Færsluflokkur: Bloggar

Í fararbroddi fyrir frelsi og mannréttindum?

Á lokaárum átjándu aldarinnar voru Frakkland og Bandaríkin þau lönd, þar sem helst komu fram nútíma hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag og mannréttindahugsjónin var fóstruð.

Eitt þekktast táknið um þetta er Frelsisstyttan, sem Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum, heilsaði innflytjendum sem komu til New York lengst af og er heimsþekkt tákn sem skapað hefur þakklæti og virðingu fyrir þessum þjóðum, meðal annars hjá mér.  

Ég hef áður bloggað um þá hrapallegu mótsögn við hugsjónina um frelsi og mannréttindi, sem bandaríska réttarkerfið hefur fætt af sér. Einnig um metfjölda fangelsaðra og myrtra með skotvopnum, miðað við sambærilegar vestrænar þjóðir.  

Sumir hafa snuprað mig fyrir það og sagt mig illviljaðan í garð Bandaríkjamanna vegna þessarar gagnrýni og það að þessi gagnrýni skuli hafa verið endurtekin.

Þetta er afar billeg afgreiðsla á viðleitni minni til þess að leggja mitt á vogarskálarnar til að Bandaríkin rísi undir nafni sem forysturíki í mannréttindum, þjóð sem ól af sér Roosevelt og Martin Luther King.

Baráttan fyrir mannréttindum krefst sífelldrar vöku þeirra, sem vilja veg þeirra sem mestan, og það ekkert síður í okkar eigin heimshluta. Þeir sem benda á það sem hægt er að bæta vilja veg þess heimhluta sem mestan.

Í tveimur fréttum á mbl. is íer fjallað um skuggahliðar bandarísks réttarkerfis, annars vegar um viðbjóðslega aftökur sakamanna og hins vegar um 25 ára dvöl dauðadæmds en saklauss blökkumanns.

Í síðarnefndu fréttinni er fjögurra atriða getið:

1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni fundust. 3. Hinn ákærði neitaði ávallt sök. 4. Kviðdómurinn var eingöngu skipaður hvítum mönnum.

Bæta mætti einu atriði við: 5. Engin bitastæð ástæða meints morðingja fannst til morðsins.

Þótt 25 ár séu langur tími kom þó að því að menn þarna vestra tóku á sig rögg og viðurkenndu rangan dóm.

Þetta leiðir hugann að íslensku sakamáli þar sem tvö mannshvörf voru spyrt saman í eitt mál, fólk var dæmt í lengri fangelsisdvöl en dæmi eru um hér á landi, en ennþá hafa menn ekki tekið á sig rögg og viðurkennt að rangur dómur hafi verið kveðinn upp. Þar mætti nefna nokkur atriði:

1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni utan hinna ákærðu fundust. 3. Með ólöglegum aðferðum voru þingaðir fram síbreytilegar og mótsagnakenndar játningar og vitnisburðir ákærðu, sem síðar drógu það allt til baka. 4. Dómurinn var kveðinn upp undir fáheyrðum þrýstingi frá ráðamönnum og almenningi. 5. Engin ástæða til morðsins fannst.  

Bæta má við einu aðalatriði: 6. Ekkert lík fannst. Það var þó fyrir hendi í máli hins bandaríska blökkumanns.  

Hve mörg ár þurfa að líða í viðbót til þess að við Íslendingar gerum þetta mál upp á þann hátt að við getum talist vera í hópi þeirra þjóða, sem eru fararbroddi í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum?    


mbl.is Saklaus á dauðadeild í 25 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistökin að velja versta kostinn á versta tíma.

Viðræður við ESB eru búnar að "malla" í rólegheitum meira en ár. Hjá nokkrum ríkjum í Evrópu, svo sem Sviss og Möltu, hefur slíkt "mallað" mismunandi lengi.

Forystumenn stjórnarflokkanna mátt vita af áratuga langri reynslu í íslenskri og erlendri pólítík, að ástandið í landsmálum getur haft veruleg áhrif á byggðakosningar.

Dæmin frá 1958, 1978 og 1994 hefðu átt að nægja.

Þeir ákváðu hins vegar að fara í hasar í stórmáli í aðdraganda byggðakosninganna nú í stað þess að lofa því máli að malla að minnsta kosti fram yfir kosningar.

Eftir kosningar gátu þeir síðan skoðað í rólegheitum möguleika til þess að hafa tilbúna áætlun um viðræður við ESB, þar sem ópólitískum sérfræðingum yrði falið að leiða þær, líkt og gert var í Icesave samningunum.

Þegar slík áætlun var tilbúin, gátu þeir efnt kosningaloforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis staðið við það sem þeir sögðu fyrir kosningar, að enginn "ómöguleiki" þyrfti að koma í veg fyrir svona málsmeðferð.

Þeir misreiknuðu áhrifin af þessu frumhlaupi, vilja þjóðarinnar og það að þeir eru kosnir sem þjónar hennar, en ekki öfugt, og að kröfunni um möguleika á meira beint lýðræði veg ásmegin.

Það ætti enn að vera mögulegt að finna lausn á þessum máli, og hvað stjórnarflokkana snertir, hljóta áhrifin á byggðakosningarnar að vega þungt við að finna slíka lausn sem bjargar því sem bjargað verður.


mbl.is „Það hefur ekkert verið ákveðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan þarf sitt.

80% raforkuframleiðslu á Íslandi fer til stóriðju og það veldur því að jafnvel 10% skerðing á raforku til hennar jafngildir hvað orkumagn snertir 40% skerðingu allrar þeirrar orku, sem fer til annars í landinu.

Talað er um að það verði að reisa risaháspennulínur á milli landshluta til þess að auka afhendingaröryggi til okkar sjálfra. Það stenst ekki, því að aðeins vegna hins rómaða "orkufreks iðnaðar" verður að hafa línurnar svona risastórar og umhverfisspjöllin af þeirra völdum svona mikil.

Eftir sem áður héldi áfram vanræksla á héraðslínunum, sem farið hafa verst út úr óveðrum síðustu ára.

Talað er um að sæstrengur til Evrópu myndi hafa breytt stöðunni núna, en þá er því sleppt að svona orkuskortur hér á landi kemur yfirleitt ekki í ljós fyrr en á útmánuðum, en þá er líka mesta orkunotkunin í Evrópu og orkuverðið hæst.

Nú barma íslensk fyrirtæki eins og Frostfiskur sér yfir háu orkuverði vegna orkuskorts, en orkan, sem fengin yrði frá Evrópu um sæstreng, yrði seld hingað á hæsta verði hvers árs ef um algerlega frjálsa orkuverslun yrði að ræða, og einnig á allt að helmingi hærra verði en nú er allt árið.


mbl.is Orkuskortur setur 190 störf í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur óvenju margar spurningar. Rænt án vitneskju áhafnar?

Dularfullt hvarf Amailiu Erhardt 1937 vakti ótal spurningar og vekur enn í dag. Kenningarnar um það sem gerðist voru fjölbreytilegar og meðal annars var því velt upp hvort Japanir hefðu rænt henni.

Eins og oft vill verða þegar um dáð og heimsþekkt fólk var að ræða, voru meira að segja uppi kenningar um að hún kynni að vera á lífi mörgum áratugum eftir hvarfið.

Nú eru á sveimi vangaveltur um tengingu hvarfs vélarinnar við þjóðfélags- og stjórnmálaástandið í Malasíu.

Við Íslendingar þekkjum það, hve mikil viðurkenning okkur þótti það vera fyrir sjálstæði okkar og þjóðarheiður þegar okkar flugfélögum gekk vel í samkeppni við flugfélög stórþjóðanna.

Einkum þótti uppgangur Loftleiða rós í hnappagat okkar.

Svipað hefur átt sér stað um ýmis lönd, sem talin hafa verið vanþróuð.

Eþíópía er eitthvert fátækasta land heims og afar vanþróað. Þar ríkir í raun einræði, sem meðal annars byggist á því að halda vinfengi við Bandaríkin.

Í landinu, þar sem búa 250 sinnum fleiri íbúar en á Íslandi, eru samtals aðeins um 20 flugvélar sem ríkisflugfélagið Ethiopian Airlines á ekki og grimmar hömlur hafa ríkt um allt flug þar í landi.

Hins vegar er Flugfélag Eþíópíu eina nútímalega fyrirbrigðið sem þessi þjóð gertur státað af, sannkallað þjóðarstolt.

Öll flugtækni í Eþíópíu hefur komið frá Bandaríkjunum, en þangað hefur verið leitað til að skapa flugstarfsemi sem gefi ekkert eftir því besta sem tíðkast í öðrum löndum.

Svipað hefur átt við um flugstarfsemi í öðrum ríkjum, þar sem er fátækt og lélegt og óróasamt stjórnarfar, að reynt hefur verið að hafa starfsemi flugfélaganna þar, oftast aðeins eins flugfélags í hverju landi, þannig að fullt traust alþjóðlegt traust hafi skapast á því.

Rannsóknin á hvarfi malasísku þotunnar hefur hins vegar leitt í ljós bresti, sem varpa skugga og efasemdum á flugöryggi í landinu og starfsemi flugfélagins sjálfs.

Meðan ekkert meira kemur í ljós en að flugvélinni hafi líklegast verið rænt af einhverjum um borð, jafnvel flugstjórunum sjálfum, eru möguleikarnir á því og ástæðum þess næstum óteljandi.

Hugsanlegt kann til dæmis að vera að átt hafi að fljúga vélinni til einhvers lands og að þegar farþegarnir um borð hafi áttað sig á því hafi orðið uppreisn meðal þeirra og þeir reynt að grípa í taumana, svipað og gerðist í einni af þotunum, sem rænt var 11. september 2001.

Þessar örvæntingaraðgerðir farþeganna mistókust og þotan hrapaði til jarðar í Pennsylvaníu og fórst með manni og mús.  

2001 leiddu farsímasamtöl óttasleginna farþega atburðarásina í ljós, en þess ber að gæta, að þotan var yfir Bandaríkjunum og því afar gott farsímasamband.

Annað kann að hafa verið uppi á teningnum ef malasíska þotan hefur verið komin langt út á haf. Hún hafði víst sjö tíma flugþol og vegna þess að alllangt flug var hvort eð er fyrir höndum gat hún verið komin ansi langt þegar farþegunum varð ljóst að ekki væri allt með felldu.

Hafi flugstjórinn, annar eða báðir, staðið fyrir því að fljúga af leið, gátu þeir gert það án þess að aðrir í áhöfninni yrðu þess varir og miðlað fölskum upplýsingum til farþega.    

 


mbl.is Rannsaka flughermi flugstjórans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallaratriði fyrir borð borin.

Eins og ég hef áður komið inn á, eru helstu þjóðgarðar og þar með náttúruvermæti Bandaríkjunum, "ríki frelsisins", í eigu ríkisins. Vandamál, lík þeim sem nú virðast í uppsiglingu um allt Ísland, hafa því ekki verið til lungann úr síðustu öld í Bandaríkjunum.

Í öllum þjóðgörðunum vestra kemur ferðafólk að myndarlegum og fallegum inngönguhliðum, borga þar fyrir aðgang og fá samstundis í hendur fallegan og ítarlegan, en fyrirferðarlítinn kynningarbækling með upplýsingum um þjóðgarðinn eða friðaða svæðið og náttúruverðmæti hans, og í bæklingnum eru líka nauðsynlegustu leiðbeiningar um það hverng best sé að njóta þess, sem borgað hefur verið fyrir.

Auðséð er að á öllum þessum umbúnaði að ferðamaðurinn fær strax að finna og sjá, hvað hann er að borga fyrir, fyrst með aðbúnaðinum og þjónustunni í innganginum og með bæklinginn í höndunum og síðan með öllum öðrum ráðstöfunum, afturkræfum göngustígum og fleiru, sem blasa við honum og hann notar á ferð sinni um svæðið.  

Ekkert af þessu virðist vera á döfinni varðandi þá bylgju sem nú rís vítt og breitt um landið varðandi gjaldtöku. Menn virðast ætla að æða af stað með ekkert í höndunum. En grundvallaratriðið ætti að vera að áður en gjaldtaka byrjar sé sé búið að gera nógu mikið á svæðinu til þess að öðlast velvilja ferðafólksins.

Við Geysi hafa risið óbein þjónustumannvirki, svo sem hótel, safn og sjoppa, sem landeigendur hljóta að hafa fengið tekjur fyrir í gegnum árin. Það hlýtur að vera hægt að búa svo um hnúta, annað hvort á vegum þeirra sjálfra eða í samvinnu við ríkisvaldið, að hægt sé að uppfylla þau grundvallarskilyrði, sem nefnd eru hér að ofan, ef loka á Geysissvæðinu og hefja þar gjaldtöku.  

Mörg náttúruverðmæti í öðrum löndum, líka í Bandaríkjunum, eru að vísu án gjaldtöku og girðinga, eftir því sem aðstæður kalla á.

Þannig er hægt að að skoða Laatefossinn og Væringjafossinn í Noregi án gjaldtöku, en hins vegar verður ferðafólk að borga fyrir salernis-, hreinlætisaðstöðu á þessum svæðum, ef hún er notuð, og við Væringjafoss er vinsælt hótel og veitingastaður, svipað því sem er við Geysi þar sem fólk borgar fyrir þá þjónustu sem er í boði.

Eitt vinsælasta ferðamannasvæðið í Bandaríkjunum, Minnismerkjadalurinn (Monumental valley) er án hliðs eða gjaldtöku, en á svæðinu er i boði ýmis þjónustuaðsstaða, sem þeir borga fyrir, sem þurfa á því að halda.

En alls staðar gildir einfalt lögmál viðskipta, að ef þú lætur peninga af höndum, færðu eitthvað í hendurnar í staðinn, eitthvað meira en bara það að þú fáir að rápa og glápa.  

 


mbl.is Heimilt að loka Geysissvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixin" hlaðast upp.

Síðan árið 1970 hafa sífellt komið upp mismunandi afbrigði af "túrbínutrixi" sem þar var notað til að stilla mönnum upp við vegg gagnvart gerðum hlut, sem var sá að kaupa alltof stórar túrbínur í Laxárvirkjun og kenna öðrum um það að það vantaði rafmagn til að knýja þessar túrbínur.

Nýjustu "túrbínutrixin" eru þau, að enda þótt nýbúið sé að bæta við raforkukerfið heilli stórvirkjun, Búðarhálsvirkjun, við, þurfi enn fleiri virkjanir og risaháspennulínur um landið til þess að "bjarga" raforkunotendum.

Með því að keyra stóriðjuæðið áfram umfram getuna til að afhenda raforku, er mönnum stillt upp við vegg og heilu landshlutarnir teknir í gíslingu.

Maður hefði haldið að stækkun stærstu virkjunarinnar sunnan fjalla, Búrfellsvirkjun, væri efst á blaði.

Ó, nei, það eru auðvitað sóknaráformin inn í Þjórsárver, dráp þriggja stórfossa og gerð "mannvirkjabeltis" virkjana, vega og háspennulína norður Sprengisand, sem eru efst í forgangsröðuninni, af því að þannig virkar túrbínutrixið best og veldur mestum náttúruspjöllum þar sem mönnum er stillt upp gagnvart gerðum hlut.

 


mbl.is Virkja meira og bæta kerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að snúa á "Stóra bróður". Kallar á endurbætur.

Í öllum flugvélum, sem notaðar eru í atvinnuskyni, og flestum einkaflugvélum eru svonefndir ratsjársvarar (transponder), sem í nútíma flugi eru ein mikilvægustu siglinga- og öryggistæki vélanna.

Ratsjársvarinn er sérbúnaður, þannig að enda þótt önnur fjarskiptatæki rofni eða flugmenn hafi ekki tök á að senda út neyðarkall um talstöð eða hafa önnur talstöðvarsamskipti, sendir ratsjárrvarinn út sérstakt merki fyrir viðkomandi flugvél þannig að flugumferðarstjórar geti séð hvar hún sé og hagað flugumferðarstjórn í samræmi við það.

Þar að auki er ratsjársvarinn neyðartæki að því leyti, að sé reynt að ræna vélinni, getur flugstjórinn látið hann senda út sérstakt neyðarkall.

Alvarlegt flugslys varð hér um árið þegar tvær vélar, Boeingþota og Embraer smáþota rákust saman yfir Amazon í Brasilíu. Ástæðan var sú að aðstoðarflugmaður í smáþotunni rak tána óvart í rofann, sem kveikir og slekkur á ratsjársvaranum, og slökkti á honum án þess að verða þess var, einmitt á versta augnabliki áður en vélarnar nálguðust og smáþotan datt út af ratsjá, þannig að forsendan fyrir notkun sérstaks aðvörunarkerfis í báðum vélunum, sem gefur aðvörun ef þær stefna of náægt annarri, brast algerlega.

Breytt var um hönnun smáþotunnar eftir slysið til að koma í veg fyrir að þetta gæti gerst aftur þegar slík vél ætti í hlut, en sú vél var af alveg nýrri gerð hjá Embraer verksmiðjunum.

Það er yfirleitt öllum í hag bæði í lofti og á jörðu niðrir að ratsjársvarar séu í notkun. En Murpyslögmálið segir, að ef eitthvað geti á einhvern hátt farið úrskeiðis, sama hve litlar líkurnar séu, muni það gerast.

Og það virðist hafa gerst í þessu tilfelli, því að í öllum flugvélum, smáum og stórum, er það flugmaðurinn sem kveikir á ratsjárvaranum, stillir hann inn á fyrirfram ákveðna stillingu, sem er táknuð með fjórum tölustöfum, getur stillt hann á þrjár stillingar, "standby", sendingar án upplýsinga um hæð, eða sendingar með upplýsingum um hæð flugvélarinnar og staðsetningunni líka.

Langlíklegast virðist að einhver hafi slökkt á ratsjársvara malasísku vélarinnar og hvort sem það hefur gerst eða ekki, er ljóst, að nú verða að koma til nýjar reglur um notkun þessa gríðarlega mikilvæga grundvallar öryggistækis, að minnsta kosti í öllu atvinnuflugi og á fjölförnum svæðum, sem tryggja, að ekki sé hægt að slökkva á ratsjársvara flugvéla meðan þær eru á flugi.

Kannski hafa menn haft í huga að koma ekki á umhverfi "Stóra bróður" í fluginu með því að flugmenn sjálfir önnuðust notkun ratsjársvaranna, hver í sinni flugvél.

En nú hefur Murphyslögmálið sýnt, að stórslys geta orðið ef óvart slokknar á ratsjársvara eða viljandi er slökkt á honum. Það kallar á endurbætur.  

Ýmsar sögur hafa verið á kreiki um flugstjóra malasísku þotunnar, til dæmis að hann hafi smíðað sjálfur eftirlíkingu af stjórnklefa og sýnt það á netinu og boðið mönnum inn í stjórnklefa á flugi, en það er bannað hjá viðkomandi flugfélagi.

Því er ekki hægt að útiloka að einhver af "vinum" hans í gegnum netið hafi auðveldað sér flugrán með því að láta bjóða sér inn í flugstjórnarklefann, þótt það virðist afar fjarstæður möguleiki.

En við rannsókn svona atvika er grunnatriði, að enginn möguleiki sé útilokaður fyrirfram, heldur séu allir skoðaðir og þannig séu möguleikar útilokaðir, einn af öðrum, þar til þeir raunverulegu liggja fyrir.


mbl.is Erfið leit orðin enn erfiðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur blasað við í áratugi.

Fyrsti þjóðgarðsvörður á Íslandi, sem sendur var gagngert til þess að kynna sér þjóðgarða erlendis, var séra Heimir Steinsson, þáverandi þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Þá var það forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, sem gekkst fyrir þessu, en sjálfur hafði Steingrímur komið í öll ríki Bandaríkjanna nema Alaska, heimsótt fjölmarga þjóðgarða og var einlægur náttúruunnandi.

Sigrún Helgadóttir var vörður í Ásbyrgi á tímabili, en fáir Íslendingar ef nokkrir hafa komið í jafn marga þjóðgarða og kynnt sér þá eins og hún.

Eftir tvær fyrstu ferðir mínar til að skoða þjóðgarða og virkjunarsvæði í Noregi, Kanada og Bandaríkjunum árin 1998 og 1999 kom ég heim til Íslands í áfalli, vegna þess að mér varð ljóst að við vorum þá 20 árum á eftir Norðmönnum og minnst 40 árum á eftir Bandaríkjamönnum á þessu sviði, og að hér á landi stefndi í óbætanlegt stórslys á öllum sviðum umgengni okkar við einstæða náttúru landsins, sem við höfum að láni frá afkomendum okkar og ber að varðveita fyrir þá og mannkyn allt.

Einn fróðasti blaðamaður erlendis, sem farið hafði um allan heim undanfarna áratugi og ritað um þessi mál fyrir mörg af helstu blöðum heims, spáði því í mín eyru eftir að hafa hitt helstu ráðamenn þjóðarinnar árið 2000, að á endanum myndi okkur Íslendingum takast að rústa öllum þeim náttúrugersemum landsins, sem þröng sjónarmið valda og peninga ásældust, virkja hverja einustu sprænu og hvern einasta hver og láta skammgróðasjónarmið og spillta pólitík ráða ferðum.

Mér brá en hugsaði með mér að varla gæti þetta orðið svona slæmt.

Ég reyndi fyrir 15 árum að upplýsa um þessi mál á faglegan og óhlutdrægan hátt í sjónvarpsfréttum og þáttum, meðal annars um þá staðreynd að í "landi frelsisins", Bandaríkjunum, eru allir helstu þjóðgarðar og mestu náttúrugersemar í eigu ríkisins og þú gengur ekki inn í einn einasta þeirra nema greiða fyrir það og fá strax í hendurnar vandaðan upplýsingabækling, sem tákn um það sem þú sérð að peningarnir fara í, og blasir síðan við þér í því sem gert er í þjóðgarðinum til að vernda hann.

Einnig að þar í landi er horft á þjóðgarðana sem tákn um heiður og æru þjóðarnnar sem skili verðmætum víða annars staðar í efnahagslífi landsins, og þess vegna er ekki reynt að láta þjóðgarðana bera sig, sem slika, heldur aðeins gert það sem þarf til að varðveita þá sem óspilltasta, þótt það kosti rekstrartap á kostnað skattgreiðenda.  

Síðan þetta gerðist eru liðin 15 ár og þessi mál eru að mestu ennþá í sama farinu hér. Hrakspá bandaríska blaðamannsins ómar enn í eyrum mér.


mbl.is „Kvótakóngar íslenskrar ferðaþjónustu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft tekur tíma að komast að niðurstöðu.

Þrátt fyrir alla nútímatækni getur tekið mikinn tíma að rannsaka og leysa gátur varðandi hvarf flugvéla og alverleg flugslys.

Saga slíkra rannsókna sýnir að oft höfðu rannsóknarmenn ekki nein gögn í höndum varðandi orsakir flugatvikanna og að vikur, mánuðir eða jafnvel ár gátu liðið þar til málin voru að fullu upplýst.

Stundum þarf að finna sönnunargögn úti á reginhafi á miklu dýpi.

Oft eru það atriði, sem virðast undra smá, sem kemur í ljós að hafi valdið slysi, jafnvel einn lítill límmiði á Boeing þotu, sem fórst við Chile, gölluð olíuleiðsla í Rolls Royce hreyfli á stærstu þotu heims, Airbus 380, rangur bolti í rangt framkvæmdri viðgerð eins og í mannskæðasta flugslysi einnar flugvélar í Japan, smávægileg nýjung í sjálfvirkni stjórntækja, sem flugstjórar á sænskri Douglas DC 9 höfðu ekki fengið vitneskju um og laus hlutur úr þotu, sem lá á flugbraut í París og skaust upp í eldsneytisleiðslu á Concorde í flugtaki hennar.

Við Íslendingar ættum að þekkja vel það atvik þegar allir hreyflar Boeing 747 þotu stöðvuðust vegna ösku frá gjósandi eldfjalli í Indónesíu hér um árið og litlu munaði að vélin færist, en afleiðingar varúðarráðstafana, sem gripið var til eftir það óhapp, mátti svo sannarlega sjá þegar flug lagðist að miklu leyti niður í Evrópu löngu síðar vegna Eyjafjallajökulsgossins 2010.

Nú er íslenskur prófessor, Jónas Elíasson, búinn að þróa bættar aðferðir til að meta hættuna af eldfjallaösku svo að hægt sé að stórminnka áhrif eldgosa á flug.   

Eitt besta dæmið er hvarf Airbus 330 þotunnar AF 447 yfir Suður-Atlantshafi árið 2009, en með þeirri flugvél fórst einn Íslendingur.

Vélin sökk niður á 4000 metra dýpi meira en 100 kílómetra úti á regin hafi og má það heita með ólíkindum að svörtu kassarnir svonefndu skyldu finnast.

Áður en þeir fundust höfðu rannsóknarmenn að vísu fundið vísbendingar en svörtu kassarnir með hljóðupptökum úr flugstjórnarklefa og helstu tæknilegu upplýsingunum um flugstöðu vélarinnar og beitingu stjórntækja leystu gátuna til fulls.

Í kjölfarið fylgdu bæði tæknilegar endurbætur og umbætur við þjálfun flugmanna og segja má að árangur flugslysarannsókna sé ein helsta orsök þess hve öryggi í farþegaflugi hefur aukist mikið .

Þegar De Havilland Comet þota fórst við eyjuna Elbu við Ítalíu 1954 var það þriðja Cometþotan sem fórst og mönnum varð ljóst að það var einni of mikið, af því að aðstæður til flugs voru eins góðar og hugsast gat, gagnstætt því sem hafði verið í fyrri slysum.

Fyrirfram var útilokað að finna út hvað olli slysinu enda rannsóknaraðferðir afar frumstæðar fram að því og nútíma aðferðir ekki þekktar.

Vegna þessa var byrjað að fljúga Cometþotunum á ný, en þá fórst fjórða þotan eftir flugtak frá sama flugvelli og sú sem fórst við Elbu, og sprakk á flugi eftir jafn langt flug og í sömu flughæð. 

Rannsókn slyssins við Elbu markaði þáttaskil í rannsóknum á þessu sviði og leiddi orsökina í ljós, þótt menn hefðu þá enga svarta kassa. Engan hafði fyrirfram grunað að hægt yrði að rekja myndun bresta við glugga á bol vélarinnar til eins lítils álhnoðs við einn gluggann.

Ótal svipuð dæmi mætti nefna en þau gefa von um að hægt verði að finna út, hvað olli hinu dularfulla hvarfi malasísku farþegaþotunnar sem týndist fyrir viku.  


mbl.is „Nýjar upplýsingar“ og leit breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt fyrir fjölmiðla að kafa ítarlega ofan í makrílmálið.

Heilmikið hefur skýrst í dag varðandi makrílsamninga ESG, Norðmanna og Færeyinga og makríldeiluna yfirleitt. Þó er mörgum spurningum ósvarað og mönnum ber ekki saman.

Annars vegar er fullyrt að Norðmenn, ESB og Færeyingar hafi bolað Íslendingum burtu frá samningaborðinu en hins vegar fullyrt að Íslendingar hafi sjálfir rokið burt frá Edinborg í fússi fyrir viku og hefðu betur verið þar áfram, þótt illa horfði um líkur á samningum, sem Íslendingar gætu sætt sig við.

Er hugsanlegt að hvort tveggja sé samt rétt, að í raun hafi hinir samningsaðilarnir verið svo frekir og ósveigjanlegir, einkum Norðmenn, að sjálfhætt hafi verið fyrir okkur ?

Þótt íslenskir sjávarútvegsráðherrar hafi oft á tíðum um áratuga skeið farið fram úr veiðiráðgjöf Hafró, hefur það þó verið rauður þráður að vera sem næst henni, enda erfitt að rökstyðja það, einkum út á við, að við séum ábyrg þjóð varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna, ef ráðgjöfin, hversu umdeilanleg sem hún kann að virðast, er hunsuð, enda ekki hægt að benda á aðra ráðgjöf, sem frekar ætti að styðjast við.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að fylgjast vel með öllum hræringum á því sviði og í fyrirspurnum Íslendinga til hinna aðilanna þriggja, einkum Norðmanna, þarf að heimta útskýringar og rök fyrir því að svo gróflega verði farið fram yfir veiðiráðgjöfina sem samningurinn ber vitni um.

Var það vegna þess að ný gögn, viðhorf eða álit hafi komið fram, en á bloggsíðu Kristins Péturssonar eru nefndar tilgátur varðandi það, sem ég bendi mönnum og fjölmiðlum á að skoða og bera síðan saman við þau svör, sem þarf að fá frá Norðmönnum, ESB og Færeyingum varðandi ástæðuna fyrir makrílveiðistefnu þeirra.

Þetta mál er svo stórt að stjórnmálamenn, samingamenn, sérfræðingar og þó einkum fjölmiðlar verða að hreinsa það upp og útskýra eins og kostur er.


mbl.is Ísland láti Norðmenn heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband