31.7.2009 | 13:48
Fjárhættuspil útihátíðanna.
Á Suðurlandi rignir í meira en 60% daga að jafnaði. Þeir sem halda útihátíðir þar taka því fyrirfram áhættu sem er að jafnaði um 1 á móti 2.
Áhættan er mun minni á Norðurlandi. Þetta fjárhættuspil elska Íslendingar og nærast á fréttum af því í heila viku á hverju sumri.
Nú, þegar fjárhættuspilið mikla með eignir þjóðarinnar er tapað er dýrmætt að eiga þetta verslunarmannahelgarspil.
Í þetta sinn hirðir Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum mestallan pottinn. Reyndar er hún komin á þann stall að veðrið skiptir ekki lengur neinu máli.
Sveitaböllin í gamla daga byggðust á því að fólkið fór þangað sem það hélt að allir myndu vera.
Einu sinni voru ég, Guðrún Á. Símonar og fleir auglýst á sveitaballi sem fyrirsjáanlega yrði hrikalegt skrall.
Ég spurði skemmtanahaldarann hvort nokkurt vit væri í því að láta okkur Guðrúnu koma þarna fram.
Hún myndi verða fyrir sjokki þegar ekki myndi heyrast í hennar miklu rödd fyrir hávaðanum í ölvuðum samkomugestunum.
"Það skiptir engu máli", svaraði skemmtanastjórinn, "þótt ekkert eigi eftir að heyrast í ykkur fyrir hávaðanum." Aðalatriðið er að geta auglýst fyrirfram nógu marga og fræga skemmtikrafta til þess að allir dragi þá ályktun að allir fari á þetta ball. Allir vilja nefnilega vera þar sem allir eru."
Þetta gekk eftir. Húsið var smekkfullt. Það heyrðist ekki mannsins mál fyrir látum þegar Guðrún söng og hún fékk sjokk. En hún fékk líka pening fyrir en sagðist þó aldrei gera þetta aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2009 | 13:34
Verslunarmannahelgin fer í yfirsetu.
Frá því síðastliðinn mánudag hef ég verið yfirsetumaður hjá Folavatni á hverjum degi. Þessi verslunarmannahelgi verður ólík öllum fyrri slíkum helgum hjá mér. Það hækkar hægt í Folavatni, sem ég hafði reyndar talið eftir þeim gögnum, sem ég hef, að væri um 2 ferkílómetrar.
Fyrir bragðið verður dauðastríð hinna grónu hólma langdregið. Fyrst sökkva tveir tangar á Miðhólmanum, en einhvern næstu daga sekkur risavaxið álftahreiður á Álftahólma, sem gæti verið margra alda gamalt.
Síðast sekkur lítill melkollur á Miðhólmanum.
Ég vísa til fyrra bloggs um þetta með myndum af þessu, og hægt er að leita aftur í tímann með því að smella inn á "færslulisti".
Kærar kveðjur til allra af hálendinu og skemmtið þið ykkur vel um þessa met-verslunarmannahelgi kreppunnar.
![]() |
Kelduárlón flæðir í Folavatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2009 | 23:17
Schumacher, - J.R. formúlunnar.
Íþróttir þurfa oft á miklum persónuleikum að halda og sama á við um mörg önnur svið. Stundum er um að ræða svo mikla afreksmenn að þeir einir bera sviðið uppi. Þannig bar einn maður, Michael Jordan, uppi körfuboltann bandaríska á sinni tíð, - slíkur yfirburðasnillingur var hann.
Önnur persónugerð sem lyftir undir áhuga á einhverju sviði er afburðamaður, sem allir geta æst sig yfir og sameinast um að hata eða elska.
Á árunum 1964-1974 var Muhammed Ali slíkur maður, - eða þangað til að ótrúleg endurheimt hans á heimsmeistaratitli í annað sinn gegn öllum veðmálum gerði hann að óumdeildum snillingi.
Án J. R. hefðu Dallas-þættirnir aldrei náð þeim hæðum í vinsældum sem þeir gerðu, þótt flestum þætti persónan mjög ógeðfelld.
Michael Schumacher var heimsmeistari í kappakstri sem engum var sama um. Annað hvort hötuðu menn hann eða elskuðu.
Fyrir bragðið hafði hann óhemju mikið aðdráttarafl og tryggði metáhorf að Formúlunni.
Hann hætti á réttum tíma hvað sjálfan hann snerti og með því að byrja aftur tekur hann óhemju mikla áhættu, - óþarflega mikla að mínum dómi.
En það skiptir ekki öllu máli. Hann er kominn aftur til þess að láta okkur annað hvort hata sig eða elska. Það eitt er mjög spennandi hvort hann nær að hleypa sama lífi í Formúluna og ríkti þegar hann var upp á sitt besta.
Á sínum tíma fór konan mín eitt sinn til útlanda á þeim tíma sem Dallas-þættirnir voru vinsælir, en þeir voru sýndir seinna hér heima en í því landi sem hún fór til.
Þegar hún kom heim til að taka upp þráðinn og horfa á Dallas hér heima spurði hún spurningar sem segir meira en flest annað um sápuóperur og þá sérstaklega Dallas: "Er J. R. einnþá dauður?
Schumacher er J. R. Formúlunnar sem hvarf af sjónarsviðinu. Er hann ennþá í fullu fjöri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.7.2009 | 14:12
Vinnuhagræðingu, takk!
Fyrir nokkrum árum kom upp mál varðandi það að lögreglan á Akranesi og lögreglan í Borgarnesi lentu í deilu vegna verkaskiptingar sem stafaði af mörkum umdæma þeirra. Þetta dæmi og mörg önnur má nefna um umhagræði of mikillar svæðaskiptingar á sviði, þar sem hraði og bættar samgöngur hafa gert landið að einni heild.
Ef bæta á hagræðingu og skilvirkni í löggæslu getur það verið hugsanleg leið að gera landið allt að einu lögregluumdæmi. Eftir sem áður verður að varast það að sérþekking á hverju svæði sé ekki nýtt af heimamönnum.
Dæmi um ókost miðstýringar eru atvik hjá neyðarþjónustunni fyrir nokkrum árum þar sem ónóg staðarþekking olli því að kallað var út lið í skökkum landsfjórðungi í fyrstu og það tafði aðgerðir að ekki var í upphafi farið rétt í hlutina og hefði slíkt getað valdið stórtjóni ef um stærra slys hefði verið að ræða.
Samhæfing til að nýta betur mannafla lögreglu landsins sem heildar án stirðnaðs miðstýrs bákns hlýtur að vera keppikeflið.
Hugsanlega er yfirbygging löggæslunnar með alla sína lögreglustjóra of stór í heildina og þörf á að breyta því, hvernig sem það verður nú annars gert.
Ég minnist þess þegar í stað tveggja fréttastjóra hjá RUV var búið til embætti eins yfirfréttastjóra án þess að hróflað væri við hinum fréttastjórunum. Þetta átti að vera í hagræðingarskyni en var umdeilt.
Hagræðið virðist ekki hafa skilað sér ef marka má það að nú hefur þessu verið breytt í það horf að einn fréttastjóri er yfir öllum fréttum. Sem sagt, eitt fréttastjóraembætti í stað þriggja. Ég var meðal þeirra sem hafði um þetta miklar efasemdir en hef síður efasemdir um þá breytingu sem nú hefur verið gerð.
![]() |
Ísland verði eitt lögregluumdæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2009 | 13:48
Peningarnir fóru í annað vegna rangra forsendna.
Þegar þessi orð eru skrifuð hef ég komið í þrjá daga a Folavatni, litla fallega vatninu með hólmunum austan við Snæfell sem senn heyrir sögunni til. Allar myndirnar hér á síðunni voru teknar í þessum ferðum.

Folavatn var talið hafa mikið verndargildi í mati á umhverfisáhrifum og á efstu myndinni sést hvernig vatnið er í lægð, sem er gróin allt í kringum það, en melar eru hins vegar ofar. Þegar Kelduárlón kemur yfir Folavatn sekkur þetta gróðurlendi.
Ég hafði ýmsar ranghugmyndir um Folavatn, hélt að í 663 metra hæð væri napurt og gróðurlítið.
En þessa dagana er eins og mesta rigningin og súldin stöðvist að mestu á hæðunum norðan við vatnið.

Það var ekki mikið mál að róa út í Álftahólmann, sem ég kalla svo.
Ég var að vona að heimildarmyndin "Örkin" gæti endað betur en svo að þessum hólmum og fallegu gróðurlendi væri drekkt og að risastórt aldagamalt álftahreiður sæist síðast sökkva.
Að þarflausu, án þess að skapa eitt einasta kílóvatt eða starf.
Ég skrifaði um málið í Morgunblaðsgrein og fékk svar í blaðinu, auk þess sem ég reifaði málið við forstjóra Landsvirkjunar, stjórnarmenn í Landsvirkjun og umhverfisráðherra.

Í svarinu í Morgunblaðinu og í samtali mínu við Friðrik Sophusson stóð það síðast eftir að hugmynd mín um6 metrum lægra yfirfall á Kelduárstíflu til að varðveita Folavatn væri góðra gjalda verð en hún yrði of dýr í framkvæmd.
Í forsendum fyrir virkjuninni var gert ráð fyrir kuldatímabili, en stóraukið vatnsrennsli vegna hlýnunar hafði að vísu gert Landsvirkjun kleift að sleppa að virkja tvær austustu árnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu og spara um 300 milljónir króna.
Gat þá ekki eitthvað af þessari upphæð farið í að breyta yfirfallinu?

Nei, var svarið. Þessir peningar fara í að bregðast við auknu vatnsrennsli á yfirfalli Kárahnjúkastíflu með því að reisa ófyrirséða nýja 20 metra háa stíflu fyrir norðan stóru stífluna til þess að mynda þar djúpa tjörn, sem yfirfallsfossinn falli í svo að hann grafi ekki undan eystri gjáveggnum.
Ég hafði raunar lagt til aðra leið til að varðveita Folavatn án þess að það kostaði nokkrar framkvæmdir eða peninga, en hún fólst í því að lækka yfirborð lónsins um tvo metra til viðbótar og halda því þar með því að hleypa úr því um útfallsgöngin.

Þess tvo metra myndi þurfa til þess að eiga inni fyrir miklum haustflóðum, sem göngin anna ekki. Ég sat á fundi með aðal sérfræðingi Landsvirkunar um þetta en þessari hugmynd minni var hafnað.
Þar með eru nú hafnar síðustu siglingar mínar um lón Kárahnjúkavirkjunar, - fyrst í stað á lítilli gúmmítuðru um Folavatn en síðar, þegar nógu djúpt er orðið fyrir Örkin að sigla úr Kelduárlóni yfir á þann hluta þess þar sem áður var Folavatn, verður það gert.
Fyrir nokkrum árum stóð til að láta Símann hafa ferhyrndan grasblett nálægt Glæsibæ.
Mig minnir að 30 þúsund manns hafi mótmælt þessu með undirskriftum og fallið var frá þessu.

Öllu þessu fólki var ekki sama, og samt var aðeins um að ræða ferhyrndan manngerðan grasblett, líkan þúsundum annarra grasbletta í þéttbýli.
Húsið hefði haft sinn líftíma og hægt hefði verið að rífa það síðar og búa aftur til alveg eins grasblett. En fólki var ekki sama og reis upp, mótmælti og hafði sitt fram.
Nú virðist íslensk þjóð hins vegar að verða samdauna hernaðinum gegn einstæðri náttúru Íslands.
Fyrirsögnin á grein minni í Morgublaðinu var: "Er enginn þarna úti? Er öllum orðið sama um allt?"
Ég bíð eftir því hvort á næstu dögum og vikum komi endanlega í ljós svarið við þessum spurningum sem verði endir myndarinnar um Örkina: Það er enginn þarna úti. Það er öllum sama um allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
29.7.2009 | 22:41
Það stekkur enginn lengra en hann hugsar.
Í skemmtilegu ferðalagi okkar Einars Vilhjálmssonar eftir hringveginum á metanknúnum bíl um síðustu helgi ræddum við um margt, þar á meðal um það hugarfar sem þarf að ríkja til að ná sem bestum árangri.
Eitt af því var sú hætta, að við það að krækja í réttinn til að leika úrslitaleik um gullið, kæmi ákveðinn slaki í hugsunina eftir að hinum mikla áfanga var náð.
Þetta mætti ekki gerast, - hungrið í gullið og staðfastur vilji til að fara alla leið yrði að vera öllu yfirsterkara, samanber orð Snæfríðar Íslandssólar, "heldur þann versta en þann næstbesta."
Árangur strákanna er auðvitað frábær, þakkarverður og þeim til mikils sóma, en nú er bara að gera enn betur en gert var á OL í fyrra, - gullið og ekkert annað!
Gömul förukona í Langadal sem hafði hlotið grimmileg örlög, sem ég kynntist þegar ég var þar í sveit fyrir 55 árum, brýndi mig með þessum orðum: "Það stekkur enginn lengra en hann hugsar."
Hvernig sem allt fer verður takmarkið að verða það að fara alla leið. Áfram Ísland! Alla leið !
![]() |
Ísland leikur til úrslita um heimsmeistaratitilinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2009 | 21:05
Walter Chroncite og Kompás.
Það er eftirsjá að Edduverðlaunaþætti á borð við Kompás. Íslensk fjölmiðlun hefur aldrei þurft á öflugri fjölmiðlun og fréttaskýringaþáttum að halda en nú.
Það var líka mikil eftirsjá að bandaríska sjónvarpsfréttamanninum Walter Chroncite.
Hann hafði sterk áhrif á mig þegar ég hitti hann, spjallaði við hann dagstund og tók síðan við hann örstutt sjónvarpsviðtal fyrir 17 árum.
Ég hafði aðeins tíma fyrir eina spurningu: "Eru fjölmiðlar orðnir of valdamiklir/öflugir?"
Á enskunni notaði ég orðið "power" sem hefur víða merkingu og getur bæði þýtt völd og afl.
Svarið var eftirminnilegt: "The media is never too powerful in a democratic society. The media has to be powerful to distribute information and different wiews so the people can use their power."
Þetta útleggst nokkurn veginn svona: "Í lýðræðislegu þjóðfélagi eru fjölmiðlar aldrei of öflugir. Fjðlmiðlar verða að vera aflmiklir til að miðla upplýsingum og mismunandi skoðunum svo að þjóðin geti notað sitt vald."
![]() |
Dagar Kompáss taldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2009 | 19:14
Einelti birtist í mörgum myndum.
Einelti gegn persónum birtist oft í háði sem beitt er gegn þeim sem er minnimáttar. Þessi árátta mannsins birtist strax í barnaskólum, svo mjög er þetta grópað í mannlegt eðli. Þetta blandast oft í hópeðli þar sem margir taka sig saman um að standa að eineltinu sem þá verður að ofbeldi í skjóli mikils aflsmunar.
Einelti getur líka beinst gegn heilum þjóðum í formi háðs, jafnvel gegn fjölmennum stórþjóðum. Pólverjabrandarar eru dæmi um það þegar þjóðasamfélagið tekur fyrir eina þjóð og gerir lítið úr henni undir yfirskini homors og háðs.
Ég upplifði það erlendis beint og óþvegið strax nokkrum dögum efirt bankahrunið að ég væri einn af þeim sem ekki borgaði.
Við erum lítil þjóð og fáum ekki rönd við reist, - verðum að lifa við þetta næstu ár á meðan við vinnum okkur út úr þessari eldskírn og komum vonandi sterkari út úr henni en við fórum inn í hana.
![]() |
Herferð gegn Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.7.2009 | 23:29
Ekki finnsku mistökin í velferðarmálum.
Finnar vóktu aðdáun með tæprar hálfrar aldar millibili þegar þeir tókust af gríðarlegum dugnaði á við erfið ár vegna skulda eftir heimsstyrjöldina og síðan þegar Sovétríkin hrundu og þar með mikilvægasta viðskiptaþjóð þeirra.
Þeir fóru svonefnda finnska leið í efnahagsmálum með því að beisla hugvit og mannauð en hættu við að fara út í stórkarlalegar virkjana- og verksmiðjuframkvæmdir.
En þeir viðurkenna að hafa gert þau afdrifaríku mistök í kreppunni á tíunda áratugnum að skera of mikið niður í velferðarþjónustunni.
Lögreglan er hluti af velferðarkerfinu og mikilvægi hennar eykst með auknum óróa og lausung. Þess utan eru agaleysi og villimennska viðvarandi í svonefndum skemmtanalífi Íslendinga og það tekur sinn toll.
Áfengisbölið verður víst að hafa sinn gang eins og einhvern tíma var sagt og enginn lýsti betur en Þórður Guðjonhsen heitinn þegar hann sagði eftir að áfengisverðið hafði hækkað: "Nú er brennivínið orðið svo dýrt að maður hefur ekki efni á að kaupa sér skó."
![]() |
Algjör misskilningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2009 | 20:00
Að hafa alla í hendi sér, - "take the money and run!"
Bandaríska máltækið "take the money and run!" hefur ráðið ferðinni hjá Íslendingum undanfarinn áratug. Stóriðju- og virkjanaæðið byggist á þessu, - millifærslur Glitnisbankastjóranna byggðust á þessu, - öll bankasápukúlan byggðist á þessu.
Nú kemur fram að Glitnir hafi verið lifandi lík síðla árs 2007. Innstu koppar í búri vissu þetta vafalaust, bæði þar og í öðrum bönkum.
Sú ráðstöfun að hafa Icesave í útibúi Landsbankans var í þessum anda því að þá var hægt að flytja peningana fljótt og vel heim til Íslands en það hefði verið miklu seinlegra ef Iceasave hefði verið í dótturfélagi bankans í Bretlandi.
Hin "tæra snilld" á bak við Icesave byggðis á því að þetta félli vel í kramið hjá landanum. Icesave-snillingarnir vissu líka að orð Davíðs um að þeir hefðu ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn og pressan á það að flytja Icesave í dótturfélag hafði ekkert á bak við sig.
Íslensk stjórnvöld, sem sofið höfðu á verðinum myndu ekki þora að rugga bátnum eða standa við hótanir og þrýsting, því yrði slíkt opinbert myndi það benda til þess að eitthvað væri að.
Íslenska þjóðin fékk ekki að vita að bankakerfið væri orðið tíföld árleg þjóðarframleiðsla fyrr en tæpum mánuði fyrir hrunið.
Ég fæ ekki betur séð en að ofurlaunasnillingarnir hafi haft allt og alla í hendi sér. Fá þeir að hafa það áfram?
![]() |
Millifærðu hundruð milljóna milli landa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)