Oft tekur tíma að komast að niðurstöðu.

Þrátt fyrir alla nútímatækni getur tekið mikinn tíma að rannsaka og leysa gátur varðandi hvarf flugvéla og alverleg flugslys.

Saga slíkra rannsókna sýnir að oft höfðu rannsóknarmenn ekki nein gögn í höndum varðandi orsakir flugatvikanna og að vikur, mánuðir eða jafnvel ár gátu liðið þar til málin voru að fullu upplýst.

Stundum þarf að finna sönnunargögn úti á reginhafi á miklu dýpi.

Oft eru það atriði, sem virðast undra smá, sem kemur í ljós að hafi valdið slysi, jafnvel einn lítill límmiði á Boeing þotu, sem fórst við Chile, gölluð olíuleiðsla í Rolls Royce hreyfli á stærstu þotu heims, Airbus 380, rangur bolti í rangt framkvæmdri viðgerð eins og í mannskæðasta flugslysi einnar flugvélar í Japan, smávægileg nýjung í sjálfvirkni stjórntækja, sem flugstjórar á sænskri Douglas DC 9 höfðu ekki fengið vitneskju um og laus hlutur úr þotu, sem lá á flugbraut í París og skaust upp í eldsneytisleiðslu á Concorde í flugtaki hennar.

Við Íslendingar ættum að þekkja vel það atvik þegar allir hreyflar Boeing 747 þotu stöðvuðust vegna ösku frá gjósandi eldfjalli í Indónesíu hér um árið og litlu munaði að vélin færist, en afleiðingar varúðarráðstafana, sem gripið var til eftir það óhapp, mátti svo sannarlega sjá þegar flug lagðist að miklu leyti niður í Evrópu löngu síðar vegna Eyjafjallajökulsgossins 2010.

Nú er íslenskur prófessor, Jónas Elíasson, búinn að þróa bættar aðferðir til að meta hættuna af eldfjallaösku svo að hægt sé að stórminnka áhrif eldgosa á flug.   

Eitt besta dæmið er hvarf Airbus 330 þotunnar AF 447 yfir Suður-Atlantshafi árið 2009, en með þeirri flugvél fórst einn Íslendingur.

Vélin sökk niður á 4000 metra dýpi meira en 100 kílómetra úti á regin hafi og má það heita með ólíkindum að svörtu kassarnir svonefndu skyldu finnast.

Áður en þeir fundust höfðu rannsóknarmenn að vísu fundið vísbendingar en svörtu kassarnir með hljóðupptökum úr flugstjórnarklefa og helstu tæknilegu upplýsingunum um flugstöðu vélarinnar og beitingu stjórntækja leystu gátuna til fulls.

Í kjölfarið fylgdu bæði tæknilegar endurbætur og umbætur við þjálfun flugmanna og segja má að árangur flugslysarannsókna sé ein helsta orsök þess hve öryggi í farþegaflugi hefur aukist mikið .

Þegar De Havilland Comet þota fórst við eyjuna Elbu við Ítalíu 1954 var það þriðja Cometþotan sem fórst og mönnum varð ljóst að það var einni of mikið, af því að aðstæður til flugs voru eins góðar og hugsast gat, gagnstætt því sem hafði verið í fyrri slysum.

Fyrirfram var útilokað að finna út hvað olli slysinu enda rannsóknaraðferðir afar frumstæðar fram að því og nútíma aðferðir ekki þekktar.

Vegna þessa var byrjað að fljúga Cometþotunum á ný, en þá fórst fjórða þotan eftir flugtak frá sama flugvelli og sú sem fórst við Elbu, og sprakk á flugi eftir jafn langt flug og í sömu flughæð. 

Rannsókn slyssins við Elbu markaði þáttaskil í rannsóknum á þessu sviði og leiddi orsökina í ljós, þótt menn hefðu þá enga svarta kassa. Engan hafði fyrirfram grunað að hægt yrði að rekja myndun bresta við glugga á bol vélarinnar til eins lítils álhnoðs við einn gluggann.

Ótal svipuð dæmi mætti nefna en þau gefa von um að hægt verði að finna út, hvað olli hinu dularfulla hvarfi malasísku farþegaþotunnar sem týndist fyrir viku.  


mbl.is „Nýjar upplýsingar“ og leit breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Malasíumenn eru ekki öfundsverðir af leitinni. Fyrir nokkrum árum lenti fjölskylda mín í hremmingum á Kuala Lumpur flugvelli. Flugvél okkar millilenti á flugvellinum og við þurftum að skipta um flugvél og bíða í nokkrar klukkustundir.

Einkennisklæddir starfsmenn flugvallarins voru á vappi í flugstöðinni og tóku passana af okkur án skýringar. Starfsmennirnir hurfu með passana og birtust ekki aftur fyrr en við fórum inn í flugvélina. Yfirheyrslur urðu og staðfesta þurfti að börnin væru íslensk og okkar.

Þessi uppákoma olli okkur talsverðum ótta því við gátum ekki séð réttmæti þessarar yfirhalningar á alþjóðaflugvelli. Þessi atburður kemur upp í hugann þegar sagt er að tveir farþegana hafi verið með falska passa. Fyrirsláttur hugsaði ég með mér. Hinsvegar má ekki útiloka að flugvélinni hafi verið rænt. Ameríkanar virðast hafa vitað að flugvélin hafi verið 4 tíma á flugi. Það finnst mér trúlegt.

Sigurður Antonsson, 14.3.2014 kl. 12:44

2 identicon

Eins og staðan er í dag bendir flest til þess að vélinni hafi verið rænt eða að flugmaður vélarinnar hafi hrokkið í "suicide mode".

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.3.2014 kl. 13:15

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Vélin hefur sennilegast farið í sjóinn vegna bilunnar.

Ástæða þess að svo miklar vangaveltur eru í gangi um hvað hafi skeð er, að ótrúlega misvísandi skilaboð eða upplýsingar hafa komið frá Malasýskum yfirvöldum. Ástæða þess er talin ítök hersins í málefnum Malasýu. Og þegar komi upp svona atvik sem veki alþjóðlega athygli hafi ekki verið alveg klárt eða skýrt hverjir ættu að sjá um að gefa opinberar yfirlýsingar. Hvort það væri flumálayfirvöld, stjórnvöld eða herinn. Það skýri allar þessar mismunandi upplýsingar. Mistök hafi verið gerð í byrjun með að setja ekki upp krísusenter sem einn miðlaði upplýsingum. Afleiðingin að það var ekki gert hafi verið að hinir og aðrir eru að gefa yfirlýsingar sem jafnharðan eru bornar til baka af einhverjum öðrum o.s.frv. Þessi mörgu og misvísandi skilaboð eða upplýsingar hafi fjölmiðlar svo umsvifalaust flutt á sína miðla og þannig hafi boltinn farið af stað með þeim afleiðingum að afar erfitt að átta sig á hverjar nákvæmlega opinberar eða staðfestar upplýsingar er um að ræða.

Ekki virðist svo misvísandi skilaboð hafa minnkað eftir að BNA menn komu inní dæmið.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.3.2014 kl. 14:13

4 identicon

Það var með ólíkindum hvernig þeir fundu úr þessu með Cometinn, - festing á loftneti við glugga, - það dugði. Og olli straumhvörfum í flugsögunni, því þarna höfðu Bretar forskot, en Bandaríkjamenn tóku það næst.
En annars, - það að GSM símar farþega hringja er virkilega hrollvekjandi. Bendir til þess að þeir séu EKKI á hafsbotni.
Er annars nokkur með coordinates á síðustu meldingu flugsins?

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.3.2014 kl. 15:23

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.3.2014 (síðastliðinn þriðjudag):

Símhringingarnar eiga sér eðlilegar skýringar

Þorsteinn Briem, 14.3.2014 kl. 16:54

6 identicon

Það sem grandaði Comet vélunum var málmþreyta sem kom út frá hornum glugganna, en þeir voru kassalaga.

Karl J. (IP-tala skráð) 14.3.2014 kl. 16:56

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 15.3.2014 kl. 15:07

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

MRust.jpg
Rust's Cessna 172, resting in Red Square some time after his landing. Rust is standing on the right in the photo, wearing colored overalls

Þorsteinn Briem, 17.3.2014 kl. 11:45

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 17.3.2014 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband