Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2022 | 09:31
Alveg sama hverju er spáð; endalaus útköll.
Svo samfelldur var fréttaflutningur af komandi óveðri í gær, að sú hugsan gat læðst að hvort það væri ekki gert allt of mikið út af sjálfsögðum hlutum á einum vindasamasta stað heims á þessum árstíma.
Daginn eftir blasir hins vegar við að útkoöllin komust upp í meira en hundrað samtals þennan sólarhring sem veðrið stóð og að eitt af því sem fauk, var partítjald!
"Ýmislegt fauk frá vinnusvæðum" manna, sem hafa atvinnu af því að vinna utan dyra.
Aðeins eru örfáir dagar síðan björgunarsveitir þurftu að sinna útköllum upp á fjallvegi, sem margítrekað hafði verið tilkynnt um á alla mögulega vegu að væru kolófærir.
Sagan endalausa er í fullu gildi.
![]() |
Vinnupallar hrundu og klæðningar losnuðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stærsti kostur rafbíla er fólginn í yfirburða nýtni rafhreyfilsins miðað við sprengihreyfilinn auk margfalt einfaldari gerðar. Rafhreyfillinn er með meira en 80 prósent orkunýtni, meira en tvöfall hærra hlutfall en sprengihreyflar.
Þessir yfirburðir hafa verið kunnir í meira en öld, en stærsti kostur sprengihreyflanna átti stóran þátt í því að þeir drápu rafknúnu bílana í dróma allt fram á 21. öldina í krafti yfirburða orkugeymdar eldsneytis miðað við geymd rafhlöðunnar. Þar að auki er það ókostur rafhlaðna að á gefinni vegalengd léttast þær ekkert við það að orkan eyðist, en þyngd eldsneytis minnkar einfaldlega á hverri gefinni vegalengd.
Allt fram á níunda áratug síðustu aldar yfirsást mönnum þeir miklu möguleikar sem felast í því að minnka loftmótstöðu bíla.
Táknið cx er notað um loftmótstöðu og voru bílar fyrri hluta síðustu aldar með afar lélega tölu, þar sem flatarmál þess loftrýmis sem bíllinn þurfti að fara í gegnum var margfölduð með loftflæðistölunni, sem var um það bil 1,0 cx á plötu sem færð var standandi lóðrétt í gegnum loftið.
Ef laginu var breytt í kassa, lækkaði talan niður í um 0,60 cx en lengra komust menn ekki, jafnvel ekki Volkswagen Bjallan, sem sýndist sæmilega straumlínulöguð, en var samt með 0,48 cx.
Honda skutbíll á sjöunda áratugnum, býsna "nútímalegur" á þeim tíma var með 0,55 cx.
Fram yfir 1980 voru aðeins örfáir bílar með lægri tölu en 0,40 cx.
Má þar nefna Tatra 87, Tucker ´48, Nash "Bathtube" ´49, Citroen DS ´55, NSU Ro 80, ´67 og Citroen GS´70.
Upp úr 1970 fór þetta að skána, og Volkswagen Golf ´73 var með 0,41 cx og Fiat Uno með 0,35 cx.
Audi 100 færði töluna hjá sér niður i 0,32.
Á síðusut árum eru óteljandi smá og stór atriði nýtt til að auka afköst og orkunýtni bíla, og eiga rafbílarnir, sem sinn drægnisvanda, stóran þátt í því. Sem dæmi má nefna að þakrennur með gamla laginu eins og voru til dæmis á Mini, voru aflagðar.
Þær sýndust ekki geta gert neitt af sér, en það var samt nóg til að brjóta loftflæðið niður yfir yfirbygginguna.
Annað dæmi: Allt fram undir okkar daga hefur það verið "standard" tala á loftdælum við bensínstöðvar, að þegar ákveðinn tími líður frá því að hætt var að pumpa, færist talan á loftmælinum á dælunni á 29 pund.
Í rallinu var miðað við 26 pund sem heppilegustu afkasta- eða getutatölu.
Þessar tölur hafa skyndilega horfið úr bílahandbókum, og sveiflan er engin smásmíði: Úr 29 pundum upp í meira en 40 pund!
Hvers vegna? Vegna þess að ef ná á fram sem minnstri orkueyðslu verður að vera svona hart í dekkjunum.
Rafhlöður eru þungar, og þess vegna hamast nú bílahönnuðir við að umbylta bílunum til þess að gera þá sem allra léttasta og líka rafhlöðurnar.
Listinn yfir atriði er óralangur, eins og hvort bora eigi bita með götum eins og á svissneskum osti eða nota plast, koltrefjaefni eða ál í stað glers og stáls.
Sýnist fáfengilegt, nokkur grömm hér, önnur grömm þar, en með hverri smá léttingu opnast möguleiki til þess að gera aðra hluta bílsins léttari.
![]() |
Nýr Benz dregur þúsund kílómetra á einni hleðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.1.2022 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2022 | 19:14
Suður-Kóreumenn koma sterkir inn.
Síðan Japanir og Vestur-Þjóðverjar risu úr öskustó eftir Seinni heimsstyrjöldina og fengu síðar aðstoð frá Kínverjum til þess að hrinda Bandaríkjamönnum af stalli sínum sem yfirburðaframleiðenda bíla, hafa fleiri Asíuþjóðir, svo sem Suður-Kóreumenn, Tævanir og Singapúrbúar látið til sín taka á þeim vettvangi og almennt á vettvangi efnahagsmála.
Gengi Kia hér á landi sætir tíðindum, en síðan má ekki gleyma hinum stóra bílaframleiðandanum í Suður-Kóreu, Hyondai.
Þeir hjá Hyondai hafa við lagnir við þá aðferð síðan þeir ruddu brautina þar í landi, að eiga gjöfula samvinnu við keppinauta, og báru fyrstu bílarnir hjá Hyondai svo mikinn svip af japönskum bílum, að það gat verið ansi neyðarlegt.
En undraskammur tími leið þar til lærisveinninn fór fram úr meistaranum í þessu efni.
Hyondai og Kia hafa haft samvinnu um framleiðslu smábíla eins og Kia Picanto og Hyondai i10, sem eru í grunninn sami bíllinn.
Suður-Kóresku bílarisarnir hafa lagt mikla áherslu á gott gengi í rafbílaframleiðslu og er nýjasti Kia rafbíllinn gott dæmi um það.
Svipað er að segja um Hyondai, en auk venjulegra rafbíla, hefur bæði verið um framleiðslu rafbíla og vetnisbíla að ræða.
Íbúar Suður-Kóreumenn eru aðeins 50 milljónir, en Japanir 130 milljónir, svo að árangur Suður-Kóreumanna er athyglusverður.
![]() |
Kia tekur forystu á fólksbílamarkaði í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2022 | 15:46
Ekkert eldgos í aðsigi á Hellisheiði í froststillum.
Þegar kaldast er og stilltast veður við Hellisheiðarvirkjun sést oft vel frá Reykjavík hvernig miklir gufumekkir stíga upp frá virkjunarmannvirkjununum.
Þetta er þó ekki furða þegar þess er gætt að meira en 80 prósent hinnar svonefndu "endurnýjanlegu" orku stígur óbeisluð út í loftið.
Þegar flogið var í rúman sólarhring með öskumæli í lítilli flugvél yfir Faxaflóasvæðinu í Grímsvatnagosinu sumarið 2011 til þess að sanna fyrir tölvumælingamönnum í London að loftið yfir Faxaflóa væri ómettað og hreint, sýndi mælirinn í íslensku flugvélinni örlítið hopp þegar flogið var í þúsund feta hæð í gegnum gufustrókinn upp úr virkjuninni með "hreinu" orkunni.
Gufur leggur víða upp úr ósnortnum jarðvarmasvæðum á Íslandi, svo sem við Hrafntinnusker.
Rakt og heitt hveraloftið mettast meira eftir því sem loftkuldinn er meiri.
![]() |
Reykur stígur upp af hrauninu í Nátthaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2022 | 23:06
Þá má sú væðing frestast fyrir mér.
Á fyrsta sunnudegi sæla ársins,
sem er að hefjast nú með pomp og pragt
er ég að bölva vanda´og böli fársins
sem bannsett tæknin hefur á mig lagt.
Minn nýi sími sem ég fékk í hendur
og átti´að sinna mínum þörfum hér.
er alveg vonlaus, eins og versta blæðing;
vandræði alger hefur leyst úr læðing,
og ef að þetta kallast tæknivæðing,
þá má sú væðing frestast fyrir mér.
Eitthvað þessu hrýtur af vörun ratans, sem var svo mikill einfeldningur að halda, þegar hann keypti minnsta, einfaldasta og ódýrasta farsímann af ákveðnu merki hér um árið væri þar komin lausn fyrir milljónir almúgamanna.
Þessi sími hafði þrjá afar stóra kosti.
1. Hann var ódýr.
2. Hann var einfaldur, bæði í notkun og að allri gerð og allt gert til að spara rafmagnið.
3. Og af því að hann var svona einfaldur og án alls svonefnds aukabúnaðar eins og stórum og flóknum skjá þá entist rafhlaðan hans margfalt lengur en á öðrum svonefndum "þróuðum" símum.
Þegar lífdagar þessa dásamlega síma voru á enda, var auðvitað keypt ný gerð sem leysti hann af hólmi og hafði sömu kosti og örfáar einfaldar umbætur.
En þegar að því kom að þessi frábæra rafhlaða gekk sér til húðar, var auðvitað keypt nýjasta gerð þessa minnsta síma framleiðandans, því að svo asnalega sem það hljómar, þá kostaði ný rafhlaða eins og sér meira en rafhlaða og síma til samans og var því framleiðslu hennar hætt.
Fyrirbrigðið er alþekkt í framleiðslu á rafeindavörum; búið að reikna það út fyrirfram, að aðalatriðið sé að bjóða vöruna á sem lægsta verði, en græða það margfalt til baka í sölu varahluta!
Slíkt er auðvitað óskiljanlegt einfeldningi eins og eigandanum, svo að hann var í raun neyddur til að kaupa "uppfærðan" síma með breyttu útliti og ýmsum "endurbótum" og "nauðsynlegum nýjungum" eins og myndatökuvél.
En nú hafði heldur betur slegið í bakseglin. Í stuttu máli sagt, hefur allri uppsetningu og fyrirkomulagi á þessum síma, sem á að vera sá ódýrasti og einfaldasti hjá viðkomandi framleiðanda, verið umbylt svo gersamlega og gert svo óendanlega flókið og ófyrirséð, að síminn hefur verið að mestu ónotaður síðan hann var keyptur fyrir jólin.
Tvær sérstakar ferðir í búðina þar sem hann var keyptur þurfti til þess að hægt væri að kveikja á honum, að sjálfsögðu á allt öðrum stað en á gömlu símunum.
Í kvöld gerði ég enn eina missheppnuðu tilraunina til að senda smáskilaboð á honum.
Það er ekki eitt heldur allt. Ekkert tákn á skjánum litla, sem kominn er, er eins og var áður. Sum óskiljanleg, svo gerbreytt.
Eitt smá dæmi: Í ákveðinni stillingu stendur stórum stöfum meðst á skjánum: SVARA.
Og maður heldur í einfeldni sinni að þarna eigi maður að ýta á þegar maður ætlar að svara.
En þá gerist ekkert.
Búðarferð leiddi í ljós, að SVARA var ekki nafnháttur af sögninni og skipuninni að svara, heldur stóð með örlitlum stöfum neðst og úti í horni "svarið."
Þetta hálffalda orð°, "svarið", getur ekki þýtt annað en þrennt:
1. Svarið við hringingunni, númerið sem hringt er úr, birtist á skjánum.
2. Reiknað er með að tveir eða fleiri svari í einu; þ.e. svarið þið allir.
3. Svarið táknar, að sá sem svarar sé þéraður. En þéringar voru lagðar af á Íslandi fyrir næstum hálfri öld!
Nýlega hafa verið rakin dæmi um það hér á siðunni hvernig framleiðendum á tæknivörum virðist oft gleymast, að stærsti hluti kaupenda sé venjulegt fólk en ekki eihverjir sérfræðingar sem þróa vörurnar smám saman nær eingöngu til þess að gera þær sem tæknilega flóknastar og að því leyti við hæfi þeirra sjálfra.
![]() |
Fresta ekki 5G-væðingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2022 | 10:06
Stórstyrjaldir dragast oft á langinn.
Á svipaðan hátt og heimsstyrjaldirnar tvær breiddust út og kostuðu hátt í hundrað milljónir manna lífið samanlagt er heimsfaraldurinn nú fyrsta stórstyrjöldin á sýkla- og veirusviðinu, sem nær samanbærri útbreiðslu.
Stórstyrjaldir fortíðar áttu upphaflega að standa stutt.
Ungir hermenn fóru marsérandi til slátrunar í Fyrri heimsstyrjöldinni í ágústbyrjun og var talin trú um að þeir yrðu komnir aftur heim fyrir jól.
En langdregnar stórorrustur eins og við Somme og Verdun á vesturvígstöðvunum leiddu af sér kynnstöðuhernað í skotgröfum í fjögur ár, sem enginn hafði séð fyrir.
Í mars 1939 sagði Chamberlain forsætisráðherra Breta eftir tíðindalítinn vetur á vesturvígstöðvunum: "Hitler has missed the bus."
