Færsluflokkur: Bloggar

Allt í einu farið að skipta um nafn.

Í úrskurðum um Gálgahraun allt fram yfir síðustu aldamót, svo sem Skipulagsstofnunar, og gögnum Vegagerðarinnar, var árum saman ávallt talað um hraunheildina sem liggur á milli hálfhringlaga hraunjaðra á ysta hluta Búrfellshrauns. IMG_8182_b

Síðan tekur bæjarstjórn Garðabæjar sig til og friðar nyrsta hluta hraunsins og fer að kalla þann hluta Gálgahraun en hinn hlutann Garðahraun og slær með því ryki í augu almennings til að rugla hann í ríminu.

Samkvæmt þessum nýja skilningi bæjarstjórnarinnar, sem fer algerlega í bága við viðurkenndar hugmyndir um landslagsheildir, er þessi ysta hrauntunga nú orðin að tveimur hraunum í stað eins.

Enn einu sinni birti ég loftmynd af hrauninu, tekna úr vestri, þar sem hraunjaðrarnir sjást vel, til hægri við sjóinn og nær okkur sjást vel skilin á milli hraunsins og graslendisins fyrir vestan það.

Þetta svona eins og að menn færu að taka upp á því að kalla mig Þorfinn Ragnarsson og segja að það sé allt annar maður en Ómar Ragnarsson.


mbl.is Gálgahraun eða Garðahraun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífið er "í beinni."

Árið 1985 var ég búinn að ganga lengi með sjónvarpsþátt í maganum, sem væri í beinni útsending og fjallaði um allt milli himins og jarðar, allt frá stjórnmálum og fréttum dagsins til viðburða utan húss á öllum sviðum.

Þegar þeir Hrafn Gunnlaugsson og Ingvi Hrafn Jónsson tóku við stöðum dagskrárstjóranna tveggja þetta ár gat þessi þáttur, "Á líðandi stundu" loks orðið að veruleika.

Aðalrökin fyrir svona þáttum eru þau að sjálft líf okkar "er í beinni" og að það væri grunnur veruleikans. 

Þess vegna ber að fagna hverjum nýjum sjónvarpsþætti, sem er í beinni útsendingu.

Eitt sinn þegar við Bubbi Morthens vorum að sýna hnefaleika í beinni útsendingu varð jarðskjálfti og breyttist útsendingin samstundis um stund í að fjalla um það frekar en hnefaleikana.

Ekki stór frétt en samt allt annars eðlis "í beinni" heldur en sem smáfrétt daginn eftir.

Því fagna ég því að Gísli Marteinn er kominn á skjáinn, en þakka jafnfram Agli Helgasyni fyrir það hvernig hann hristi upp í þjóðlífinu með Silfri Egils og þó einkum fyrir það að laða til okkar merka útlendinga til fræðslu, nýrrar hugsunar og skoðanaskipta frá víðara sjónarhóli en áður hafði tíðkast í slíkum mæli.

Á því þurftum við svo sannarlega að halda og þurfum enn.  


mbl.is Gagnvirkur Gísli Marteinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður náttúrunnar og komandi kynslóða?

Það er á fleiri sviðum en mannréttindum hinsegin fólks sem róðurinn er enn þungur.

Íslenskir borgarar eiga athvarf hjá umboðsmanni Alþingis. Það kostaði baráttu að koma því embætti á fót.

Þetta embætti var ein af hugmyndunum hjá stjórnarskrárnefnd Gunnars Thoroddsens 1983, en starf þeirrar nefndar varðandi heildarendurskoðun var eyðilagt eins og störf allra annarra stjórnarskrárnefnda í bráðum 70 ár.

Þó komst þessi hugmynd um umboðsmann Alþingis síðar í framkvæmd og einnig er til embætti umboðsmanns neytenda.  

Á öðru sviði er róðurinn enn þyngri, en það er varðandi lögvarða hagsmuni náttúruverndarsamtaka og hagsmuni komandi kynslóða.

Í rétti Evrópuríkja var Árósasamningur svonefndi lögfestur fyrir um 15 árum. Ísland skar sig úr í meira en áratug varðandi það að vilja ekki taka lögfesta þennan samning, sem kveður á um lögvarða hagsmuni fjöldasamtaka um náttúruvernd og umhverfismál.

Enn koma upp í hugann fyrstu ljóðlínurnar í ljóði Snorra Hjartarsonar: "Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, / þér var ég gefinn barn á móðurkné."

Það má segja að þjóðin og hver einstaklingur hennar eigi sér umboðsmann Alþingis, en náttúran, landið, á engan umboðsmann, og ekki heldur tungan.

Langstærsti aðilinn, sem ákvarðanir núlifandi Íslendinga varða, eru þó þær milljónir fólks, sem eru ófæddir Íslendingar.

Nú er að vísu búið að lögfesta Árósasamninginn hér á landi, en þó reyndu andstæðingar hans að lemstra hann eftir bestu getu, þeir hinir sömu og höfðu staðið að þeirri þjóðarskömm að gera Ísland að viðundri í hópi Evrópuþjóða með því að koma í veg fyrir það í meira en áratug, að lemstra þetta mannréttindaplagg eftir bestu getu.

Gálgahraunsmálið hefur orðið skurðpunktur í þessum efnum og er orði margfalt stærra mál en það, að aðeins sé um eitt hraun að ræða.

Fyrir dómstólum liggur, hvort Árósasamningurinn gildi um það mál.  

Verði lyktir þess máls það að samtök þúsunda náttúruverndarfólks eigi ekki lögvarða hagsmuni þegar um er að ræða framkvæmdir sem valda óafturkræfum spjöllum sem binda hendur komandi kynslóða, liggur fyrir að Árósasamningurinn er gagnslaust pappírsgagn og bakslagið, sem í því felst, ekki minna en það bakslag, sem formaður Samtakanna 78 ræðir um á sviði mannréttinda hinsegin fólks.

Í starfi stjórnlagaráðs var það starf mitt og fleiri samherja að semja nútímalega og framsækna stjórnarskrá réttlætis, gagnsæis, frelsis og lýðræðis.

Ég sé eftir því að hafa ekki orðað þann möguleika í starfi ráðsins að samkvæmt nýrri stjórnarskrá yrði sett á fót embætti umboðsmanns náttúrunnar og komandi kynslóða líkt og gert hafði verið í starfi stjórnarskrárnefndar Gunnars Thoroddsen.

En stjórnarskrárhugmynd stjórnlagaráðs er að vísu hvort eð er enn aðeins orð á blaði sem valdaöflin í þjóðfélaginu vilja að komist aldrei í framkvæmd þannig að enn er ekki of seint að setja þessa hugmynd fram, bæta henni við aðrar umbótahugmyndir, sem felast í tillögum stjórnlagaráðs og berjast fyrir framgangi þeirra allra.

 

 


mbl.is Bakslag í baráttu hinsegin fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allsherjar hleranir frá 2005 ?

Ég hef áður greint frá því á bloggsíðu minni, að atburðir varðandi farsíma minn og fleiri síðsumars 2005 voru þess eðlis, að þeir lýstu símhlerunum. Rétt er að geta þess að á þeim tíma var ég starfandi fréttamaður, sem hafði farið í gegnum sérstaka rannsókn 1999 vegna ásakana um hlutdrægni og misnotkun á aðstöðu minni í starfi og verið hreinsaður af þeim ásökunum.

Ég fór á milli nokkurra sérfræðinga og lét skoða síma minn vandlega og spurði síðasta sérfræðinginn, sem ég ræddi við, hvort hér gæti verið um símhlerun að ræða, til dæmis svipaða þeirri sem snjallir ungir símadellumenn hefðu framkvæmt úti á götu í New York.

Ég fékk þetta lokasvar: "Hafðu ekki áhyggjur af því að sími þinn sé hleraður, því að til þess að svo sé þarf góða aðstöðu og mikinn mannskap og peninga."

Í aðdraganda þessa símamáls míns hafði NATO verið með sérstaka æfingu hér á landi til að bæta öryggi með tilliti til hættu á hryðjuverkum hér á landi í líkingu við hryðjuverk erlendins, svo sem í Bandaríkjunum 9. september 2001.

NATO valdi að æfa sig á Íslandi varðandi hættulegasta fólkið á Fróni, sem væru umhverfisverndarfólk.

Svarið varðandi "góða aðstöðu og mikinn mannskap og peninga" varð auðvitað til þess að varpa ljósi á málið fyrir mér og í þveröfuga átt en þá að síminn væri ekki hleraður.

Þessar vikur síðsumars 2005 virtist sími minn vera tengdur inn í kerfi eða símatorg þar sem ótrúlegustu aðilar voru hleraðir ásamt mér.

Ég er enn bundinn trúnaði um það hverjir þetta voru, en mér kemur ekki á óvart það sem nú er að koma fram varðandi hlerun á síma 35 þjóðarleiðtoga í Evrópu. Atvikið hér heima 2005 sýndi mér nefnilega einmitt að enginn Íslendingur gæti treyst því að vera ekki hleraður.

Nú er allt að fara á hvolf í Evrópu vegna hlerananna þar, en bloggpistlar mínir um símamál mitt 2005 höfðu ekki minnstu áhrif á neinn þá og sennilega ekki þessi pistill heldur.

Þýlyndi okkar Íslendinga virðist nefnilega stundum lítil takmörk sett.  


mbl.is Gæti skaðað baráttuna gegn hryðjuverkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útséð um að lagfæra legu norður-suður-brautarinnar?

Úr því að á annað borð var farið út í það að "frysta" Reykjavíkurflugvöll til 2022 hefði átt að gera það til lengri tíma, helst í 30 ár eins og gert var við Bromma í Stokkhólmi og frysta hann alveg, þ. e. að fara ekki að byggja þannig á flugvallarsvæðinu að það komi í veg fyrir þann möguleika að breyta flugvellinum úr X-laga flugvelli í T-laga flugvöll þar sem austur-vestur-brautin yrði lengd út í Skerjafjörð.

En eftir sem áður er það sama frumatriðið nú og fyrir 57 árum þegar Agnar Koefoed-Hansen setti það fram í Morgunblaðsviðtali, að austur-vestur-brautin verði gerð að lengstu eða lengri flugbrautinni því að það eitt stórminnkar ekki aðeins slysahættu við flugvöllinn, heldur dregur að mestu úr flugi yfir miðbæinn í Reykjavík og Kársnesið í Kópavogi.


mbl.is Norður-suðurbraut áfram til 2022
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðferð strútsins.

Í sjúkdómafræði er talað um áunna sykursýki. Á Íslandi virðist andlegur sjúkdómur herja á marga, sem nefna má áunna vanþekkingu.

Forðast er að afla upplýsinga, veita upplýsingar eða að meðtaka upplýsingar eins og til dæmis þá mynd af Gálgahrauni, sem tekin er úr vestri og sýnir hvernig þessi ysti endi Búrfellshrauns, sem er heildarheiti yfir hraunið, sem kom úr Búrfelli 12 kílómetrum fyrir um 7300 árum, teygir sig til vesturs eins og fremsti hluti skrúðgöngu.IMG_8182_b

Það sést vel hvernig hraunjaðarinn sker sig frá gróna landinu neðst í hægra horninu á myndinni.

Þessi síðasti einn og hálfi kílómetri, sem hraunið úr Búrfelli rann, er innan við 1% af byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei þessu vant hef ég átt andvökur síðustu tvær nætur, hugsi yfir því sem gerst hefur síðustu daga.

Við sátum á fundi náttúruverndarmanna fyrir viku til að setja á flot einfalda auglýsingu um eðli Gálgahraunsmálsins svo að fólk gæti myndað sér skoðun um það, eins og rætt er um í tengdri frétt á mbl.is.

Ekk óraði okkur fyrir að aðeins tveimur dögum síðar myndu Vegagerðin  og bæjaryfirvöld í Garðabæ grípa til þess að taka lögin í eigin hendur með því að siga vélaherdeildum á þá sem beðið hafa um að Gálgahraun fengi að vera í friði, að minnsta kosti þar til dómstólar hefðu afgreitt það mál.

Gálgahraun var og er síðasta vígið í 18 ára baráttu náttúruverndarfólks á svæðinu gegn því offorsi framkvæmda sem hefur verið í gangi gegn einstökum hlutum Búrfellshrauns, þeirra á meðal Gálgahrauni.

Það var búið að hrekja Hraunavini út í horn eftir búið var að marghrauna yfir þá annars staðar. Þess vegna er svo sárt að horfa upp á jafn svartan dag í sögu þjóðarinnar og var þegar hraunað var yfir okkur og dómstóla og réttarfar á landinu síðastliðinn mánudag.


mbl.is „Höfum líka skoðun á Gálgahrauni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanaágreiningur í Gálgahraunsmálinu þverpólitískur.

Undanfarna daga hef ég hitt nógu margt sjálfstæðisfólk, sem hefur lýst yfir andstöðu við hinar fyrirhuguðu glórulausu framkvæmdir í Gálgahrauni til þess að draga af því þá niðurstöðu, að skoðanir fólks á því máli fari að litlu leyti eftir flokkspólitískum línum.

Þá á ég einkum við það að þessir viðmælendur mínir hafa sagt að miklu fleiri flokkssystkini þeirra séu andvíg framkvæmdunum en látið hefur verið í veðri vaka.

Ég finn einnig fyrir því að eftir því sem upplýsingar um einstök atriði málsins og fleiri atriði en áður berast til fleira fólks, aukist fylgi við andófið gegn framkvæmdunum.

Gunnar Einarsson hefur verið mjög í sviðsljósinu í málinu þótt hann sé ekki pólitískt ábyrgur heldur bæjarstjórnarmeirihlutinn og oddviti hans.

Að oddvitanum og meirihlutanum þarf nú að beina gagnrýni beinna og meira en verið hefur, því að þar liggur meginábyrgðin á því hvernig komið er í þessu máli.

Gunnar Einarsson segist nú sækjast eftir efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ til þess að axla pólitíska ábyrgð, en slíka ábyrgð hefur hann ekki haft fram að þessu og því geta spilað nokkuð frítt spil af miklum ósveigjanleika og í skjóli rangra fullyrðinga og upplýsinga, svo sem um slysatíðni á núverandi vegi og því, hve margar íbúðir séu í þeim húsum sem liggja næst veginum, svo að dæmi séu nefnd.  


mbl.is Vill leiða listann í Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr minnisvarði um efnahagsóstjórn.

Ef ekki hefðu verið tekin tvö núll af krónunni 1981 væri 10 þúsundkallinn nú milljónkall. Þessi nýi seðill er enn einn minnisvarðinn frá 1920 um nær samfellda efnahagsóstjórn á Íslandi sem hefur rýrt íslensku krónuna nokkur þúsundfalt miðað við dönsku krónuna, sem var jafnstór þeirri íslensku í upphafi.

Eina markverða undantekningin á þessum 93 árum er Þjóðarsáttin 1990, sem var stjórnmálalegt kraftaverk í samanburði við alla aðra atburði á hörmgarferli íslensku krónunnar og hrakför efnahagsóstjórnar.

Þegar óðaverðbólga skall á 1942 sagði Ólafur Thors að enginn vandi yrði að fást við hana, - það mætti gera með einu pennastriki. Fyrir þessi orð var hann hæddur af mörgum og lifði það ekki sjá undirritun Þjóðarsáttarsamninganna, tæpri hálfri öld siðar.

Nú er óvíst hvort önnur hálf öld líði þar til "pennastrikið" verði aftur að veruleika, þ. e. í kringum 2040.

Ekki er svo að sjá að það geti orðið, heldur mun líklegra að hér verði annað Hrun eða jafnvel tvö fyrir 2040.


mbl.is Tíuþúsundkallinn kemur á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gálgahraun er ekki Gálgahraun og málið dautt ?

IMG_8182_bIMG_8029Nýjasta útspilið í Gálgahraunsmálinu er það, að vegurinn, sem  nú er byrjað að gera, liggi ekki um Gálgahraun heldur Garðahraun.

Skoðum nú hraunið úr lofti, fyrst neðri myndina, sem hefur áður birst af hrauninu hér á síðunni, og síðar efri myndina af sama hrauni frá öðru sjónarhorni sem sýnir enn betur hið raunverulega eðli málsins. Á þeirri mynd efstu myndinni) er horft yfir hraunið úr norðvestri og byggðin í Garðabæ er efst á myndinni en Prýðishverfi og Álftanesvegur í horninu hægra megin efst.  

