Mini, bíll aldarinnar !

Um þessar mundir halda Bretar upp á það að hálf öld er liðin síðan Mini kom á markaðinn.  

Menn greinir á um það hvaða bíl skuli velja sem "bíl 20. aldarinnar." Margir staðnæmast við Ford T og er það skiljanlegt, miðað við þá byltingu sem sá bíll olli. Hann varð fyrsti alþýðubíll heims og kom Ameríku á hjólin. Fékk viðurnefnið "Tin-Lizzy" (Blikk Lísa)250px-late_model_ford_model_t.jpg

Það voru þó ekki tæknileg atriði sem gerðu Ford T svona merkilegan heldur aðallega tvennt:

1. Bíllinn var eins einfaldur, léttur en þó grófgerður og eins sterkur og unnt var. Hann hentaði því vel á slæmum vegum þessa tíma. Í honum var til dæmis engin vatnspumpa og engin bensínpumpa. Hann var lengi aðeins framleiddur í einum lit. "Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei," sagði Ford. Aðeins tvö hraðastig voru, hátt og lágt. 

 2. Færibandaframleiðsla, hin fyrsta í heiminum, var lykillinn að því hve vinsæll bíllinn varð. Ford fann ekki upp færibandaaðferðina, það gerði annar maður, en Ford var fyrsti stórframleiðandinn sem sá hvaða möguleika hún gat gefið og gat lækkað verðið á bílnum niður úr öllu valdi.

Fimm árum áður en hætt var að framleiða Ford T var hann orðinn úreltur en hékk áfram vegna þess hve sáraódýr hann var. 1928 varð hann að forngrip, sem skorti flest það sem bílar þurftu að hafa.

250px-Morris_Mini-Minor_1959

Ég tel að Mini hafi verið merkilegri bíll vegna þess að hann sameinaði fimm atriði, sem er mjög sjaldgæft:

1. Hann var fyrsti bíllinn í heiminum með  eftirfarandi:  Fjögurra strokka vatnskældri vél þversum frammi í, kraftmikill, með framhjóladrif, snöggt, nákvæmt og létt tannstangarstýri, met-rýmisnýtingu, hjólin úti í hornunum, lágbyggður og hraðskreiður með frábæra aksturseiginleika.

2. Líkast til eru yfir 80% bíla í heiminum afkomendur Mini, þ. e. með ofangreind atriði í byggingu sinni. Enginn annar bíll getur státað af slíku. Áður en Mini kom fram var enginn bíll svona.   

3. Hann "dó" ekki allt í einu eins og Ford T heldur áttu verksmiðjurnar erfitt með að hætta framleiðslu hans áratugum saman. 

4. Hann rokseldist, -  í meira en 5 milljón eintökum í harðri samkeppni við ótal aðra bíla, var ódýr og tákn Bítlatímans í Bretlandi.  

180px-Mini_Cooper_S_1964

5. Aksturseiginleikarnir leiddu hann til einhverrar mestu sigurgöngu í rallakstri sem sagan greinir svo sem í Monte-Carlo rallinu. 1964, 65, 66 og 67 var hann óviðránlegur og í efstu þremur sætum 1966 en var á mjög óréttlátan hátt dæmdur úr leik þá fyrir smáatriði í ljósabúnaði. 

Förum stutt í gegnum atriðin í lið 1. Svo merkilega vill til að aðrir bílar höfðu boðið upp á þessa eiginleika á undan Mini, en enginn bauð upp á þá alla á einu bretti. 

1. Vélin var þrersum frammi í. Mini var ekki fyrsti bíllinn með vélina þversum frammi í. DKW var með vélina þversum upp úr 1930 og meira að segja fyrirrennarar Trabants og Trabantinn sjálfur voru með vélina þversum. Munurinn var hins vegar sá að þessir bílar voru með grófar og mengandi 2ja strokka tvígengisvélar. NSU-Prinz kom fram ári á undan Mini með fjórgengisvél þversum og meira að segja með yfirliggjandi kambás, sem var mjög sjaldgæft á þeim tíma.  

En vélin var tveggja strokka og loftkæld að aftan, ekki að framan. Mini var með fjögurra strokka vatnskælda fjórgengisvél að framan. Það gerði gæfumuninn.  

2. Mini var langt í frá fyrsti bíllinn með framhjóladrif. Citroen Traction Avant og margir fleiri komu á undan Mini.

3. Hann var ekki fyrsti bíllinn með tannstangarstýri, - ekki heldur fyrsti litli bíllinn með tannstangarstýri. Ári áður kom NSU-Prinz fram með léttara og sneggra tannstangarstýri. 

4. Hann var ekki fyrsti bíllinn með hjólin úti í hornunum, lágbyggður og með frábæra aksturseiginleika af þeim sökum. Allt þetta hafði NSU-Prinz á undan honum. En Mini bauð upp á betra rými en keppinautarnir og það gerði gæfumuninn.  

Fram yfir miðjan sjötta áratuginn voru minnstu bílarnir mjóir, háir, þröngir að innan, kraftlitlir og leiðinlegir í akstri. NSU-Prinz og Mini breyttu þessu 1958 og 1959, en Mini hafði vinninginn hvað snerti vélina, framhjóladrifið og rými í aftursæti.

Sagt er að fyrsta teikning hönnuðarins, Alec Issigonis, hafi verið á servíettu á fundi með forstóra Dunlop, þegar Issigonis var að útskýra fyrir honum að hann þyrfti að fá framleidd dekk á 10 tommu felgur til að auka rýmis bílsins.

Austin-verksmiðjurnar þorðu ekki annað en að láta minnka vélina úr 998 cc niður í 848 cc, annars hefði bíllinn náð 135 kílómetra hraða sem mönnum óaði við á þeim tíma hjá svo litlum bíl, enda 30 km meiri hraði en hjá flestum smábílum þess tíma. (NSU-Prinz náði þó 125 km hraða).

Síðar var algengasta vélin í Mini 998cc vélin og hún passar best við bílinn að mínum dómi. Auðvitað gefur 1275 cc vélin í Mini Cooper þann kraft sem skóp velgengni Mini í röllum en þá er pústkerfið orðið fyrirferðarmikið undir bílnum og hann orðinn nær alger malbiksbíll.

Eitt af meiri akstursafrekum sem ég man eftir hér á landi var þegar Ragnar Halldórsson forstjóri Álversins í Straumsvík fór á Mini í haustrall í október 1977 þar sem ekið var um Fjallabaksleið nyrðri um snjóskafla og um meira en hnédjúpt vatn í vatnsmestu ánum.

Hvernig Ragnar fór að því að komast þetta finnst mér með hreinum ólíkindum.

Ég hef átt marga smábíla í rétt 50 ár og mig hefur alltaf langað til að eiga Mini en aldrei eignast slíkan.

2a32_1

Mini kom fram í ótal útgáfum undir ýmsum merkjum, meira að segja sem hálfgerður herbíll (Mini-Moke)

Meðan allt lék í lyndi hér á landi fyrir rúmu ári leit út fyrir að í samvinnu við einn góðan bíladellukarl yrði minnsti Mini í heimi kominn á götuna hér í fyrrahaust sem einn af kandidötunum í hugsanlegt "örbílasafn Íslands".

Síðan kom hrunið og málið komst ekki lengra en í gám á hafnarbakka. Ég gleð mig við Fiat-lúsirnar í staðinn og það að kannski hringi einhver bíladellukarl í mig sem vilji fræðast betur um þetta og gera eitthvað í málinu. 

Ég gæti fjasað lengi og ítarlega um Mini en læt þetta nægja.

Og þó, smá fróðleikskorn.

Upp úr 1950 gældu Fiat-verksmiðjurnar við hugmyndina um fjögurra strokka vatnskælda fjórgengisvél þversum frammi í og framhjóladrif. 

Niðurstaðan varð sú að ódýrara væri að framleiða Fiat 600 með vélinni langsum afturí og afturhjóladfrifi. Ákvörðunin var rétt fjárhagslega séð, því að þrátt fyrir 5,5 milljóna eintaka framleiðslu á Mini töpuðu framleiðendur hans á honum alla tíð og urðu að vinna,það tap upp annars staðar eða þá óbeint vegna þess áróðursgildis sem velgengni Mini færði þeim. 

Það var ekki fyrr en 1964 sem Fiat-verksmiðjurnar komu fram með Autobianchi Primula og endurbættu Mini hugmyndina með því að láta gírkassann ekki vera undir vélinni og sambyggða henni, heldur í beinu framhaldi af vélinni og leysa dæmið með mislöngum drifsköftum út í hjólin. 

Þessi bíll var fyrirrennari metsölubílanna Fiat 127 og 128. Það er gaman að velta fyrir sér hvernig mál hefðu æxlast ef Fiat hefði þorað að framkvæma þessa hugmynd meira en tíu árum fyrr. 

Annað smákorn. Ég byrjaði að teikna bíla um tíu ára aldur og sýndi föður mínum, sem var bakari og vörubílstjóri, eitt sinn hugmynd mína að bíl, sem væri með vélina þversum frammi í til að spara rými. Þetta var í kringum 1950. 

Hann leit á teikninguna og sagði: "Þetta er ágæt hugmynd, vinur minn, en þetta er bara ekki tæknilega hægt." Auðvitað tók ég, tíu ára guttinn, mark á atvinnubílstjóranum. Tíu árum síðar kom Mini á markað.  

 

180px-Mini_Cooper_S_1964

 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Lítill bíll framjóladrifinn með þverstæða vél frammí.Lýsing á  99% smábíla sama hvar maður ber niður ,Fiat ,Clio ,Yaris og svo mætt lengi telja.

Hörður Halldórsson, 28.8.2009 kl. 19:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki bara megingerð lítilla bíla, heldur bíla af öllum stærðum og gerðum, allt upp í Cadillac Volvo XC90.

Ómar Ragnarsson, 28.8.2009 kl. 20:11

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bjallan hlýtur að vera á topp 10 listanum

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.8.2009 kl. 22:09

4 Smámynd: Jens Guð

  Til gamans má geta að sá bíll sem Paul McCartney hefur aðallega brúkað til einkanota til,  ja,  15 - 20 ára,  er Austin Mini.  Hann á fleiri bíla.  Meðal annars framlengdan Land Rover.  En í snattferðir rúntar hann á Mini.  Segir aðalkostinn við þann bíl vera hvað auðvelt er að finna honum bílastæði hvar sem þar sem þröngt er um bílastæði í Skotlandi.

Jens Guð, 28.8.2009 kl. 22:36

5 identicon

Hér höldum við líka upp á 50ára afmælið með stæl :-)  og nýir eigendur fá 50tíma ókeypis parkeringu í miðborginni minni eða í P-huset hjá Berlingske

Jon Arnar (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 22:57

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Topp tíu listinn minn er svona:

1. Mini. Ættfaðir flestra bíla nútímans. Tímamótahönnun, aðgengileg öllum.

2. Ford T. Bíllinn sem kom Ameríku á hjólin. Fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn. "

3. Volkswagen Bjalla. Vinsælasti bíll allra tíma vegna einfaldleika, gæða og endingar.

4. Willy´s jeppinn. Fyrsti aldrifsbíllinn sem sló í gegn. Eitt af 4 helstu vopnum bandamanna.

5. Citroen DS. Mörgum áratugum á undan samtíðinni, lág loftmótstaða, vökvafjöðrun o.fl

6. Citroen Traction Avant. Fyrsti framdrifsbíllinn sem náði vinsældum. Frábærir aksturseiginleikar.

7. Chevrolet ´29.. Fyrsti sex strokka bíllinn sem öll alþýða manna réði við að eiga.

8. Range Rover. Setti nýjan mælikvarða í þægindum og aksturseiginleikum aldrifsbíla.

9. Ford Mustang. Vinsælasti sportbíll allra tíma, heimsmet í sölu nýs bíls á fyrsta ári.

10. Dodge Caravan / Bílarnir sem settu af stað SUV-byltinguna fyrir alvöru í Ameríku og Evrópu.

Renault Espace

Ætla að birta samsvarandi lista fyrir Ísland við tækifæri, en hann verður talsvert öðruvísi en þessi listi sem er miðaður við allan heiminn.

Ómar Ragnarsson, 28.8.2009 kl. 23:29

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Til gamans koma hér bílar nr. 11 og 12.

11.

Subaru Leone 4x4.  Fyrsti fjöldaframleiddi meðalstóri fólksbíllinn með aldrifi. Fyrirrennari stórs hluta bílaflota heims.

12.

Lada Niva (Sport)  Fyrsti fjöldaframleiddi nútímalegi jepplingurinn, (crossover) með jeppaeiginleika, hátt og lágt drif, sjálfberandi skel, sjálfstæða fjöðrun að framan og gormafjöðrun á öllum hjólum. Áratug á undan samtíð sinni og framleiddur enn þann dag í dag. 

Ómar Ragnarsson, 29.8.2009 kl. 00:47

8 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mér finnst bílar nú til dags yfirleitt allt of flóknir og þungir. Skemmtilegasti bíll sem ég hef ekið er Peugeot 106 Rallye, góð vél og frábær fjöðrun. Aksturseyginlekarnir eru hreint með ólíkindum góðir.

Hörður Þórðarson, 29.8.2009 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband