Færsluflokkur: Bloggar
1.2.2014 | 13:37
"Hvalaiðra beiskan bjór..."
Ég frétti af því á skotspónum að maður einn hefði gengið fullhart fram í neyslu nýja hvalbjórsins og orðið að taka afleiðingunum af því að innbyrða þarma og "þarmainnihald" sem bjórinn er gerður úr.
Lýsingin á því minnti mig á nýyrði í vísu, sem varð til hjá mér eftir ristilspeglun og átt vel við í frásögn af eftirkostum hvalbjórsdrykkjunnar.
KVALINN EFTIR HVALINN.
Hvalaiðra beiskan bjór
í bland með skötu kæstri
ákaft bergði og svo fór
með útkomunni glæstri
á klósett eftir þetta þjór
með þarmalúðrablæstri.
Vínþolið, það var að bila, -
veifað gulu spjaldi, -
orðið nærri að aldurtila
og gegn dýru gjaldi,
þarmabjór hann þurfti að skila
í þarmainnihaldi.
![]() |
Þarmainnihald í hvalbjórnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2014 | 04:47
Sjalla-Framsóknarminnhluti á ný. Hversvegna tap hjá Vg?
Í kosningunum 2007, eftir 12 ára samfellt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, minnkaði fylgi þeirra niður í það minnsta sem þessir tveir flokkar samanlagt höfðu haft í meira en 80 ár.
Þeir fengu að vísu afar tæpan meirihluta en treystu sér ekki til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi og Sjálfstæðisflokkurinn reri á önnur mið og fór í samstarf með Samfylkingunni. Aðeins rúmt ár leið þar til Hrunið dundi yfir og í kosningunum 2009 lentu Sjallar og Framsókn í minnihluta en Samfó og Vg meirihluta.
Nú sýnist vera ljóst að það sé að fjara undir þeim meirihluta atkvæða sem Sjallar og Framsókn fengu í fyrra og það gerist furðu fljót. Útspilið um daginn varðandi skuldleiðréttingu heimilanna virðist hafa verið það veikt að það gagnar Framsókn ekkert, enda hefur ekki enn sést til þeirra hundraða milljarða sem Framsókn lofaði að ná af "hrægömmum og vogunarsjóðum".
Sjálfstæðismenn gættu þess í kosningunum að reyna ekki að elta Framsókn í stórfelldum kosningaloforðum og líklega er það svo að Bjarni Benediktsson sé nú að uppskera það að virka sem límið og kjölfesan í ríkisstjórninni, maðurinn sem vinnur hörðum höndum úr erfiðri stöðu, er að berja í brestina og gera sem best úr öllu. Og passaði sig að lofa ekki of miklu fyrirfram.
Öðruvísi er erfitt að túlka vaxandi fylgi flokksins.
2009 urðu þrír flokkar í meirihluta á Alþingi, Sf, Vg og Borgaraflokkurinn/Hreyfingin.
Í fyrstu þurftu Samfó og Vg ekki á fleirum að halda í ríkisstjórn, en svo fór að myndast klofningur í Vg og síðasta ár stjórnarinnar einnig í Sf, og þá varð hún í raun minnihlutastjórn sem reiddi sig á það að óháðir þingmenn og þingmenn Hreyfingarinnar kæmu í veg fyrir að stjórnin fengi vantraust.
Samfó, Vg, Björt framtíð og Píratar hafa nú vel yfir 50% prósenta fylgi í skoðanakönnun, þannig að línurnar frá 2009 eru farnar að birtast aftur hvað varðar minnilhluta Sjalla og Framsóknar meðal kjósenda.
Það þýðir að fari svona í kosningum eru tímamótin, sem í raun urðu í kosningunum 2007, endanleg, og ný staða komin í íslenskum stjórnmálum.
Það er athyglisvert hvernig klofningur varð í Vg vegna ESB-málsins, vegna þess að á árunum 1956 til 1991, á 35 ára tímabili, var hefð fyrir því að fyrirrennari Vg, Alþýðubandalagið, flokkur yst til vinstri eins og Vg, kippti sér ekkert upp við það þótt fimm ríkisstjórnir, sem Allaballar voru í, ýmist svikju loforð um að reka varnarliðið úr landi eða tækju ekki í mál annað en að vera í NATO og hafa herinn.
Í fyrstu tveimur vinstri stjórnunum, 1956-58 og 1971-74, voru loforð um brottför hersins svikin, en báðar ríkisstjórnirnar féllu út af allt öðrum málum og það virtist ekki hagga fylgi Allaballa eða valda klofningi í flokknum þótt valtað væri yfir hann í þessum ríkisstjórnum í utanríkismálum.
Í stjórnunum 1978-79, 1980-83 og 1988-1991 sátu Allaballar sallarólegir án þess að klofna og héldu fylgi sínu, þótt allar þessar stjórnir hefðu þá stefnu í raun að vera í NATO og hafa herinn.
Það væri áhugavert stjórnmálafræðilegt viðfangsefni að finna út, af hverju þetta var öðruvísi í stjórninni 2009-2013 og hvers vegna fylgi Vg hefur minnkað svona mikið. Kannski er skýringarinnar að leita í því að það að gefa eftir varðandi stefnuna í ríkisstjórnunum fimm 1956-1991 fólst í því andmæla ekki aðgerðarleysi og óbreyttri stöðu landsins í utanríkismálum, en 2009 var um að ræða að gefa eftir varðandi það að fara út í heilmikla aðgerð til að breyta stöðu landsins út á við, að ekki sé nú minnst á samningana um Icesave.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn með 30,5% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2014 | 19:36
Það var hlegið að spádómi um þetta 1950.
Toyota efst, VW nr 2. Það eru fréttir dagsins en svo ótrúlegt sem það virðist, var þessu spáð fyrir 64 árum. Preston Tucker hét þessi spámaður, en um hann gilti það að enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
Þegar Tucker kynnti byltingarkenndan bíl undir sínu nafni árið 1948 tóku stóru bandarisku bílaframleiðendurnir hressilega við sér og nýttu sér yfirburði í tengslum og völdum, sem lágu inn á Bandaríkjaþing til einstakra þingmanna.
Tucker var að vísu helst til bjartsýnn, færðist mikið í fang og aðeins 51 bíll var smíðaður áður en framleiðslan fór í þrot, enda sóttu óvildarmenn hans að honum úr mörgum áttum til að koma honum á kné og hreinlega ganga frá honum.
Hann sætti alvarlegum ákærum fyrir fjársvik og fleira og réttarhöldin stóðu fram í janúar 1950, en þá var hann sýknaður af þeim öllum.
Í lok réttarhaldanna sagði Tucker að ef Bandaríkjamenn ætluðu að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefði verið í bílaframleiðslu þeirra myndi sá dagur koma sem andstæðingar þeirra í Heimsstyrjöldinni síðari myndu taka forystuna í bílaframleiðslu heimsins.
Þessi ummæli vöktu skellihlátur allra viðstaddra, svo fráleit þóttu þau, Þýskaland búið að vera í rústum frá stríðslokum og Japan illa leikið líka, - bílaframleiðsla í þessum löndum innan við 1% af framleiðslunni í Bandaríkjunum.
General Motors framleiddi næstum helming bíla í Bandaríkjunum og Bandaríkjamenn framleiddu 75% allra bíla í heiminum. Það þýddi að GM framleiddi um þriðjung allra bíla heimsins og hafði verið í yfirburðastöðu í 20 ár.
Sagt var að það sem væri gott fyrir GM væri gott fyrir Bandaríkin, enda töldu valdhafarnir þar sig tilneydda að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti 2008-2009.
Nú er svo komið að efst á blaði bílaframleiðenda heimsins eru japanskt fyrirtæki og þýskt.
Sá hlær best sem síðar hlær, segir máltækið, og það á svo sannarlega við um ummæli Prestons Tuckers 1950. Hann gæti sagt eins og sagt var í einni af þjóðsögunum: "Ný skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður. "
![]() |
VW segist komið fram úr General Motors |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.1.2014 | 12:23
Alltof oft draumur sem verður að martröð.
Allt frá ritun boðorðanna tíu til okkar dags hefur mannkynið dreymt um hið fullkomna þjóðfélag, Útópíu.
Á síðustu öld tókust á hugmyndakerfi stórvelda í mannskæðustu styrjöldum sögunnar og enn í dag er það svo þar sem svona hugmyndir skutu rótum, að draumurinn verður alltof oft að martröð.
Í hádegisfréttum var greint frá því að afleiðingum áfengisdrykkju í Rússlandi megi líkja við drepsótt, svo mjög lækka afleiðingar hennar meðalaldur þjóðarinnar, einkum karlmanna.
Í draumaríki Sovétsins áttu allir að geta lagt skerf sinn til þjóðfélagsins eftir getu og uppskorið eftir þörfum. Allir vita hvernig þetta fór, draumaríki "alræðis öreiganna" snerist upp í andhverfu sína, grimmilega kúgun og ófrelsi.
Roosevelt Bandaríkjaforseti setti heiminum öllum markmið um fjórfrelsið, frelsi til skoðana, tjáningar og trúarbragða og frelsi frá ótta og skorti.
Ameríska drauminum um að öllum myndi vegna best í þjóðfélagi óskerts frelsis til athafna er sífellt ógnað af vaxandi njósnum ríkisvaldsins, vaxandi misrétti þar sem örfáir eiga og njóta yfirgengilegra mikilla fjármuna, en ótrúlega stór hluti landsmanna lepur dauðann úr skel.
Í þessu landi frelsisins sitja fleiri í fangelsum en dæmi eru um annars staðar og samt eru glæpamenn þar umsvifamiklir svo af ber og trúin á mátt byssunnar í sókn og vörn hvergi meiri.
![]() |
Ameríski draumurinn varð að martröð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2014 | 00:28
Þurfti ekki auglýsingu til að éta 50 þúsund stk. -2 tonn !
Prins póló hafði þá sérstöðu áratugum saman að það þurfti að auglýsa það hér á landi. Lagið, sem Maggi Óla söng svo eftirminnilega með Sumargleðinni var ekki hugsað sem auglýsing, - þess þurfti ekki.
Það er illmögulegt að útskýra fyrir útlendingum af hverju kók og prins hefur verið þjóðarréttur Íslendinga síðan 1955.
Til þess þarf að rekja vöruskiptaverslun okkar við Breta og kommúnistaríkin þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og við vorum með varnarlið á Keflavíkurflugvelli en ókum bílum okkar á rússnesku bensíni og eitt aðal hneykslismálið var sá kvittur að í leynileiðslu hafi bandaríska varnarliðið fengið rússneskt bensín!
Þetta gerðist vegna deilna okkar við Breta út af útfærslu landhelginnar okkar.
Ég hef áður greint frá þeirri niðurstöðu eigin rannsóknar að frá 1955 með þeirri niðurstöðu að ég hafi innbyrt þúsund Prins póló á ári að meðaltali, eða minnst 50 þúsund stykki alls, sem hafi vegið tíu tonn samtals ef hvert stykki hefur að meðaltali verið 200 grömm !
Fékk reyndar athugasemd um að talan væri skökk, líklega fimm sinnum of há en samt eru þetta tvö tonn af Prins póló sem er álíka mikið og eitt stykki Range Rover.
Þetta súkkulaðikex með Cola-drykk flokka ég sem fíkniefni þess sem ekkert annað fíkniefni hefur. Kók og prins saman innihalda koffein, hvítasykur og fitu í nægum mæli til þess, að því fylgja fráhvarfseinkenni að hætta neyslunni.
Nú hef ég hætt Prins póló neyslunni af því að kexið er meira en 30% fita plús sykur, en fæ mér eitt stykki um hverja helgi og hlakka alla vikuna til að halda þá nautnarhátíð !
Ástæðan var líka sú að samanlögð súkkulaðineysla var alltof mikil hjá mér, alls konar súkkulaðistykki, og dökkar Góu súkkulaðirúsínur hafa verið viðloðandi síðustu 15 árin til að mýkja hægðirnar.
Þær eru eina súkkulaðið sem ég ét síðustu árin og fer varlega í það.
![]() |
Herferð um ást á Prins póló |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.1.2014 | 20:40
Anatómía lagadeildar ?
Vegna þess hve langt er síðan ég var í háskólanámi hef ég ekki fylgst með því hvort sömu "síurnar" eru notaðar þar og fyrir hálfri öld til að skilja sauðina frá höfrunum.
Í lagadeildinni féllu menn helst á almennu lögfræðinni eða kröfuréttinum þegar ég var þar, og sitjandi yfir bókinni um kröfuréttinn ákvað ég fallegan vordag einn að þetta yrðu ekki örlög mín, stóð upp í lestraríbúðinni á Aragötunni frá opinni bókinn, gekk út og hef ekki sést þar síðan.
Eftirlætisgreinarnar mínar voru stjórskipunarréttur og stjórnarfarsréttur enda hefði ég verið í stjórnmálafræði ef sú grein hefði verið kennd við skólann.
Sumir orðuðu það svo að ákveðnar greinar í skólanum væru sérstaklega notaðar til að fella nemendur, og þegar Haukur Heiðar Ingólfsson undirleikari minn var í læknadeild nokkrum árum síðar virtist anatómían eða líkamspartafræðin gegna því hlutverki með öllum sínum aragrúa af latneskum heitum sem þurfti að leggja á minnið.
Hitt var ljóst að mikilvægt væri að læknar yrðu að kunna vel að rata um völundarhús líkamans og kunna skil á örnefnum hans.
Þriðji bekkur, busabekkurinn í Menntaskólanum var notaður sem aðalsían í þeim skóla og sumir töldu að þessi sía væri höfð svona erfið til þess að spara peninga og halda stúdentafjöldanum í skefjum, eða rétt um 100 útskrifuðum á ári.
Í mínu tilfelli fyrir 50 árum var það mitt eigið val að halla mér alfarið að leikhúsunum, skemmtikraftsstandinu og gerð skemmtiefnis og dægurlagatexta og hljómplatna auk þess sem ég þurfti að sjá fyrir sjö manna fjölskyldu.
Frásögn Huldu Hvannar Kristinsdóttur sýnir annars konar aðstæður, þar sem kerfið er erfitt við að eiga, mun erfiðara í mörgum tilfellum en var á mínum námsárum svo einkennilegt sem það kann að hljóma.
![]() |
Að falla er að deyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.1.2014 | 12:06
Munurinn á þýlyndi og gestrisni.
Á þessu ári verða 25 ár síðan skriðdrekum og skotvopnum var beitt gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar í Peking.
Fræg er ljósmyndin af kínverska mótmælandanum, sem stendur einn fyrir framan fjóra stóra skriðdreka og stöðvar þá í bili áður en lokið er við að valta endanlega yfir andófsfólkið og murka það niður með hervaldi.
Kínversk yfirvöld eru nú 25 árum síðar og raunar allar götur frá 1949, eða í 65 ár, einræðisstjórn sem lemur niður allt andóf með þeim mannréttindabrotum og hervaldi sem til þarf.
Kínverjar eru hins vegar annað stærsta efnahagsveldi heims og í veröld alþjóðasamskipta verður einfaldlega að fara með æðruleysisbænina, að okkur sé gefinn kraftur, vilji og hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, lifa með því sem við getum ekki breytt og að okkur sé gefið vit til að skilja þarna á milli.
Þegar höfð eru venjuleg samskipti við Kínverja á viðskiptasviði, menningarsviði eða öðrum sviðum, verður að viðhafa almennar samskiptavenjur og hófsamlega og skynsamlega gestrisni, þegar um er að ræða gesti, sem hingað koma frá þessu fjölmennasta ríki veraldar.
Þessu var hins vegar ekki til að dreifa þegar leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína kom hingað í heimsókn 2002.
Ákveðið var að Íslendingar færu að meintum vilja mannréttindabrotastjórnarinnar í Kína með því að taka við forsvarsmanni hennar sem gesti, en meina hins vegar friðsömu andófsfólki kínversku, sem Falun Gong fólkið var sannarlega, að koma til landsins.
Með þessu sýndum við alræðisstjórninni í Kína óþarft þýlyndi undir yfirskini gestrisni.
Merkilegt er að sjá, 12 árum síðar, því haldið fram hér á blogginu að í því felist "dómgreindarskortur gagnvart kínverskum sértrúarsöfnuði" að vilja bæta fyrir óréttlæti gagnvart þeim árið 2002.
Ef leggja á þann mælikverða á þá, sem koma hingað til lands, að ef við samþykkjum ekki heimsmynd þeirra í einu og öllu, skuli þeir verða sviptir ferðafrelsi og komið fram við þá í sama anda og kúgunarstjórnin í landi þeirra gerir, er illa komið fyrir þjóð, sem telur sig vera merkisbera skoðanfrelsis.
![]() |
Biðji Falun Gong-iðkendur afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2014 | 10:54
"Kill your darlings!"
Það er ekkert einsdæmi að leikarar séu "klipptir út" úr kvikmyndum, eins og það er kallað. Í allri kvikmyndasögunni finnast dæmi um slíkt, meira að segja hér á landi.
Þótt búið sé að taka upp öll atriðin í kvikmyndahandritinu er eftir að klippa myndina saman og þá getur komið að því að vegna heildayfirbragðs myndarinnar og framvindu hennar, samfelluna og tempóið í henni, sé talið nauðsynlegt að stytta sum atriðin eða jafnvel sleppa þeim alveg.
Kvikmyndahandrit er nefnilega ekki það sama og fullskrifuð bók, sem á að fara í prentun. Kvikmyndahandrit og fyrirliggjandi upptekið efni eru ígildi uppkasts að bók og þetta þekkja allir kvikmyndagerðarmenn, leikhúsfólk, rithöfunar og útgefendur.
Um þetta gilda nokkur slagorð svo sem: "Kill your darlings!", "ruslafatan er besti vinur listamannsins" og "áhorfandinn/lesandinn veit ekkert um það, hverju var hent og saknar þess því ekki."
Charlie Chaplin var þekktur fyrir vandfýsni og fullkomnunaráráttu og skipaði svo fyrir að öllum "out takes" skyldi hent eða brennt.
Þessu var ekki hlýtt og fyrir bragðið hægt að gera um þetta magnaða heimildarmynd.
Þar tróndi á toppnum frábært sjö mínútna snilldaratriði sem átti að vera í "Borgarljósunum."
Að mínum dómi var þetta atriði, sem átti að brenna, einhver mesta snilld meistarans, þar sem flækingurinn sér hvar örlítill spýtukubbur fellur af kerru niður á kjallaragluggarist á gangstétt.
Flækingurinn byrjar að reyna að fjarlægja kubbinn með staf sínum og við tekur óborganlegt sjö mínútna langt atriði þar sem einfaldleiki nauða ómerkilegs smáatviks úr daglega lífinu er spólað upp í hæstu hæðir snilldarlegs skops.
Þekkt er að góðir yfirlesarar og prófarkalesarar hafa komið tugum og hundruðum blaðsíðna úr handritum rithöfunda fyrir kattarnef.
Þetta gerði til dæmis Guðmundur Andri Thorsson, lesari síðustu bókar minnar, "Manga með svartan vanga, - sagan öll", af sinni alkunnu smekkvísi og kunnáttu, reyndar ekki nema örfáum blaðsíðum, og ég var honum afar þakklátur fyrir þetta, - bókin í heild varð betri og ég hafði fyrirfram sagt við hann að þessa kynni að verða þörf og að betur sæu augu en auga.
Þegar ég var einn af leikurum í litlium aukahlutverkum í kvikmyndinni "79 af stöðinni" var tveimur tökudögum að mig minir eytt í að taka upp atriði inni á leigubílastöðinni.
Þegar myndin var klippt var þetta skorið hressilega niður og voru sumir þeirra, sem kallaðir voru til í þessi atriði, ekki ánægðir með það. En fyrir flæðið og framvinduna í myndinni var þetta nauðsynlegt og allir fengu aukaleikararnir greitt fyrir vinnuframlag sitt.
Stundum gera menn mistök þegar verið er að stytta verk. Ég minnist sjónvarpsmynda, þar sem reynt var að stytta löng myndskeið til að þjappa heildarmyndinni saman en hefði átt að gera það öðru vísi.
Í myndinni Eyðibyggð var upphaflega 50 sekúndna myndskeið þar sem flogið er á Super Cub yfir skipsflak undir Straumnesfjalli og síðan klifrað á fullu upp hlíðina, og þegar komið er upp á brún fjallsins blasa skyndilega og óvænt við auðar rústir ratsjárstöðvar Bandaríkjamanna. Ég ákvað að klippa þetta skot niður að mestu en hefði átt að sanka þessum sekúndum til syttingar að mér annars staðar og leyfa þessu flotta myndskeiði að lifa.
Í mynd á Stöð 2 var alllangt hringflug inni í Jökulgili, sem "pródúsent" taldi of langt og var bútað niður.
Eftir á að hyggja var það eyðilegging á upplifuninni, og ég sá eftir á að við hefðum átt að stytta myndina annars staðar.
Versta dæmið sem ég þekki er það, að viðtalið við Guðlaug Friðþórsson eftir einstakt afrek hans var stytt, af því að annars hefði Kastljósið, sem það var í, orðið of langt. Eftir á að hyggja hefði ég aldrei átt að fallast á neina styttingu á viðtalinu, svo einstakt var það sem Guðlaugur sagði frá.
![]() |
Ólafur Darri klipptur út? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2014 | 20:04
Vökunni haldið.
Það var hressandi að vera niður við Alþingishúsið fyrr í kvöld í vetrarsvalanum og hitta mörg hundruð áhugafólks um vörslu og vernd náttúruverðmæta hálendisis veifandi grænum fánum.
Landvernd stóð að þessum fundi sem er liður í átaki um að vernda íslenska hálendið.
Þarna var hægt að horfa á stórar myndir af hálendinu, sem varpað var á vegg, taka lagið með Svavari Knúti, hlusta á stutt ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar framkvæmdastjóra Landverndar.
Meðal fundargesta voru þingmenn sem hafði verið boðið að koma út til að skoða myndasýninguna og hvattir til að kynna sér öll þau víðtæku áform um mannvirki á hálendinu, vegi, háspennulínur, stíflur, miðlunarlón, jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir sem munu gjörbreyta hálendinu og eyða töfrum þess ef af þeim verður.
Ég spjallaði þarna drykklanga stund á málefnalegum og vinsamlegum nótum við Framsóknarþingmann utan af landi, sem kom hreinlega af fjöllum varðandi þær virkjanahugmyndir í kjördæmi hans, sem tengdust einni af myndunum sem varpað var upp.
Fundurinn var tákn um nauðsyn þess að vökunni sé haldið í þessum málum á öllum tímum ársins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.1.2014 | 15:06
Eins og menn dreymi um gamla ástandið.
Jón hjólreiðamaður á Akureyri fór með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu fyrir rúmum 20 árum með þeim afleiðingum að bananalýðveldið Ísland neyddist til að breyta dómstólakerfi sínu gagngert, annars hefðum við haldið áfram að vera aðhlátursefni í réttarfari.
Mál Jóns snerist um það að sami aðili stóð að því að standa Jón að verki, rannsaka mál hans, fara með það í eigin lögsögu og dæma í því.
Sami aðilinn var "undir og yfir og allt um kring".
Samsvörun vinnubragða yfirvalda í Gálgahraunsmálinu við þetta mál er athyglisverð. Það er eins og menn dreymi um að endurvekja gamla ástandið, sem hér var við líði.
![]() |
Sá skikkjuklæddi undir, yfir og allt um kring |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)