Þremur mánuum síðar höfðu herir Hitlers lagt undir sig Danmörk, Noreg, Holland, Belgíu, Luxemborg og Frakkland.
Efnahagslega var útilokað fyrir Hitler annað en að halda áfram útþenslu Þriðja ríksins síðustu ár fjórða áratugarins til þess að ná yfirráðum yfir auðlindum og mannafla sem skilgreint var sem "lífsrými" í Mein Kampf.
Svipað gilti um útþenslu japanska heimsveldisins sem úrslitakostir Roosevelts gerði ómögulega án allsherjarstríðs í Austur-Asíu og á vestanverðu Kyrrahafi.
Sigrar Japana fyrri hluta árs 1942 gaf þeim tálvonir um skaplega friðarsamninga sem ein morgunstund í Perluhöfn feykti út í hafsauga.
Árásinni á Sovétríkin 1941 átti að hrinda í framkvæmd með skjótum sigri fyrir jól. Hermenn Öxulveldanna voru ekki einu sinni með vetrarklæðnað til reiðu til að fást við fyrirsjáanlegan rússneskan vetur og í stað hakakrossins á Kreml tók við þriggja óg hálfs árs hryllingur.
Eftir ósigur Frakka við Dienbien Phu 1954 tók mesta herveldi heims að sér að tryggja vestrænt lýðræði í Suður-Vietnam og þegar Johnson tók við af Kennedy 1963 sagðist hann ekki einu sinni nenna því að hugsa um jafn mikið smáræði og það væri að viðhalda árangri John Foster Dulles í Suðaustur-Asíu.
1968 var hins vegar svo komið að meira en hálf milljón bandarískra hermanna réði ekki við verkefni sitt í stríðinu við Viet Kong, en bandarísku herforingjarnar reyndu að fullvissa Johnson um að hægt væri að sigra, ef 220 þúsund hermenn í viðbót yrðu sendir í blóðbaðið í stríði, þar sem meira sprengiefni var notað en í Seinni heimsstyrjöldinni.
En þá þegar var stríðið tapað á heimavelli og bandaríska þjóðin hafði vit fyrir herforingjunum.
Það virtist ekki vefjast fyrir Bandaríkjamönnum að ráðast inn í Afganistan 2001 til skjóts sigurs yfir Talibönum.
Tuttugu árum síðar fór herinn sneypuför úr landinu sömu leið og Sovétmenn, Bretar og fleiri höfðu gert á sínum tíma.
Sigur yfir Covid kann að sýnast í augsýn, en um þann bardaga mun þó gilda það, sem var haft á orði í rallinu í den, að "rallið er ekki búið fyrr en það er búið."
![]() |
Endalokin á þessu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2022 | 01:13
Fljótandi þúsunda megavatta vindmyllugarðar og hótel. Hvað næst?
Nýlega voru viðraðar hugmyndir um allt að 5000 megavatta vindorkugarð á hafi úti fyrir Hornafirði. Nágrannaþjóðir okkar í Evrópu eru þegar að bæta í slíkar framkvæmdir.
Risa lúxushótel verður sett á flot í Dubai 2023.
Hvað gæti mönnum dottið næst í hug af þessum toga? Það gæti orðið spennandi að sjá.
![]() |
Fljótandi háklassahótel opnað 2023 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn einu sinni kemur gamalt spakmæli Henrys Fords upp i hugann: "Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei." Á grundvellli þessa þráaðis Ford við að taka upp ýmsislegt, sem keppinautarnir buðu upp á, svo sem vatnsdælur, bensíndælur og fjórar fjaðrir.
Ford leysti kælingarhlutverk vatnskælikerfisins með því að koma kerfinu þannig fyrir, að við upphitun vatnsins neðst í vélinni, steig það upp og kom af stað hringrás, sem ekki þurfti vatnsdælu til að knýja.
Hann kom bensíngeyminum þannig fyrir um árabil, að hann var hafður eins hátt í bílnum og unnt var, sem næst framglugganum.
í bókinni "Af einskærri sumargleði er greint frá því snjallræði Bergs Ólafssonar, bílstjóra, þegar gat komu á bensínleiðslurnar sem lágu frá geyminum aftast og neðst, að festa geyminn upp á þaki bílsins og leggja stytta leiðslu frá honum þaðan niður í mótorinn frammi í.
Þyngdaraflið sá fyrir því að bensínið rann úr geyminum niður í vélina!
Jeep Cherokkee var á níunda áratug síðustu aldar einn fyrstu amerísku bílanna til að hafa tölvustýrða miðstýringu á aflkerfi vélarnnar.
Þetta þótti bæði einstakt og mikil framför þangað til aðal tölvukubburinn bilaði óvænt á Þórsmerkurleið og enginn bifvélavirki fannst, sem kunni að gera við svona háþróaða tölvustýringu.
Af hlutust margfalt meiri vandræði en ef gamla lagið hefði verið við lýði.
![]() |
Innkalla tæplega 500 þúsund Teslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2022 | 23:03
Lenging flugbrauta á Egilsstöðum og Ísafirði gæti skipt sköpum við vissar aðstæður..
Þegar hugað er að ástandi og öryggi lendingarstaða hér á landi er að mörgu að hyggja, og sumt liggur ekki alveg í augum uppi, því að stundum er um atriði að ræða, sem eru kannski ekki ólögleg en gætu orðið afdrifarík.
Hér skulu nefnd tvö eða kannski þrjú atriði.
Egilsstaðaflugvöllur er ekki aðeins nauðsynlegur fyrir innanlandsflug, heldur getur hann orðið bráðnauðsynlegur sem varaflugvöllur í millilandaflugi.
Síðuhafi hefur eitt sinn orðið vitni að því, að vegna smávægilegs misvindis upp á nokkra hnúta við syðri brautarendann í aðflugi með fulla Boeing 757 þotu af farþegum, sló vindurinn aðeins undan rétt fyrir lendingu til norðurs, þannig að auka þurfti flughraðann rétt fyrir lendingu.
Fyrir bragðið sveif þotan nokkur hundruð metra inn á brautina og undan vindi í þokkabót.
Afleiðingarnar urðu sláandi; þrátt fyrir nánast nauðhemlum, stöðvaðist þotan ekki fyrr en alveg á brautarendanum.
Hvers vegna? Grundvallarástæðan er sú, að vegna þess að þjóðvegur eitt liggur alveg við suðurendann, þarf að hafa ljósastaura þar, sem hindra jafnlangt lendingarbrun til norðurs eins og til suðurs.
En felst þá lausnin ekki í því að færa veginn til suðurs? Nei, það er ekki hægt því að þá yrði að taka nokkra hektara af Egilsstaðatúninu?
Þetta er auðvitað arfaslæm útkoma og miklu minni hagsmunir látnir taka yfir mun stærri hagsmuni.
Svipað er uppi á tengingnum á Ísafjarðarflugvelli.
Þar væri hægt að lengja flugbrautina um ca. 150 metra til austurs út fjörðinn, en það myndi lengja lendingarbrun í þá átt.
Og enn meiri yrði ávinningurinn í flugtaki til vesturs inn fjörðinn, því að drepist á hægri hreyflinum eftir flugtak er alveg einstaklega tæpt á því að hægt sé að ná beygjunni fyrir endann á Kubbanum og fram með hlíðinni utan Seljalandsdals.
![]() |
Skýrsla um öryggi lendingarstaða birt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2022 | 13:37
Ekki fer allt eftir almanakinu.
Þessi áramót virðast ætla að verða með svipuðu sniði og venja er með sínum flugeldum, Áraamóta skaup og ávörp eru á dagskrá og flugeldum skotið upp, þótt óvenjulegt sé hendurnar séu notaðar sem skotpallur.
Forsetinn minntist á það nú rétt í þessu, að þótt sagt sé að hver sé sinnar gæfu smiður, megi líka setja spurningamerki við það og um það gildir oft svipað og segir í sálminum "Sorg og líkn", að "...örlög ráða för."
Alla jafna býr fólk sig undir friðsæl áramót með góðum óskum um komandi ár. En samt er aldrei alveg á vísan róa og hugurinn hjá þeim, sem verða fyrir áföllum eða eiga um sárt að binda.
Dæmi um áramót, sem ekkert benti til að yrðu annað en tíðindalaus og friðsæl var þegar inn í hefðbundin áramót 2019 læddi sér óvænt uppkoma 2.janúar þegar hjólreiðamaður á Geirsnefi reyndi í rökkri að lesa niður fyrir sig á mæli á hjólinu og hjólaði skyndilega þvert í veg fyrir eina annan hjólreiðamanninn, sem var á ferli þegar þetta gerðist.
Afleiðingin varð árekstur, kollsteypa beggja og axlarbrot; nokkuð sem segja mátti að væri eins ólíklegt og hugsast gat. Og í hönd fóru tveir mánuðir endurhæfingar.
Þetta atvik sýndi hve lítils mannanna börn mega sín oft gegn duttlungum örlaganna.
![]() |
Með brunasár, skrámur í andliti og skerta heyrn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)