2.6.2013 | 21:36
Hermann var ekki í stjórninni 1953-56.
Umfjöllun Guðna Th. Jóhannessonar um þær stjórnir, sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa setið saman í, er hin ágætasta. Þó má gera tvær athugasemdir.
Það er ekki rétt að Ólafur og Hermann hafi setið saman í stjórn 1950-56. Hvorugur gat sætt sig við að sitja í stjórn undir forsæti hins, allt frá 1942 og fram á sjöunda áratuginn.
1947-49 var þriggja flokka stjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, formanns Alþýðuflokksins, og það lýsti hnútinn í bili,
En hvorki Ólafur né Hermann sátu í þeirri stjórn.
En síðan tók við minnihlutastjórn Ólafs Thors og allt var í hnút í einni lengstu stjórnarkreppu lýðveldistímabilsins veturinn 1949-50.
Þá hófst sex ára samstarfstímabil flokkanna.
Þegar Ólafur myndaði samstjórn flokkanna 1953 gat Hermann því ekki hugsað sér að sitja í þeirri stjórn heldur kaus frekar að vera formaður án ráðherraembættis. Í stjórninni 1950 til 53 var lausnin sú að Steingrímur Steinþórsson varð forsætisráðherra, maður sem var þannig staðsettur í stjórnmálunum að engin "hætta" var á því að hann næði í fremstu röð áhrifamanna.
Þetta var ekki ólíkt því sem gerðist hjá R-listanum þegar Ingibjörg Sólrún hætti, þ. e. fundinn samnefnari sem ekki var of hár.
1950-53 var Ólafur því sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra.
Með Hermann alveg utan stjórnar eftir 1953 bar sú stjórn dauðann í sér. Stjórnin var fyrst og fremst mynduð til að klára verkefni fyrri stjórnar varðandi uppbyggingu fyrir Marshallféð og vegna ástandsins innan lands í Kalda stríðinu. Um tíma var jafnvel ætlunin að "hernámsflokkarnir" þrír, Sjallar, Framsókn og Kratar væru í stjórn "lýðræðisflokkanna".
En Þjóðvarnarflokkurinn og "þíðan í samskiptum risaveldanna eftir lát Stalíns og lok Kóreustríðsins, breytti ástandi alþjóðastjórnmála og ógnaði fylgi Framsóknar.
Hermann notaði tímann utan stjórnar til að byggja brú á laun í gegnum Finnboga Rút Valdimarsson yfir til "kommanna" og vinstri arms Alþýðuflokksins, sem hópaðist í kringum Hannibal Valdimarsson og Málfundafélag jafnaðarmanna.
Afleiðingin varð vinstri stjórnin 1956-59 undir forsæti Hermanns.
1974 hafði Ólafur Jóhannesson verið mjög áberandi og öflugur í embætti forsætisráðherra og stjórnarmyndunarviðræðurnar gengu erfiðlega af því að margir Sjálfstæðismenn gátu ekki kyngt því að hann yrði áfram forsætisráðherra og efldist enn frekar meðal þjóðarinnar.
Ólafur var með stjórnarmyndunarumboðið en Geir Hallgímsson varð forsætisráðherra og gárungarnir sögðu að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir Hallgrímsson og fannst sumum það háðulegt og Ólafi til vegsauka en Geir til minnkunar.
Hvort sem það var ýkt eða ekki má segja að Geir hafi aldrei náð sér almennilega á strik eftir þetta, þótt hann yrði forsætisráðherra, einkum eftir að stjórn hans beið afhroð í Alþingiskosningunum 1978.
Stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens 1980 og síðan það, hvernig Geir lenti síðar í sjöunda sæti í prófkjöri í Reykjavík, lék Geir grátt.
Hann sýndi samt mikla stjórnvisku, framsýni og lagni þegar honum tókst að halda Sjálfstæðisflokknum formlega saman 1980-83, þannig að flokkurinn gat farið samhentur út í kosningar það ár.
Það var að mörgu leyti ekki ólíkt því hvernig Ólafi Thors tókst það sama við myndun Nýsköpunarstjórnarinnar 1944 gegn andstöðu fimm Sjálfstæðisþingmanna.
![]() |
Stormasamt samstarf í gegnum tíðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2013 | 13:58
Stundum þarf svo lítið til að villast.
Allir hafa villst einhvern tíma á ævinni. Jafnvel örstutta stund inni í myrkri inni hjá sér. Ég hef líkast til verið 4-5 ára gamall þegar ég villtist í fyrsta sinn.
Mamma hafði farið til tannlæknis við Óðinstorg og ég átti að bíða á biðstofunni á meðan.
Á þessum árum var ég talinn furðulegur að því leyti að þegar hún var á ferli með mig, til dæmis í heimsókn hjá vinkonu, var ég settur niður á stól eða í sófa og sat þar við kyrr með eigin hugsanir tímunum saman án þess að segja orð.
En í þetta skipti varð eitthvað til þess að ég labbaði út á götu og gleymdi mér alveg við að skoða mig um þangað til ég áttaði mig á því að ég var rammvilltur.
Þegar svona háttar til er eins og öll hús verði eins og þannig varð það í þessari villugöngu.
Svo hugkvæmdist mér að leggja eitt ákveðið hús á götuhorni á minnið og ganga eins langt og ég komst frá því í ákveðna átt og ég komst án þess að missa sjónar á því.
Síðan gekk ég aftur að þessu hornhúsi og fór á svipaðan hátt í hina áttina.
Svona gekk ég fram og aftur lengi í allar áttir út frá þessu húsi og kom tvívegis að gatnamótum, sem voru mjög lík. Þá ákvað ég að sjá hvort ég kæmist inn í eitthvert hús sem mér fannst líkjast húsinu sem tannlæknastofan var í.
Loksins kom ég að inngangi, þar sem auðvelt var að komast lengra inn í húsið og viti menn: Þetta var þá húsið sem tannlæknastofan var í og örfáum mínútum seinna kom mamma út frá tannlækninum og hélt að ég hefði verið þarna kyrr allan tímann.
Rúmlega 60 árum seinna gerðist svipað atvik á gerólíkum stað og að var eins og ég væri orðinn 4-5 ára á ný og hefði nákvæmlega ekki lært neitt.
Ég var akandi á leið út eftir Fljótsdalsheiði í ljósaskiptunum, kvöldþokan var farin að læðast um alla heiðina eftir að sólin hafði sest og loft byrjaði að kólna og rakamettast, þegar skyndilega blasti við langstærsta hreindýrahjörð, sem ég hafði nokkurn tíma séð.
Hreindýr voru styggari á þessum slóðum þá en nú og fóru strax að færa sig og augljóst að þau myndu hverfa á skammri stund inn í þokuna, svo auðséð var, að ef ég ætti að ná mynd af allri hjörðinni yrði ég að fara samstundis út úr bílnum með myndavélina og þrífótinn eins og ég stóð, og ég bjóst við að ekki yrði hægt að ná hinni þráðu mynd, nema alveg í upphafi, - bjóst því ekki við að ganga nema smáspöl.
Í þessum flýti gleymdi ég því að farsímarnir mínur voru ekki í vasa mínum, eins og venjulega, heldur lágu saman í hægra framsætinu.
Ég mátti hafa mig allan við að komast í skotfæri við hjörðina áður en að hún kæmist úr sjónfæri og náði þarna loks mynd af langstærstu hreindýrahjörð sem kvikmynduð hefur verið hér á landi, um 800 dýr þegar þau voru talin á myndinni daginn eftir í frétt, sem var afrakstur af eldsnöggu viðbragði, útsjónarsemi með blöndu af flýti og varfærni.
Þokuloftið, sem umlukti þessa risastóru hjörð þessa mínútu, sem hún sást öll, áður en hún gliðnaði og þokan fór að gleypa hana, gerði þetta stutta myndskeið óviðjanlegt.
Rétt í þann mund sem um mínútu langt skot náðist af allri hjörðinni hvarf hún inn í þoku sem skall á og ég áttaði mig á því, mér til mikillar armæðu, að ég var í raun rammvilltur, sá ekki lengur veginn þar sem ég hafði hlaupið út úr bílnum.
Og ekki bara það, bíllinn stóð uppi á vegarbrún, opinn með lyklana í svissinum!
Í svona villu í þoku er illmögulegt að átta sig á því hvernig landið hallar ef það er ekki þeim mun brattara, nema finna læk.
Nú kom þrífóturinn í góðar þarfir. Ég stillti honum upp og gekk í átt frá honum eins langt og ég sá til hans. Gekk þá í eins víðan hring í kringum hann og hættandi var á til að kanna umhverfið, - lagði á minnið ákveðna kletta og steina á einum staðnum, þar til komið var að sama stað aftur í þessum gönguhring.
Þá gekk ég beint að þrífætinum með augun á steinunum og fór síðan með þrífótinn að þeim og gekk nú beint í gagnstæða átt og endurtók hringgönguna, var nú búinn að stækka könnunarsvæðið tvöfalt.
Þetta var agalegt. Búinn að gera ótal fréttir og fara í ótal ferðir og leitir vegna týnds fólks og var sjálfur að klúðra sams konar máli á ömurlegan hátt !
Hafði meira að segja ekki gefið mér tíma til að grípa neina flík með mér. Þetta yrði frétt til næsta bæjar. Kvaddar út björgunarsveitir til að leita að heimskum fréttamanni sem sjálfur var félagi í björgunarsveit !
Því að ef bíllinn fyndist mannlaus og opinn með lyklunum í svissinum og tvo farsíma í hægra framsætinu var víðbúið að menn færu að leita að þessum fjallheimska manni, sem hlaut að hafa villst á heiðinni.
En við þessu var ekkert að gera og aðalatriðið að ana ekki út í þokuna heldur stækka svæðið, sem ég var að kanna, á skipulegan hátt.
Þegar ég var í þriðju stækkuninni rofaði allt í einu aðeins til smástund og mér til mikillar gleði sá ég glytta í þjóðveginn, og áður en hann hyrfi aftur í þokumóðuna, tókst mér að komast að honum.
Vissi að ég hafði villst austan við hann og farið í norður, þannig að leiðin lá eftir honum til suðurs að bílnum, sem fljótlega kom í ljós.
Í raun hafði ég verið að leita að sjálfum mér eftir ákveðnu skipulagi þennan tíma sem ég var var villtur, þannig að ég ætti ekki hættu á að villast um langan veg og að því leyti hafði ég farið eftir boðorðinu um að halda sem mest kyrru fyrir nálægt upphafsstað.
Já, það þarf stundum svo lítið til að villast og þá geta mistök, sem virðast smá, orðið svo stór. Bara það eitt að grípa ekki annan farsímann voru arfamistök.
En eftir á huggaði ég mig við það að hafa náð myndskeiði af stærðargráðu, sem aldrei hafði náðst áður, og hefur ekki náðst síðan, - næst kannski aldrei aftur.
Og meðan ég var villtur var ég búinn að sætta mig við það að ef það þyrfti að kalla út leit, myndi ég með því krækja mér í aðra frétt í viðbót við hina ! Segið þið svo að fréttamennska geti ekki kostað fórnir!
![]() |
Gekk berfætt í snjónum á fjallinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2013 | 01:34
"Sjung om studentens lykliga dag!" "Góðar og glaðar stundir!"
Það er skemmtilegt að heyra lýsingu Sigfríðar Nieljohiusdóttur á því þegar hún varð stúdent frá M.R. 1938. Mér sýnist á þessari lýsingu að minna hafi breyst milli 1938 og 1960 en eftir 1960, enda kannski eðlilegt vegna þess að fyrra tímabilið er 22 ár en hið síðara er 53 ár.
Dimmissjonar-dagurinn árangsins míns, 12. apríl 1960; er í eins fersku minni og hann hefði verið í vor. Það var svo gott veður allan daginn og hópurinn var svo samstilltur í að fagna þessum áfanga, kennararnir kvaddir um morguninn, dimmittendar og remanentar sungust á á skólatröppunum, og ég man hvað það var skemmtilegt þegar farið var á bílum suður fyrir Hafnarfjörð áleiðis í Kaldársel; man ekki hve margir þeir voru, en NSU-Prinzinn kom í góðar þarfir í þessari "picnic"ferð.
16.-18. júní voru svipaðir dýrðardagar og Sigfríður lýsir, farið í hópum um bæinn og sungið og sungið með hvítu kollana.
Mig rámar í að við hittum biskup og forsætisráðherra, og nýlega var rifjað upp, að þeir báðir höfðu fengið 3ju einkunn á stúdentsprófi þegar þeir útskrifuðust !
Skandinavískir stúdentasöngvar, einn þýskur og gott ef ekki eitthvað á ensku, allt var þetta sungið stanslaust auk íslenskra laga, sem voru með svipuðum blæ.
Ég minnist samkomu í Þjóðleikhúskjallaranum og stúdentasamkomu á Hótel Borg, þar sem manni fannst 20 og 30 ára stúdentar vera hálfgerð gamalmenni.
Þegar yngsta dóttir okkar Helgu, Alma, varð eina barnið okkar til að verða stúdent frá M.R. 1995, (hin flest fóru í M. H.), átti hún lengi erfitt með að skilja, af hverju M.R. og árin þar voru í svona miklum ljóma hjá mér og mér svona kær.
Henni fannst skólinn gamaldags, húsnæðið óhentugt, og kennslan ekki alveg í takt við tímann.
Ekki fylgst nógu vel með þróuninni. Rektorinn gamall.
Mér fannst á móti undarlegt hvernig gömlu stúdentasöngvarnir og aðrir söngvar, sem voru ein af mikilvægum hefðum skólans, höfðu horfið með árunum, og hvernig Guðni Guðmundsson gæti nokkurn tíma orðið gamaldags.
En daginn eftir stúdentafagnaðinn sagði hún mér að síðustu vikurnar og mánuðina hefði hún fyrst uppgötvað þann ólýsanlega sjarma, sem skólinn og tradisjónir hans (afsakið, hefðir) hans bjuggu yfir og þá kom í ljós að hefðirnar hefðu ekki verið eins mikið horfnar og ég hafði haldið.
Og þegar Guðni söng Alúettuna sína með sínum einstæðu tilþrifum á fagnaðinu sá hún hann í alveg nýju, já, í sínu rétta ljósi.
Á sínum tíma var ég í stundum í meira samneyti við bekkinn á undan mínum bekk og kannski hafði það hjálpað mér til að grípa þennan sérstaka anda skólans fyrr en ella.
En kannski var félagsstarfið í skólanum, einkum starfið í Herranótt, með nemendum úr bekkjunum á undan og eftir, sem mestu skilaði í þessum efnum.
Yrirleitt eru táningsárin það tímabil ævinnar sem í mestum ljóma skína þegar árin líða.
Árin í Lindargötuskólanum, Landsprófi og þó einkum árin í M.R. eru þau ár ævinnar sem ég er einna þakklátastur fyrir og reyndi löngu síðar að túlka það í eftirfarandi texta við yndislegt lag Sigfúsar Halldórssonar, sem hann gerði upphaflega við ljóð á norsku eftir Kristmann Guðmundsson.
Við Sigfús voru félagar í Lionsklúbbnum Ægi, og þegar Magnús Ingimarsson, sömuleiðis félagi þar um hríð, gerði fjórraddaða útsetningu við lagið, (sem Sigvaldi Snær Kaldalóns hefur varðveitt), og lét sönghópinn M.R. 60 syngja það, varð það að ráði hjá okkur Sigfúsi, að ég gerði við það íslenskan texta; þennan hér:
GÓÐAR OG GLAÐAR STUNDIR.
Góðar og glaðar stundir
geymast í huga og sál
vina sem orna sér ennþá
við æskunnar tryggðamál.
Þær stundir leiftrandi lifa;
svo ljúfsárt minningaflóð!
Og okkur til æviloka
yljar sú forna glóð.
Allt er í heimi hverfult.
Hratt flýgur stund, lán er valt.
Góðar og glaðar stundir
þú geyma við hjarta skalt
og magna eld, sem að endist,
þótt annað flest reynist hjóm.
:,: Hann logar fegri og fegri,
þótt fölni hin skærstu blóm :,:
![]() |
Fagnaðarlætin stóðu í marga daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2013 | 19:04
Sparakstur: Sæmilegt tímakaup.
Þegar niðurstöður eru birtar úr keppni í sparakstri finnst mörgum niðurstöðurnar svo ótrúlegar að þær geti ekki verið réttar. En þær gefa ákveðna hugmynd um það hvernig hægt er að ná furðu miklum sparnaði í akstri, svo góðum, að ef menn reikna út þann tíma, sem það tafði þá í ferðinni við að aka á hagkvæmum hraða, er tímakaupið bara furðu gott, jafnvel meira í sumum tilfellum en ef þeir hefðu unnið þessar "glötuðu mínútur" fyrir kaupi í atvinnugrein sinni.
Sparaksturinn á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar þyrfti hins vegar að vera þannig, að keppendum sé sett það fyrir að fara leiðina á ákveðnum lágmarkstíma.
Ástæðan er sú að í raunveruleikanum eru takmörk fyrir því hve hægt sé hægt að aka án þess að valda vandræðum fyrir aðra umferð.
Á sumum köflum er ekki hægt að bjóða þeim sem eru á eftir manni upp á það að þurfa að lenda á eftir slíkum "lestarstjóra".
Því þyrfti til dæmis að setja aksturinn þannig upp, að bílstjórunum sé skylt að stansa í 20 mínútur á tveimur stöðum á leiðinni til eðlilegrar hvíldar og að ferðin taki ekki meira en 5 klukkustundir í akstrinum sjálfum, en það samsvarar um 77 kílómetrum á klukkustund.
Reynsla mín af því að aka þar sem það er hægt vegna annarrar umferðar á rúmlega 80 kílómetra hraða í staðinn fyrir að liggja við 95 eins og svo margir gera, skipuleggja aksturinn þannig, að lítið sé um snögga hraðaaukningu, og láta fríhjóla niður þar sem það kemur ekki um of niður á heildarrennslinu, er sú, að það sparist um 2 lítrar á klukkustund á bíl, sem eyðir annars um 10 lítrum á hundraðið.
Svona akstur verður um 40 mínútum lengri til Akureyrar en eyðslan minnkar um alls 8 lítra, sem kosta um 2000 krónur. Það gerir um 3000 króna á tímann þessar auka 40 mínútur, sem er álíka kaup og menn með 500 þúsund krónur á mánuði fá.
Ef bíllinn er einn af þeim nýjustu, minnstu og sparneytnustu, verður sparnaðurinn minni, kannski helmingi minni, en er nokkuð að því að fá borgaðar 1500 krónur á tímann?
![]() |
Sparaksturskeppendur langt komnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
31.5.2013 | 22:54
Best að fagna varlega. "Sama athugasemdin"?
Ég man hvað ég varð glaður í mars 2000 þegar sú frétt barst út, að vegna þess að 120 þúsund tonna álver í Reyðarfirði væri allt of lítið til að vera arðbært væri hætt við Fljótsdalsvirkjun.
En fögnuðurinn stóð aðeins í nokkra mánuði. Þá kom í ljós að þetta var bara upptakturinn að því að fara út í þrefalt stærra álver með margfalt verri óafturkræfum náttúruspjöllum.
Skipulagsstofnun, Landsvirkjun og fleiri mæltu gegn þeirri framkvæmd en sá fögnuður stóð aðeins í nokkra mánuði þangað til þáverandi umhverfisráðherra sneri úrskurðinum við af dæmafárri ósvífni.
Af þessu má læra það, að enda þótt fagna megi einstökum sporum, sem tekin eru í rétta átt, má ekki vanmeta einbeittan brotavilja virkjanafíklanna gegn íslenskrum náttúruperlsum, sem finnur jafnvel stórtækari leiðir fyrir framgang sinn en áður hafði þekkst.
![dscf0916[1] dscf0916[1]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/dscf0916_1_1203615.jpg)
Ég lagði talsverða vinnu og tíma í það á sínum ásamt henni Helgu minni að kynna mér virkjanafyrirætlanir í Skjálfandafljóti, bæði skýrslur og áætlanir um þær og ekki síður að fljúga yfir virkjanasvæðið og ferðast um það á landi til að taka af því myndir og gera síðan eins vandaða umsögn um það fyrir Framtíðarlandið til rammaáætlunar og mér var unnt.
Þá kom bara blaut tuska framan í mig og 225 aðra, sem unnið höfðu að umsögnum um virkjanakostina í rammaáætluninni: "Þetta var allt sama athugasemdin." Fjölfölduð.
![p1012569[1] p1012569[1]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/p1012569_1_1203616.jpg)
Ég hef nokkrum sinnum áður sýnt með umfjöllun og myndum hér á bloggsíðunni um hvað er að ræða.
Það á að sökkva 25 kílómetra djúpum dal, Krókdal, grónum að hálfu, undir miðlunarlón og þurrka upp fossa, þeirra á meðal Aldeyjarfoss og Hrafnabjargarfoss.
Sífellt sé tönnlast á að með miðlunarlónum á hálendinu sé bara verið að sökkva gróti, urð og eyðisöndum, þótt með Kárahnjúkavirkjun hafi til dæmis verið sökkt 40 ferkílómetrum og næstum svo miklu gróðurlendi með Blönduvirkjun, svo dæmi séu tekin.
![p1012582[1] p1012582[1]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/p1012582_1_1203627.jpg)
Krókdalur er lítt þekkt en einstök gróðurvin og veðraskjól sem teygir sig inn langt í norðurhálendið, en nær engir vita um, af því að Sprengisandsleið þræðir hálsa og hálendi vestur af dalnum í stað þess að liggja eftir honum í skjóli hans, gróðri og fegurð, þar sem Bárðarbunga gnæfir í fjarska í suðri á fallegum dögum.
![dscf0852[1] dscf0852[1]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/dscf0852_1_1203629.jpg)
Fagna ber að sjálfsögðu ákvörðunum Þingeyjarsveitar og Orkuveitu Reykjavíkur um að koma ekki nálægt þessum náttúrufórnum, en á hitt ber að líta, að Hrafnabjargavirkjun er enn í biðflokki og að mikil ásókn er í að koma slíkum virkjunarkostum í orkunýtingarflokk.
Því ber okkur í ljósi fyrri reynslu að vera áfram á varðbergi og láta ekki stinga okkur svefnþorni.
Fyrir neðan myndina af Aldeyjarfossi er mynd af skála í miðjum dalnum, þar sem við Helga hittum fólk sem þar var.
Það trúði okkur ekki þegar við sögðumst vera að taka myndir af skálanum og dalnum, vegna þess að til stæði að sökkva bæði dal og skála, auk þess að þurrka upp fossana.
Ég sagði þeim, að venjulegasta leiðin í svona málum væri, að bjóða upp á að skálinn yrði færður það ofarlega upp í austurhlíð dalsins að hann yrði á þurru landi.
![p1012590[1] p1012590[1]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/p1012590_1_1203632.jpg)
Og enn síður trúði blessað fólkið þessu.
Íslenska virkjanasóknin felst í því að fara að með leynd, - sjá svo um að sem fæstir og helst engir viti hvað til stendur.
Það eitt, að sýna það eða upplýsa það nægir til að stimpla þann, sem gerir það, sem "óvin landshlutans númer eitt."
![]() |
Fagna niðurstöðu Þingeyjarsveitar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.5.2013 | 14:00
Öðruvísi staða en 1970, því miður.
Það vantaði ekki gyllingarnar fyrir Gljúfurversvirkjun 1970. Hún átti að færa Þingeyingum mikla atvinnu við virkjanaframkvæmdirnar rétt eins og álver við Eyjafjörð og Blönduvirkjun áttu að "bjarga" Eyjafirði og Húnvetningum 20 árum síðar.
Húnvetningar vöknuðu upp við vondan draum þegar virkjanaframkvæmdum lauk og þeir sem unnu við framkvæmdirnar misstu atvinnuna og fólksflótti brast á.
Og Hrunárin 2008-2011 fækkaði fólki á Austurlandi, þar sem risaálver reis, á sama tíma sem fólki fjölgarði á álverslausu Norðausturlandi.
Þeir, sem beittu "túrbínutrixinu" 1970 til þess að svínbeygja alla undir gerðan hlut, ráku sig á órofa andstöðu landeigendanna sem valta átti yfir.
Af þessu lærðu virkjanamenn. Síðan þá er það fyrsta verkefni virkjanafíklanna að lokka landeigendur til fylgis við virkjanirnar á sem fjölbreyttastan hátt.
Það tókst fyrir austan þótt landeigendur þar þykist nú margir hverjir hafa verið illa svikna.
Landeigendur Reykjahlíðar hafa lykilaðstöðu í Mývatnssveit. Líkast til er landið, sem þorpið í Reykjahlíð stendur á, hið eina slíka á Íslandi, sem er ekki í almannaeigu heldur landeigandans.
Reykjahlið var lengi talin stærsta bújörð á Íslandi, náði allt norður í Gjástykki, norður fyrir Dettifoss og upp í Vatnajökul.
Landeigendur Reykjahlíðar "eiga" Gjástykki-Leirnjúk, Kröflu, Hrafntinnuhrygg, Bjarnarflag, norðausturströnd Mývatns, Námaskarð, Hveraröndina og Dettifoss.
Kannski einnig ennþá Herðubreiðarlindir og Herðubreið, Öskju og jafnvel Kverkfjöll, þótt þau séu austan við Jökulsá á Fjöllum. Að minnsta kosti stóð deila á tímabili yfir milli þessara óseðjandi landeigenda og nágranna þeirra austan ár um eignarhaldið á skálastæðinu í Kverkfjöllum.
Engin ein bújörð á Íslandi hefur fært landeigendum sínum eins mikil náttúruverðmæti á heimsvísu og Reykjahlíð.
Grímsstaðir á Fjöllum eru hreinir smámunir miðað við það.
Landeigendurnir Reykjahlíðar fóru hamförum í þremur Morgunblaðsgreinum í hitteðfyrra í því skyni að heimta virkjun í Gjástykki og andmæla því að svo mikið sem fermetri af svæðinu fyrir norðaustan Mývatn slyppi við það að verða iðnaðar- og mannvirkjasvæði.
Í græðgisþjóðfélaginu, sem hefur verið fóstrað hér, var þessi hegðun landeigendanna afar skiljanleg, þar sem gróðinn er ekki aðeins trúaratriði, heldur líka að hann fáist sem allra fyrst, helst í gær, skítt með afleiðingarnar fyrir landið, náttúru þess og komandi kynslóðir.
Þeir, sem ætla að sjá um áframhald hernaðarins gegn landinu, sem Laxness skrifaði um árið 1970, eiga því mun auðveldara með það núna en fyrir 43 árum, ekki bara í Mývatnssveit, heldur víðast annars staðar að fá sínu framgengt.
Á Íslandi, eins og í vanþróuðum ríkjum Afríku, kostar aðeins brot af gróða hinna erlendu stóriðjufyrirtækja til að fá landeigendur til fylgis við nánast hvað sem er undir kjörorðinu "take the money and run". Þess vegna er staðan öðruvísi nú á Laxár-Mývatnssvæðinu en hún var 1970.
Landeigendunum nægir ekki hvernig Mývatn er nú að komast á válista í kjölfar rúmlega 30 ára starfrækslu Kísiliðjunnar. Nei, þeir geta þess sérstaklega hve mjög þeir sakni hennar og vilji nú verða margfalt stórtækari í háskaleiknum með þetta einstæða samspil lífríkis og jarðmyndana sem vatnið er.
Landeigendurnir beina athyglinni frá gróðafíkn sinni með því að segjast vera að berjast fyrir fleiri störfum í byggðarlaginu. Reynsla Húnvetninga er það ólygnust og þegar framkvæmdum lýkur munu mun færri störf til frambúðar skapast við Bjarnarflagsvirkjun en við Kísiliðjuna, þótt virkjunin sé margfalt stærri framkvæmd.
Hvað ylrækt snertir þarf engin 45-90 megavött til hennar.
Fyrir um 15 árum var það nefnt af hálfu Íslendinga að Þingvellir og Mývatn kæmust á heimsminjaskrá UNESCO.
Þingvellir komust á skrána um síðir, en heimsminjaskrárhugmyndin um Mývatn með Kísiliðjuna rétt hjá og námavinnslu í vatninu sjálfu vakti vorkunn og aðhlátur.
![]() |
Landeigendur vilja virkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.5.2013 | 21:26
Þarf "Höfuðborgarlistinn" að koma fram?
Margt gott er að segja um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur og um allan heim reyna menn það, sem þarna á að reyna, að gera byggðina þéttari.
Reynslan af þéttingu byggðar á að vera sú að ungt fólk vilji eiga heima sem næst miðju borgarsamfélagsins, miðjum byggðar og atvinnustarfsemi.
En ekkert verk verður betra en forsendur þess og það eru augljósir vankantar á því að gera aðalskipulag fyrir aðeins rúman helming íbúa á höfuðborgarsvæðinu og taka ekki hinn helminginn með í reikninginn.
Þannig ætti að gera eitt aðalskipulag fyrir allt svæðið að mínum dómi og miða til dæmis við miðju byggðar og miðju atvinnustarfsemi á öllu svæðinu en ekki bara Reykjavíkur einnar.
Þá grunar mig að koma myndi í ljós að vaxandi atvinnustarfsemi í Smárahverfinu í Kópavogi og víðar myndi breyta forsendunum talsvert, en Smárahverfið er nær stærstu krossgötum landsins heldur en Vatnsmýri og gamli miðbær Reykjavíkur, fyrst menn eru að tala um að þétta byggð inn við miðjur íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi.
Reynslan af þéttingunni við Skúlagötu er sú að þar er húsnæði svo dýrt að ungt fólk sést þar varla.
Í þau skipti sem ég er þar á ferð sé ég engin börn, ekkert líf.
Hætta er á því að svipað myndi gerast í íbúðabyggð á núverandi flugvallarsvæði og að afleiðingin verði öfug við ætlunina, það er, að unga fólkið telji sig þurfa að fara í úthverfin, eða öllu heldur til nágrannasveitarfélaganna.
Þetta yrði hugsanlega "fínt" hverfi eins og Skúlagatan er, enda eru miðjur byggðar og atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu fyrir löngu komin svo langt frá gamla miðbænum, að hverfi í Elliðavogi og nálægt stærstu krossgötum landsins þar í grennd, eru nær þeim.
Ég fékk ekki svar við spurningum mínum um það hvar þessar miðjur byggðar og atvinnu væru á höfuðborgarsvæðinu og skil ekki hvernig menn geta komist hjá því að finna þær og skilgreina fyrst, áður en farið er af stað með aðalskipulag.
Alveg ný rök heyrðust frá þremur borgarfulltrúum varðandi innanlandsflug og staðsetningu aðalflugvallarins fyrir það.
Ein voru þau að það myndi menga minna þótt allir ækju á einkabílum sínum milli Akureyrar og Reykjavíkur í stað þess að fljúga.
Frábært! Förum nú aftur til tíma siglinganna og mengum minna með því að fara með skipum til útlanda heldur en að fljúga !
Önnur voru þau að það myndi spara mikil opinber útgjöld til flugmála ef innanlandsflugið legðist af.
Betra væri að verja þeim peningum til heilbrigðis- og menntamála.
Hin þriðju voru þau að nú væri líklega að koma nýjung til sögunnar sem gæti tekið við af innanlandsfluginu, ferðir strætisvagna Reykjavíkur milli Akureyrar og Reykjavíkur!
Ég ferðaðist með strætó frá Hvolsvelli fyrir nokkrum dögum og sá ekki að neitt hefði breyst frá því að Sterna var með fastar áætlunarferðir á þessari leið annað en það að nú voru þessir örfáu farþegar í miklu stærri og eyðslufrekari rútu !
Og ekki sýndist mér að hraðar væri farið yfir eða á þægilegri hátt þótt eigandinn væri Reykjavíkurborg!
Í útreikningnum um sparnaðinn við það, að allir ækju á milli Akureyrar og Reykjavíkur var ekki minnst á það að hálf milljón farþega í innanlandsflugi myndu samtals missa um 2-3 milljónir vinnustunda í ferðalögin en það gerir um 3-4 milljarða króna.
Sagt var að flugvöllurinn þyrfti ekki að vera eins nálægt spítala og nú er og sagt að staðsetning sjúkraflugsins á Akureyri styddi það að það gæti vel verið þetta fjarri.
Þarna er um kostulegan misskilning að ræða, því að gildi sjúkraflugsins fyrir fólk úti á landi felst í því að sjúkraflugvélarnar séu sem næst sjúklingunum, sem flytja þarf frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, ekki öfugt !
Sagt var að nálægð spitalans við flugvöllinn skipti mun minna máli en það að færir læknar og sjúkralið væru nálægir úti á landi þegar þörfin krefði. Það væri aðalatriðið, ekki tíminn sem tæki að flytja sjúklinginn.
Ég á eftir að sjá að hægt, bæði hvað snertir að fá í það mannskap og að fá í það fjármagn að hægt sé að vinna tímamuninn upp með því að auka svo viðbúnaðinn með læknum og færu sjúkraliði út um allt til að vinna það upp.
Þetta stangast á við það sem læknar sjálfir og sjúklingar hafa sagt.
Ég verð að játa, að ég undraðist þá hugsun, sem þarna kom fram. Vitað er að flugið í heiminum stendur aðeins fyrir um 10% af loftmengun af völdum samgangna og að það er hinn hversdagslegi akstur hundraða milljóna manns á hverjum degi sem er megin vandamálið.
Sama á við á Íslandi. Akstur 200 þúsund bíla á hverjum degi er viðfangsefnið og með ólíkindum að telja það lausn á því vandamáli að leggja niður innanlands einn af þremur þáttum nútímasamgangna, sem eru landsamgöngur, samgöngur á sjó og samgöngur í lofti.
Ef svo fer fram sem horfir að þessi sjálfhverfa hugsun og afturför í samgöngumálum þjóðarinnar eigi að ráða ríkjum hjá ráðamönnum fæðingarborgar minnar er mér öllum lokið.
Það eru hins vegar borgarstjórnarkosningar á næsta ári og þá verður kannski grundvöllur fyrir framboð þeirra borgarbúa, sem líta ekki aðeins með stolti á það að vera Reykvíkingar, heldur ekki síður með stolti á það að vera Íslendingar sem búa í höfuðborg, sem stendur undir nafni.
Í mínum huga er hún ekki bara borgin mín heldur borg allra landsmanna.
![]() |
Engin ný úthverfi á aðalskipulagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 31.5.2013 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
30.5.2013 | 15:04
Þarf fræðslu um ofursterk ljós.
Ég minnist þess enn þegar ég uppgötvaði sólina í fyrsta sinn. Ég var fjögurra ára og hafði farið með öðrum krökkum og fullorðnu fólki út á túnið, sem var fyrir austan gatnamót Samtúns og Nóatúns.
Ég lá í sumarhitanum undir heiðum himni í grasinu og fór að horfa beint upp í sólina og minnist þess hvernig ljós hennar virtist koma eins og sjóðheitar bylgjur inn í augu mín.
Mörgum árum síðar var mér sagt frá því, að ef ég hugsanlega hefði ég stórskaðað sjónina ef ég hefði horft einhverjum sekúndum lengur svona inn í hana.
Börn eru forvitin og stundum áköf í að uppgötva fyrirbrigði tilverunnar.
Ég held að þörf sé á að þau séu frædd um hætturnar, sem geta fylgt því að horfa inn í ofurskær ljós, hvort sem það er hið stærsta og skærasta, sólin sjálf, eða sakleysilegir leysibendar.
![]() |
13 ára missti sjón eftir leysibendi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.5.2013 | 01:01
Er ruslflokkurinn þá bara misskilningur?
Í tíufréttum í kvöld var greint frá því að lánshæfi Alcoa sé komið niður í ruslflokk og að ástæðan sé taprekstur fyrirtækisins vegna offramboðs og verðlækkunar.
Í lok ráðstefnu Ísorku kom fram að orkuverðið hjá okkur sé um 20 mills en framleiðslukostnaður okkar 40 mills og því drjúgt tap þar líka.
Svo er hins vegar að sjá af hamagangi Samáls og annarra, sem nú hafa heldur betur tekið við sér, að allt sé í himnalagi og neikvæðar fréttir af Alcoa séu byggðar á "misskilningi og rangfærslum", þannig að Guðbjört Gylfadóttir og hennar persóna sé orðið aðalatriðið í þessu máli.
Kostulegt að sjá þetta!
![]() |
Fara í manninn en ekki málefnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
29.5.2013 | 19:26
Eins og Bjarni Fel sagði oft: "Betri en enginn"!
Þegar síbyljan um að ný og ný álver séu það eina sem geti "bjargað þjóðinni" eins og nú er boðað sem forgangsverkefni daglega á fyrstu vinnudögum nýrrar ríkisstjórnar er gott að eiga mann eins og Andra Snæ Magnason, sem hefur sérhæft sig í að afla efnahagslegra upplýsinga og vinna úr þeim.
Allt frá útkomu bókarinnar "Framtíðarlandið" má með sanni segja það sama og Bjarni Fel sagði svo oft þegar hann vildi hæla einhverjum í hástert: "Hann er svo sannarlega betri en enginn!"
Athugasemdir Andra Snæs um fullyrðingar Samáls ættu að vera skyldulesning þessa dagana og framlag hans til þeirra mála, sem hann hefur látið til sín taka, hefur verið ómetanlegt.
Í kosningabaráttunni 2007 ákvað ég að reyna að einfalda mikilvægasta málefni hennar sem mest með því að nefna aðeins eina tölu og biðja fólk um að muna hana: 2%.
Hún væri lykiltala til skilnings á því að fráleitt væri allt tal um það að álver og aftur álver væri það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" og að "eitthvað annað" væri vonlaust og fjallagrasatínsla nefnd í því sambandi.
Ef reist yrðu sex risaálver sem framleiddu 2,5 milljónir tonna árlega og tækju til sín alla fáanlega orku landsins sem rústaði öllum helstu náttúruperlum þess, myndu aðeins 2% vinnuaflsins fá vinnu í þessum álverum.
Eftir stæðu 98% sem féllu undir hugtakið "eitthvað annað."
Augljóst væri að stóriðjustefnan væri ekki aðeins vonlaus sem lausn á atvinnuvandamálum þjóðarinar, heldur líka langsamlega dýrasta og dýrkeyptasta stefnan.
Og jafnvel þótt menn legðu álframleiðslunni til annað eins í "tengdum störfum" yrði samtala aldrei hærri en 5% og þá stæðu eftir 95% sem yrðu að starfa við "eitthvað annað".
P. S. Í fréttum nú klukkan tíu að kvöldi var sagt frá því að búið væri að fella lánshæfi Alcoa niður í ruslflokk. Ástæðan væri tap fyrirtækisins vegna offramboðs og verðfalls. Á öðrum stað á blogginu er öllum efasemdum um Alcoa hins vegar vísað á bug sem "misskilningi, rangfærslum og staðreyndavillum". Fréttirnar þessar um ruslflokkinn falla þá sennilega undir það og eru bara bull.
![]() |
Alvarlegar athugasemdir við Samál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.5.2013 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)