Færsluflokkur: Bloggar
17.8.2013 | 12:16
Verður RUV lagt niður eins og Þjóðhagsstofnun á sínum tíma?
Vigdís Hauksdóttir sagði um daginn í sömu andrá að hún væri í aðgerðahópi við að hagræða og skera niður í ríkiskerfinu og að fréttaflutningur RUV væri dæmi um það að óeðlilega mikið fjármagn færi í RUV.
Fyrr hafði forsætisráðherrann kvartað yfir því sama og talað um "loftárásir" RUV á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana.
Nú er svo að sjá að Björn Bjarnason gangi enn lengra í bloggpistli sínum, því hann talar um að ástandið né nú orðið þannig að það sé "spurning hvort ríkisútvarpið lifi."
Hann rekur það að á þeim tíma sem hann var í ríkisstjórn, meðal annars sem menntamálaráðherra, hafi Framsóknarmenn staðið vörð um RUV þegar hljómgrunnur hefði verið innan Sjalla um að leggja það niður. Nú séu Framsóknarmenn hins vegar komnir á þessa skoðun og það breyti stöðunni.
Teljist málið komið á þetta stig verður ekki lengur um það að ræða hvort RUV verði svipt fjárframlögum í refsingarskyni fyrir meinta hlutdrægni í fréttaflutningi, heldur virðist hreinlega um það að ræða að leggja það niður, líkt og Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma.
Hún hafði áður verið sökuð um vinnubrögð sem ekki féllu í kramið og eftir að búið var að bera á hana sakir í því efni var hún hreinlega lögð niður. Spurningunni um það hvort Þjóðhagsstofnun lifði var einfaldlega svarað með því að drepa hana.
Óneitanlega er svipur með þessum tveimur málum, ekki síst þegar ráðherra, sem var í stjórninni, sem drap Þjóðhagsstofnun, stillir málinu upp á þennan hátt.
![]() |
Spurning hvort Ríkisútvarpið lifir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2013 | 22:06
Næsta skref: "Höfuðborgarlistinn" ?
Reykjavík er höfuðborg Íslands. Eins og nær allar borgir byggist byggðin á samgöngum og staðsetningu borgarinnar.
Samgöngurnar eru þrenns konar, á sjó, landi og í lofti.
Í borginni er stærsta höfn landsins og miðstöð sjóflutninga á varningi, dreifist þaðan um land allt. Höfnin tekur um 7% af landi höfuðborgarsvæðisins vestan Elliðaáa og engum finnst neitt athugavert við það, þótt höfnin sé á svæði, sem er það nálægt þungamiðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu, að þar væri hagkvæmt að hafa íbúðabyggð.
Engum hefur enn dottið í hug að flytja miðstöð sjóflutninga til Njarðvíkur, enda þótt styttra sé að sigla þaðan og þangað frá útlöndum en til Reykjavíkur.
Höfnin er hluti af hlutverki höfuðborgar til gagns fyrir alla landsmenn, bæði í borginni og utan hennar.
Höfuðborgarsvæðið liggur í kringum stærstu krossgötur landsins, sem eru rétt innan við þungamiðju byggðarinnar, nánar tiltekið í grennd við Mjóddina.
Um borgina kvíslast gatnakerfi og malbikuð stæði, sem þekja þrefalt stærra svæði en höfnin og flugvöllurinn til samans. Svo mun verða að mestu leyti næstu áratugina, þótt byggðin verði gerð þéttari.
Í borginni er innanlandsflugvöllur sem er miðstoð loftflutninga um landið. Flugvöllurinn þekur álíka mikið svæði og höfnin og er álíka langt frá þungamiðju byggðarinnar.
Ef hann er lagður niður og innanlandsflugið flutt til Keflavíkur lengjasta ferðaleiðir þeirra, sem fara fram og til baka milli helstu flugvalla úti á landi um 162-172 kílómetra eða tvöfalt lengra en ef Hvalfjarðargöng væru lögð niður og þeim lokað.
Flugvöllurinn er ranglega sagður vera í Vatnsmýri, en aðeins 30% hans eru þar, en 70% á Skildinganesmelum og í Skerjafirði.
Það skiptir svo sem ekki máli, félagið Hjartað í Vatnsmýri var fyrir löngu orðið tímabært.
En enda þótt 80% borgarbúa segjast í skoðanakönnunum vilja ekki færa miðstöð innanlandsflugsins vill yfirgnæfandi meirihluti borgarfulltrúa völlinn í burtu.
Borgarstjórnarkosningar eru á næsta leiti.
Vel má velta þeirri spurningu upp hvort óhjákvæmilegt kunni að verða að bjóða fram þverpólitískt framboð sem gæti til dæmis heitið "Höfuðborgarlistinn" og leitar fylgis þess fólks, sem telur ekki aðeins að höfuðborgin eigi að standa undir nafni á öllum sviðum, heldur einnig að vera stolt af því að borgin veiti öllum, hvar sem þeir búa á landinu, þjónustu sem höfuðborg sæmir.
![]() |
Hjartað í Vatnsmýrinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.8.2013 | 10:43
"Djásnið í kórónu landsins."
"Endalaus teygir sig auðnin, svo víð,-
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við himin með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð
við eldsmiðju darraðardansins.
Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð, -
djásnið í kórónu landsins.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð."
Í þessum fátæklegu ljóðlínum er reynt að lýsa töfrum Kverkfjalla eins og þeir blasa við, þegar staðið er á söndunum norðan við Öskju og horft til þeirra á heitum sumardegi í "hillingum sandsins".
Undir Vatnajökli á öxlinum Grímsvötn-Bárðarbunga er miðja möttulstróksins sem er undir Íslandi og þar er öflugasta eldstöð landsins.
Möttulstrókurinn er annar af þeim tveimur stærstu í heiminum, hinn er undir Hawai.
Kverkfjöll eru ekki eins öflug og Grímsvötn en Sigurður heitinn Þórarinsson sagði við mig að þau væru efst á lista hans yfir náttúruundur Íslands.
Efst í fjöllunum eru tvö jökullón, hið vestara í svonefndum Efri-Hveradal, himinblátt með fljótandi jökum. Það hvarf í upphafi aldarinnar í nokkur ár en kom svo aftur.
Hið eystra var á tímabili með sjóðandi sandströnd og fljótandi ísjökum, þar sem hægt var að vaða í volgu vatni rétt við stöndina berfættur, mitt á milli ísmulningsins og sjóðandi strandarinnar.
Lóninu var gefið nafn á tímum eftirlætisorðs stjórnmálamanna, "Gengissig", en þeir notuðu þetta orð í staðinn fyrir orðið "gengisfelling" og sögðu meira að segja, að gengisfelling væri ekki gengisfelling heldur "gengissig í einu stökki" ! Samanber að virkjun þriggja stórfossa í Efri-Þjórsá er ekki virkjun, heldur veita !
Í sumar hefur hækkað í Gengissigi, en nú hefur orðið sannkallað "gengissig í einu stökki", vatn hlaupið úr því niður í ána Volgu, sem er, eins og nafnið bendir til, volg og rennur í gegnum íshelli, sem liggur ofan úr fjöllunum undir jökulinn.
Þar er stundum hægt að fara í volgt bað og fá sér kalda sturtu vatns, sem fellur niður í hellinn í gegnum lóðrétt gat. Hinum megin í fjöllunum er á einum stað hægt að síga niður 37 stiga heitan foss á sundskýlu einni fata.
Kverkfjöll eru lítið dæmi um þau undur, sem skipa hinum eldvirka hluta Íslands meðal helstu náttúruundra heims. Hinn heimsfrægi Yellowstone kemst ekki á blað í því efni og er það svæði þó með mestu orku Norður-Ameríku "heilög jörð" sem aldrei verður snert né heldur borað á tíu sinnum stærra svæði umhverfis, sem er á stærð við Ísland.
Og fossarnir í þjóðgarðinum verða heldur aldrei virkjaðir. Tökum saman fjögur af helstu undrum Íslands í einu erindi:
"Í Gjástykki aðskiljast álfunar tvær.
Við Heklu´er sem himinninn bláni.
Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellsinn þvær.
í Öskju er jarðneskur máni.
Ísland er dýrgripur alls mannkynsins,
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði né smáni.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt,
heiðloftið blátt,
fegurðin ein,
eilíf og hrein.
![]() |
Hægt hefur á vexti hlaupsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2013 | 19:48
Er hún A- eða B-manneskja ?
Þegar við ókum saman, ég og Einar Vilhjálmsson, í fyrstu ferðina kringum landið á bíl, knúnum innlendum og umhverfisvænum orkugjafa, gat ekki farið hjá því að íþróttir bæri á góma.
Einar er að sjálfsögðu hokinn að reynslu og þekkingu varðandi spjótkast og fleiri iþróttir og sagði mér frá því að það gæti haft áhrif á keppendur, hvort þeir væru A- eða B-manneskjur, þ. e. kvöldsvæfir að eðlisfari eða morgunsvæfir.
Hann kvað þetta hafa komið fram á hans eigin ferli. Ekki veit ég hvort Ásdís Hjálmsdóttir er kvöldsvæf eða morgunsvæf eða hvort það hefur mikil, lítil eða nær engin áhrif á getu hennar.
Þess vegna verður enn meira spennandi að fylgjast með henni í fyrramálið en ella.
![]() |
Í flottu formi og tilbúin að kasta langt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2013 | 11:05
Jafnvel lífinu er hætt !
Ástríðufullir ljósmyndarar eiga það til að hætta miklu til, svo að hægt sé að fanga ákveðinn "ramma" á mynd og er Ragnar Axelsson gott dæmi um það.
Fleiri dæmi má nefna.
Það fer enn hrollur um mig, 50 árum síðar, þegar ég minnist atviks fyrsta dags Heimaeyjargossins.
Þá gaus á sprungu við Kirkjubæ og þar stillti Þórarinn Guðnason sér upp til að ná sem bestum myndum af fljúgandi glóandi hraunslettunum.
Hann horfði á sjálfsögðu beint í gegnum linsuna og varð því ekki var við það, þegar stór hraunsletta þeyttist upp úr sprungunni til hliðar við hann og stefndi beint á hann !
Þetta gerðist svo óvænt og hratt, að engu hefði breytt þótt kalað hefði verið til Tóta að vara sig.
Sem betur fer lenti slettan rétt hjá honum og ekkert af brotunum, sem þeyttist úr henni þegar hún lenti, hafnaði á honum.
Eftir þetta færðum við okkur fjær og vöruðum okkur betur.
Ég minnist þess líka þegar Haraldur Friðriksson stillti sér upp á kanti flugbrautar Selfossflugvallar til að tak mynd af Árna í Múlakoti hefja tvíþekju sína af gerðinni Fleet Finch á loft.
Rétt þegar tvíþekjan var að sleppa jörðinni, kom vindhviða á hlið, sem feykti henni til, þannig að hún stefndi beint á Harald! Hann hreyfði sig hins vegar ekki, greinilega hugfanginn af myndefninu !
Á síðustu stundu gerðist tvennt: Vindhviðan gekk niður og Árna tókst með naumindum að komast framhjá Haraldi á síðustu stundu.
Þegar við horfðum á myndskeiðið eftir á var hins vegar hægt að segja annað en að það var glæsilegt !
Þegar horft er í gegnum linsu er eins og menn verði einhvern veginn að þriðja aðila, líkt og horft sé á myndefnið í kvikmyndahúsi. Í því felst hættan fyrir myndatökumenn.
Viðeigandi kanna að vera að enda þennan pistil á níðvísu, þá bestu sem ég kann, en helsti kostur hennar er sá að hún virðist í fyrstu vera ort sem mikið lof.
Níðvisur eru íþrótt skálda og hagyrðinga, þar sem vísan sjálf og gerð hennar,skiptir öllu, en hitt algert aukaatriði um hvern hún er, jafnvel bestu vini.
Vísan er um mig og er eftir Steindór Andersen, svo hljóðandi:
Hann birtu og gleði eykur andans, -
illu burtu hrindir,
og þegar hann loksins fer til fjandans
fáum við sendar myndir !
![]() |
RAX óhræddur við að blotna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2013 | 19:31
Grindarbíll eða ekki grindarbíll?
Í tengdri frétt á mbl.is er sagt að Suzuki Grand Vitara sé á grind. Þetta getur verið svolítið misvísandi því að oftast er átt við sérstaka grind þegar svona er tekið til orða, sem yfirbygging hvílir á.
Þannig var Suzuki Vitara alla tíð þar til nýjasta gerðin kom fram. Þetta fyrirkomulag gerði kleift að lyfta yfirbyggingunni upp á grindinni um nokkra sentimetra með því að hækka undirstöður hennar, en með því opnaðist möguleiki til að koma stórum hjólbörðum, allt að 36 tommum í þvermáli, undir bílinn.
Þetta er ekki hægt á nýjustu gerð Vitara vegna þess að grindin er soðin saman við yfirbygginguna.
Það er vegna þess að í samvinnu Suzuki og General Motors var ákveðið að þrír bílar, Suzuki Grand Vitara, Chevrolet Equinox og Pontiac Torrent, skyldu vera með sömu grunnbygginguna.
Í handbókum segir að bandarísku bílarnir séu með sjálfberandi byggingu, sem er rétt skilgreining, en í árlegri yfirlitsbók hins svissneska tímarits Automobil Revue er byggingin talin sjálfberandi á amerísku bílunum en grindarbygging á Suzuki Vitara.
Á sínum tíma var Renault 4 með grind, sem soðin var föst við yfirbygginguna og fyrsta gerð Jeep Cherokkee var með álíka útfærslu, nema að bitarnir náðu að hálfu leyti upp í yfirbygginguna, svipað og svonefndir sílsar. Og í bílatímaritum og bókum mátti sjá rugling varðandi þetta.
Það sem helst skilur Grand Vitara frá öðrum jepplingum er að hann er með háu og lágu drifi frá Suzuki og verður því að teljast mjög góð kaup í þessum flokki bíla.
Gallinn er hins vegar svipaður og á öðrum jepplingum, að þegar jepplingarnir eru hlaðnir, síga þeir svo mikið niður, að veghæðin fer niður í allt að 13-14 sentimetra.
Suzuki umboðið býður upp á hækkun á fjöðrun og örlítið stærri dekk sem hækkar bílinn um allt að 4 sentimetra fyrir innan við 200 þúsund krónur.
Það er svo lítill hluti af heildarverði bílsins að ég hvet kaupendur aldrifsbíla af þessari stærð til að íhuga þann möguleika vel svo að bíllinn njóti sín betur, hvort sem hann er hlaðinn eða óhlaðinn.
Það getur einnig komið vel til greina hvað varðar aðra jepplinga, en mér er ekki kunnugt um, hvort sérstaklega er boðið upp á það hjá þeim umboðum, sem hafa þá á boðstólum.
![]() |
Áfram góður kostur í sínum flokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.8.2013 | 11:40
"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."
Ekki þarf annað en að líta á Íslandskort til að sjá að jörðin Grímsstaðir liggur á krossgötum, hvort sem gert er ráð fyrir þjónustu við olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu eða ekki.
Krossgötur draga að sér byggð og mannvirki en Grímsstaðir hafa enn ekki gert það, vegna þess að aukin umferð ferðamanna hefur ekki enn skilað sér í jafn miklum mæli inn á syðri hluta svæðisins norðan Vatnajökuls og inn á nyrðri hluta þess.
En ef dregin er lína frá Öxarfirði suður í Öskju/Kverkfjöll lenda Grímsstaðir í miðjunni.
Ef dregin er lína frá Akureyri til Egilsstaða lenda Grímsstaðir líka í miðjunni.
Nú liggja fjórir armar vega út frá Grímsstöðum, til Akureyrar í vestur, Öxarfjarðar í norður, Egilsstaða í austur og Öskju og Kverkfjalla í suður.
Hugsanlegt er að fimmti armurinn yrði lagður yfir til Finnafjarðar ef þar risi stór höfn.
Þegar takmörkuðum kapítalisma var hleypt á í skjóli kommúnismans í Kína sannaðist rússneskt máltæki þar eins og í Rússlandi við fall Sovétríkjanna: "Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."
Það á við um kínverska bankamanninn sem vill kaupa Íslandsbanka, ef marka má ummæli bandarísks kunnáttumanns í bankamálum, sem hefur starfað við þau mál í Kína.
Á sínum tíma var tekin umræða um það hér á landi að banna útlendingum að eiga meira en 49% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
Fiskurinn er auðlind en það eru íslensk náttúra og íslenskt hugvit og annar auðir líka.
Væri ekki líka ágætt að taka umræðuna um samanburð á ofantöldum auðlindum annars vegar og sjávarauðlindinni inins vegar og samanburð á eignarhaldi þessara auðlinda?
![]() |
Fundaði með fulltrúum Huangs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.8.2013 | 19:23
Gömul saga og ný.
Líklega er sjaldgæft að kýr stígi þannig ofan á fætur fólks að það missi við það tær eins og ellefu ára drengur varð fyrir í Austurríki.
En seint verður komið tölu á þau skipti sem kýr hafi troðið mönnum um tær, og ég hygg að þau sumur, sem ég var í sveit, hafi þetta gerst á hverju sumri.
Stundum var það þannig, að það var engu líkara en að kýrnar hölluðu sér sérstaklega á þann fót, sem þær stigu í, næstum því eins og þær nytu þess að kvelja mann.
Auðvitað var þetta misskilningur hjá manni. Kýr eru einfaldlega þvílíkar rólyndis skepnur, að það er oft erfitt að róta þeim til.
Eða þá að þær eru svona heimskar að þær fatti ekki hvað þær gera. Tek það aftur. Kýrnar í Hvammi völdu Bröndu, stærstu, nythæstu, fallegustu og vitrustu kúna til forystu.
Hún leiddi þær um hagann og fór fyrst inn í fjósið á kvöldin, beint á fremsta þás.
Myndin af kúnum, sem fylgja á þessum pistli, var tekin í kvöldblíðunni lognværu við Mývatn í gærkvöldi.
![]() |
Klappaði kú og missti tá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2013 | 14:59
Hvert getur kenningin um"óæðra" fólk leitt menn?
Einkennileg er þörf manna til þess að flokka fólk í "okkur" og "þau hin", í "æðri kynþætti" og "óæðri kynþætti", í "hólpna" og "fordæmda" og í fólk, sem er "hæft" til að lifa í samfélaginu og "óhæft til að lifa í samfélaginu."
Ef einhver hélt að með dauða Hitlers og helstu fylgismanna hans hefðu svona hugsun og kenningar verið upprættar, virðist það hafa verið of gott til að vera satt.
Nú dynja á okkur fregnir af nákvæmlega sams konar ummælum og kenningum um áttu upp á pallborðið hjá nasistunum forðum daga.
Þá voru það Gyðingar, fatlaðir og aðrir, sem áttu undir högg að sækja, en nú eru það samkynhneigðir, og kenningarnar bergmála á milli Rússlands og komandi fyrirlesara hér landi.
Heimurinn svaf lengi þótt Hitler hamaðist gegn Gyðingum. Fólk vildi trúa því að þetta væri mest í nösunum á honum og nasistunum.
En í ljós kom, að það eru lítil takmörk fyrir því hve langt menn eru tilbúnir að ganga til að fylgja eftir kenningum sínum.
Af því hefðu menn átt að læra í eitt skipti fyrir öll í lok Helfarar Gyðinga, því að annars er hætt við að aðgerðir hinna rétttrúuðu verði í ætt við voðaberk Anders Behring Breiviks.
![]() |
Vill brenna hjörtu samkynhneigðra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.8.2013 | 21:30
Suðurlandsvegur ætlar að verða dýrkeyptur.
Eftir tvöföldun Reykjanesbrautar hefur brugðið svo við að alvarleg slys og banaslys hafa nær horfið, en þau tóku hræðilegan toll árum og áratugum saman.
Svarti bletturinn stóri við Kúagerði hvarf alveg.
Það blasir við að vegurinn frá Reykjavík austur á Skeiðavegamót hefur tekið við hlutverki Reykjanesbrautarinnar.
Hvert banaslys kostar að minnsta kosti 300 milljónir samkvæmt ísköldum peningalegum útreikningi.
Alvarleg slys eru fleiri og kosta líka mikið.
Það er greinilega verið að bíða eftir að hægt verði að hraða tvöföldun leiðarinnar eða að minnsta kosti að sjá svo um að hún verði hvergi 1-1 heldur minnsta kosti 2-1.
Það yki þægingi, afköst og öryggi ef aðeins væri reynt að laga vegaxlirnar á þessari leið, en þær eru víða í hörmungarástandi og slysagildra út af fyrir sig.
Ef það á eftir að kosta milljarða í slysum, sem koma má í veg fyrir á þessari leið, er augljóst að enginn "sparnaður" felst í því að fresta framkvæmdum.
En, eins og máltækið segir, - "það er dýrt að vera fátækur" og það á greinilega þarna við.
![]() |
Fleiri banaslys í ár en allt árið í fyrra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)