Vaðlaheiði? Já. Blönduós? Nei.

Gott er að heyra að Vaðlaheiðargöng séu að komast á rekspöl þótt það kosti víst upp undir tíu milljarða að gera þau. Þetta er þjóðþrifamál og mikil samgöngubót, 16 kílómetra stytting.

Slæmt er að heyra að ekki skuli vera hægt að hrinda í framkvæmd tíu sinnum ódýrari samgöngubót við Blönduós sem styttir mun fjölfarnari leið um 14 kílómetra. Langhagkvæmasta vegagerð á Íslandi.

Með styttingu vegar við Blönduós yrði þó ekki um það að ræða að fara með þjóðleiðina alfarið út úr Blönduósbæ, því að ný og styttri leið myndi liggja á rúmlega þriggja kílómetra kafla í Langadal um land Blönduósbæjar og þar væri hægt að reisa þjónustufyrirtæki fyrir umferðina,  til dæmis við vegamótin hjá nýrri brú á Mjósyndi við Fagranes.

Og ofangreindar tvær styttingar myndu stytta leið Húsvíkinga og annarra fyrir austan Akureyri um 30 kílómetra á leið til Reykjavíkur.

Tvær þingsályktunartillögur eru á döfinni á Alþingi.  Önnur um að flugvöllur verði í Reykjavík og hin um styttingu hringvegarins við Blönduós. 

Báðar eru algerlega fluttar með sömu rökum, þeim, að ekki sé um að ræða einkamál viðkomandi sveitarfélaga, Reykjavíkur og Blönduósbæjar, heldur miklir samgönguhagsmunir fyrir stærstan  hluta landsins. 

Þeir sem vilja helst ekki stytta norðurleiðina milli Reykjavíkur og Egilsstaða átta sig greinilega ekki á því að þessi leið er í samkeppni við suðurleiðina milli sömu staða og því munar um hverja styttingu á leiðinni þegar menn velja á milli. 


mbl.is Veggjaldið verður hóflegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskudagslagið.

Í gærkvöldi varð ég þess var að sum barnabörn mín fóru óvenju snemma í háttinn. Ástæðan var ljós: Það þurfti að vakna snemma í morgun til að nýta öskudaginn sem best.

Þrú þeirra höfðu í fyrrakvöld sungið og talað inn á "Öskudagslagið", sem varð til í samvinnu minni og hljómsveitarinnar Geirfuglanna, sem hafa séð um undirleik og upptöku lagsins. 

Afraksturinn er "Öskudagslagið", stutt og einfalt lag, sem börn og unglingar og jafnvel fullorðnir geta sungið á öskudag. Í þessu lagi koma helstu atriði dagsins fram:

Börnin mála sig og fara í ýmis gerfi og fara síðan um bæinn til að vinna sér inn umbun fyrir að syngja lög fyrir þá fullorðnu.  Einnig þótti mér nauðsynlegt að nefna öskupokana til þess að ýta undir að þeir öðlist aftur fyrri sess.

Einsöng syngur Una Ragnarsdóttir, sjö ára, en fyrir einskæra tilviljun er hún barnabarn Ólafs heitins Ragnarssonar, fyrrum samstarfsmíns og mikils vinar. 

Þrjú barnabörn mín syngja saman og mynda ásamt nokkrum fleiri krökkum "Öskukórinn" auk þess sem frænkurnar þrjár, Birna Marín Friðriksdóttir (Iðunnar-) og systurnar Hekla Sól og Helga Rut Hauksdætur (Láru-), leika lítinn leikþátt inni í miðju lagi.

Hér á eftir fer textinn og lagið er hugsanlega komið á kreik á facebook. 

 

ÖSKUDAGSLAGIÐ.  (Með sínu lagi)

 

Öll með öskupokana á öskudag 

eru þau á ferð og syngja þetta lag. 

Það er mikið, mikið gaman 

þegar máluð öll í framan 

frískir krakkar landsins kyrja þetta lag:

 

Gefið nammi, bara núna, þennan dag ! 

Gefið nammi  ef við syngjum þetta lag ! 

Öll með söng á öskudaginn 

erum við á ferð um bæinn.

Gefið nammi, bara núna, þennan dag !

 

Hvað viljið þið, krakkar mínir? 

Gefðu okkur nammi ! 

En það er óhollt. 

Bara í dag. 

Já, það er öskudagurinn. En þið verðið þá að syngja fyrir mig. 

Allt í lagi þá. 

 

Gefið nammi....o. s. frv....

 

P. S.  Nú sé ég að Lára dóttir mín er búin að setja spilun lagsins á Bylgjunni í morgun inn á facebook hjá sér og tengja  við mína síðu.


mbl.is Gleði í ofankomu á öskudegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir amerísku lífshættir.

Allt frá því er Henry Ford kom Bandaríkjamönnum upp á bragðið að njóta lands frelsisins með því aka um það á eigin einkabílum hafa þessir lífshættir, "the american way of living" breiðst út um allan heim.

Bandaríkjamenn, sem eru aðeins um 5% jarðarbúa, nota fjórðung allrar orku í heiminum og repúblikanar eru fulltrúar þeirrar stefnu að viðhalda því mikla bruðli, sem felst í lífsháttum þeirra. 

Dísilbílar, sem eyða og menga miklu minna en bensínbílar, hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá Bandaríkjamönnum og endurvinnsla áls er þeim mikill þyrnir í augum, þótt með því megi spara nokkrar álbræðslur. 

Skattlagning á eldsneyti er sú langminnsta sem þekkist hjá nokkurri stórþjóð og fyrir bragðið hafa smábílar aldrei náð sömu útbreiðslu þar og annars staðar, heldur er stóri, ameríski pallbíllinn þjóðartákn hins ameríska lífsstíls. 

Allt sem getur raskað bruðlró hins villta vesturs er íhaldsmönnum vestra mikill þyrnir í augum. 

Þótt jöklar bráðni nú um allan heim og sífellt aukist líkurnar á því að samband sé að milli þess og útblásturs gróðurhúsalofttegunda, er reynt á allan hátt að berjast gegn því að mark sé á því tekið. 

Fulltrúar olíufélaganna hafa eilífðarpassa í Hvíta húsinu á sama tíma og fulltrúar leyniþjónustunnar þurfa að vera með sína passa í sífelldri endurnýjun. 

George W. Bush réði menn úr olíubransanum til að stjórna rannsóknum á umhverfismálum fyrir Hvíta húsið, sem síuðu út það sem ekki hentaði. 

Nú sækjast Kínverjar, Indverjar og fleiri þjóðir eftir því að taka upp ameríska lífshætti og þar með er komin í gang heimsmynd, sem felst í því að búa til samtryggingu þessarar þjóða við Bandaríkjamenn.

Hún felst í því að Kanarnir eru að gera sig að skuldaþrælum Kínverja, en á móti sjá þeir um að senda her sinn í hvert það stríð, sem nauðsynlegt kann að vera til að viðhalda ástandi, sem er dæmt til að enda með ósköpum þegar olíulindirnar tæmast ein af annarri án þess að aðrar viðlíka komi á móti. 

Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. Fyrirhyggjulaus bruðlfíkn hinna amerísku lífshátta mun enda með því að frelsi allra mun líða fyrir. 

Ég er talsmaður þess að samanlagt frelsi jarðarbúa, núlifandi og komandi kynslóða, verði sem mest, - ekki þess að hver hrifsi til sín það frelsi sem hann getur höndum yfir komið án þess að huga að því hvort það valti yfir frelsi annarra. 

Ég tel að það frelsi sem felst í því að eiga eigið farartæki geti vel þrifist án þess að það þurfi þrjú tonn af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti og án þess að það þurfi að ausa upp takmörkuðum orkulindum jarðarinnar. 

Frelsi óhefts og skefjalauss bruðls og sóunar er helsta ógnin við frelsi kynslóðanna á jörðinni um þessar mundir. 


mbl.is Tekist á um loftslagsvísindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið samtal við gjaldkera á degi kvenna.

Í dag mun vera alþjóðlegur dagur kvenna og það minnir mig á það að langflestir gjaldkerar í bönkunum eru konur.

Fyrir nokkrum árum þegar gróðærisbólan blés hvað mest út kom fram í fjölmiðlum að bankastjórinn hjá einum bankanum hefði jafn mikil laun og 72 gjaldkerar.

Þegar ég las þetta hér um árið átti ég leið í banka og eftirfarandi samtal átti sér stað við gjaldkerann, sem afgreiddi mig:   V=Viðskiptavinur.  G=Gjaldkeri. 

V: Ég er með hugmynd handa ykkur ef þið lendið í deilu um laun ykkar. 

G: Hver er hún? 

V: Ég var að lesa að bankastjórinn ykkar hefði laun á við 72 konur, sem gegna gjaldkerastöðu, og datt í hug að 72 ykkar kæmuð klukkutíma of seint í vinnuna einn morguninn.

G: Þetta er alveg fráleitt. Bankarnir myndu stöðvast og það yrði stórtjón. Það má ekki gerast.  Við yrðum allar reknar. 

V: Það getur bara ekki verið. Ég veit ekki til að bankastarfsemin hafi lamast þótt bankastjórinn, sem er jafnoki 72 gjaldkera, komi of seint í vinnuna. 

 

Nú er búið að leggja bankaútibúið niður í hagræðingarskyni og hinn samviskusami gjaldkeri var rekinn þótt hún gerði aldrei neitt af sér  og er sennilega atvinnulaus.

En bankastjórarnir hafa orðið fyrir alvarlegri kjaraskerðingu því að nú er rætt um bankastjórlaun, sem séu á við laun 20 kvenna en ekki 72ja.  


mbl.is Bankastjórarnir mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka einstaklingar og fjölskyldur.

Kúgun glæpamanna og ýmis afbrigði af henni sem þekkt er erlendis eru búin að festa rætur hér á landi í ríkari mæli en margur gerir sér grein fyrir.

Í  nKastljósinu í kvöld minntist Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á nokkurs konar "Sikileyjarvörn" fyrirtækja, þ. e. í stíl Mafíunnar á Sikiley að fyrirtæki kaupi sér frið fyrir glæpamönnunum.

En þetta hefur líka þekkst hér á landi varðandi einstaklinga og fyrirtæki og einn vinur minn, sem var fyrrum í neyslunni og komst þannig í kynni við innviði undirheimanna hér hefur sagt mér merkilega sögu af því að til hans leitaði maður, sem var að reyna að komast út úr sínum ógöngum en var ekki látinn í friði af handbendum undirheimanna, heldur varð hann að búa við stöðugar ógnir og hótanir, sem með reglulegu millibili var fylgt eftir. 

Vinur minn þekkti foringjann í þessu neti og kvaðst myndu sjá hvort hann gæti veitt liðsinni. 

Skömmu seinna gat hann sagt þeim, sem til hans leitaði, að hann hefði komist í samband við "foringjann" sem hefði lofað því að láta taka fyrir ofsóknirnar. 

Þetta er hinn kaldi veruleiki hér á klakanum. Við erum ekki lengur eyland, heldur hluti af hinum harða heimi fíkniefnasölu, mansals og öllu því sem því fylgir, því miður. 


mbl.is Fyrirtæki krafin um verndargreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðblind réttlæting.

Ég var að hlusta rétt í þessu á siðblinda réttlætingu Guðrúnar Johnsen á ofurlaunum bankastjóra Arionbanka. Hún bítur höfuðið af skömminni með því að segja að það sé rangt að um launahækkun bankastjórans sé að ræða, því að launin hafi hækkað við mannaskipti og bankastjórinn, sem tók við, og fékk þessa ríflegu hækkun, hafi því ekki verið hækkaður í launum!

Engu máli skipti þótt ofurlaunin fyrir þetta starf hafi verið stórhækkuð, svo að þjóðin og forsætisráðherrann standa á öndinni. 

Niðurstaða hins siðblinda kerfis: Réttlætanlegt er að greiða hvaða ofurlaun, sem er, þegar skipt er um starfsfólk og nýtt ráðið í störf.

Næsta útfærsla af þessu gæti síðan verið að skipta um starfsheiti viðkomandi manns, þannig að hann teldist vera nýr í starfinu þegar laun fyrir starfið eru stórhækkuð. 

Allir sjá hvert myndi stefna á hinum almenna vinnumarkaði ef svona væri látið viðgangast. 

Vitað er að í aðdraganda Hrunsins var það farið að líkjast alþjóðlegu samsæri hvernig stjórnir og æðstu ráðamenn fjármálafyrirtækja skrúfuðu upp launakjör sín og flæktu aðra lægri setta millistjórnendur í netið með því að leyfa þeim að fljóta með á ýmsan hátt. 

Aðferðin svínvirkaði, því að sagt var að ekki væri hægt að fá nógu hæfa stjórnendur, því að ef þeim væri ekki boðin ofurlaun, færu þeir bara annað þar sem enn betra væri í boði. 

Nú er svo að sjá að þessi ofurlaunamafía hafi ekki lært neitt á Hruninu, heldur er siðblindan slík, að þetta lið sér ekki sjálft að neitt sé athugavert við þetta framferði. 

Það horfir á afkomutölur upp á milljarða gróða hjá bankanum og er búið að afskrifa það að framferði þeirra olli hundraða ef ekki þúsunda milljarða tjóni í Hruninu. 


mbl.is Engin réttlæting fyrir ofurlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært í tvennum skilningi.

Átakið til styrktar börnum í Tógó er frábært og til fyrirmyndar.  En síðan er annað sem gert er og það er líka hið besta mál, að minna á öskupokana góðu, sem því miður hafa verið á undanhaldi undanfarin ár.

Ég var að setja saman öskudagslag og texta og þar þarf að fara að með gát, því að þegar lýst er athöfnum krakkanna þennan dag verður að gæta þess að gera ekki of mikið úr því að þeir séu sólgnir í nammi nema þá þennan eina dag. 

Einnig gæti ég þess í þessum stutta texta að nefna öskupokana. 


mbl.is Öskupokar til styrktar börnum í Tógó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt fyrr hefur verið.

Á að kenna Íslendingum um dráp Snorra Sturlusonar og það að hann fékk ekki tækifæri til að afreka meira á ritvellinum?  Ættu Norðmenn að leggja fæð á Íslendinga fyrir þetta vegna þess að það voru Íslendingar sem drápu hann.

Eða öfugt?  Íslendingar að leggja fæð á Norðmenn vegna þess að það var liður í ásókn Noregskonungus til yfirráða yfir Íslandi að Snorri var drepinn? 

Auðvitað ekki.  Snorri var sjálfur Íslendingur og bæði Íslendingar og Norðmenn eru stoltir af því að hann var af þessum kynstofni. 

Þess vegna er aldeilis makalaust að kristnir menn hafi lagt fæð á Gyðinga vegna þess að Gyðingar hafi drepið Jesú Krist. Það var fámenn valdaklíka sem vildi Jesú feigan og þar að auki hefði alveg eins verið hægt að leggja fæð á Ítali af því að það var í valdatíð Rómverja  sem Kristur var drepinn. 

Miklu frekar hefði hið sama átt að gilda um Gyðinga og um Íslendinga, að þjóðirnar hefðu af því heiður að hafa fóstrað Krist og Snorra. 

Það er því ekki vonum seinna að Páfinn í Róm kveði upp úr með það að látið verði af þeirri vitleysu að leggja fæð á Gyðinga fyrir það að þeir hafi drepið Krist. 


mbl.is Hreinsar gyðinga af dauða Jesú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur mikið breyst?

Þegar stjórnarskipti urðu hér í ársbyrjun 2009 var um það rætt að laun stjórnenda í fjármálakerfinu hefðu náð stjarnfræðilegum og siðlausum hæðum. Helst ætti enginn að vera með hærri laun en forsætisráðherra. 

Bankarnir urðu ríkisbankar, en ef einhverjir hafa haldið að við það myndu launin komast niður í áttina að hæstu launum í ríkiskerfinu, var það greinilega tálsýn. 

Einn af innstu koppum í búri bankakerfisins í Hruninu 2008 varð bankastjóri fyrst eftir Hrunið. Síðar kom í ljós að um var að ræða einn þeirra aðila sem var að aðhafast svipað því sem við sjáum nú að var einn aðalstarfinn síðustu vikur og daga fyrir Hrunið, að "bjarga" og millifæra peninga til valdra aðila.

Samt varð þessi persóna bankastjóri fyrst eftir Hrunið. Svo er að sjá að enda þótt skipt hafi verið um fólk í stjórnum og einstaka stöðum í fjármálakerfinu, ráði þar ríkjum fólk, sem var langflest flækt í það atferli sem kom fjármálakerfinu á hausinn.

Það var algengt í 2007-ferlina að koma þeim sem næst stóðu toppunum inn í sama kerfið, samanber eitt atriði REI-málsins. Þar með voru meiri líkur til þess að samstaðan um atferlið rofnaði ekki. 

Eftir hverja fréttina af annarri af þessu sviði vaknar spurningin: Hefur eitthvað breyst sem skiptir máli? Ef svo er, hefur mikið breyst?  

 


mbl.is Laun bankastjóra Arion banka 46 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Örlög, þið ráðið okkar næturstað..."

"Örlög, þið ráðið okkar næturstað. Enginn má sköpum renna og best er það." 

Þessi setning er sögð í einum af leikritum Shakespeares eins og svo margt annað spaklegt.

Þó er það nú svo, að margir vildu helst óska sér ákveðins dauðdaga, ef þeir fengju að ráða einhverju um það. 

Þegar Albert Guðmundsson spilaði með Stjörnuliði mínu var hann orðinn líkast til um 120 kíló og kominn á sjötugsaldur. Hann gerði marga ævintýralega hluti með liðinu og lagði fast að mér að fá að láta mig vita af hverjum einasta leik.

Svo langt  gekk hann að þegar hann var fjármálaráðherra og hingað til lands kom formaður fjárlaganefndar Bandaríkjaþings, vildi Albert frekar fara með okkur til að spila á Akureyri en hitta hinn bandaríska ráðamann. 

Eitt sinn hitti ég Brynhildi, konu Alberts, og hún bað mig í guðanna bænum að hætta að láta mann sinn spila fótbolta, hann væri alltof þungur, með alltof háan blóðþrýsting og hjartaveill og væri raunar í lífshættu ef hann væri að þessari vitleysu. 

Mér dauðbrá og sagðist ekki hafa vitað um þetta og þakkaði henni fyrir. Síst af öllu vildi ég bera ábyrgð á ótímabæru dauðsfalli einhvers liðsmanna mína. 

En ég komst ekki upp með það að sniðganga Albert næst, því að næst þegar við hittumst spurði hann mig að fyrrabragði með tillhlökkunarsvip hvort og hvenær næsti leikur væri á dagskrá. 

Ég sagði henni að konan hans hefði harðbannað mér að láta hann taka svona mikla áhættu og hefði sagt mér að hún hefði harðbannað honum það líka, - líf hans lægi við. 

"Ég veit það vel," svaraði Albert, "og að sjálfsögðu reyni ég að uppfylla sem flestar óskir hennar. En þessu fær hún ekki að ráða, - þessu ræð ég. Hún kynntist mér sem knattspyrnumanni, hefur verið gift mér sem knattspyrnumanni alla tíð og verður bara að sitja uppi með það svo lengi sem við getum verið í sambúð.  Ég harðbanna þér að hlusta á hana." 

"Já, en", andmælti ég, "ég vil ekki bera ábyrgð á því að þú farir þér að voða." 

"Þú berð enga ábyrgð á því," svaraði hann, "heldur ég. Skilurðu ekki, að ef það á fyrir mér að liggja að deyja úr hjartaáfalli, þá get ég ekki hugsað mér flottari dauðdaga en með boltann á tánum í miðjum leik? Láttu mig um þetta, þessu ræð ég og tek ábyrgð á því einn." 

Tveir hjartveikir menn, Albert og Rúnar Júlíusson, léku með liðinu meðan þeir lifðu. Hvorugur dó með boltann á tánum, en Rúnar kvaddi með gítarinn innan seilingar og hefði liklega varla getað hugsað sér betri dauðdaga þegar hið óhjákvæmilega kall kom. 

"Enginn má sköpum renna og best er það" segir Shakespeare. Satt er það en þó var ég ekki langt frá hugsun Albert og Rúnars Júl, þegar ég lét textann við lagið "Flökkusál" enda svona: 

"...Sitjandi í auðninni upp við stóran stein  

starandi á jökulinn ég bera vil mín bein..." 


mbl.is Dó á sviðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband