu varúð og framsýni í beislun hans. Á það skortir hins vegar mikið í óðagotsvirkjanaæði skómigustefnunnar, sem hér ríkir í krafti óskynsamlegrar stóriðjutrúar.
![]() |
Jarðhitinn sparar 50 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2010 | 13:21
Laddi var enn flottari !
Atvikið í leik Sádi-Arabíu og Bareins er einstakt en þó veit ég um einstakara atvik í boltaíþrótt.
Tveir af mögnuðustu leikmönnum stjörnliðsins míns hér áður fyrr voru Albert Guðmundsson og Laddi.
Albert skoraði körfu frá vítapunkti í Laugardalshöll með því að nota fótinn. Hann gat allt til æviloka, með stóra ístru, slæma sjón og kominn vel á sjötugsaldur, gripið fljúgandi bolta með fætinum, staðið með hann á ristinni, og sent hann siðan hvert sem var án þess að hann kæmi við jörðu.
Engan mann á nokkrum aldri hef ég séð geta leikið þetta eftir.
Boltinn á styttunni af honum í Laugardalnum ætti að vera á tám hans en ekki liggjandi á jörðinni.
Laddi á þó heimsmetið að mínum dómi, enda mesti grísara snillingur sem ég hef kynnst.
Atvikið gerðist í "Ljónagryfjunni" í Njarðvík þegar við höfðum lokið knattspyrnuleik okkar í hléi körfuboltaleiks.
Við vorum á leiðinni út þegar Laddi hljóp til baka yfir völlinn út í horn hans til að ná í eitthvað sem hann hafði gleymt þar.
Jón bróðir minn var að ganga út af vellinum með boltann þegar Laddi kemur hlaupandi úr gagnstæðu horni og kallar til Jóns að senda boltann til sín.
Jón spyrnti boltanum í fasta og langa sendingu sem stefndi hátt og í löngum boga á Ladda.
Laddi hljóp á móti boltanum, stökk hátt upp með fæturna í splitti eins og fimleikakona. Boltinn lenti á vinstra hné hans og fór í löngum, háum boga í átt að körfunni.
Laddi var lentur og byrjaður að "kvitta fyrir" skotið þegar boltinn small ofan í körfuna !
Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður í heiminum geti leikið þetta eftir. Að þessu voru hundruð áhorfenda vitni en því miður er ekki til nein mynd af því.
![]() |
Frábært sigurmark (myndband) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)