Fárviðrishviður víða, líka á hinum boðaða "öryggisvegi!"

Þegar þetta blogg er slegið inn, klukkan 4 að nóttu má sjá á vef Veðurstofu Íslands fárviðrishviður víða á landinu. Meðalvindur á Stórhöfða er fárviðri eða um 70 hnútar en vindurinn kemst upp í 100 hnúta í hviðum.

Á Kjalarnesi koma líka fárviðrishviður og á Reykjavíkur fer vindur í 50 hnúta. Eins gott að FRÚin sé vel og rétt bundin niður.

Það eru líka fárviðrishviður á þeirri leið, sem mannvirkjafíklar vilja gera að heilsársvegi og þjóðleið sem stystu leið yfir hálendið upp í 900 metra hæð yfir sjó til þess að setja undir þá hættu sem þeir þykjast sjá fólgna í því að leiðin milli Egilsstaða og Reykjavíkur um sunnanvert landið lokist.

Í veðurathugunarstöðinni á Sandbúðum á miðri Sprengisandsleið er meira 20 metra vindur í ríflega 100 daga á ári enda er myndi leiðin þarna liggja í allt að 900 metra hæð yfir sjó.

Eftir flug um hálendið í bráðum hálfa öld þekki ég veðravítin, sem geta verið við norðurenda Langjökuls í um 800 metra hæð yfir sjó og norðvestanveðan Vatnajökul í enn meiri hæð. Björn Pálsson fórst í öðru þeirra.

Úrkoma, mest snjór, er mun meiri á báðum þessum svæðum en á öðrum svæðum nálægt miðju landsins og þetta hefur blasað við mér í öll þessi ár.

En síðan er komið og talað um hraðbrautalagningar um þessar slóðir eins og ekkert sé sjálfsagðara á meðan ekki er einu sinni hægt að fá í gegn endurbætur og styttingar í byggð, sem eru lang hagkvæmustu vegaframkvæmdir að öllu leyti og hægt er að leggja í á Íslandi.

Og enginn virðist hafa kynnt sér veðurskilyrðin né rætt við þá sem eru kunnugir á þessum slóðum.

Á sama tíma er sumt í heilbrigðiskerfinu við hrunmörk.  

Þessir menn ekki hafa hugmynd um að helmingur hringvegarins liggur um Norðurland þegar þeir tala um hálendisveginn sem nauðsynlegan öryggisveg vegna þess að suðurhluti hans geti orðið ófær. Nema að gamla góða þöggunin sé þarna á ferðinni, að treysta því að fólk viti ekki betur.

Vísa að öðru leyti í góða grein Hjörleifs Guttormssonar í Fréttablaðinu um það mannvirkjaæði, sem lýsir sér í þessum hugmyndum og myndu rústa ímynd hálendisins sem einstæðs ósnortins víðernis.

Í Gálgahrauni hafa yfirvöld sett þá stefnu að þegar í stað verði lögð hraðbraut til að þjóna 20 þúsund manna nýrri byggð, rétt eins og hún sé í smíðum núna. Á sama tíma standa spánný hús auð við núverandi veg.

Ef öll hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu krefðust hins sama og Garðabær og heimtuðu að ríkja skyldi það jafnræði að leggja þegar í stað hraðbrautir út í ímynduð 20 þúsund manna nýbyggðir í hverju þeirra, jafngildir það því því að það sé sjálfsagt mál að dynji yfir okkur lagning fimm hraðbrauta vegna byggingar samtals 100 þúsund manna nýbyggðar á höfuðborgarsvæðinu!   


mbl.is Vara við hvössum vindhviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Meðalhiti í janúar 1961-1990

Þorsteinn Briem, 13.12.2013 kl. 05:06

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands búa hér á Íslandi um 9% fleiri árið 2023, eftir áratug, en bjuggu hérlendis um síðustu áramót.

Og þá bjuggu 13.872 í Garðabæ, samkvæmt Hagstofunni.

Samkvæmt mannfjöldaspánni búa því um 1.250 fleiri í Garðabæ eftir áratug.

Þorsteinn Briem, 13.12.2013 kl. 05:43

4 identicon

Tja, Ómar, - vonandi er þá FRÚin með bæði belti og axlabönd eins og á túninu um árið ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 10:59

5 identicon

Aldrei talað um að vegurinn verði opinn alla daga ársins. Þá verður hann fjármagnaður með veggjöldum sem ég mun greiða með glöðu geði fyrir 250 km. stytting. Þar að auki mun vegbæting á Sprengisandsleið bylta samgöngum frá N-S.

GB (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 11:02

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vegurinn um Gálgahraun kostar um einn milljarð króna.

Þorsteinn Briem, 13.12.2013 kl. 11:05

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef styttingin á að vera 250 kílómetrar verður að aka beina reglustiku loftlína um gamla konungsveginn yfir Mosfellsheiði, Hlöðufell og Bláfell, Þjórsárver, yfir Trölladyngju og fjöl öll og heiðar sem á þessari nýju reglustikuleið eru.

Því að loftlína frá Reykjavík til Egilsstaða er 380 kílómetrar en það eru 636 kílómetrar núna um suðurleiðina um Öxi.

636 mínus 250 eru 386 sem þýðir að nýi hálendisvegurinn verður að liggja sömu leið og loftlínan milli Reykjavíkur og Egilsstaða ef hann hann á að stytta landleiðina um 250 kílómetra !

Nú er sagt að vegurinn eigi aðeins að vera fær á sumrin, sem þýðir þá væntanlega að gert sé ráð fyrir að suðurleiðin geti bara orðið ófær að sumarlagi !

Ómar Ragnarsson, 13.12.2013 kl. 14:25

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Benda má þessum vegagerðarfíklum á að ef þeir nota sömu aðferð um leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar og þeir ætla að nota á leiðinni til Egilsstaða með 250 kílómetra styttingu, væri hægt  að stytta leiðina Reykjavík-Akureyri um 136 kílómetra með því að nota loftlínu/reglustiku aðferðina og fara beint yfir fjöll öll, svo sem Botnssúlur, Ok og Tröllaskaga !

Ómar Ragnarsson, 13.12.2013 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband