Aðgát skal höfð og máli lokið.

"Aðgát skal höfð í nærveru sálar". En stundum falla orð í hita augnabliksins sem betur hefðu verið ósögð.

Þau geta hafa verið sögð óvart, verið óviðeigandi, óþörf og ósæmileg eftir atvikum, jafnvel rugl, en þegar þau eru dregin strax til baka og beðist afsökunar,  á málinu að vera lokið og allir að hafa lært sitt og orðið menn að meiri.

Úr því að orðin "fóru í loftið" eins og sagt er, má skoða þau stuttlega, því að þau sýna greinilega að þau voru óhugsuð og í meira lagi ruglingsleg.

Austurríkismaðurinn Hitler innlimaði að vísu Austurríki í Þýskaland árið 1938 ( Anschluss) en hann slátraði ekki Austuríkismönnum það ár, því að svo var að sjá af fagnaðarmóttökunum, sem hann fékk í innreið sinni í Vín að meirihluti landsmanna væri sameiningunni samþykkur. Hitler var meira að segja valinn maður ársins 1938 hjá tímaritinu Time.

Í mars árið eftir innlimaði hann Tékkóslóvakíu gegn eindreginni andstöðu Tékka og fólkið grét á götunum af sorg þegar hann fór inn í Prag. Í hönd fóru árin fram til 1945 þegar sem nasistar slátruðu tugþúsundum austurrískra og tékkneskra gyðinga.

Sjálfur datt ég í þann pytt sem íþróttafréttamaður á áttunda áratugnum, þegar Austur-Þjóðverjar höfðu eitt sinn í landsleik í handbolta stillt upp þvílíkri vörn að ekkert skot komst í gegnum hana langtímum saman, að þá datt út úr mér: "Það er eins og þeir séu búnir að reisa Berlínarmúr í vörninni." 

Ég áttaði mig sem betur fer á því strax, að enda þótt samlíkingin ein og sér væri ekki út í hött, væri hún óviðeigandi og ósæmileg í vináttulandsleik í íþróttum, baðst strax afsökunar og dró ummælin til baka.

Mér fannst þetta kannski sjálfum fyndið í hita augnabliksins en sá strax að alvara málsins var slík að þetta var ekkert fyndið, - múr, sem var dauðans alvara og viðkvæmt mál, hafði kostað mörg mannslíf og kom íþróttalandsleik ekkert við.

Málinu var þar með lokið á stundinni og kannski er ég sá eini sem man eftir þessu, af því að það var lærdómsríkt fyrir mig persónulega. Mál- og prentfrelsi er að vísu dýrmætt, en, eins og segir í siðareglum blaðamanna, á umfjöllun ekki að vera meiðandi eða særandi að óþörfu.

  

 

 

 


mbl.is Biðst afsökunar á ummælum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hárrétt á fyrstu dögum innlimunar/innrásar... engin var mótspyrnan og Hitler stillti Austurríkismönnum upp við vegg og labbaði síðan inn að mig minnir áður en ftimafresturinn var útrunninn ... síðan frá fyrsta degi var ýmsum minnihlutahópum... Gyðingar, Kommúnistar, ofl... Smalað inn í fangelsi og Fangabúðir þar sem fólk var kerfisbundið slátrað á næstu árum... Áttu ekki afturkvæmt...

Stráksi biðst síðan afsökunar og Stráksi lærir og málið úr sögunni...

Bkv.

Davíð Heiðar Hansson (IP-tala skráð) 19.1.2014 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband