18.4.2010 | 10:56
Kemur á óheppilegum tíma.
Ummæli norska flugmannsins um móðursýkiskast í formi flugbanns hlýtur að falla í grýttan jarðveg hjá finnsku herflugmönnunum sem eyðilögðu hreyfla þotnanna, sem þeir flugu í meira en tvö þúsund kílómetra fjarlægð frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Að því leyti til valdi hann frekar óheppilegan tíma til að leggja til að ekkert flugbann væri í gildi.
Tvær farþegaþotur, sem myndu lenda í svipuðu og finnsku orrustuþoturnar, væri tveimur farþegaþotum of mikið, jafnvel þótt þær gætu lent heilu og höldnu líkt og þotan, sem minnstu munaði að yrði að nauðlenda á sjó árið 1982 vegna hreyflastöðvunar af völdum örfínnar eldfjallaösku, sem ekki sést á ratsjá.
Raunar þurfa vélfræðingar, jarðfræðingar og veðurfræðingar nú að fara í saumana á þessum málum alveg frá grunni, því að Kötlugos, eða ég tala ekki um, annað Lakagígagos, og afleiðingar þeirra, eru stórmál sem geta komið mönnum alveg í opna skjöldu.
![]() |
Segir flugbannið vera móðursýki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.4.2010 | 00:05
Stærsti íslenski heimsviðburðurinn?
Það er eitt lítið dæmi um það hver röskun hefur orðið af gosinu í Eyjafjallajökli að nú er ég að rjúfa lengsta blogghléð mitt. Er skemmst frá því að segja, að síðan þetta gos hófst hefur það ráðskast með mig bæði dag og nótt, og bera myndirnar hér á síðunni þess nokkur merki.
Efsta myndin hér á síðunnni er reyndar tekin á sjöunda tímanum síðdegis í fyrradag en þá birti fyrst upp yfir Eyjafjöllum og gosinu og sást hvernig hið ógnvekjandi gos vofir yfir sveitinni neðst, þar sem bær kúrir undir fjalli og fólk býr sig undir að vindátt breytist og margra kílómetra hár öskuveggurinn hvolfist yfir sveitina og breyti túnunum, sem eru að byrja að fá á sig grænan blæ vorgróandans, í öskugráa eyðimörk.
Á þeirri næstu sést yfir Mýrdalsjökul og Kötlu í átt ti "litla bróður" Eyjafjallajökuls í fjarski með mökk sinn upp í loftið, hugsanlega upphaf á enn frekari röskun flugsamgangna en orðin er.
Í kvöld datt gosið niður um stund og þá sást vell yfir gíginn, sem gýs í suðvestanverðri gígskálinni.
Á tveimur myndum neðan við sést þetta nánar, - á þeirri neðri er horft inn í götin, sem komin eru í Gígjökul við það að flóð hafa þrýst sér niður undir honum.
Þetta fyrirbæri hefur sést efst í hlauprás Grímsvatnahlaupa.
Síðastliðna nótt gafst aðeins hlé í fjórar stundir því að í morgun varð að fara upp upp úr þrjú til að undirbúa ferð á gosstöðvarnar til aðstoðar við erlenda sjónvarpsmenn, bæði breska og þýska.
Í dagrenningu blasti jökullinn og mökkur hans vel við.
Og ekki mátti gleyma RUV, - einu sinni "RÚVari" alltaf RÚVari, ekki satt?
Varla hefur annar viðburður hér á landi haft meiri afleiðingar og áhrif erlendis en þetta gos, enda fjallar hver sá fjölmiðill sem standa vill undir nafni um það og sendir hingað fulltrúa sína.
Röskun á flugi er þegar orðin meiri um allan heim en varð vegna árásarinnar á Bandaríkin 2001.
Hefur verið alveg einstaklega gaman að vinna með þessu fólki, sem margt hvert er í fremstu röð.
Varla hefur svona mikið verið viðhaft síðan leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða.
Nú er bara að reyna að skjóta á ská inn ýmislegu á bloggið úr því sem verið hefur að gerast í þessari miklu törn.
Set hér neðst myndir af jöklinum og Markarfljótsaurum á mismunandi tímum dags.
Þar sést einnig hvað gosvirknin er mismunandi mikil.
![]() |
Margar eldingar í stróknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.4.2010 | 09:46
Skárri en umferðarljósin.
Þegar ekið er í gegnum nýtt hverfi suður af Ásvöllum í Hafnarfirði þar að fara, ef ég man rétt, um ein sjö hringtorg á tiltölulega stuttum kafla.
Þetta þykir manni kannski full mikið af hinu góða en á móti kemur að ekki væri skárra ef þarna væru umferðarljós á hverju horni.
Því miður hefur ekki myndast svipuð umferðarmenning hér á landi og víða erlendis, til dæmis víða í Ameríku, þar sem umferð gengur snurðulaust á gatnamótum, þar sem eru engin umferðarljós, heldur gildir reglan "fyrstur kemur - fyrstur fær", þ. e. að ökumenn fara yfir gatnamótin í þeirri röð sem þeir koma að þeim.
Ef slík regla yrði sett hér á landi myndi ugglaust fljótlega verða fjöldaárekstur á mörgum gatnamótum.
Umferðarljósin hafa þann stóra ókost að þau skynja ekki umferðarþunga eða það hvernig skynsamlegast er að hleypa bílum yfir gatnamót heldur stöðva og leyfa umferð í gríð og ergi, þótt jafnvel nær engin umferð sé.
Í hringtorgunum fer umferðin eftir aðstæðum og skynsamlegum ákvörðunum og hegðun bílstjóranna sjálfra og við Íslendingar virðumst ekki vera svo galnir hvað snerti akstur um hringtorg.
Einnig hægja hringtorgin á umferðarhraða þar sem hann væri annars kannski helst til mikill.
Því virðast þau vera skásta lausnin, þótt stundum sýnist þau var nokkuð hvimleið.
![]() |
Segja hringtorg draga úr slysahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.4.2010 | 14:17
Katla miklu meira áhyggjuefni.
Nokkrar sláandi staðreyndir gera að verkum að truflanirnar erlendis af völdum gossins í Eyjafjallajökli geta sýnst smámunir miðað við það sem nágranni hennar, Katla, getur gert af sér. Ég gerði viðmælendum mínum hjá erlendri sjónvarpsstöð grein fyrir þessu nú rétt áðan og þar með því, að aðaláhyggjuefnið og viðfangsefnið gæti orðið að fást við það, að fari allt á versta veg, geti Kötlugos stöðvað allt farþegaflug í Evrópu, ekki aðeins í nokkra daga, heldur jafnvel margar vikur.
Rökin fyrir því að taka þetta til alvarlegrar athugunar eru meðal annars þessi:
1. Katla hefur oftast gosið í kjölfar gosa í Eyjafjallajökl og hefur bilið á milli gosa verið allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár. Það verður því að vera viðbúið að meiri líkur en minni séu á því að Katla gjósi í kjölfarið nú, ef þessi forsaga er höfð í huga, einkum vegna þess hve langt er síðan stórt gos varð í Kötlu.
2. Katla er mun öflugra, hættulegra og varasamara eldfjall en Eyjafjallajökull. Askjan er margfalt stærri, ísinn yfir eldstöðinni miklu þykkari og margfalt meiri að efnismagni, og því verður lítið eða ekkert af kvikunni, sem upp kemur, fljótandi hraun, heldur aska.
3. Dæmi um afleiðingar þessa má sjá í mismun stærðar flóðanna, sem koma frá þessum eldstöðvum. Flóðin úr Kötlu geta verið meira en hundrað sinnum stærri en flóðin úr Eyjafjallajökli.
4. Heklugosið 1947 bar ösku til Skandinavíu og þó einkum Skotlands en þetta hafði engin áhrif á farþegaflug í Evrópu þá, því að þá var allur flugflotinn knúinn bensínhreyflum, en um þá gildir að þeir eru ekki næmari fyrir ösku en venjulegir og sams konar hreyflar í bílum. Nú eru aðstæður gerbreyttar að þessu leyti.
Talsverð aska kom upp í Heklugosinu 1970 og olli búsifjum hér á landi, en hún barst í norðvetur frá fjallinu og eitraði mest jörð í Víðidal í Húnaþingi.
![]() |
Aldrei áður jafn mikil röskun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2010 | 08:20
Grundvallarmunur á þotuhreyflum og bulluhreyflum.
Talsverðs misskilnings virðist gæta hjá fólki og jafnvel hjá þeim, sem fást við flug, varðandi muninn á þotuhreyflum og venjulegum bulluhreyflum lítilla flugvéla, sem ganga fyrir bensíni.
Bann á flugumferð í blindflugi og á þotum byggist á því að, eins og orðið blindflug ber með sér, getur flugmaður í blindflugi, sem flýgur inn í öskumettað loft illa varast það ef hann flýgur um svæði sem vindar bera ösku inn á.
Um litla flugvél í sjónflugi sem knúin er bulluhreyfli, sem er af nákvæmlega sömu gerð og hreyflar bensínknúinna bíla, gildir svipað og að um bíl væri að ræða.
Ekkert loft kemst inn í hreyfla þessara flugvéla og bíla nema hún smjúgi í gegnum loftsíu.
Skrúfuþotuhreyfla, líkt og á Fokker F50, landhelgisgæsluvélinni og þyrlunum, þekki ég ekki eins vel og bulluhreyfla og hreina þotuhreyfla, en reikna með því að eðlis síns vegna séu hreyflar skrúfuþotuhreyfla viðkvæmari fyrir ösku en bulluhreyflar í bílum og litlum flugvélum.
Eftir reynslu af flugi í 22 eldgosum í tæpa hálfa öld tel ég mig hafa nokkra reynslu af því hvað varast beri í flugi á litlum bensínknúnum flugvélum. Helst þarf að varast að aska falli á framrúður slikra flugvéla, vegna þess að þessar rúður eru úr viðkvæmu plastkenndu plexigleri.
Forðast ber að láta skrúfuspaðana lenda í grófu sand- eða öskufoki og með reynslunni og með því að nota upplýsingar veðurstofunnar fæst vitneskja um það hvernig fara á að því að fljúga litlum bensínknúnum flugvélum án skemmda.
![]() |
Eldgosið truflar flugumferð í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.4.2010 | 00:20
Skaftártunga! Ekki Tungur Halla og Ladda.
Mjög er misjafnt hve fjölmiðlamenn þekkja land sitt vel. Skaftártunga er eintöluorð og sá hluti Skaftár, sem fellur um þessa sveit er stundum kölluð Tungufljót, ekki Tungnafljót.
Það fór ekki á milli mála, hvaðan stelpurnar voru, sem Halli og Laddi sungu um og nefndu "tvær úr Tungunum. Þær voru úr Biskupstungun og engum hefði á þeim tíma dottið í hug að spyrja, hvort þær væru úr Skaftártungum.
Blaðamaður Fréttablaðsins talaði í forsíðufyrirsögn um Hvanngil sem "nærri gosstöðvunum" þegar hið rétta var að þær voru á allt öðru svæði og fjarri gosstöðvunum.
Annað kemur líka upp í hugann. Amma mín og afi sögðu mér ýmsar sögur af öskufallinu, sem Katla sendi austur yfir sveitir, en afi var af Síðunni og hún ættuð úr Landbroti en ólst upp á Svínafelli í Öræfum.
Nú rifjast upp þessar sögur þeirra sem þau sögðu mér barni.
Þannig getur ein frétt kallað fram bæði afa og ömmu og Halla og Ladda.
![]() |
Öskufall berst austur yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.4.2010 | 20:50
Passar við það sem ég sá.

Af því að ég hef séð gosstrókinn á þremur tímabilum í dag get ég staðfest að þetta er rétt, sem sagt er um lit hans, var reyndar rétt í þessu að blogga um það í pistlinum hér á undan eftir að hafa komið fljúgandi frá Vík vestur til Reykjavíkur.
Læt hér fylgja nokkrar myndir frá því fyrr í dag.
Á efstu myndinni sést hinn stóri kolbrúni flekkur út af Markarfljótsósum, sem þar var kominn síðdegis.
Á myndinni þar fyrir neðan er horft úr vestri upp eftir Markarfljótsaurum og er bærinn Rauðuskriður í forgrunni og sést að varnargarðar halda vatni frá honum.
Felli Rauðuskriður eða Stóra-Dímon er hægra megin á myndinni.
Mökkurinn reis þá reis þá upp í 25 þúsund feta hæð, sem er meira en 7500 metra hæð, aðeins 1400 metrum lægra en Everest.
Síðan sjáum við súkkulaðibrúna risakökuna sem er út af ósum Markarfljóts, skammt austan við höfnina í Bakkafjöru.
![]() |
Kolsvartur strókur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.4.2010 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.4.2010 | 20:49
Mökkurinn dekkri kl. 19:15.
Ég hef séð gosmökkinn á þremur tímabilum í dag, nú síðast á flugi fyrir utan suðurströndina á leið frá Vík til Reykjavíkur.
Í þetta síðasta skipti sýndist mun stærri hluti hans svartur en í fyrri skiptin án þess að ég geri mér grein fyrir því hvernig standi á því.
Dekkri mökkur þýðir væntanlega meira öskufall, sem berst þá austur um hálendið á milli Suðurjökla og Vatnajökuls, ef það drífur svo langt.
![]() |
Hlaupið komið að Markarfljótsbrúnni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2010 | 14:48
Forspá "kverúlants" og "öfgamanns."
Sumarið 2004 far eftirfarandi forspá sett fram á prenti undir fyrirsögninni: "Skömmin mun uppi um þúsundir ára."
"...Nú er að hefjast eitt stærsta efnahagslega fíkniefnapartí í sögu þjóðarinnar. Strax í upphafi varð þensla sem Seðlabankinn fann út að stafaði nær eingöngu af auknum viðskiptum með krítarkortum og á vordögum 2004 er eytt fjórfalt meira fé í erlend lán til uppkaupa á fyrirtækjum en til stóriðju. Það verður fjör og allir verða að vera með, annars eru þeir ekki samkvæmishæfir. ..."
"...það þykir henta að kalla þá sem andæfa svallveislunni öfgamenn. Og eins og oft vill verða verður allt brotið og bramlað í húsnæðinu..."
Það vill svo til að þessar tilvitnuðu setningar eru á blaðsíðu 17 í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" sem fjallaði um upphaf svallveislunnar sem endaði haustið 2008.
Þeir voru taldir úrtölumenn, kverúlantar, öfundarmenn, öfgamenn og fáráðar sem vöruðu við því strax í upphafi veislunnar 2002 og 2003 hvert stefndi. Ættu að fara í endurmenntun.
Geir Haarde segir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýni, að eftir 2006 hefði bönkunum ekki verið bjargað.
Á vordögum 2007 hengu samt uppi flennispjöld með mynd af honum og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, sem letrað var á með risaletri: "Traust efnahagsstjórn" !
Meirihluti þjóðarinnar trúði þessu sem og ágæti stóriðjufyllerís, húsnæðislánaloforða, einkavinavæðingar, fjármálasprengingar. ofsaneyslu og gróða í erlendum lántökum.
Nú situr þjóðin í sárum í húsnæði, sem er brotið og bramlað eftir mesta fjármálafyllerí Íslandssögunnar, rétt eins og spáð var í Kárahnjúkabókinni.
![]() |
Skynjuðu að dansinum var að ljúka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.4.2010 | 14:24
"Áhafnarmeðlimir." Úff!
Eitt hvimleiðasta orðið, sem fjölmiðlamenn hafa tekið ástfóstri við um áratuga skeið, er orðið "áhafnarmeðlimur."
Í frétt af viðbúnaði í Keflavík vegna flugvélar, þar sem einhver leki á viðsjárverðu efni varð um borð, er þetta orð notað einu sinni enn.
Orðið er alveg einstaklega langt og leiðinlegt og gildir einu hvort það er notað á sjó eða landi.
Íslenskan á þetta fína orð, skipverji, sem helmingi styttra.
Og í fluginu er til orðið flugliði, stutt og þjált.
Nei, - áhafnarmeðlimur skal það vera. Úff!
![]() |
Mikill viðbúnaður í Keflavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)