Jaðrar hraunsins sjást greinilega og enn betur ef myndin er stækkuð með því að smella á hana. Helmingur hraunjaðarsins er við Skerjafjörð, en neðst til hægri er jaðarinn þar sem nýr vegur á að liggja inn á hraunið, og hið gróna land skilur sig vel frá.

Samkvæmt skipulagi Garðabæjar á að búta þetta hraun, sem við sjáum, í fjóra megin búta, eins og sést á neðstu myndinni, á þeim forsendum, að ekki sá hróflað við Gálgahrauni.  

Það er nýtt í málinu að fara nú að skipta hrauninu í sjálfstæðar heildir sem hafi alltaf verið sjálfstæðar og sitt hvort hraunið, því að áratugum saman hefur þessi hraunsheild verið nefnd heildarheitinu Gálgahraun.

Hún er ótvíræð landslagsheild hraunjaðra á millum, eins og Esjan með Kistufell og Móskarðshnjúka, jafnvel Skálafell, sem austasta hluta er ein landslagsheild.

Engum myndi detta í hug, nema eft til vill bæjarstjórn Garðabæjar, ef taka ætti Kistufell og Móskarðshnjúka í malargryfjur, að segja að það snerti Esjuna ekki nokkurn skapaðan hlut, hún sé skilin ósnortin eftir og bara Kistufelli og Móskarðshnjúkum raskað. IMG_1786

Ekki þarf mikinn spámann til að sjá hverju verður haldið fram þegar skipulagi Garðabæjar verður haldið til streitu með því að gera framlengingu á Vífilsstaðavegi eins og sést á neðstu myndinni.

Þá verður því sennilega haldið fram að að hraunið skiptist í fjögur aðskilin hraun: Eystra-Garðahraun, Vestra-Garðahraun, Selskarðshraun og Gálgahraun.

Málið dautt?

Þessi málatilbúnaður er hafður uppi til þess að rugla almenning í ríminu, sem þekkir eðlilega ekki til þess, enda hafa fjölmiðlar átt þátt í því, til  dæmis með því að birta ekki myndir í líkingu við þær sem hér sjást.

Niður á hve lágt og barnalegt plan er hægt að fara með málflutninginn í þessu máli?

Ég skora á fjölmiðla að birta myndir af þessu umdeilda hrauni, og ef þessar myndir eru taldar hlutdrægar, af því að ég tók þær, að taka þá myndir sjálfir. Sem þeir hefðu átt að vera búnir að gera fyrir löngu.     

 


mbl.is Hindra stækkun vinnusvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg ábyrgð gagnvart skattgreiðendum og fjárveitingavaldinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir á RUV að það væri "ábyrgðarleysi gagnvart skattgreiðendum og fjárveitingavaldinu" að fresta framkvæmdum í Gálgahrauni þar til málarekstri er lokið fyrir dómstólum.

Heyr á endemi!

Þessi glórulausa loftkastalaframkvæmd felur í sér að samkvæmt skipulaginu, sem nú er í gildi í Gálgahrauni, á að sóa minnst tveimur milljörðum króna í hana í stað þess að nota þessa peninga skattgreiðenda í það sem brennur á þeim í heilbrigðiskerfinu eða í miklu nauðsynlegri vegaframkvæmdir á hættulegri og erfiðari vegum en Álftanesvegi.

Eða að nota brot af þessum milljörðum í að lagfæra núverandi Álftanesveg.

Eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar var að láta sérstaka nefnd "velta við hverjum steini" í ríkisútgjöldum til að auka aðhald og skapa réttari forgangsröðum.  

Engum steini hefur verið velt við í Gálgahrauni í þessu skyni, heldur velta risavaxnar vinnuvélar þar og bryðja grjót og kletta fyrir peninga allra landsmanna.

Ráðherra taldi um brýnt öryggismál að ræða að fara í þessa framkvæmd, en það er á skjön við þá staðreynd samkvæmt tölum Vegagerðarinnar sjálfrar, að af 44 sambærilegum vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu er Álftanesvegur í 22 sæti og 21 vegur því með hærri slysatíðni en hann.

Auk þess liggur fyrir að hinn nýi vegur verði ekki með minni slysatíðni heldur meiri ef eitthvað er.


mbl.is „Hvar er ráðherra?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband